Börn. Meðlag. Hæfi. Rökstuðningur. Andmælaréttur.

(Mál nr. 11089/2021)

Kvartað var yfir úrskurði dómsmálaráðuneytisins sem staðfesti úrskurð sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu um að föður bæri að greiða aukið meðlag með barni sínu. Laut kvörtunin annars vegar að sérstöku hæfi fulltrúa sýslumanns og hins vegar rökstuðningi og niðurstöðu ráðuneytisins. 

Hvað vanhæfið snerti var byggt á að af vanhæfi fulltrúans í tengdu máli leiddi jafnframt vanhæfi í þessu máli. Um það vísaði umboðsmaður til niðurstöðu sinnar í máli nr. 11088/2021 þar sem hann hafði ekki gert athugasemdir niðurstöðu ráðuneytisins um hæfi fulltrúans í fyrra málinu. Með hliðsjón af gögnum málsins, m.a. skattframtölum, og atvikum öðrum taldi umboðsmaður ekki ástæðu til að gera athugasemdir við að ráðuneytið hefði litið svo á að aðstæður hefðu breyst frá fyrri meðlagsúrskurði eða við að ekki hefði verið talið tilefni til að gefa viðkomandi kost á að koma að frekari sjónarmiðum vegna tiltekinna gagna sem voru lögð fram í málinu. Hann taldi því ekki tilefni til að gera athugasemd við niðurstöðu ráðuneytisins.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 8. september 2021, sem hljóðar svo:

   

 

  

I

Vísað er til kvörtunar yðar til umboðsmanns Alþingis f.h. A , dags. 12. maí sl., yfir úrskurði dómsmálaráðuneytisins í máli nr. [...]. Með honum var úrskurður sýslu­mannsins á höfuðborgarsvæðinu frá 29. október sl. staðfestur þar sem um­bjóðanda yðar var gert að greiða hálft aukið meðlag með barni sínu frá 1. febrúar 2020 til 18 ára aldurs. Kvörtun yðar lýtur annars vegar að niðurstöðu ráðuneytisins um sérstakt hæfi sýslumannsfulltrúans sem kom að máli umbjóðanda yðar og hins vegar að rökstuðningi og niðurstöðu ráðu­neytisins.

  

II

1

Að því er fyrra kvörtunarefni yðar varðar, þ.e. niðurstöðu ráðuneytisins um sérstakt hæfi sýslumannsfulltrúans sem kom að máli umbjóðanda yðar, vísið þér til þeirra sjónarmiða sem fram komu í kvörtun yðar í máli nr. [...]. Þér teljið að sýslumannsfulltrúinn hafi gert sig vanhæfan í máli nr. [...]. Hann hafi því verið vanhæfur til að úrskurða um skylt sakarefni milli sömu aðila.

Í úrskurði ráðuneytisins í máli nr. [...] er bent á að ráðuneytið hafi ekki talið fulltrúann vanhæfan til þess að koma að úrlausn máls nr. [...]. Því hafi það sömuleiðis ekki talið hann vanhæfan til að koma að fyrirliggjandi máli. Með hliðsjón af niðurstöðu ráðuneytisins sem og niðurstöðu minni í máli nr. 11088/2021 tel ég ekki ástæðu til að taka þetta atriði til frekari skoðunar.

 

2

Athugasemdir yðar við rökstuðning og niðurstöðu ráðuneytisins í máli nr. [...] lúta einkum að því að ráðuneytið hafi, um sjö mánuðum áður eða 18. september 2020, úrskurðað um að föður barnsins skyldi gert að greiða einfalt meðlag með því í máli nr. [...]. Aðstæður barnsins hafi ekki breyst eftir uppkvaðningu úrskurðar ráðuneytisins í september 2020 enda hafi það þá þegar hafið skólanám sitt í Danmörku, eða í ágúst 2020. Jafnframt eru gerðar athugasemdir við að föður hafi ekki verið kynnt gögn sem óskað var eftir að móðir legði fram við meðferð málsins hjá ráðuneytinu um nám og framfærslu barnsins erlendis sem og við það að ekki hafi verið fjallað um mánaðarleg útgjöld föður og skuldastöðu hans í úrskurði ráðuneytisins. Þá gerið þér athugasemdir við að umbjóðanda yðar hafi verið gert að greiða aukið meðlag frá 1. febrúar 2020 þrátt fyrir það að ráðuneytið hafi talið hagi barnsins hafa breyst með lögheimilisskráningu þess í Danmörku í októbermánuði 2020.

