Styrkveitingar. Listamannalaun. Hæfi.

(Mál nr. 10922/2021)

Kvartað var yfir úthlutun úr launasjóði myndlistarmanna og gerðar athugasemdir við sérstakt hæfi þeirra sem sátu í úthlutunarnefndinni.

Af gögnum málsins varð ekki annað ráðið en að einstaklingsbundið mat hefði farið fram á umsókninni og að það hefði byggst á málefnalegum sjónarmiðum. Þá taldi umboðsmaður ekki forsendur til að draga faglegt mat nefndarinnar í efa. Með hliðsjón af því svigrúmi sem játa yrði nefndum af þessu tagi taldi hann ekki efni til að gera athugasemd við niðurstöðuna. Þá væru ekki heldur forsendur til að fullyrða að vináttutengsl eða önnur ómálefnaleg sjónarmið hefðu haft áhrif á ákvörðun um úthlutun úr sjóðnum í umrætt sinn.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 26. ágúst 2021, sem hljóðar svo:

  

  

I

Vísað er til kvörtunar yðar til umboðsmanns Alþingis, dags. 25. janúar sl., yfir úthlutun úr launasjóði myndlistarmanna fyrir árið 2021. Þér gerið annars vegar athugasemdir við að yður hafi ekki verið úthlutað úr sjóðnum. Hins vegar gerið þér athugasemdir við sérstakt hæfi þeirra sem sátu í úthlutunarnefnd launasjóðs myndlistarmanna og teljið vinatengsl hafa haft áhrif á úthlutunina.

Í tilefni af kvörtun yðar voru mennta- og menningarmálaráðuneytinu og stjórn listamannalauna rituð bréf, dags. 13. mars og 30. júní sl., þar sem m.a. var óskað eftir upplýsingum um hvaða atriði og sjónarmið réðu mati á umsókn yðar sem og hvernig gætt hafi verið að sérstöku hæfi nefndar­manna í úthlutunarnefnd launasjóðs myndlistarmanna. Svör og gögn bárust 21. apríl og 6. júlí sl.

Hinn 26. apríl sl. var undirritaður kjörinn umboðsmaður Alþingis og tók við embætti 1. maí sl. Hefur hann því farið með mál þetta frá þeim tíma.

   

II

1

Um úthlutun starfslauna listamanna, þ. á m. úr launasjóði myndlistar­manna, er fjallað í lögum nr. 57/2009, um listamannalaun, og reglugerð nr. 834/2009, um listamannalaun, sem sett er með stoð í 13. gr. laganna.

Í 5. gr. reglugerðar nr. 834/2009 kemur m.a. fram að stjórn lista­manna­launa skuli sjá til þess að auglýst sé með tryggilegum hætti eftir umsóknum um veitingu starfslauna og ferðastyrkja úr sjóðunum og hún láti gera sérstök eyðublöð fyrir umsóknir um framlög úr þeim. Í auglýsingu skuli óska eftir upplýsingum um feril umsækjenda, listrænt gildi verk­efnis og rökstudda tímaáætlun. Umsókn skuli auk þess fylgja hnitmiðuð greinargerð um verkefni það sem liggur til grundvallar og hve langan starfstíma er sótt um. Einnig skuli fylgja upplýsingar um náms- og starfsferil svo og verðlaun og viðurkenningar. Þessir þættir skuli að jafnaði liggja til grundvallar ákvörðun um úthlutun starfslauna.

Í tilefni af kvörtun yðar tek ég fram að ákvarðanir úthlutunar­nefndar um úthlutun úr launasjóði myndlistarmanna eru eðli málsins sam­kvæmt matskenndar og því óhjákvæmilegt að játa nefndinni ákveðið svigrúm við mat á umsóknum. Mat nefndarinnar er þó ekki óheft heldur er það háð þeim sjónarmiðum sem fram koma í lögum og stjórnvaldsfyrirmælum sem og almennum reglum stjórnsýsluréttar, svo sem jafnræðisreglu og réttmætis­reglu. Í samræmi við síðastnefndu regluna þurfa sjónarmið sem lögð eru til grundvallar ákvörðun að vera málefnaleg.

