Aðgangur að gögnum og upplýsingum. Endurupptaka. Andmælaréttur.

(Mál nr. 11114/2021)

Kvartað var yfir úrskurði úrskurðarnefndar um upplýsingamál sem staðfesti ákvörðun prófanefndar um að synja um aðgang að munnlegum prófum sem lögð voru fyrir á námskeiði til öflunar réttinda til að flytja mál fyrir héraðsdómi árin 2014-2020. Einnig voru gerðar athugasemdir við að úrskurðarnefndin hefði synjað beiðni um endurupptöku sem byggðist á því að viðkomandi hefði ekki notið andmælaréttar

Eftir að hafa kynnt sér úrskurðinn og gögn málsins taldi umboðsmaður að frekari athugun á málinu myndi ekki leiða til þess að gerðar yrðu athugasemdir við mat og niðurstöðu nefndarinnar. Viðkomandi hefði fengið afhent próf sem ekki væri fyrirhugað að leggja fyrir aftur en önnur próf væru ætlunin nota aftur. Ekki væri því tilefni til að taka þennan þátt til frekari athugunar. Hvað endurupptöku snerti yrði ráðið að athugasemdir viðkomandi hefðu verið skráðar og varðveittar sem hluti af gögnum máls. Ekki væru forsendur til að rengja þær skýringar nefndarinnar að athugasemdirnar hefðu borist og verið hafðar til hliðsjónar við meðferð málsins. Ekki væri ástæða til að gera athugasemdir við þá niðurstöðu nefndarinnar að ekki væri ástæða til að endurupptaka málið.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 24. ágúst 2021, sem hljóðar svo:

  

  

I

Vísað er til kvörtunar yðar til mín, dags. 21. maí sl., vegna úrskurða úrskurðarnefndar um upplýsingamál frá 5. febrúar sl. í máli nr. 973/2021 og 28. apríl sl. í máli nr. 1005/2021. Með úrskurði nefndar­innar í máli nr. 973/2021 var staðfest ákvörðun prófnefndar um að synja yður um aðgang að munnlegum prófum sem lögð voru fyrir á nám­skeiði til öflunar réttinda til að flytja mál fyrir héraðsdómi árin 2014-2020, að undanskildum nánar tilteknum eldri verkefnum. Í hinum síðarnefnda úrskurði var yður synjað um endurupptöku málsins.

Þér byggið kvörtun yðar á því að synjun prófnefndar uppfylli ekki þau skilyrði fyrir takmörkun á upplýsingarétti almennings sem mælt er fyrir um í 5. tölul. 1. mgr. 10. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Þá teljið þér að úrskurðarnefndinni hafi borið að endurupptaka málið þar sem þér hafið ekki notið andmælaréttar. Í því sambandi vísið þér til þess að í úrskurði nefndarinnar hafi komið fram að ekki hafi borist athugasemdir frá yðar við umsögn prófnefndar en hið rétta sé að þér hafið komið þeim á framfæri með tölvupósti, dags. 17. desember sl.

Í tilefni af kvörtun yðar var úrskurðarnefnd um upplýsingamál ritað bréf, dags. 9. júní sl., þar sem þess var óskað að mér yrðu afhent afrit af öllum gögnum framangreindra mála. Umbeðin gögn bárust mér 24. júní sl. og hef ég haft þau til hliðsjónar við úrlausn þessa máls sem og kvörtun yðar og þau gögn sem henni fylgdu.

   

II

1

Um upplýsingarétt almennings er fjallað í upplýsingalögum nr. 140/2012. Samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laganna er meginreglan sú að skylt er að veita almenningi aðgang að fyrirliggjandi gögnum sem varða til­tekið mál, með þeim takmörkunum sem greinir í 6.-10. gr. laganna. Sama gildir þegar óskað er aðgangs að tilteknum fyrirliggjandi gögnum. Þá segir í 3. mgr. 5. gr. að eigi ákvæði 6.-10. gr. aðeins við um hluta gagns skuli veita aðgang að öðrum hlutum þess.

Í 10. gr. laganna er mælt fyrir um vissar takmarkanir á upp­lýsinga­rétti almennings vegna nánar tiltekinna almannahagsmuna. Sam­kvæmt 5. tölul. 1. mgr. 10. gr. er heimilt að takmarka aðgang almennings að gögnum þegar mikilvægir almannahagsmunir krefjast, enda hafi þau að geyma upplýsingar um fyrirhugaðar ráðstafanir eða próf á vegum hins opinbera ef þau yrðu þýðingarlaus eða skiluðu ekki tilætluðum árangri væru þau á almannavitorði. Í athugasemdum við 10. gr. í frumvarpi því er varð að lögum nr. 140/2012 kemur fram að með prófum sé átt við hvers konar prófraunir sem opinberir aðilar standi fyrir. Augljóst sé að eigi próf að geta gefið óvilhalla niðurstöðu sé nauðsynlegt að halda öllum prófgögnum leyndum áður en það sé þreytt. (Sjá þskj. 223 á 141. löggj.þ. 2012-2013, bls. 57.)

Þá segir í 2. tölul. 1. mgr. 12. gr. laganna að eigi aðrar takmarkanir samkvæmt lögunum ekki við skuli veita aðgang að gögnum sem 5. tölul. 10. gr. tekur til jafnskjótt og ráðstöfunum eða prófum er að fullu lokið.

