Mannanöfn. Synjun eiginnafns. Jafnræðisreglan.

(Mál nr. 11080/2021)

Kvartað var yfir úrskurði mannanafnanefndar sem hafnaði tilteknu eiginnafni með vísan til þess að ritháttur nafnsins væri ekki í samræmi við almennar ritreglur og hefði ekki unnið sér hefð.

Umboðsmaður taldi þá beitingu nefndarinnar á viðmiðunarreglum sem deilt var um hafa nægilega stoð í lögum um mannanöfn og vera samrýmanlega jafnræðisreglu stjórnsýslulaga. Ekki væri því ástæða til að gera athugasemdir við úrskurð hennar.

    

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 23. ágúst 2021, sem hljóðar svo:

   

   

I

Vísað er til til kvörtunar yðar frá 6. maí sl. sem lýtur að úrskurði mannanafnanefndar frá 19. janúar sl. í máli nr. 8/2021. Með úrskurðinum hafnaði nefndin eiginnafninu Esjarr með vísan til þess að ekki væri upp­fyllt skilyrði 5. gr. laga nr. 45/1996, um mannanöfn. Var það niður­staða nefndarinnar að ritháttur nafnsins, þ.e. ending þess -arr, væri ekki í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls og að hann hefði ekki unnið sér hefð, sbr. 3. málsl. 1. mgr. ákvæðisins. Af kvörtun yðar verður ráðið að þér gerið athugasemdir við þá niðurstöðu nefndarinnar, enda ýmis dæmi þess að nöfn með sömu endingu hafi verið færð á manna­nafna­skrá.

     Í tilefni af kvörtuninni var mannanafnanefnd ritað bréf, dags. 24. júní sl., þar sem þess var óskað að nefndin afhenti afrit af gögnum málsins auk annarra gagna sem vörpuðu ljósi á það með hvaða hætti einstaklingar geta komið beiðni um skráningu nafns á framfæri við nefndina. Umbeðin gögn bárust frá nefndinni 27. júlí sl.

  

II

1

Með núgildandi lögum um mannanöfn nr. 45/1996, sem og eldri lögum um sama efni, hefur Alþingi ákveðið að fylgja skuli ákveðnum reglum um nöfn einstaklinga við nafngjöf barna sem og síðari breytingar á nöfnum. Þá eru ákveðnar reglur um skráningu nafna og þannig segir t.d. í 2. mgr. 3. gr. laganna að ef Þjóðskrá Íslands berst tilkynning um eiginnafn eða milli­­nafn sem ekki er á mannanafnaskrá skuli það ekki skráð að svo stöddu heldur skuli málinu vísað til mannanafnanefndar. Í 6. mgr. 13. gr. laganna segir jafnframt að það sé skilyrði nafnbreytingar samkvæmt þeirri lagagrein að hin nýju nöfn séu á mannanafnaskrá eða samþykkt af manna­nafnanefnd nema tilgreindar undantekningar eigi við.

Í lögunum eru mannanafnanefnd falin tiltekin verkefni við fram­kvæmd þessara mála af hálfu stjórnvalda. Þannig er meðal hlutverka manna­nafnanefndar, sbr. 2. og 3. tölul. 1. mgr. 22. gr. laga nr. 45/1996, að skera úr álitamálum eða ágreiningsmálum um nöfn, nafngjafir, nafnritun o.þ.h. og er ekki unnt að skjóta úrskurðum nefndarinnar til æðra stjórnvalds, sbr. 2. mgr. 22. gr. Mannanafnanefnd skal samkvæmt 1. tölul. 1. gr. 22. gr. laga nr. 45/1996 semja skrá um eiginnöfn og milli­nöfn sem heimil teljast skv. 5. og 6. gr. og er hún nefnd manna­nafna­skrá.

  

2

Ákvæði 3. málsl. 1. mgr. 5. gr. laga um mannanöfn er afdráttarlaust um eigin­nafn skuli ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls nema hefð sé fyrir öðrum rithætti þess. Ég tek fram að ég hef ekki skilið kvörtun yðar á þá leið að þér gerið athugasemdir við þá afstöðu mannanafnanefndar að sá ritháttur sem sótt var um, þ.e. nafnið Esjarr með endingunni -arr, sé ekki í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls, heldur lúti kvörtunin að þeirri afstöðu nefndarinnar að rit­hátturinn hafi ekki unnið sér hefð, enda ýmis dæmi þess að nöfn með sömu endingu hafi verið færð á mannanafnaskrá. Þrátt fyrir þetta bendi ég á að í athugasemdum við frumvarp sem varð að lögum nr. 45/1996 er ekki vikið að því hvaða viðmiðanir skuli lagðar til grundvallar við mat á því hvort ritháttur teljist hefðaður í skilningi 3. málsl. 1. mgr. 5. gr. Hins vegar er þar tekin afstaða til þess að viðmiðunarreglur þær sem mannanafnanefnd setti sér í gildistíð eldri laga um mat á því hvort töku­nöfn teldust hafa unnið sér hefð skuli gilda áfram, að því gættu að þær þurfi að endurskoða með reglulegu millibili (sjá þskj. 73 á 120. lög­gjafarþingi 1995-1996). Fyrir liggur að nefndin hefur uppfært reglurnar, síðast á árinu 2015, s.s. fram kemur í úrskurðinum.

Samkvæmt framangreindu hefur löggjafinn falið nefnd sérfræðinga að meta hvort nöfn sem óskað er eftir að verði færð á mannanafnaskrá uppfylli skilyrði laga nr. 45/1996, þ.á m. hvort þau hafi áunnið sér hefð. Þegar stjórnvöldum er að lögum eftirlátið mat getur verið eðlilegt að þau setji sér viðmiðunarreglur til að tryggja að jafnræðis sé gætt við afgreiðslu mála og að leyst sé úr sambærilegum málum á grundvelli sömu sjónarmiða svo fremi sem slíkar reglur takmarki ekki matið óhóf­lega. Við úrlausn á því hvort ritháttur eiginnafns telst hefðaður í skilningi 3. málsl. 1. mgr. 5. gr. mannanafnalaga hefur mannanafnanefnd talið rétt að beita sömu reglum og þegar metið er hvort tökunöfn teljist hefðuð í skilningu 1. málsl. ákvæðisins.

Beiting fyrrgreindra viðmiðunarreglna felur í sér að hvert nafn, og eftir atvikum ritháttur þess, er metið sjálfstætt og tekin afstaða til þess hvort nægilega margir einstaklingar beri nafnið í viðkomandi rit­mynd til að það teljist hefðað samkvæmt lögunum. Þá getur tökunafn talist hefðað ef það hefur unnið sér menningarhelgi eða önnur atriði mæla með því. Niðurstaðan kann að vera sú að sum karlmannsnöfn sem rituð eru með endingunni -arr teljist uppfylla skilyrði umræddrar undan­tekningar­reglu 3. málsl. 1. mgr. 5. gr. laganna en önnur ekki.

Að framangreindu virtu tel ég að þessi beiting reglnanna hafi nægilega stoð í lögum um mannanöfn nr. 45/1996 og samrýmanleg jafnræðisreglu stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Að þessu gættu, og eftir að hafa kynnt mér úrskurð nefndarinnar og gögn málsins, tel ég ekki ástæðu til að gera athugasemdir við úrskurð nefndarinnar með vísan til kvörtunar yðar.

  

III

Með hliðsjón af framangreindu, og með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, lýk ég hér með umfjöllun minni vegna málsins.´