Fullnusta refsinga. Reynslulausn.

(Mál nr. 11266/2021)

Kvartað var yfir synjun Fangelsismálastofnunar á beiðni um reynslulausn úr fangelsi.

Synjunin hafði ekki verið borin undir dómsmálaráðuneytið og kæruleið þar með ekki verið tæmd. Því voru ekki skilyrði til að umboðsmaður tæki kvörtunina til frekari athugunar.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 25. ágúst 2021, sem hljóðar svo:

  

Vísað er til kvörtunar yðar sem barst 23. ágúst sl. og lýtur að synjun Fangelsismálastofnunar á beiðni yðar um veitingu reynslulausnar frá 18. ágúst sl.

Líkt og fram kemur í bréfi Fangelsismálastofnunar til yðar eru ákvarðanir sem teknar eru á grundvelli laga nr. 15/2016, um fullnustu refsinga, þ.m.t. ákvarðanir um veitingu reynslulausnar, kæranlegar til dómsmálaráðuneytisins, sbr. 1. mgr. 95. gr. þeirra, en dóms­mála­ráðherra fer að öðru leyti með yfirstjórn fangelsismála, sbr. 4. gr. laganna.

Ástæða þess að ég tek þetta fram er sú að í 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er kveðið á um skilyrði þess að kvörtun verði tekin til meðferðar af hálfu umboðsmanns. Samkvæmt 3. mgr. 6. gr. er ekki unnt að kvarta til umboðsmanns ef unnt er að skjóta máli til æðra stjórnvalds fyrr en æðra stjórnvaldið hefur fellt úrskurð sinn í málinu.

Þar sem þér hafið ekki borið synjun Fangelsismálastofnunar undir ráðuneytið er ljóst að lagaskilyrði brestur til þess að ég geti tekið kvörtun yðar til frekari athugunar.

Með hliðsjón af framangreindu, og með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, lýk ég hér með umfjöllun minni vegna kvörtunar yðar. Fari svo að þér berið synjun Fangelsismála-stofnunar undir ráðuneytið og teljið yður enn beittan rangsleitni að fenginni niðurstöðu þess getið þér leitað til mín á nýjan leik með kvörtun þar að lútandi.