Börn. Barnaverndarmál. Umgengni.

(Mál nr. 11202/2021)

Kvartað var yfir úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála sem staðfesti að mestu úrskurð barnaverndarnefndar Reykjavíkur um umgengni föður við son.  

Út frá gögnum málsins taldi umboðsmaður ekki forsendur til að gera athugasemdir við niðurstöðu nefndarinnar. Þar hafði hann í huga að sjónarmiðin sem nefndin lagði til grundvallar voru í samræmi við lög og sérstakt mat var lagt á hvernig þau horfðu við í málinu með tilliti til hagsmuna barnsins. Þá lá fyrir í málinu skýrsla talsmanns og upplýsingar um viðhorf fósturforeldra. Hann taldi sig ekki heldur hafa forsendur til að fullyrða að mat nefndarinnar væri bersýnilega óforsvaranleg, þ.m.t. mat á afstöðu barnsins, eða að málið hefði ekki verið nægjanlega upplýst.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 27. ágúst 2021, sem hljóðar svo:

   

  

I

Vísað er til kvörtunar yðar f.h. A, dags. 29. júní sl., sem beint er að úrskurðarnefnd velferðarmála og barnaverndarnefnd Reykjavíkur og lýtur að úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála frá 24. ágúst 2020 í máli nr. 229/2020. Með úrskurðinum var staðfestur úr­skurður barnaverndarnefndar Reykjavíkur frá 7. apríl 2020 um umgengni A við son hans, B, að öðru leyti en því að fallist var á kröfu A um að vera viðstaddur fermingu hans. Var ákveðið að A hefði umgengni við son sinn þrisvar sinnum á ári, tvær klukkustundir í senn.

Í tilefni af kvörtun yðar var úrskurðarnefnd velferðarmála ritað bréf, dags. 12. júlí sl., þar sem þess var óskað að mér yrðu afhent afrit af öllum gögnum málsins. Umbeðin gögn bárust mér 15. júlí sl. og hef ég haft þau til hliðsjónar við úrlausn þessa máls sem og kvörtun yðar og þau gögn sem henni fylgdu.

  

II

1

Með úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála í máli nr. 229/2020 var úrskurður barnaverndarnefndar Reykjavíkur staðfestur, þar sem ákveðið var að A hefði umgengni við B þrisvar sinnum á ári, tvær klukkustundir í senn. Í niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar er ákvæði 74. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 rakið og sú meginregla að í barnaverndarstarfi skuli hagsmunir barns ávallt vera í fyrirrúmi. Þá var tekið fram að leysa bæri úr kröfum A með tilliti til þess hvað þjónaði hagsmunum B best með tilliti til stöðu hans, en fóstrinu væri ætlað að vara til 18 ára aldurs. Því lægi fyrir að ekki væri stefnt að því að hann færi aftur í umsjá A. Umgengni þyrfti því að vera við hæfi miðað við aðstæður og samrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt væri að með ráðstöfun B í varan­legt fóstur.

Vísað var til þess að í úrskurði barnaverndarnefndar Reykjavíkur kæmi fram að B hefði sýnt miklar framfarir í skóla og í samskiptum við aðra. Brýnt væri að stuðla að því að hann fengi að viðhalda því jafnvægi sem hann væri kominn í. Ekki væri tímabært, eins og sakir stæðu, að umgengni hans við A yrði oftar en þrisvar á ári.

Þá vék úrskurðarnefndin að því að við úrlausn málsins bæri að hennar mati að líta til þess hvaða hagsmuni B hefði af umgengni við föður. Ástæða þess væri sú að það væru lögvarðir hagsmunir hans að hann byggi við stöðugleika, frið og ró í fóstrinu, hann fengi svigrúm til að tengjast fósturfjölskyldunni og umgengni ylli honum sem minnstri truflun. Af gögnum málsins yrði ekki annað ráðið en að honum liði vel og ekkert benti til þess að hann hefði þörf fyrir breytingar. Jafnframt var vísað til þess að fósturforeldrar hefðu skýrt frá því að líðan B væri slæm í kjölfar umgengni.

Í úrskurðinum er tekið fram að afstaða B til umgengni sé ekki afgerandi. Í gögnum málsins er að finna skýrslu tals­manns B, dags. 19. janúar 2020. Þar kemur fram að hann sé sáttur við umgengnina eins og hún sé sem og tímalengd hennar og að hann vilji gjarnan fá að hitta föður nokkrum sinnum á ári.

