Samgöngumál. Endurveiting ökuréttinda.

(Mál nr. 11269/2021)

Kvartað var yfir að þurfa að sækja sérstakt námskeið á vegum Samgöngustofu til að öðlast ökuréttindi á ný eftir sviptingu.

Hvorki lá fyrir hvort formleg ákvörðun um synjun þess að öðlast ökuréttindi væri fyrir hendi né að slík synjun hefði verið borin undir ráðherra samgöngu- og sveitarstjórnarmála sem æðra stjórnvalds. Því voru ekki lagaskilyrði til að taka kvörtunina til frekari athugunar.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 25. ágúst 2021, sem hljóðar svo:

  

  

Vísað er til kvörtunar yðar, dags. 19. ágúst sl., yfir því að þér þurfið að gangast undir sérstakt námskeið á vegum Samgöngustofu og standast ökupróf til að öðlast ökuréttindi á ný eftir að hafa verið svipt þeim til tveggja ára í ársbyrjun 2019, sbr. 6. mgr. 63. gr. umferðarlaga nr. 77/2019.

Samkvæmt 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er ekki unnt að kvarta til umboðsmanns, ef skjóta má máli til æðra stjórnvalds og það hefur ekki fellt úrskurð sinn í málinu.

Kvörtun yðar lýtur fyrst og fremst að því að þér teljið yður eiga rétt á því að öðlast ökuréttindi yðar á ný án þess að sækja umrætt námskeið og að ákvæði gildandi umferðarlaga nr. 77/2019, um skyldu til að sækja slíkt námskeið, eigi ekki við um tilvik yðar þar sem slík niðurstaða samrýmist ekki sjónarmiðum um takmarkanir eða bann við afturvirkni laga. Ekki verður þó ráðið af kvörtun yðar eða þeim samskiptum við sem henni fylgdu hvort fyrir liggur formleg ákvörðun um að synja yður um að öðlast ökuréttindi á ný eða að slík synjun hafi verið borin undir ráðherra samgöngu- og sveitarstjórnarmála á grundvelli 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Með vísan til 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997 tel ég ekki því ekki lagaskilyrði til að taka kvörtun yðar til frekari athugunar að svo stöddu. Ef þér teljið yður enn beitta rangsleitni að fenginni úrlausn samgöngu- og sveitarstjórnarráðun­eytisins er yður fært að leita til mín á nýjan leik innan árs frá því að sú niðurstaða liggur fyrir, sbr. 2. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997.