Skattar og gjöld. Kæruheimild.

(Mál nr. 11203/2021)

Kvartað var yfir synjun ríkisskattstjóra á umsókn um lækkun á fjárhæð fyrirframgreiðslu þinggjalda. 

Í ljósi þeirrar afstöðu fjármála- og efnahagsráðuneytisins að ákvæði í reglugerð, sem mælti fyrir um að ákvörðun ríkisskattstjóra væri endanleg á stjórnsýslustigi, ætti sér ekki nægilega lagastoð og því væri ákvörðunin kæranleg til ráðuneytisins benti umboðsmaður viðkomandi á að fara með erindið þá leið áður en það gæti komið til sinna kasta.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 2. september 2021, sem hljóðar svo:

   

  

Vísað er til kvörtunar yðar, dags. 29. júní sl., vegna synjunar ríkisskattstjóra á umsókn yðar um lækkun á fjárhæð fyrirframgreiðslu þinggjalda.

Í tilefni af kvörtun yðar var fjármála- og efnahagsráðuneytinu ritað bréf, dags. 12. ágúst sl., þar sem þess var óskað að ráðuneytið lýsti afstöðu sinni til þess hvort fyrirmæli 7. gr. reglugerðar nr. 1402/2020, um innheimtu þinggjalda og jöfnunargjalds á árinu 2021, þess efnis að ákvörðun ríkisskattstjóra varðandi umsókn um lækkun á fyrirframgreiðslu væri endanleg á stjórnsýslustigi, girti fyrir það að ákvörðun ríkisskattstjóra yrði borin undir ráðuneytið og ef svo væri hvort ákvæðið ætti sér nægilega lagastoð. Ástæða þeirra bréfaskipt var sú að samkvæmt 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er ekki unnt að kvarta til umboðsmanns, ef skjóta má máli til æðra stjórnvalds, fyrr en æðra stjórnvald hefur fellt úrskurð sinn í málinu.

Mér barst svar ráðuneytisins með bréfi, dags. 27. ágúst sl., þar sem fram kom að ráðuneytið fengi ekki séð að ákvæði 7. gr. reglugerðar nr. 1402/2020 ætti sér nægilega lagastoð og því væri ákvörðun ríkisskattstjóra kæranleg til ráðuneytisins.

Í ljósi afstöðu ráðuneytisins sem og fyrirmæla 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997 tel ég því rétt að þér berið erindi yðar undir fjármála- og efnahagsráðuneytið áður en þér leitið til mín með kvörtun. Ef þér teljið yður enn beitta rangsleitni að fenginni niðurstöðu þess getið þér leitað til mín á nýjan leik með kvörtun þar að lútandi.