Í niðurlagi úrskurðarins segir svo eftirfarandi:

„Að mati úrskurðarnefndar velferðarmála verður að haga umgengni drengsins við kæranda þannig að hann fái sem mestan frið til að aðlagast fósturfölskyldu sinni. Markmiðið með því er að tryggja til frambúðar ummönnun drengsins, öryggi hans og þroska­mögu­leika. Þá ber að líta til þess að með umgengni við drenginn er ekki verið að reyna að styrkja tengsl hans við kæranda, heldur viðhalda þeim tengslum sem þegar eru fyrir hendi, ekki síst í þeim tilgangi að drengurinn þekki uppruna sinn. Af gögnum málsins má einnig ráða að staða drengsins er mun betri nú en áður eftir að hann fór í varanlegt fóstur og á það jafnt við um stöðu hans í skóla, félagslega virkni og almenna líðan.

Þegar allt framangreint er virt er það mat úrskurðar­nefndarinnar að það þjóni hagsmunum drengsins best við núverandi aðstæður að umgengni hans við kæranda verði á þann hátt sem ákveðið var með hinum kærða úrskurði. Er þá litið til þeirrar stöðu sem drengurinn er í samkvæmt því sem lýst er hér að framan og þess að umgengni í því umhverfi, sem raskar ekki ró drengsins, verður að teljast til þess fallin að stuðla að því að hann nái að þroskast og dafna sem best.“

  

2

Samkvæmt 2. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 eiga foreldrar rétt til umgengni við barn í fóstri nema umgengni sé bersýnilega and­stæð hagsmunum og þörfum barnsins og ósamrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt er að með ráðstöfun þess í fóstur. Við mat á þessu skal m.a. taka tillit til þess hversu lengi fóstri er ætlað að vara. Þá getur barn sem er 15 ára sjálft gert kröfu um umgengni. Í athugasemdum við 74. gr. í frumvarpi því er varð að lögum nr. 80/2002 segir m.a. eftir­farandi:

„Í 2. mgr. er mælt fyrir um rétt kynforeldra og annarra nákominna til umgengni við barn. Þegar um kynforeldra er að ræða segir að þeir eigi rétt á umgengni við barn, nema umgengni sé bersýnilega  talin andstæð hagsmunum og þörfum barnsins og ósamrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt er að með ráðstöfun þess í fóstur. Ef neita á um umgengnisrétt með öllu eða takmarka hann verulega verður þannig að sýna fram á að hann sé bersýnilega andstæður hagsmunum barnsins.

[...]

Erfitt er að gefa leiðbeiningar um inntak umgengnis­réttarins í lögum en nokkur sjónarmið má þó nefna. Við ákvörðun á umgengni verður barnaverndarnefnd sem endranær að meta hagsmuni og þarfir barns í hverju máli. Gæta verður þess að umgengni sé í samræmi við markmiðin með fóstri. Þannig verður almennt að gera ráð fyrir ríkari umgengni ef fóstri er ætlað að vara í skamman tíma og áætlað að barn snúi aftur til foreldra sinna. Þegar barni er ráðstafað í fóstur sem ætlað er að vara þar til barn verður lögráða verður almennt að gera ráð fyrir að foreldrar hafi ekki verið færir um að búa barninu viðunandi uppeldisaðstæður og hafi jafnvel verið sviptir forsjá barnsins af ástæðum sem lýst er í 29. gr. frumvarpsins. Markmið fósturs er þá að jafnaði að barn aðlagist og tilheyri fósturfjölskyldu sem taki að sér uppeldi þess. Við slíkar aðstæður er viðurkennt að hagsmunir barnsins kunni að krefjast þess að umgengni verði takmörkuð allverulega en árétta ber að meta þarf hagsmuni barnsins í hverju tilviki og sterk rök þurfa að vera fyrir því að hafna umgengni með öllu.“ (Alþt. 2001-2002, A-deild, bls. 1863-1864.)

Samkvæmt 4. mgr. 74. gr. hefur barnaverndarnefnd úrskurðarvald um ágreiningsefni er varða umgengni barns við foreldra og aðra nákomna, hvort sem það varðar rétt til umgengni, umfang umgengnisréttarins eða fram­kvæmd. Ef sérstök tilvik valda því að mati barnaverndarnefndar, að umgengni barns við foreldra er andstæð hag þess og þörfum getur nefndin úrskurðað að foreldri skuli ekki njóta umgengnisréttar.

Í 74. gr. a laga nr. 80/2002 segir að ávallt skuli kanna viðhorf fósturforeldra til umgengni áður en gengið er frá samningi eða kveðinn upp úrskurður um umgengni. Þá segir í 78. gr. laganna að ráðherra setji með reglugerð nánari reglur um fóstur og framkvæmd ákvæða XII. kafla laganna að fengnum tillögum Barnaverndarstofu.

Með stoð í 78. gr. hefur ráðherra sett reglugerð nr. 804/2004, um fóstur. Í 5. mgr. 25. gr. reglugerðarinnar segir að við ákvörðun umgengni við barn í fóstri skuli tekið mið af því hvað þjóni hagsmunum barnsins best með það fyrir augum að ná því markmiði sem stefnt sé að með ráðstöfun barnsins í fóstur.