Úthlutunarnefnd sem tekur ákvörðun um úthlutun úr opinberum sjóði eins og launasjóði myndlistarmanna ber auk þess að haga undirbúningi sínum þannig að hún geti, ef eftir því er leitað m.a. af hálfu eftir­lits­aðila eins og umboðsmanns Alþingis, gert grein fyrir því hvað hafi einkum ráðið niðurstöðu nefndarinnar um hverja umsókn. Gildir þá einu þótt ákvarðanir af þessu tagi séu undanþegnar skyldu til rökstuðnings og kæruheimild, sbr. 3. tölul. 2. mgr. 21. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og 14. gr. laga nr. 57/2009, sjá til hliðsjónar álit umboðsmanns Alþingis frá 31. ágúst 2004 í máli nr. 3929/2003.

Hlutverk umboðsmanns Alþingis er að hafa í umboði Alþingis eftir­lit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga á þann hátt sem nánar greinir í lögum nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, og tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins, sbr. 1. mgr. 2. gr. laganna. Í því sambandi legg ég áherslu á að umboðsmaður er við athugun sína á málum af þessu tagi ekki í sömu stöðu og úthlutunarnefndir sem taka ákvörðun um úthlutun hverju sinni sem byggjast á faglegu mati og sérþekkingu. Af þessu leiðir að það er ekki verkefni mitt að taka afstöðu til þess hverjum hafi átt að úthluta listamannalaunum hverju sinni heldur fyrst og fremst fjalla um hvort málsmeðferð og ákvörðun um úthlutun hafi verið lögmæt.

Athugun mín á kvörtun yðar hefur, í samræmi við framangreint, beinst að því að kanna hvaða sjónarmið voru lögð til grundvallar við úthlutun úr launasjóði myndlistarmanna fyrir árið 2021, hvort þau hafi verið í samræmi við m.a. 5. gr. reglugerðar nr. 834/2019 og réttmætis­reglu stjórnsýsluréttar og hvort af gögnum nefndarinnar verði ráðið að byggt hafi verið á þeim sjónarmiðum við mat á umsókn yðar.

Í bréfi stjórnar listamannalauna til mín, dags. 6. júlí sl., kemur fram að mat á umsóknum hafi byggst á lögum og reglugerð nr. 834/2009. Umsóknum hafi verið gefin einkunn á bilinu 1-5 og nefndarmenn einnig gefið hverri umsókn umsögn. Litið hafi verið til beggja þátta við út­hlutun.

Með svarinu fylgdi skjal þar sem gerð er grein fyrir því mati og matsþáttum sem nefndin kveðst hafa lagt til grundvallar. Fyrsti mats­þátturinn lýtur að listrænu gildi verkefnis sem og hversu vel skilgreint og áhugavert það er. Annar matsþátturinn lýtur að starfsferli umsækjenda og annarra þátttakenda sem og faglegum og listrænum bakgrunni. Þriðji matsþátturinn lýtur að verk- og tímaáætlun, þ.e. hversu vel hún er skil­greind, hversu sannfærandi hún er og hversu trúlegt sé að markmið náist. Einkunnir á skalanum 1-5 fyrir hvern þátt eru í kjölfarið skil­greindar. Sem dæmi felur einkunnin 5 í þriðja matsþætti í sér að verkáætlun sé mjög vel skilgreind, afar sannfærandi og að mjög trúlegt sé að markmið náist. Einkunnin 2 felur á hinn bóginn í sér að töluvert skortir upp á verkáætlun og að erfitt sé að meta hvort markmið náist.

