Almannavarnir. Heilbrigðismál. Sóttvarnir. COVID-19.

(Mál nr. 11247/2021)

Kvartað var yfir því að undanþága frá sýnatöku vegna COVID-19 og/eða framvísun vottorðs um neikvætt PCR-próf ætti ekki lengur við um þá meðlimiði flugáhafna sem ekki gætu framvísað gildu bólusetningarvottorði eða vottorði um fyrri sýkingu.

Ekki varð ráðið að viðkomandi hefði komið sjónarmiðum sínum á framfæri við heilbrigðis- eða sóttvarnayfirvöld og fengið viðbrögð við þeim eða að málið hefði verið lagt í viðeigandi farveg innan stjórnsýslunnar. Því brast lagaskilyrði fyrir því að umboðsmaður gæti tekið kvörtunina til frekari athugunar.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 23. ágúst 2021, sem hljóðar svo:

  

  

Vísað er til kvörtunar yðar frá 14. ágúst sl. sem beinist að ríkisstjórn Íslands, heilbrigðisráðherra, landlækni, sóttvarnalækni og staðgengli hans og lýtur að því að undanþága frá sýnatöku vegna COVID-19 og/eða fram­vísun vottorðs um neikvætt PCR-próf sem sóttvarnalæknir hefur veitt flugáhöfnum, sbr. 5. mgr. 9. gr. reglugerðar nr. 747/2021, um sóttkví og sýnatöku og einangrun við landamæri Íslands vegna COVID-19, með síðari breytingum, eigi ekki lengur við um áhafnarmeðlimi sem ekki geta framvísað gildu bólusetningarvottorði eða vottorði um fyrri sýkingu. Eftir því sem fram kemur í kvörtuninni starfið þér sem flugmaður og hafið ekki gengist undir bólusetningu vegna COVID-19.

Samkvæmt 5. mgr. 9. gr. reglugerðar nr. 747/2021 er sóttvarnalækni heimilt að veita undanþágu frá sýnatöku og/eða framvísun vottorðs um neikvætt PCR-próf, sbr. 4. gr. reglugerðarinnar, til einstaklinga sem fylgja leiðbeiningum sóttvarnalæknis um vinnuferðir erlendis. Í ákvæðinu segir að slíka undanþágu megi einungis veita starfsfólki í heilbrigðis­þjónustu, starfsfólki sem sinni flutningum á vöru og þjónustu og starfs­fólki lögreglu vegna nauðsynlegra ferða starfs síns vegna. Á þessum grund­velli hafa áhafnir flugvéla, sem eru búsettar eða með aðalbækistöð á Íslandi, verið undanþegnar sýnatöku og/eða framvísun vottorðs um neikvætt PCR-próf við komu til landsins eftir ferðir sem ekki hafa varað lengur en 72 klukkustundir, óháð því hvort viðkomandi einstaklingar hafi fengið bólusetningu vegna COVID-19. Á vefsíðu embættis landlæknis kemur fram að sækja þurfi um slíka undanþágu. Af þeim upplýsingum sem nálgast má á vefsíðu embættisins um undanþágur frá kröfum um framvísun vottorðs og sýnatöku fyrir flugáhafnir verður einnig ráðið, líkt og fram kemur í kvörtun í yðar, að undanþágan verði, þegar þetta er ritað, ekki veitt áhafnarmeðlimum sem ekki eru með gilt bólusetningarvottorð eða vottorð um fyrri sýkingu. Af þessu, og að gættri framsetningu 5. mgr. 9. gr. reglugerðarinnar, verður ekki annað ráðið en að veiting undanþágu feli í sér töku sérstakrar ákvörðunar sem varðar rétt og skyldu þess sem óskar eftir slíkri undanþágu. Slík ákvörðun sætir kæru til heilbrigðis­ráð­herra, sbr. 10. mgr. 14. gr. sóttvarnalaga nr. 19/1997, með síðari breytingum.

Ástæða þess að ég tek þetta fram er sú að samkvæmt 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er gert ráð fyrir að umboðs­maður hafi ekki afskipti af máli fyrr en stjórnvöld, þ.m.t. æðra stjórnvald, hafi lokið umfjöllun sinni um málið. Ákvæði þetta er byggt á því sjónarmiði að stjórnvöld skuli fá tækifæri til að leiðrétta ákvarðanir sem hugsanlega eru rangar áður en leitað er til aðila utan stjórnkerfis þeirra með kvörtun. Af því leiðir m.a. að almennt verður mál ekki tekið til meðferðar á grundvelli kvörtunar fyrr en það hefur verið endanlega til lykta leitt í stjórnsýslunni.

Kvörtun yðar fylgdu ekki frekari gögn og að öðru leyti verður ekki ráðið af að henni að þér hafið komið sjónarmiðum yðar um umrædda undan­þágu á framfæri við heilbrigðis- eða sóttvarnayfirvöld og fengið við­brögð við þeim eða að mál yðar hafi enn sem komið er verið lagt í sérstakan farveg innan stjórnsýslunnar. Með hliðsjón af því sem að ofan er rakið er því ljóst að lagaskilyrði brestur til þess að ég geti tekið kvörtun yðar til frekari athugunar.

Með hliðsjón af framangreindu, og með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþings, lýk ég hér með umfjöllun minni vegna málsins. Hins vegar er bent á að umboðsmaður hefur haft ýmsa þætti í aðgerðum stjórnvalda vegna COVID-19 til athugunar, m.a. að eigin frumkvæði, og mun gera það áfram. Ef þér farið þá leið að bera synjun um veitingu undanþágu undir ráðuneytið með stjórnsýslukæru og teljið yður enn beittan rangsleitni af hálfu hlutaðeigandi stjórnvalda í þessu máli að fenginni niðurstöðu þess getið þér leitað til mín með nýja kvörtun, ef skilyrði laga til þess að öðru leyti eru uppfyllt.