Aðgangur að gögnum og upplýsingum. Hæfi. Framkoma opinberra starfsmanna. Málsmeðferð stjórnvalda.

(Mál nr. 11215/2021)

Kvartað var yfir framgöngu Tryggingastofnunar og úrskurðarnefndar velferðarmála í tengslum við að þremur beiðnum um gögn var synjað og athugasemdir gerðar í nokkrum liðum.

Umboðsmaður fór yfir athugsemdirnar lið fyrir lið og taldi ekki tilefni til að aðhafast sérstaklega vegna neinnar þeirrar. Hann vísaði aftur á móti til nýlegs álits hvað snerti að birta ekki nöfn starfsmanna sem standa að baki ákvörðunum stofnunarinnar og benti viðkomandi á að beina beiðni um upplýsingar um hvaða starfsmenn hefðu komið að samskiptum við hana til Tryggingastofnunar.

 

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 24. ágúst 2021, sem hljóðar svo:

  

I

Vísað er til kvörtunar yðar til umboðsmanns Alþingis, dags. 7. júlí sl., yfir framgöngu Tryggingastofnunar (TR) og úrskurðarnefndar velferðar­mála í tengslum við þrjár gagnabeiðnir yðar til TR sem stofnunin synjaði 18. september 2019, 13. janúar og 12. mars 2020 og nefndin tók í kjölfarið afstöðu til í úrskurðum frá 12. febrúar 2020 í máli nr. 432/2019, 8. júlí 2020 í máli nr. 135/2020 og 16. september 2020 í máli nr. 98/2020.

Í fyrsta lagi lýtur kvörtun yðar að því að þér teljið alla starfs­menn TR hafa verið vanhæfa til að leysa úr beiðnum yðar um upplýsingar um nöfn og menntun starfsmanna er komu að úrlausn tiltekins máls yðar hjá stofnuninni og að starfsmenn TR og nefndarinnar hafi bersýnilega, ítrekað og viljandi hallað rétti yðar, m.a. með því að leysa sérstaklega úr því hvort kæra yðar ætti undir nefndina sem og synja yður með ólög­mætum hætti um framangreindar upplýsingar.

Þér vísið til þess að TR hafi synjað yður um aðgang að umræddum upplýsingum með hliðsjón af einkahagsmunum starfsmanna stofnunarinnar. Að yðar mati leiði slíkt til þess að starfsmenn stofnunarinnar hafi verið aðilar máls í skilningi stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og því van­hæfir til að koma að ákvarðanatöku í málum yðar að þessu leyti, sbr. 5. og 6. tölul. 1. mgr. 3. gr. stjórnsýslulaga. Af gögnum málsins má ráða að kvörtunarefni þetta tengist gagnabeiðnum yðar sem TR synjaði 18. september 2019 og 12. mars 2020 og nefndin fjallaði í kjölfarið um í úrskurðum frá 12. febrúar 2020 og 8. júlí 2020.

Í öðru lagi teljið þér yður hafa orðið fyrir áreitni TR sem og ólög­mætri meingerð í tengslum við framangreindar beiðnir yðar. Í þessum efnum vísið þér aðallega til þess sem fram kemur í greinargerð TR, dags. 7. apríl 2020, í máli nr. 135/2020.

Í þriðja lagi vísið þér til þess að TR hafi falsað fundargerð í tengslum við ákvörðun um endurhæfingarlífeyri í máli yðar, dags. 15. júlí 2019. Að lokum gerið þér athugasemdir við að ekki allir nefndarmenn úrskurðarnefndar velferðarmála skrifi undir úrskurði í málum yðar sem og að starfsmenn TR skrifi ekki undir bréf með nafni.

  

II

Í 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er kveðið á um skil­yrði þess að kvörtun verði tekin til meðferðar af hálfu umboðsmanns.

