Skattar og gjöld. Leiðbeiningarskylda.

(Mál nr. 11192/2021)

Kvartað var yfir Skattinum. Meðal annars voru gerðar athugasemdir við leiðbeiningar sem viðkomandi voru veittar og óskað eftir afstöðu umboðsmanns til þess hvort eðlilegt sé að einstaklingi sé gert að útvega tilteknar upplýsingar í stað þess að Skatturinn afli þeirra sjálfur.

Umboðsmaður taldi hvorki ástæðu til að gera athugasemdir við að viðkomandi hefði verið gert að skila gögnunum til Skattsins né að Skatturinn hefði ekki aflað þeirra sjálfur frá breskum skattyfirvöldum. Í tilfellum sem þessum bæri viðkomandi að styðja umsókn sína nauðsynlegum gögnum hverju sinni. Ekki væri heldur ástæða til að gera athugasemdir hvað leiðbeiningarnar snerti enda m.a. verið leiðbeint um að hafa samband við skattyfirvöld ytra og fleira.

    

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 23. ágúst 2021, sem hljóðar svo:

   

  

I

Vísað er til kvörtunar yðar til umboðsmanns Alþingis, dags. 24. júní sl., yfir Skattinum og málsmeðferð stofnunarinnar í málum yðar. Í kvörtun yðar gerið þér m.a. athugasemdir við leiðbeiningar Skattsins til yðar. Í þeim efnum óskið þér afstöðu umboðsmanns til þess hvort eðlilegt sé að einstaklingi sé gert að útvega upplýsingar í tengslum við beiðni á grundvelli 70. gr. a. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, en þér teljið að Skattinum beri að útvega umræddar upplýsingar. Þá gerið þér athugasemdir við að Skatturinn hafi ekki skattlagt yður með vísan til 70. gr. a. laga nr. 90/2003 vegna tekjuársins 2020, í ljósi fyrri úrskurða, en af gögnum málsins má ráða að þér hafið þegar óskað endurskoðunar Skattsins með bréfi, dags. 31. maí sl., sem ítrekað var 18. júní sl.

Í tilefni af kvörtun yðar var Skattinum ritað bréf, dags. 4. ágúst sl., þar sem óskað var eftir upplýsingum um hvað liði meðferð og afgreiðslu erindis yðar frá 31. maí sl. Svar barst 18. ágúst sl. Þar kom fram að Skatturinn teldi erindi yðar fela í sér skattkæru, sbr. 99. gr. laga nr. 90/2003. Til stæði að úrskurða um kæruna innan þriggja mánaða frá lokum kærufrests, sem rennur út 31. ágúst 2021, í samræmi við 4. málsl. 1. mgr. 99. gr.

   

II

Samkvæmt 1. mgr. 70. gr. a. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, eiga þeir sem búsettir eru m.a. í aðildarríki á Evrópska efnahagssvæðinu og bera tak­markaða skattskyldu hér á landi samkvæmt 3. gr., en fá sem nemur eigi minna en 75% heildartekna sinna á tekjuárinu frá Íslandi, rétt á að vera skattlagðir líkt og þeir hefðu verið skattskyldir samkvæmt 1. gr. allt tekjuárið, með þeim réttindum sem heimilisfesti hér á landi veitir samkvæmt lögunum og öðrum lögum um opinber gjöld.

Í reglugerð nr. 257/2012, um tekjuskatt manna með takmarkaða skattskyldu sem afla meiri hluta tekna sinna hér á landi, er fjallað um framkvæmd þessarar greinar. Samkvæmt 1. gr. geta einstaklingar sem búsettir eru m.a. í aðildarríki á Evrópska efnahagssvæðinu sótt um heimild til ríkisskattstjóra til að verða skattlagðir með sama hætti og ein­staklingar búsettir hér á landi, stafi meiri hluti tekna þeirra frá Íslandi, sbr. 70. gr. a. laga nr. 90/2003. Umsókn skal vera skrifleg á þar til gerðu eyðublaði í því formi sem ríkisskattstjóri ákveður, sbr. 1. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar. Umsókn skal studd nauðsynlegum gögnum, svo sem upplýsingum um tekjur erlendis, en í ákvæðinu eru í kjölfarið útlistuð dæmi um hvers konar upplýsingum einstaklingur getur skilað til Skattsins í þessum efnum. Þá er tekið fram að umsókn gildi fyrir eitt tekjuár í senn. Samkvæmt 1. mgr. 4. gr. yfirfer ríkisskattstjóri umsóknir og fylgigögn og er honum heimilt að kalla eftir frekari gögnum telji hann það nauðsynlegt. Sé umsókn ófullnægjandi eða henni fylgja ekki nauð­synleg gögn skal umsækjanda gerð grein fyrir því sem ábótavant er og honum gefinn kostur á að bæta úr því innan þriggja vikna. Sinni umsækjandi ekki þeim tilmælum telst umsókn hans fallin niður.

