Heilbrigðismál. COVID-19. Bólusetningar. Börn. Foreldrar.

(Mál nr. 11271/2021)

Kvartað var yfir afstöðu landlæknisembættisins til þess að forsjáraðili barns sem fylgir því í bólusetningu þurfi ekki að framvísa umboði frá hinu forsjárforeldrinu.

Til þess að kvörtun verði borin fram við umboðsmann þarf að liggja fyrir ákveðin ákvörðun, athöfn eða athafnaleysi stjórnvalds sem beinist sérstaklega að þeim sem leggur fram kvörtun eða varðar beinlínis hagsmuni hans eða réttindi umfram aðra. Ekki varð séð að svo væri í þessu tilfelli og því ekki skilyrði fyrir umboðsmann til að fjalla um kvörtunina.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 26. ágúst 2021, sem hljóðar svo:

  

  

Vísað er til kvörtunar yðar, dags. 24. ágúst sl., sem beinist að land­læknis­embættinu og lýtur að þeirri afstöðu, sem kemur fram í svari við fyrir­spurn frá yður, að forsjáraðili barns sem fylgir því í bólusetningu þurfi ekki að framvísa umboði frá hinu forsjárforeldrinu.

Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, getur hver sá sem telur sig hafa verið beittan rangsleitni af hálfu ein­hvers þess aðila sem fellur undir starfssvið umboðsmanns kvartað af því tilefni til umboðsmanns.

Af þessu leiðir að ekki verður að jafnaði kvartað til umboðsmanns Alþingis nema kvörtunin varði tiltekna athöfn, athafnaleysi eða ákvörðun stjórnvalds sem felur í sér beitingu stjórnsýsluvalds og beinist að eða hefur að öðru leyti áhrif á hagsmuni þess sem kvartar að því marki að játa verður honum rétt til að kvarta af því tilefni. Umboðsmanni er hins vegar ekki ætlað samkvæmt lögum að láta fólki í té almennar lögfræðilegar álitsgerðir eða svara almennum spurningum varðandi tiltekin málefni eða réttarsvið.

Í 28. gr. a barnalaga nr. 76/2003 er fjallað almennt um inntak sameiginlegrar forsjár. Þar kemur fram í 2. málsl. 1. mgr. að ef foreldrar búa ekki saman hafi það foreldri sem barn á lögheimili hjá heimild til þess að taka afgerandi ákvarðanir um daglegt líf barnsins, svo sem um venjulega eða nauðsynlega heilbrigðisþjónustu. Ég skil erindi yðar þannig að þér gerið athugasemd við þá almennu afstöðu land­læknis­embættisins að líta svo á að nægilegt sé að eitt forsjárforeldri fylgi barni í bólusetningu en ekki að kvartað sé yfir tiltekinni athöfn, athafna­leysi eða ákvörðun stjórnvalds gagnvart yður.

Með vísan til þess sem að framan er rakið eru ekki uppfyllt skilyrði laga til þess að ég taki erindi yðar til nánari athugunar sem kvörtun. Ég leyfi mér að benda á að að því marki sem þér teljið umrætt álitaefni snerta hagsmuni barna getið þér beint erindi til umboðsmanns barna samkvæmt lögum nr. 83/1994, en hann getur mál til meðferðar að eigin frumkvæði eða eftir rökstuddum ábendingum samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laganna.

Með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997 læt ég máli þessu lokið.