Atvinnuleysistryggingar.

(Mál nr. 11261/2021)

Kvartað var yfir synjun Vinnumálastofnunar um atvinnuleysistryggingar á þeim grundvelli að viðkomandi uppfyllti ekki skilyrði um að vera í virkri atvinnuleit. 

Ekki varð séð að ákvörðun Vinnumálastofnunar hefði verið borin undir úrskurðarnefnd velferðarmála. Kæruleið var þar með ekki tæmd og því ekki skilyrði til að umboðsmaður tæki kvörtunina til meðferðar.

    

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 25. ágúst 2021, sem hljóðar svo:

  

  

Vísað er til kvörtunar yðar, dags. 20. ágúst sl., en af henni fæ ég ráðið að hún lúti að synjun Vinnumálastofnunar um atvinnuleysis­tryggingar á þeim grundvelli að þér uppfyllið ekki skilyrði um að vera í virkri atvinnuleit, sbr. a-lið 1. mgr. 13. gr. laga nr. 54/2006, um atvinnu­leysistryggingar. Teljið þér ákvörðun Vinnumálastofnunar haldna annmarka þar sem hún hafi stuðst við gamalt læknisvottorð um vinnufærni yðar í stað þess vottorðs sem þér lögðuð fram og að yðar mati felur í sér breyttar upplýsingar um hagi yðar.

Í tilefni af kvörtun yðar tek ég fram að samkvæmt 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er ekki unnt að kvarta til umboðsmanns, ef skjóta má máli til æðra stjórnvalds, fyrr en æðra stjórnvald hefur fellt úrskurð sinni í málinu. Ákvæði þetta er byggt á því sjónarmiði að stjórnvöld skuli fá tækifæri til að leiðrétta ákvarðanir eða annað í störfum sínum sem ekki er í samræmi við lög áður en leitað er til aðila utan stjórnkerfis þeirra með kvartanir.

Ástæða þess að ég greini yður frá þessu er sú að samkvæmt 2. mgr. 11. gr. laga nr. 54/2006 skal úrskurðarnefnd velferðarmála kveða upp úrskurði sem kunna að rísa á grundvelli laganna. Stjórnsýslukæra skal berast úrskurðarnefndinni skriflega innan þriggja mánaða frá því að aðila máls var tilkynnt um ákvörðun, sbr. 5. gr. laga nr. 85/2015, um úrskurðarnefnd velferðarmála.

Með vísan til framangreinds og þar sem ekki verður ráðið af kvörtun yðar að þér hafið borið ákvörðun Vinnumálastofnunar undir úrskurðar­nefnd velferðarmála eru ekki skilyrði að lögum til þess að taka kvörtun yðar til meðferðar að svo stöddu. Ef þér kjósið að leita til úrskurðarnefndarinnar getið þér að sjálfsögðu leitað til mín á ný að fenginni endanlegri niðurstöðu hennar ef þér teljið yður þá enn  beitta rangsleitni.

Þá bendi ég yður jafnframt á, í ljósi þeirra athugasemda sem þér gerið við ákvörðun Vinnumálastofnunar, að yður er jafnframt fært að beina beiðni til stofnunarinnar um endurupptöku málsins á grundvelli 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 eða óskráðra reglna. Þannig segir í 1. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga að eftir að stjórnvald hefur tekið ákvörðun og hún verið tilkynnt aðila máls eigi aðili máls rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik. Ég tek þó fram að með þessari ábendingu hef ég enga afstöðu tekið til þess hvernig framangreind skilyrði kunna að horfa við í málinu eða hvaða meðferð og afgreiðslu slík beiðni ætti að hljóta hjá Vinnumálastofnun.

Með vísan til þess sem að framan er rakið lýk ég umfjöllun minni um kvörtun yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.