Af gögnum málsins má ráða að umsókn yðar hafi verið metin af hverjum og einum nefndarmanni með hliðsjón af framangreindum matsþáttum og hún borin saman við aðrar umsóknir. Verður því ekki annað ráðið en að einstaklingsbundið mat hafi farið fram á umsókn yðar, það hafi byggst á þeim sjónarmiðum sem fram koma í 5. gr. reglugerðar nr. 834/2009 og öðrum málefnalegum sjónarmiðum. Þá tel ég mig ekki hafa forsendur til að draga í efa það faglega mat úthlutunarnefndarinnar að þeir sem hlutu starfslaun umrætt sinn hafi verið best að því komnir miðað við þau sjónarmið sem lögð voru til grundvallar úthlutuninni. Með hliðsjón af því svigrúmi sem játa verður úthlutunarnefndum af þessu tagi er það niður­staða mín að ekki séu efni til að gera athugasemdir við téða niður­stöðu nefndarinnar vegna ársins 2021.

  

2

Athugasemdir yðar er lúta að vanhæfi nefndarmanna snúa einkum að því að vina­tengsl hafi haft áhrif á úthlutun úr sjóðnum.

Samkvæmt upplýsingum frá stjórn listamannalauna var fjallað um sérstakt hæfi, sbr. II. kafla stjórnsýslulaga nr. 37/1993, á undir­búningsfundi stjórnar og úthlutunarnefnda 8. október sl. Nefndarmenn hafi í kjölfarið farið yfir lista yfir umsækjendur og staðfest að þeir teldu ekki vera fyrir hendi ástæður sem kynnu að valda vanhæfi þeirra. Álitaefni um sérstakt hæfi hafi auk þess ekki komið upp við meðferð málsins. Stjórn listamannalauna hafi, í kjölfar athugasemda yðar og annarra, kannað sérstaklega umsókn þess sem athugasemdir yðar lúta að og komist að þeirri niðurstöðu að ekkert athugavert hefði verið við þá úthlutun.

Í 1. mgr. 3. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er fjallað um ástæður sem geta leitt til vanhæfis starfsmanna eða nefndarmanna til meðferðar máls. Í 6. tölul. 1. mgr. 3. gr. stjórnsýslulaga er matskennd regla þar sem segir að starfsmaður eða nefndarmaður sé vanhæfur til meðferðar máls ef að öðru leyti en mælt er fyrir um í töluliðum 1-5 eru fyrir hendi þær aðstæður sem eru fallnar til að draga óhlutdrægni hans í efa með réttu. Til þess að einstaklingur verði vanhæfur á grundvelli ákvæðisins verða að vera fyrir hendi sannanlegar hlutlægar ástæður sem almennt verða taldar til þess fallnar að draga megi í efa óhlutdrægni þess sem fer með málið eða kemur að undirbúningi þess. Þá er það svo að til þess að vinátta valdi vanhæfi þarf hún að vera mjög náin (Altþ. 1992-1993, A-deild, bls. 3288). Í þessu sambandi tek ég fram að mat utanaðkomandi aðila eins og umboðsmanns Alþingis á því hvort aðili hafi mátt draga óhlutdrægni starfsmanns í efa með réttu verður almennt að byggjast á heildstæðu mati á atvikum og aðstæðum í hverju máli samkvæmt almennum og hlutlægum mælikvarða.

Í ljósi þess sem að framan greinir og eftir að hafa kynnt mér aðstæður málsins, atvik þess og gögn, tel ég mig, eins og málið liggur fyrir mér, ekki hafa forsendur til að fullyrða að vináttutengsl eða önnur ómálefnaleg sjónarmið hafi haft áhrif á ákvörðun um úthlutun úr sjóðnum umrætt sinn.

   

III

Ég tel að aðrar athugasemdir yðar gefi mér ekki tilefni til sérstakrar umfjöllunar.

Með vísan til þess sem að framan er rakið lýk ég umfjöllun minni um mál yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.