Rafræn stjórnsýsla.

(Mál nr. 11224/2021)

Kvartað var yfir virkni Íslykils, þjónustu www.island.is og samskiptum við Stafrænt Ísland þar að lútandi og fleira.

Í tölvupósti frá viðkomandi, mánuði síðar, kom fram að virkni þjónustunnar hefði lagast. Með hliðsjón af því og öðrum atvikum máls taldi umboðsmaður ekki tilefni til að taka kvörtunina til frekari athugunar en tók fram að hann myndi áfram fylgjast með innleiðingu á rafrænni stjórnsýslu.  

    

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 25. ágúst 2021, sem hljóðar svo:

 

  

Vísað er til kvörtunar yðar frá 15. júlí sl. sem lýtur að virkni Íslykils yðar og þjónustu vefsins www.island.is og samskiptum yðar við Stafrænt Ísland þar að lútandi, m.a. í tengslum við endurnýjun Íslykilsins. Auk þess gerið þér athugasemdir við að ekki sé unnt að skrá erlend heimilis­föng í þjóðskrá. Af kvörtuninni verður ráðið að eftir uppfærslu á innskráningarþjónustu vefsins hafi Íslykill yðar ekki virkað og þar með hafið þér ekki getað nálgast upplýsingar á „þínum síðum“ á vefnum. Jafnframt er vísað til afrits af tölvupóstssamskiptum yðar við Stafrænt Ísland sem bárust með tölvupósti 29. júlí sl. og annarra upplýsinga og skýringa vegna kvörtunarinnar sem hafa borist í samskiptum yðar við skrifstofu umboðsmanns.

Í tilefni af kvörtun yðar tek ég fram að samkvæmt 4. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, getur hver sá sem telur sig hafa verið beittan rangsleitni af aðilum sem heyra undir eftirlit umboðsmanns Alþingis samkvæmt 1. og 2. mgr. 3. gr. laganna kvartað af því tilefni til umboðsmanns og skal hann þá lýsa þeirri úrlausn eða annarri háttsemi stjórnvalds sem er tilefni kvörtunar, sbr. 1. mgr. 6. gr. laganna. Af framangreindu leiðir að starfsemi og málsmeðferð stjórnvalds verður að öllu jöfnu ekki tekin til almennrar athugunar hjá umboðsmanni Alþingis á grundvelli kvörtunar, þótt öllum sé frjálst að koma á framfæri við umboðsmann ábendingum um atriði af því tagi, heldur verður kvörtun að lúta að tilteknum athöfnum, athafnaleysi eða ákvörðunum stjórn­valda sem beinast sérstaklega að þeim sem leggur fram kvörtun eða varða beinlínis hagsmuni hans eða réttindi umfram aðra. Ekki er heldur gert ráð fyrir að umboðsmaður veiti almennar álitsgerðir samkvæmt beiðni eða svari almennum lögspurningum.

Í tölvupósti yðar frá 15. ágúst sl. kemur fram að virkni þjónustunnar sé nú með sama hætti og hún var áður en ofangreind uppfærsla var framkvæmd. Horfi ég þá einnig til þess, s.s. ráðið verður af þeim gögnum sem borist hafa vegna kvörtunarinnar, að Stafrænt Ísland hafi almennt gætt að skyldu sinni til þess að svara skriflegum erindum yðar. Að þessu gættu, og þar sem aðrir þættir kvörtunar yðar lúta að almennu fyrirkomulagi í tengslum við tæknilega útfærslu umrædds vef og skráningu upplýsinga í þjóðskrá en ekki tiltekinni athöfn, athafnaleysi eða ákvörðun stjórnvalds í framangreindum skilningi, þ.e. þau atriði sem þér tilgreinið í kvörtun yðar varða ekki hagsmuni yðar eða réttindi umfram aðra, tel ég ekki tilefni til þess að taka kvörtun yðar til frekari athugunar. Ég tek þó fram að ég mun áfram fylgjast með innleiðingu á rafrænni stjórnsýslu, einkum m.t.t. jafnræðis og aðgangs borgaranna að þeim rafrænu lausnum sem stjórnvöld koma á fót.

Með hliðsjón af ofangreindu, og með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, lýk ég hér með umfjöllun minni vegna kvörtunar yðar.