Opinberir starfsmenn. Framhaldsskólar. Ráðningar í opinber störf. Sérstakt hæfi.

(Mál nr. 10931/2021)

A leitaði til umboðsmanns Alþingis og kvartaði yfir að mat á umsækjendum um embætti skólameistara framhaldsskólans X hefði verið ófullnægjandi og að hæfasta umsækjandanum hefði ekki verið veitt embættið. A, sem var meðal umsækjenda um starfið, byggði kvörtunina m.a. á því að ávirðingar í garð hennar, sem borist höfðu mennta- og menningarmálaráðherra, hefðu ekki verið rannsakaðar með fullnægjandi hætti. Þá taldi A að skólanefnd, sem veitti ráðherra umsögn um hæfni þeirra er sóttu um embættið, hefði ekki verið hlutlaus og óháð vegna hagsmunatengsla nefndarmanna við kennara skólans og Kennarasamband Íslands.

Með hliðsjón af gögnum málsins og að fengnum nánari skýringum frá mennta- og menningarmálaráðuneyti taldi umboðsmaður að ekki yrði annað ráðið en að ályktun um hæfasta umsækjandann hefði byggst á heildstæðu mati á grundvelli málefnalegra sjónarmiða sem ættu sér stoð í auglýsingu um embættið. Þá benti umboðsmaður á að A hefði komið á framfæri andmælum vegna áðurnefndra ávirðinga og að ráðherra hefði lagt mat á þau. Með vísan til þess og annarra upplýsinga í gögnum málsins taldi umboðsmaður sig ekki hafa forsendur til athugasemda við meðferð og rannsókn hinna neikvæðu ummæla í garð A. Að lokum benti umboðsmaður á að með vísan til ákvæða stjórnsýslulaga um sérstakt hæfi starfsmanna í opinberri stjórnsýslu yrði ekki séð að þau atriði sem tilgreind væru í kvörtuninni féllu þar undir nema meira kæmi til. Af því leiddi að hann teldi ekki efni til athugasemda við hæfi einstakra skólanefndarmanna til að fara með málið í samræmi við lögbundið hlutverk skólanefndar.

  

Umboðsmaður lauk málinu með áliti 20. ágúst 2021.

   

  

I

Vísað er til erindis yðar, dags. 3. febrúar sl., sbr. einnig fyrra erindi sama efnis, dags. 22. nóvember sl., þar sem þér kvartið yfir ákvörðun setts mennta- og menningarmálaráðherra um skipun í embætti skóla­meistara [framhaldsskólans X].

Kvörtunin lýtur að því að mat á umsækjendum hafi verið ófull­nægjandi og að hæfasta umsækjandanum hafi ekki verið veitt embættið. Meðal annars haldið þér fram í kvörtuninni að ávirðingar [varðandi yður], sem bárust mennta- og menningarmálaráðherra [...] hafi ekki verið rannsakaðar með fullnægjandi hætti [...]. Þá kemur fram í  kvörtuninni að  þér teljið skólanefnd ekki hafa verið hlutlausa og óháða í umsögn sinni vegna hagsmunatengsla nefndarmanna við kennara skólans og Kennarasamband Íslands.

Með bréfi til setts mennta- og menningamálaráðherra, dags. 15. mars sl., var óskað eftir upplýsingum og skýringum á þar tilgreindum atriðum. Svar barst með bréfi, dags. 7. júní sl., og athugasemdir yðar af því tilefni bárust 22. júní sl.

   

II

1

Við ráðningar í opinber störf ber stjórnvöldum að fylgja stjórn­sýslu­lögum nr. 37/1993 og almennum grundvallarreglum í stjórnsýslurétti um undir­búning ráðningar og mat á hæfni umsækjenda. Í íslenskum rétti hafa hins vegar ekki verið lögfestar almennar reglur um hvaða sjónarmið stjórn­völd eigi að leggja til grundvallar ákvörðun um ráðningu í opinbert starf þegar almennum hæfisskilyrðum sleppir. Meginreglan er sú að stjórnvaldið ákveður á hvaða sjónarmiðum það byggir slíka ákvörðun ef ekki er sérstaklega mælt fyrir um það í lögum eða stjórn­valds­fyrirmælum.

Í samræmi við réttmætisreglu stjórnsýsluréttar verða slík sjónar­mið að vera málefnaleg, eins og sjónarmið um menntun, starfs­reynslu, hæfni og eftir atvikum aðra persónulega eiginleika sem við­komandi stjórn­vald telur máli skipta. Þegar þau sjónarmið sem stjórn­valdið ákveður að byggja ákvörðun sína á leiða ekki öll til sömu niður­stöðu þarf að meta þau innbyrðis. Við slíkt mat gildir sú meginregla að það er stjórnvaldið sem ákveður á hvaða sjónarmið það leggur áherslu ef ekki er mælt fyrir um það í lögum eða stjórnvaldsfyrirmælum.