Í 2. mgr. 6. gr. segir að kvörtun skuli bera fram innan árs frá því er stjórnsýslugerningur sá, er um ræðir, var til lykta leiddur. Hluti fyrsta liðar kvörtunar yðar, eins og hún er útlistuð hér að framan, lýtur að gagnabeiðni yðar sem TR synjaði 18. september 2019 og úrskurðar­nefnd velferðarmála úrskurðaði um 12. febrúar 2020. Með hliðsjón af því að kvörtunin barst mér 7. júlí sl. fæ ég ekki séð að framangreindu skil­yrði sé fullnægt hvað þennan hluta kvörtunar yðar varðar. Að öðru leyti tel ég ekki nægilegt tilefni til að fjalla um álitaefni er varða sérstakt hæfi starfsmanna TR. Hef ég hér einkum hliðsjón af því að fyrir liggur að úrskurðarnefnd velferðarmála úrskurðaði yður í hag í úrskurði sínum, dags. 8. júlí 2020, og að yður hafa þegar verið afhentar umræddar upplýsingar með bréfi, dags. 22. júlí 2020.

Annar liður kvörtunar yðar lýtur samkvæmt framangreindu að meintri áreitni og ólögmætri meingerð í yðar garð af hálfu TR. Ég skil kvörtun yðar í þessum efnum á þann veg að þér teljið stofnunina hafa vegið að yður, einkum með skrifum sínum í greinargerð sinni til úrskurðarnefndar vel­ferðarmála í máli nr. 135/2020, dags. 7. apríl 2020.

Eftir að hafa kynnt mér umrædda greinargerð sem og önnur gögn sem liggja fyrir mér tel ég mig ekki hafa forsendur til þess að gera athuga­semdir við framsetningu TR í greinargerðinni. Hef ég hér einkum hliðsjón af því að markmiðið með greinargerðinni var að skýra fyrir úrskurðar­nefndinni ástæður þess að yður var synjað um umræddar upplýsingar. Ummælin sem þér gerið athugasemdir við voru sett fram sem liður í rök­semdafærslu þar að lútandi og fela í sér mat stofnunarinnar á sam­skiptum við yður. Auk þess fela þau í sér innbyrðis samskipti tveggja stjórnvalda en ekki var um opinbera umfjöllun að ræða. Þá horfi ég einnig til þess að þér komuð athugasemdum yðar við greinargerð TR að þessu leyti á framfæri við nefndina með bréfi, dags. 8. maí 2020, og þess að úrskurðarnefndin féllst á sjónarmið yðar og úrskurðaði yður í hag.

Hvað þriðja lið kvörtunar yðar varðar, þ.e. er lýtur að fundargerð í tengslum við ákvörðun TR um endurhæfingarlífeyri í máli yðar, dags. 5. júlí 2019, liggur fyrir að sú ákvörðun var borin undir úrskurðarnefnd vel­ferðarmála sem fjallaði um málið í úrskurði sínum frá 4. mars 2020 í máli nr. 442/2019. Það mál er þegar til meðferðar hjá mér í máli sem hlaut númerið 10808/2020 í málaskrá embættisins og verður þessi liður því ekki tekinn til frekari skoðunar hér.

Þá lýtur fjórði liður kvörtunar yðar m.a. að því að ekki allir nefndarmenn úrskurðarnefndar velferðarmála skrifi undir úrskurði í málum yðar. Ég tel mig ekki hafa forsendur til þess að gera athugasemdir við þessa framkvæmd. Hef ég hér m.a. hliðsjón af því að í upphafi þeirra úrskurða sem liggja fyrir mér kemur fram hvaða nefndarmenn úrskurðuðu í hverju máli.

Að því er varðar það að starfsmenn TR skrifi ekki undir bréf til yðar með nafni liggur nú fyrir að ég hef þegar lýst áliti mínu á þeirri almennu og fortakslausu afstöðu TR að birta ekki nöfn starfsmanna sem standa að baki ákvörðunum stofnunarinnar í máli nr. 10652/2020 frá 2. júlí sl. og m.a. beint tilmælum til stofnunarinnar að gera viðeigandi ráðstafanir til úrbóta á formi og framsetningu stjórnvaldsákvarðana stofnunarinnar í samræmi við þau sjónarmið sem rakin eru í álitinu. Af því tilefni bendi ég yður á að ef þér teljið yður þurfa frekari upplýsingar um hvaða starfsmenn hafa komið að samskiptum við yður að beina beiðni um upplýsingar þar að lútandi til TR.

  

III

Eftir að hafa kynnt mér kvörtun yðar að öðru leyti tel ég ekki tilefni til aðgerða af minni hálfu. Með vísan til þess sem að framan er rakið lýk ég umfjöllun minni um mál yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.