Í samræmi við framangreint tel ég ekki ástæðu til þess að gera athuga­semdir við að yður hafi verið gert að skila inn gögnum til Skattsins um tekjuleysi yðar í Bretlandi eða það að Skatturinn hafi ekki aflað umræddra upplýsinga um yður frá breskum skattyfirvöldum, m.a. á grundvelli tvísköttunarsamnings Íslands og Bretlands. Hef ég hér einkum í huga að af ákvæðunum leiðir að sá sem sækir um þau réttindi sem 70. gr. a. kveður á um ber að styðja umsókn sína nauðsynlegum gögnum hverju sinni. Þá hef ég einnig í huga sjónarmið ríkisskattstjóra sem fram koma í úrskurði hans frá 5. nóvember sl. um ákvæði tvísköttunarsamnings Íslands og Bretlands.

Mælt er fyrir um leiðbeiningarskyldu stjórnvalda í 7. gr. stjórn­sýslu­laga nr. 37/1993. Ákvæðið felur í sér að veita ber nauðsynlega aðstoð og leiðbeiningar. Í því felst á hinn bóginn ekki skylda til þess að veita umfangsmikla og sérfræðilega ráðgjöf en það fer eftir atvikum máls og málaflokkum hverju sinni hversu ítarlegar leiðbeiningar þurfa að vera.

Eftir að hafa kynnt mér samskipti yðar við Skattinn tel ég ekki ástæðu til þess að gera athugasemdir við þær leiðbeiningar sem yður voru veittar varðandi öflun fullnægjandi upplýsinga um tekjuleysi yðar í Bretlandi. Hef ég hér hliðsjón af því að yður var m.a. leiðbeint um að hafa samband við bresk skattyfirvöld sem og að staðfesting í tölvupósti frá þeim dugi. Þá hef ég einnig í huga að starfsmaður Skattsins bað yður afsökunar á að hafa ekki veitt yður betri leiðbeiningar með hliðsjón af þeim upplýsingum sem fengust frá sendiráði Íslands í Bretlandi.

Að því er varðar athugasemdir yðar í þá veru að þér voruð ekki skattlagðar með hliðsjón af 70. gr. a. tekjuskattslaga vegna tekjuársins 2020 í ljósi fyrri úrskurða tel ég rétt að minna á það sem áður hefur komið fram, þ.e. að einstaklingum ber að sækja um þau réttindi sem ákvæðið kveður á um fyrir hvert tekjuár og skila nauðsynlegum gögnum til Skattsins hverju sinni. Að öðru leyti liggur fyrir að þér hafið óskað endurskoðunar Skattsins á álagningu fyrir tekjuárið 2020 og að Skatturinn hyggist leysa úr erindi yðar innan tímaramma 4. málsl. 1. mgr. 99. gr. tekjuskattslaga. Í samræmi við ákvæði 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, sem reifað var í bréfi til yðar í máli nr. 10735/2020, eru ekki lagaskilyrði til þess að ég geti tekið mál yðar að þessu leyti til efnislegrar skoðunar að svo stöddu. Ef þér teljið yður enn beitta rangsleitni að fulltæmdum leiðum innan stjórnsýslunnar er yður fært að leita til mín á ný innan árs frá því að niðurstaða liggur fyrir, sbr. 2. og 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997.

  

III

Ég tel að aðrar athugasemdir yðar gefi mér ekki tilefni til sérstakrar umfjöllunar.

Með vísan til þess sem að framan er rakið lýk ég umfjöllun minni um mál yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.