Í ljósi þeirrar skyldu sem hvílir á stjórnvöldum að velja þann sem telst hæfastur til að gegna viðkomandi starfi verða þau að geta sýnt fram á að heildstæður samanburður hafi farið fram á væntanlegri frammi­stöðu umsækjenda í starfinu og þá með vísan til þeirra sjónarmiða sem lögð hafa verið til grundvallar. Hafi stjórnvald aflað fullnægjandi upp­lýsinga til að geta lagt mat á hvernig einstakir umsækjendur falla að þeim málefnalegu sjónarmiðum sem ákvörðun um skipun í embætti byggist á og sýnt fram á að slíkur heildstæður samanburður hafi farið fram hefur verið litið svo á, í framkvæmd umboðsmanns sem og dómstóla, að stjórnvald njóti töluverðs svigrúms við mat á því hvaða umsækjandi sé hæfastur til að gegna starfinu.

Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er hlutverk umboðsmanns að hafa í umboði Alþingis eftirlit með stjórn­sýslu ríkis og sveitarfélaga á þann hátt sem nánar greinir í lögum og tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins. Í því sambandi legg ég á það áherslu að umboðsmaður er við athugun sína ekki í sömu stöðu og það stjórnvald sem tekur ákvörðun um hvern á að ráða í opinbert starf. Af þessu leiðir að það er ekki verkefni mitt að taka afstöðu til þess hvern hefði átt að ráða í tiltekið starf heldur eingöngu að fjalla um hvort málsmeðferð og ákvörðun stjórnvalds hafi verið lögmæt.

   

2

Í auglýsingu um embætti skólameistara X var starfs­sviði skólameistara lýst og m.a. tekið fram að skólameistari gegndi mikilvægu hlutverki í mótun skólastarfs og að mikilvægt væri að umsækjendur hefðu skýra framtíðarsýn hvað það varðaði. Þar komu einnig fram eftirfarandi hæfni- og menntunarkröfur: 

  • Skólameistari skal hafa starfsheitið framhaldsskólakennari og við­bótarmenntun í stjórnun eða kennslureynslu á framhalds­skólastigi.
  • Umfangsmikil stjórnunarreynsla, leiðtoga- og samskiptahæfni.
  • Reynsla af stefnumótunarvinnu, hæfileiki til nýsköpunar og að stýra breytingum.
  • Þekking og reynsla af stjórnsýslu er mikilvæg.
  • Þekking á fjármálum og rekstri er nauðsynleg.

Í greinargerð ráðgefandi valnefndar, sbr. 39. gr. b. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmann ríkisins, til setts mennta- og menningar­málaráðherra kemur fram að umsækjendur hafi verið metnir út frá fyrirliggjandi umsóknargögnum og viðtölum við nefndina. Gerð er grein fyrir samanburði umsækjenda með tilliti til fjögurra meginþátta; 1) stjórnunarreynslu, 2) leiðtoga- og samskiptahæfni, 3)stefnumótunar og verkefnastjórnunar og 4) framtíðarsýnar, nýsköpunar og breytinga­stjórnunar. Niðurstaða nefndarinnar að var þér ásamt B væruð báðar vel hæfar til þess að gegna starfi skóla­meistara og lagði hún til að ráðherra boðaði yður tvær til framhalds­við­tals.

Í svari mennta- og menningarmálaráðuneytis, dags. 8. janúar 2020, við beiðni yðar um rökstuðning fyrir ákvörðun um skipun í embættið kemur fram að settur mennta- og menningamálaráðherra hafi boðað alla fjóra umsækjendurna til viðtals. Í þeim viðtölum, sem ráðherra tók ásamt tveimur sérfræðingum úr mennta- og menningarmálaráðuneytinu, hafi verið lagðar fram spurningar sem lutu að fyrrgreindum meginsjónarmiðum. Í svarbréfinu kemur og fram að svör umsækjenda hafi verið metin til stiga og að umsækjandinn sem hlaut starfið hafi fengið flest stig í heildina, þ.e. 50, samanlögð stig yðar hafi verið 40 og aðrir hafi fengið færri stig. Af skýringum til umboðsmanns verður enn fremur ráðið að niðurstaða ráðherra hafi öðru fremur ráðist af sjónarmiðunum um leiðtoga- og sam­skipta­færni, stefnumótun og verkefnastjórnun ásamt framtíðarsýn og nýsköpun. Er þar m.a. vísað til fjölbreytts starfsferils umsækjandans og sýnar hennar á þær áskoranir sem skólameistari stæði frammi fyrir á sviði mannauðsmála.

