Skattar og gjöld. Vanrækslugjald.

(Mál nr. 11250/2021)

Kvartað var yfir álagningu vanrækslugjalds vegna ökutækis.

Ekki hafði verið leitað til æðra stjórnvalds og þar sem kvörtunin laut að ákvörðun sem sýslumaðurinn á Vestfjörðum tók á grundvelli reglna samgöngu- og sveitar­stjórnar­ráðherra, sem fer með yfirstjórn málaflokksins, benti umboðsmaður viðkomandi á að freista þess að bera erindi undir ráðuneytið.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 19. ágúst 2021, sem hljóðar svo:

   

  

Vísað er til kvörtunar yðar, dags. 15. ágúst sl., fyrir hönd A, yfir því að sýslumaðurinn á Vestfjörðum hafi lagt á vanrækslugjald vegna ökutækisins [...]. Kvörtunin byggist einkum á því að gjaldið hafi verið lagt á án þess að A hafi áður verið minnt á að henni væri skylt að færa ökutækið til aðal­skoðunar innan tiltekins tíma eða gefinn kostur á að gera það áður en gjaldið var lagt á.

Um álagningu vanrækslugjalds er fjallað í 74. gr. umferðarlaga nr. 77/2019 og VIII. kafla reglugerðar nr. 414/2021, um skoðun öku­tækja. Samkvæmt þessum ákvæðum er það hlutverk sýslumannsins á Vest­fjörðum að leggja á og innheimta vanrækslugjald á grundvelli reglna sem samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra hefur sett með stoð í e-lið 3. mgr. 74. gr. umferðarlaga, sbr. k-lið 2. tölul. 8. gr. forsetaúr­skurðar nr. 119/2018, um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnar­ráði Íslands. Samkvæmt síðarnefndu ákvæði fer samgöngu- og sveitar­stjórnarráðuneytið með mál er varða eftirlit með umferð ökutækja.

Ástæða þess að athygli yðar er vakin á framangreindu er að í 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmanns Alþingis, er kveðið á um að megi skjóta máli til æðra stjórnvalds sé ekki unnt að kvarta til umboðs­manns fyrr en það hafi fellt úrskurð sinn í málinu. Þetta ákvæði byggist á því sjónarmiði að stjórnvöld skuli fyrst fá tækifæri til að leiðrétta ákvarðanir, sem hugsanlega eru rangar, áður en leitað er til aðila utan stjórnkerfis þeirra með kvörtun.

Þar sem kvörtun yðar lýtur að ákvörðun sem sýslumaðurinn á Vestfjörðum hefur tekið á grundvelli reglna samgöngu- og sveitar­stjórnar­ráðherra, sem fer með yfirstjórn málaflokksins, tel ég rétt að þér freistið þess að bera erindi yðar vegna ákvörðunarinnar undir ráðuneyti hans, sbr. þau sjónarmið sem 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997 byggist á. Þess skal getið að það sem kemur fram í niðurlagi kvörtunar yðar, um að sýslumaðurinn á Vestfjörðum hafi átt í samskiptum við ráðu­neytið um efni kvörtunarinnar, hróflar ekki við framangreindri afstöðu minni.

Með vísan til þess sem er rakið að framan er athugun minni á kvörtun yðar lokið, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997. Ef ákveðið verður að bera erindið undir ráðuneytið og A telur sig enn beitta rangsleitni að fenginni niðurstöðu þess getur hún eða þér fyrir hennar hönd leitað til mín á nýjan leik.