Í úrskurði úrskurðarnefndarinnar er vísað til þess að í úrskurðarframkvæmd hafi hún lagt til grundvallar við skýringu á 5. tölul. 1. mgr. 10. gr. upplýsingalaga að sé prófi lokið og ekki fyrir­hugað að leggja sama próf fyrir aftur í óbreyttri eða nær óbreyttri mynd beri að veita aðgang að því. Í umsögn prófnefndar komi fram að fallist hafi verið á að veita yður aðgang að þeim munnlegu prófum sem ekki væri fyrirhugað að leggja fyrir á nýjan leik. Hins vegar væri ekki unnt að veita aðgang að öðrum munnlegum prófum þar sem sama prófið væri lagt fyrir reglulega og í sumum tilvikum væri ávallt notast við sama prófið. Var það mat úrskurðarnefndarinnar að í ljósi afstöðu próf­nefndar væru ekki forsendur til að leggja annað til grundvallar en að stefnt væri að því að leggja próf í sakamálaréttarfari, skipta­stjórn og einkamálaréttarfari fyrir á nýjan leik í óbreyttri mynd. Þrátt fyrir að ekki væri víst að öll verkefnin yrðu notuð í öllum prófum sem lögð yrðu fyrir taldi nefndin ljóst að þau væru lögð fyrir með svo reglubundnum hætti að hætta væri á því að þau yrðu þýðingarlaus yrðu þau afhent.

Eftir að hafa kynnt mér úrskurð nefndarinnar og gögn málsins tel ég að frekari athugun mín á málinu muni ekki leiða til þess að ég hafi forsendur til að gera athugasemdir við mat og niðurstöðu hennar í máli yðar. Þar hef ég einkum í huga að yður hafa verið afhent þau próf sem ekki er fyrirhugað að leggja fyrir aftur og að ekki liggur annað fyrir en að þau próf sem yðar var synjað um aðgang að séu lögð fyrir með reglubundnum hætti í óbreyttri eða nær óbreyttri mynd. Tel ég því ekki tilefni til þess að taka þennan þátt kvörtunar yðar til frekari athugunar.

   

2

Líkt og að ofan greinir gerið þér athugasemdir við að úrskurðarnefndin hafi synjað beiðni yðar um endurupptöku málsins sem byggð var á þeim grundvelli að þér hefðuð ekki notið andmælaréttar. Í því sambandi vísið þér til þess að í úrskurði nefndarinnar hafi komið fram að engar athugasemdir hefðu borist frá yður þótt þér hafið komið þeim á framfæri með tölvupósti, dags. 17. desember sl.

Um endurupptöku stjórnsýslumála er fjallað í 24. gr. stjórn­sýslu­laga nr. 37/1993. Þar segir í 1. mgr. að eftir að stjórnvald hefur tekið ákvörðun og hún verið tilkynnt eigi aðili máls rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófull­nægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, sbr. 1. tölul. 1. mgr., eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin, sbr. 2. tölul. sömu málsgreinar.

Heimildir stjórnvalda til endurupptöku máls eru þó ekki bundnar við þær aðstæður sem nefndar eru í 24. gr. stjórnsýslulaga heldur getur málsaðili átt rétt til endurupptöku á grundvelli ólögfestra reglna, s.s. þegar efnislegur annmarki eru á hinni upphaflegu ákvörðun eða þegar til staðar eru rökstuddar vísbendingar um verulegan annmarka á málsmeðferð stjórnvalda.

Í úrskurði nefndarinnar í máli nr. 1005/2021 kemur fram að fyrir mistök hafi verið greint frá því í máli nr. 973/2021 að ekki hefðu borist athugasemdir frá yður við umsögn prófnefndar. Rétt væri að nefndinni hefðu borist athugasemdir yðar og að höfð hefði verið hlið­sjón af þeim við úrlausn málsins. Að því virtu taldi nefndin ljóst að þessi mistök hefðu ekki leitt til þess að brotið hefði verið gegn andmælarétti yðar. Var það niðurstaða nefndarinnar að ekki væru skilyrði til þess að endurupptaka málið á grundvelli skráðra eða óskráðra reglna.

Í tilefni af kvörtun yðar hef ég farið yfir gögn málsins en á meðal þeirra eru athugasemdir yðar við umsögn prófnefndar sem bárust úrskurðarnefndinni með tölvupósti 17. desember sl. Af gögnunum verður jafnframt ráðið að athugasemdir yðar hafi verið skráðar sem hluti af gögnum í máli nr. 973/2021 og verið varðveittar á meðal þeirra. Í ljósi þess tel ég mig ekki hafa forsendur til þess að rengja þær skýringar úrskurðarnefndarinnar að athugasemdir yðar hafi borist og að höfð hafi verið hliðsjón af þeim við meðferð málsins. Að því virtu tel ég ekki ástæðu til að gera athugasemdir við þá niðurstöðu nefndarinnar að úrskurður í máli nr. 973/2021 hafi ekki verið byggður á ófullnægjandi eða röngum málsatvikum í skilningi 1. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga eða að rökstuddar vísbendingar væru til staðar um verulegan annmarka á málsmeðferð með þeim afleiðingum að ástæða væri til að endurupptaka málið á grundvelli óskráðra reglna.

  

III

Með vísan til þess sem að framan hefur verið rakið lýk ég athugun minni á kvörtun yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðs­mann Alþingis.