Af framangreindu verður ekki ekki annað ráðið en að ályktun um hæfasta umsækjandann hafi byggst á heildstæðu mati á grundvelli málefnalegra sjónarmiða sem eiga sér stoð í auglýsingu um embættið.

Varðandi þær ávirðingar sem fram komu í aðdraganda ákvörðunar um að auglýsa skólameistaraembættið og þér kvartið yfir að hafi ekki verið rannsakaðar sem skyldi í meðferð ráðningarmálsins skal áréttað að gögn þar að lútandi urðu ekki sjálfkrafa að gögnum í ráðningarmálinu sem síðar stofnaðist til. Á hinn bóginn var einn þáttur málsmeðferðarinnar að veita yður kost á að tjá yður bæði um hina lögbundnu umsögn skóla­nefndar um umsækjendur og ávirðingar þær er fram höfðu komið í sérstakri yfirlýsingu frá hluta kennara skólans um vantraust sem send var mennta- og menningarmálaráðherra. Í svari við fyrirspurn umboðsmanns um þýðingu framangreindra gagna fyrir endanlegt mat og samanburð ráðherra kemur fram að settur ráðherra hafi farið yfir og lagt mat á andmæli yðar varðandi þessi atriði og jafnframt að hvorki áðurnefnd yfirlýsing né umsögn skólanefndar hafi skipt höfuðmáli við hið endanlega mat. Um nánara mat á vantraustsyfirlýsingunni segir enn fremur í bréfinu til umboðs­manns frá 7. júní sl. að ekki hafi verið litið svo á að hún út af fyrir sig drægi úr hæfni yðar til starfsins en hún ásamt andmælum yðar væri hins vegar til marks um „að til staðar væri tiltekinn vandi milli stjórnanda og starfsfólks skólans“. Í framhaldinu sagði að mat á því hvaða umsækjandi gæti best leyst úr þeim vanda hefði fallið undir fjöl­þætt mat á hæfni umsækjenda, sbr. sjónarmið um samskiptahæfni, starfs­mannastjórnun og framtíðarsýn. Þá kemur fram í minnisblaði sem tekið var saman um viðtölin við ráðherra að í viðtölunum laut ein spurningin að því hvernig umsækjandi sæi fyrir sér „að takast á við áskoranir í ljósi þess samskiptavanda sem liggur fyrir hjá stofnuninni“.

Með vísan til framangreindra upplýsinga tel ég mig ekki hafa for­sendur til athugasemda við meðferð og rannsókn neikvæðra ummæla í yðar garð í ráðningarferlinu, sbr. sérstakar athugasemdir þar að lútandi í kvörtun yðar.  

Að framangreindu virtu, og í ljósi þess svigrúms til mats sem játa verður stjórnvöldum við mat á því hvaða umsækjandi sé hæfastur til að gegna starfi hverju sinni, tel ég ekki ástæðu til að gera athugasemdir við endanlegt mat ráðherra og ákvörðun hans í málinu.  

   

3

Í kvörtun yðar og tilheyrandi fylgiskjölum er bent á tengsl einstakra skólanefndarmanna við kennara skólans og Kennarasamband Íslands og fram kemur að vegna þeirra teljið þér skólanefnd ekki hafa verið hlutlausa og óháða í umsögn sinni um hæfni umsækjenda. Í 1. mgr. 3. gr. stjórn­sýslu­laga nr. 37/1993 er fjallað um vanhæfisástæður í sex töluliðum. Ég fé ekki séð að þau atriði sem þér tilgreinið falli þar undir án þess að meira komi til. Þar ræður mestu að ekki verður séð að í neinu tilvikanna sé um að ræða annaðhvort bein tengsl nefndarmanns við aðila málsins og aðra sem að því komu eða fjölskyldutengsl af því tagi er sjálfkrafa valda vanhæfi. Þá er tekið fram í umsögn skólanefndar að á fyrsta fundi nefndarinnar um málið hafi skólanefndarmenn, áður en sjálf meðferð þess hófst, gætt að hæfi sínu þar að lútandi.

Með vísan til framangreinds tel ég ekki efni til athugasemda við hæfi einstakra skólanefndarmanna til að fara með málið í samræmi við lögbundið hlutverk skólanefndar og mun því ekki fjalla frekar um þann þátt kvörtunarinnar.

   

III

Ég tel að aðrar athugasemdir yðar í tengslum við ráðningarferlið gefi mér ekki tilefni til sérstakrar umfjöllunar.

Með vísan til alls þess sem að framan greinir og a-lið 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, læt ég málinu hér með lokið.