Persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Aðgangur að gögnum og upplýsingum.

(Mál nr. 11146/2021)

Kvörtun laut að úrskurði Persónuverndar þar sem m.a. var lagt fyrir tiltekið félag að afhenda skýrslu sem unnin var vegna tilkynningar viðkomandi um einelti á vinnustað. 

Með hliðsjón af gögnum málsins og rökstuðningi Persónuverndar fyrir því að afmá nöfn og ummæli annarra en viðkomandi úr skýrslunni taldi umboðsmaður ekki ástæðu til að gera athugasemdir við þá niðurstöðu.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 25. ágúst 2021, sem hljóðar svo:

   

  

Vísað er til kvörtunar yðar frá 28. maí sem lýtur að úrskurði Persónu­verndar frá 30. apríl sl. í máli nr. 2020010729 þar sem m.a. var lagt fyrir X að afhenda yður skýrslu sem unnin var vegna tilkynningar yðar um einelti á vinnustað. Jafnframt er vísað til þeirra gagna og greinargerða sem þér hafið síðar komið á framfæri vegna kvörtunarinnar.

Eftir því sem fram kemur í kvörtuninni mun félagið hafa afhent yður skýrsluna þannig að nöfn þeirra sem komu til viðtals vegna málsins og ummæli þeirra í þeim viðtölum voru afmáð. Fyrir liggur að Persónuvernd telur ekki tilefni til þess að gera athugasemdir við þá afhendingu skýrslunnar, s.s. yður var tilkynnt um með tölvupósti 6. júlí sl. Af kvörtuninni og öðrum samskiptum sem þér hafið komið á framfæri fæ ég ráðið að þér teljið þá úrskurð Persónuverndar að þessu leyti ekki í samræmi við lög.

Í tilefni af kvörtun yðar var Persónuvernd ritað bréf, dags. 18. júní sl., þar sem þess var óskað að stofnunin upplýsti um hvort til meðferðar væri mál þar sem til athugunar væri að fylgja niðurstöðu hennar í ofangreindu máli frekar eftir, og ef svo væri, að stofnunin afhenti umboðsmanni afrit af fyrirliggjandi gögnum þess máls og sam­skiptum hennar við yður. Ástæða þess óskað var eftir téðum upplýsingum var sú að þér höfðuð, með tölvupósti frá 15. júní sl., upplýst um að Persónuvernd hefði stofnað nýtt mál sem laut að eftirfylgni úrskurðarins. Svör við ofangreindri fyrirspurn og umbeðin gögn bárust frá Persónuvernd með bréfi, dags. 8. júlí sl. Svari Persónuverndar fylgdu afrit af þeim tilkynningum sem sendar voru X vegna málsins og tölvupóstssamskiptum stofnunarinnar við yður.

Í kafla 5.3. í úrskurði Persónuverndar kemur fram að lagt sé fyrir X að afhenda yður skýrsluna „eftir að allar persónuupplýsingar um aðra einstaklinga en [yður sjálfan], þar með frásagnir þeirra, hafa verið afmáðar úr henni.“ Röksemdir fyrir þessari niðurstöðu koma fram framar í þessum kafla úrskurðarins. Eftir að hafa kynnt mér úrskurð stofnunarinnar og rökstuðning hennar að þessu leyti, og að virtum þeim gögnum sem mér hafa borist vegna málsins, tel ég ekki ástæðu til að gera athugasemdir við umrædda niðurstöðu Persónuverndar varðandi afhendingu skýrslunnar.

Með hliðsjón af ofangreindu, og með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, lýk ég hér með umfjöllun minni vegna kvörtunar yðar.