Almannavarnir. Heilbrigðismál. Sóttvarnir. COVID-19.

(Mál nr. 11260/2021)

Kvartað var yfir að þurfa að sæta sóttkví eftir dvöl erlendis.

Þar sem starfssvið umboðsmanns tekur ekki til ákvarðana og annarra athafna stjórnvalda, þegar samkvæmt beinum lagafyrirmælum er ætlast til að leitað sé leiðréttingar með málskoti til dómstóla, voru ekki skilyrði til að umboðsmaður fjallaði um kvörtunina.

    

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 26. ágúst 2021, sem hljóðar svo:

  

  

Vísað er til kvörtunar, dags. 18. ágúst sl., sem þér hafið komið á framfæri f.h. A og B, og beint er að heilbrigðisráðuneytinu og embætti landlæknis og lýtur að þeirri ákvörðun sóttvarnayfirvalda að A og B skyldu sæta sóttkví við komu þeirra til Íslands 16. ágúst sl. eftir dvöl þeirra erlendis.

Af kvörtuninni verður ráðið að þér teljið umrædda ráðstöfun ekki í samræmi við ákvæði reglugerðar nr. 747/2021, um sóttkví og sýnatöku og einangrun við landamæri Íslands vegna COVID-19, með síðari breytingum eða þær leiðbeiningar sem eru aðgengilegar á vef landlæknisembættisins og almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra vegna COVID-19, www.covid.is.

Samkvæmt 2. mgr. 14. gr., sbr. einnig 3. mgr., sóttvarnalaga nr. 19/1997, með síðari breytingum, skal sóttvarnalæknir taka ákvörðun um við­eigandi aðgerðir, þ. á m. sóttkví, leiki grunur á að tiltekinn ein­staklingur sé haldinn smitsjúkdómi. Samkvæmt 12. mgr. 14. gr. getur ráðherra sett reglugerð um nánari útfærslu ákvæðisins, t.d. þar sem kveðið er á um þær reglur sem gilda skulu um þá sem sæta einangrun eða sótt­kví. Á þessum grundvelli hefur heilbrigðisráðherra sett ofangreinda reglu­gerð nr. 747/2021 og er þar m.a. að finna nánari ákvæði um skyldu til að fara í sóttkví.

Af 15. gr. laga nr. 19/1997, sbr. 1. málsl. 10. mgr. 14. gr., leiðir að stjórnvaldsákvörðun sem tekin er á grundvelli laganna og sviptir einstakling frelsi sínu, þ.m.t. þegar einstaklingur er settur í sóttkví, er endanleg á stjórnsýslustigi og verður borin undir dómstóla, í samræmi við nánari fyrirmæli ákvæði 15. gr., einkum 1.-3. mgr. Samkvæmt 4. mgr. 15. gr. frestar málsmeðferð fyrir dómi ekki framkvæmd slíkrar stjórn­valdsákvörðunar.

Ástæða þess að ég tek þetta fram er sú að samkvæmt c-lið 4. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, tekur starfssvið umboðs­manns ekki til ákvarðana og annarra athafna stjórnvalda, þegar sam­kvæmt beinum lagafyrirmælum er ætlast til að menn leiti leiðréttingar með málskoti til dómstóla. Er því ljóst að lagaskilyrði brestur til að ég geti fjallað um kvörtun yðar að þessu leyti.

Sú ábending sem felst að öðru leyti í erindi yðar að því er varðar viðbrögð stjórnvalda við munnlegum fyrirspurnum yðar verður skráð. Í því sambandi tek ég fram að tek ég fram við mat almennum ábendingum sem þessari er meðal annars litið til starfssviðs og áherslna umboðsmanns, hags­muna sem tengjast málefninu sem um ræðir og málastöðu og nýtingar mannafla hjá embættinu. Verklagið er þannig að verði málefnið tekið til athugunar er viðkomandi ekki upplýstur um það sérstaklega heldur er til­kynnt um athugunina á heimasíðu embættisins, www.umbodsmadur.is. Hins vegar tek ég fram að umboðsmaður hefur haft ýmsa þætti í aðgerðum stjórn­valda vegna COVID-19 til athugunar, m.a. að eigin frumkvæði, og mun gera það áfram.

Með hliðsjón af framangreindu, og með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, lýk ég hér með umfjöllun minni vegna kvörtunar yðar.