                 

3

Með lögum nr. 80/2002 hefur löggjafinn falið barnaverndarnefnd, og eftir atvikum úrskurðarnefnd velferðarmála við meðferð máls á kæru­stigi, að leggja mat á það hvernig umgengni fósturbarns við foreldra og aðra nákomna skuli háttað. Ákvörðun um umgengni felur því í sér matskennda stjórnvaldsákvörðun en við töku slíkra ákvarðana verður að játa stjórnvöldum visst svigrúm til mats. Þær ákvarðanir verða þó að uppfylla þær kröfur sem leiða af þeim sérlögum sem gilda um viðkomandi málaflokk og almennum reglum stjórnsýsluréttarins, svo sem réttmætis­reglunni, en í samræmi við hana verður ákvörðun að byggjast á málefnalegum sjónarmiðum.

Af 1. mgr. 2. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, leiðir að eftirlit umboðsmanns í málum sem þessum beinist fyrst og fremst að því hvort málsmeðferð og ákvörðun stjórnvalds hafi verið í samræmi við lög og vandaða stjórnsýsluhætti. Þegar ákvörðun stjórn­valds byggist m.a. á mati sérfræðinga sem koma að málinu er umboðsmaður Alþingis hins vegar almennt ekki í stakk búinn til að endurskoða slíkt mat efnislega. Það stafar af því að slíkt mat er framkvæmt af sér­fræðingum sem hafa aflað sér þá þekkingu og reynslu á sínu sviði sem nauðsynlegt er að hafa. Það er því ekki verkefni mitt að taka afstöðu til þess hvert umfang umgengni foreldris við fósturbarn eigi að vera heldur fyrst og fremst að fjalla um hvort málsmeðferð og ákvörðun um umgengnina hafi verið lögmæt.

Þegar litið er til orðalags 74. gr. laga nr. 80/2002 og  framanraktar athugasemdir við ákvæðið í frumvarpi því er varð að lögunum er ljóst að ákvæðið gerir ráð fyrir að ákvörðun um umgengni foreldra við barn í fóstri byggist fyrst og fremst á mati á hagsmunum barnsins og taki mið af markmiðum fóstursins. Réttur foreldra til umgengni við barn sitt kann þannig að vera takmarkaður allverulega vegna hagsmuna barnsins af því að fá næði til að aðlagast nýrri fjölskyldu. Þegar barni er ráðstafað í fóstur sem ætlað er að vara þar til barn verður lögráða er markmið fóstursins að barn aðlagist og til­heyri fósturfjölskyldu sem taki að sér uppeldi þess. Við slíkar aðstæður er viðurkennt að hagsmunir barnsins kunni að krefjast þess að umgengni verði takmörkuð allverulega. Þannig séu hagsmunir barnsins í fyrirrúmi við ákvörðunartökuna og kann réttur foreldra að víkja fyrir hagsmunum barnsins. Þá hlýtur undirbúningur ákvörðunar um umgengni að meginstefnu til að miða að því að upplýsa um hagi og líðan barns til að unnt sé að meta hagsmuni þess í tengslum við umgengnina, sbr. álit umboðsmanns Alþingis frá 7. apríl 2006 í máli nr. 4474/2005.

Eftir að hafa kynnt mér úrskurð úrskurðarnefndar velferðarmála sem og gögn málsins tel ég mig ekki hafa forsendur til þess að gera athugasemdir við niðurstöðu nefndarinnar. Hef ég þar einkum í huga að ekki verður annað ráðið af úrskurðinum en að þau sjónarmið sem nefndin lagði til grundvallar hafi verið í samræmi við 74. gr. laga nr. 80/2002, eins og ákvæðið verður skýrt með hliðsjón af lögskýringar­gögnum, og lagt hafi verið sérstakt mat á það hvernig þau horfðu við í málinu með tilliti til hagsmuna B. Þá liggur fyrir í málinu skýrsla talsmanns B og upplýsingar um viðhorf fósturforeldra hans. Ég tel mig enn fremur ekki hafa forsendur til þess að fullyrða að mat nefndarinnar á þeim gögnum og upplýsingum sem lágu fyrir í málinu hafi verið bersýnilega óforsvaranlegt, þ.á m. mat hennar á afstöðu B, eða að málið hafi ekki verið nægjanlega upplýst áður en ákvörðun var tekin í því.

Að öðru leyti tel ég þær athugasemdir sem fram koma í kvörtun yðar ekki þess eðlis að tilefni sé til að taka þær til nánari umfjöllunar.

  

III

Með vísan til þess sem að framan er rakið lýk ég umfjöllun minni um kvörtun yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.