Kosningar.

(Mál nr. 11256/2021)

Kvartað var yfir framkvæmd kosninga utan kjörfundar. Annars vegar auglýsingu frá dómsmálaráðuneytinu og hins vegar upplýsingum sem kjósendur hefðu fengið á kjörstað.

Miðað við lagagrundvöll auglýsingarinnar og svör frá dómsmálaráðuneytinu taldi umboðsmaður ekki ástæðu til að gera athugasemdir við efni eða framsetningu auglýsingarinnar eða viðbrögð ráðuneytisins við kvörtun viðkomandi. Hvað kjósendurna snerti lá fyrir að starfsmaður sýslumannsins hefði hafnað því að hafa veitt umræddur upplýsingar og jafnframt hafði sýslumaður áréttað að þær væru ekki réttar. Ekki væri tilefni til nánari athugunar á þessum þætti kvörtunarinnar.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 1. september 2021, sem hljóðar svo:

   

  

I

Vísað er til kvörtunar yðar til umboðsmanns Alþingis f.h. A, dags. 18. ágúst sl., yfir dómsmálaráðuneytinu og sýslu­manninum á höfuðborgarsvæðinu. Nánar tiltekið lýtur kvörtun yðar að fram­kvæmd kosninga utan kjörfundar, þ.e. að flokkar séu aðgreindir eftir því hvort þeir buðu fram til Alþingis í síðustu kosningum eða ekki í auglýsingu ráðuneytisins nr. 810/2021, um listabókstafi stjórn­mála­samtaka, dags. 6. júlí 2021, sem birt var í B-deild Stjórnartíðinda 9. júlí 2021. Þá vísið þér til frásagnar hjóna um að þau hafi fengið þær upplýsingar hjá sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu að ekki væri kominn listabókstafur fyrir A, framboðið væri ekki skráð og skráning þess gömul og ekki gild.

   

II

Dómsmálaráðuneytið skal halda skrá um listabókstafi stjórnmálasamtaka sem buðu fram lista við síðustu almennar alþingiskosningar. Skal skráin birt með auglýsingu eigi síðar en átta vikum fyrir hverjar almennar alþingiskosningar, sbr. 1. og 2. málsl. 1. mgr. 38. gr. laga nr. 24/2000. Í 2. mgr. segir m.a. að hyggist stjórnmálasamtök sem hafa ekki skráðan listabókstaf bjóða fram lista við alþingiskosningar skuli það tilkynnt ráðuneytinu eigi síðar en þremur sólarhringum áður en fram­boðsfrestur rennur út. Ráðuneytið ákveði bókstaf nýrra samtaka að fengnum óskum þeirra og með hliðsjón af listabókstöfum annarra stjórnmálasamtaka í undangengnum kosningum. Breytingar á auglýsingu ráðuneytisins og viðauka við hana skuli þegar birta með auglýsingu og tilkynna landskjörstjórn og yfirkjörstjórnum, sbr. 3. mgr. 38. gr. laganna.

Eins og áður greinir lýtur kvörtun yðar einkum að auglýsingu ráðuneytisins nr. 810/2021, dags. 6. júlí 2021, og því að gerður sé greinarmunur á flokkum eftir því hvort þeir hafi boðið fram lista í síðustu alþingskosningum. Eftir að hafa kynnt mér umrædda auglýsingu og svör ráðuneytisins tel ég ekki, að virtum framangreindum laga­grund­velli, ástæðu til að gera athugasemdir við efni eða framsetningu aug­lýsingarinnar eða viðbrögð dómsmálaráðuneytisins við kvörtun yðar af þessu tilefni.

Hvað varðar frásögn af samskiptum hjóna við starfsmann sýslu­mannsins á höfuðborgarsvæðinu í tengslum við atkvæðagreiðslu utan kjörfundar liggur fyrir að umræddur starfsmaður hefur hafnað því að hafa veitt umræddar upplýsingar en jafnframt hefur sýslumaður áréttað að þær séu ekki réttar og fólki bent á að það geti kosið aftur.  Almennt eru takmarkaðar forsendur til þess af hálfu umboðsmanns að leggja mat á kvörtunaratriði af þessum toga nema fyrir liggi við­hlítandi gögn eða upplýsingar. Að því virtu, sem og yfirlýsingu sýslu­mannsins á höfuðborgarsvæðinu, tel ég ekki tilefni til nánari athugunar á þessum þætti kvörtunar yðar.

  

III

Með vísan til þess sem að framan er rakið lýk ég umfjöllun minni um mál yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.