Tafir hjá stjórnvaldi á afgreiðslu máls.

(Mál nr. 11248/2021)

Kvartað var yfir að ráðuneyti hefðu ekki svarað erindi.

Umboðsmaður taldi ekki slíkan drátt hafa orðið á svörum frá ráðuneytunum að tilefni væri til að taka kvörtunina til frekari athugunar.

    

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 25. ágúst 2021, sem hljóðar svo:

   

  

I

Vísað er til kvörtunar yðar til umboðsmanns Alþingis, dags. 16. ágúst sl., yfir því að hafa ekki fengið viðbrögð við erindi sem þér senduð mennta- og menningarmálaráðuneytinu sem og samgöngu- og sveitar­stjórnar­ráðu­neytinu 1. júlí sl. og enn á ný 16. ágúst sl. Í kvörtun yðar kemur jafnframt fram að þér óskið þess að fá aðstoð við að fá niðurstöðu í þau mál sem reifuð eru í erindum yðar til ráðuneytanna.

  

II

1

Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er það hlutverk umboðsmanns að hafa, í umboði Alþingis, eftirlit með stjórn­sýslu ríkis og sveitarfélaga og tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórn­völdum landsins. Í 3. gr. sömu laga er nánar kveðið á um starfssvið umboðsmanns að þessu leyti. Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. getur hver sá sem telur sig hafa verið beittan rangsleitni af hálfu einhvers þess aðila sem fellur undir starfssvið umboðsmanns kvartað af því tilefni til umboðsmanns. Í 6. gr. laganna er kveðið á um skilyrði þess að kvörtun verði tekin til meðferðar af hálfu umboðsmanns.

Í 2. mgr. 6. gr. segir að kvörtun skuli bera fram innan árs frá því er stjórnsýslugerningur sá, er um ræðir, var til lykta leiddur. Í 3. mgr. er kveðið á um að ef skjóta má máli til æðra stjórnvalds sé ekki unnt að kvarta til umboðsmanns fyrr en æðra stjórnvald hefur fellt úrskurð sinn í því. Að baki þessu ákvæði býr það sjónarmið að stjórnvöld skuli fá tækifæri til að leiðrétta ákvarðanir eða annað í störfum sínum sem ekki er í samræmi við lög áður en leitað er til aðila utan stjórnkerfis þeirra með kvartanir. Í samræmi við þetta sjónarmið hefur umboðsmaður almennt talið rétt að það æðra stjórnvald, sem fer með yfirstjórnar- og eftirlitsheimildir á viðkomandi sviði, hafi fengið tækifæri til að fjalla um málið og þar með taka afstöðu til þess hvort tilefni sé til að beita þeim heimildum áður en hann tekur mál til athugunar á grundvelli kvörtunar og þá einnig í þeim tilvikum þar sem afstaða þess til málsins verður ekki fengin fram á grundvelli stjórn­sýslukæru.

Að því marki sem kvörtun yðar snýr að Fjarðabyggð tel ég, með hliðsjón af 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, ekki unnt að taka þau atriði sem fram koma í erindum yðar til ráðuneytanna til skoðunar að svo stöddu. Ef að fengnum svörum ráðuneytanna þér teljið yður enn beittan rangsleitni er yður fært að leita til mín á ný með kvörtun þar að lútandi innan árs frá því að afstaða þeirra liggur fyrir. Ég tek fram að á þessu stigi hef ég ekki tekið endanlega afstöðu til þess hvort umkvörtunarefni yðar falli að öllu leyti undir starfssvið mitt eða uppfylli að öðru leyti skilyrði laga nr. 85/1997 til þess að vera tekin til meðferðar.

  

2

Hvað varðar þann hluta kvörtunar yðar er beinist að því að mennta- og menningarmálaráðuneytið sem og samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið hafi ekki svarað erindi yðar frá 1. júlí sl. tek ég fram að stjórnvöldum ber almennt að svara erindum sem þeim berast án ástæðulausra tafa. Það hvort um óeðlilegan drátt hafi verið að ræða á að stjórnvald svari erindi er því byggt á mati hverju sinni þar sem líta verður m.a. til efnis viðkomandi erindis og málsmeðferðarreglna sem stjórnvöldum ber að fylgja við afgreiðslu þess. Með tilliti til fjölda erinda sem stjórnvöldum berast verður jafnframt að ætla þeim nokkuð svigrúm í þessu efni.

Ég tel að ekki hafi enn orðið slíkur dráttur á svörum frá ráðuneytunum við erindi yðar frá 1. júlí sl. að tilefni sé til að ég taki kvörtun yðar að þessu leyti til frekari athugunar að svo stöddu. Hér hef ég einnig í huga að fyrir liggur að mennta- og menningar­mála­ráðu­neytið sendi yður tölvupóst 17. ágúst sl. þar sem fram kemur að unnið sé að svörum og beðist velvirðingar á þeim töfum sem orðið hafa á svörum þess. Ég tek fram að þér getið leitað til mín á nýjan leik hafi svar ekki borist yður frá ráðuneytunum fyrir lok október nk.

  

III

Í ljósi þess sem að framan hefur verið rakið er umfjöllun minni um mál yðar hér með lokið, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.