Lyfjamál.

(Mál nr. 11267/2021)

Kvartað var yfir synjun Lyfjastofnunar á umsókn læknis um ávísun undanþágulyfs samkvæmt lyfjalögum. Einnig að stofnunin hefði synjað um rökstuðning og gerð athugasemd við að erindi til hennar hefði ekki verið svarað.  

Umboðsmaður benti viðkomandi á bera ákvörðun Lyfjastofnunar undir heilbrigðisráðherra til að tæma kæruleið í málinu. Fyrr væri ekki unnt að kvarta til umboðsmanns.

    

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 24. ágúst 2021, sem hljóðar svo:

  

Vísað er til kvörtunar yðar, dags. 23. ágúst sl., sem þér beinið að Lyfjastofnun og lýtur að synjun stofnunarinnar á umsókn læknis yðar um ávísun undanþágulyfs samkvæmt 12. gr. lyfjalaga nr. 100/2020. Vísið þér jafnframt til þess að Lyfjastofnun hafi synjað yður um rökstuðning fyrir ákvörðuninni á þeim grundvelli að þér teldust ekki aðili að umræddu máli. Einnig gerið þér athugasemd við að fyrirspurnum yðar um hvert þér gætuð leitað til þess að fá ákvörðunina endurskoðaða hafi ekki verið svarað.

Í tilefni af kvörtun yðar tek ég fram að samkvæmt 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er ekki unnt að kvarta til umboðs­manns, ef skjóta má máli til æðra stjórnvalds, fyrr en æðra stjórnvaldið hefur fellt úrskurð sinn í málinu. Ákvæði þetta er byggt á því sjónarmiði að stjórnvöld skuli fá tækifæri til að leiðrétta ákvarðanir eða annað í störfum sínum sem ekki er í samræmi við lög áður en leitað er til aðila utan stjórnkerfis þeirra með kvörtun.

Ástæða þess að ég geri yður grein fyrir þessu er sú að samkvæmt 107. gr. lyfjalaga er heimilt að kæra stjórnvaldsákvarðanir sem teknar eru á grundvelli laganna til heilbrigðisráðherra nema annað sé tekið fram í lögunum. Þar segir jafnframt að um kærurétt og málsmeðferð fari samkvæmt stjórnsýslulögum.

Í samræmi við framangreint og í ljósi þeirra sjónarmiða sem búa að baki 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997 tel ég rétt að þér freistið þess að bera ákvörðun Lyfjastofnunar undir heilbrigðisráðherra sem þannig fær tækifæri til þess að taka afstöðu til hennar, þ. á m. hvort veita eigi yður aðild að því máli. Ef þér ákveðið að bera umrædda ákvörðun undir heilbrigðisráðherra og teljið yður enn beittan rangsleitni að fenginni niðurstöðu hans getið þér leitað til mín á nýjan leik með kvörtun þar að lútandi.

Með hliðsjón af ofangreindu og með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, lýk ég umfjöllun minni um kvörtun yðar.