Samkvæmt 1. mgr. 53. gr. barnalaga nr. 76/2003 er foreldrum skylt, báðum saman og hvoru um sig, að framfæra barn sitt. Framfærslu barns skal haga með hliðsjón af högum foreldra og þörfum barns. Samkvæmt 2. mgr. 57. gr. skal ákveða meðlag með hliðsjón af þörfum barns og fjár­hags­stöðu og öðrum högum beggja foreldra, þar á meðal aflahæfi þeirra. Þegar sett er fram krafa um aukið meðlag reynir m.a. á þessi sjónarmið (Alþt. 2002-2003, A-deild, bls. 946). Dómsmálaráðuneytið gefur að auki út leiðbeiningar um viðmiðunarfjárhæðir vegna krafna um meðlag umfram lág­marksmeðlag samkvæmt 3. mgr. ákvæðisins, sbr. 5. mgr. Í 1. mgr. 65. gr. er kveðið á um það að sýslumaður geti breytt meðlagsúrskurði stjórn­valds og ákvörðun um meðlag, sem tekin hefur verið með dómi, ef rökstudd krafa kemur fram um það, enda sé sýnt fram á að hagir foreldra eða barns hafi breyst. Af orðalagi ákvæðisins verður ekki ráðið að hagir þurfi að hafa breyst verulega eins og við á um breytingar á samkomulagi um meðlag, sbr. a-lið 1. mgr. 64. gr. barnalaga (sjá til hliðsjónar m.a. Alþt. 2002-2003, A-deild, bls. 950).

Eins og áður greinir lúta athugasemdir yðar m.a. að því að aðstæður hafi ekki breyst frá 18. september 2020, þ.e. frá því að ráðuneytið stað­festi úrskurð sýslumanns um að umbjóðanda yðar yrði gert að greiða einfalt meðlag með barni sínu frá 1. janúar 2019 til 18 ára aldurs. Umsókn móður um einfalt meðlag, dags. 15. janúar 2019, byggðist einkum á því að umbjóðandi yðar hefði greitt lægra meðlag en íslensk lög gerðu ráð fyrir. Ráðuneytið staðfesti ákvörðun sýslumanns m.a. með hliðsjón af því að samkvæmt 3. mgr. 57. gr. barnalaga væri ekki heimilt að ákvarða lægri meðlagsgreiðslur en einfalt meðlag.

Á hinn bóginn lýtur úrskurður ráðuneytisins í fyrirliggjandi máli að umsókn móður um tvöfalt meðlag, dags. 10. janúar 2020, sem byggðist einkum á því að faðir barnsins hefði ekki fengið það í umgengni til sín síðan um jólin 2018, ekki lagt neitt til framfærslu barnsins umfram hið einfalda meðlag, hann sé tekjuhærri en móðir sem og vegna kostnaðar við skólagjöld barnsins í Danmörku. Af úrskurði ráðuneytisins má ráða að einkum hafi verið byggt á því að aðstæður hafi breyst í skilningi 1. mgr. 65. gr. barnalaga í ljósi þess að barnið flutti til Danmerkur í nám. Hinn kærði úrskurður var auk þess staðfestur með hliðsjón af sjónar­miðum um að meðalmánaðartekjur móður væru umtalsvert lægri en tekjur föður sem og mati ráðuneytisins á því að faðir hefði fjárhagslega burði til þess að leggja meira til með barninu. Í úrskurðinum er m.a. tekið fram að tekjur föður hafi hækkað nokkuð frá því að hinn kærði úr­skurður var kveðinn upp.

Ákvæði 1. mgr. 65. gr. barnalaga verður að mínu mati ekki túlkað á þann veg að þeir breyttu hagir sem þar er vísað til miðist við úrskurðardag meðlagsúrskurðar stjórnvalds, í þessu tilviki úrskurð ráðu­neytisins frá 18. september 2020, heldur þær forsendur sem úrskurðurinn byggðist á sem, eins og ráða má m.a. af framangreindri umfjöllun, eru ekki þær sömu í málunum tveimur enda flutti barnið erlendis og fór í nám auk þess sem samanburður fór fram á tekjum foreldra og mat á högum föður. Með hliðsjón af framangreindu og eftir að hafa kynnt mér gögn málsins að öðru leyti tel ég ekki ástæðu til að gera athugasemdir við þá niðurstöðu ráðuneytisins að líta svo á að aðstæður hafi breyst frá fyrri meðlagsúrskurði í skilningi 1. mgr. 65. gr. barnalaga.

Hvað varðar athugasemdir yðar um að umbjóðanda yðar hafi ekki verið kynnt gögn frá móður barnsins, þ.e. um nám og framfærslu þess erlendis við meðferð málsins hjá ráðuneytinu, tek ég fram að af gögnum málsins verður ráðið að ráðuneytið hafi talið rétt að óska eftir frekari gögnum og upplýsingum frá móður um það hvort barnið stundi nám við umræddan skóla, hver framfæri það á meðan það er erlendis og staðfestingu á að hún greiði skólagjöld barnsins. Móðir barnsins hafi skilað gögnum til ráðuneytisins sem sýni að í skólagjöldum felist m.a. greiðsla fyrir kostnað vegna húsnæðis og fæðis. Þá hafi hún einnig skilað gögnum sem stað­festa skólavist barnsins og millifærslur vegna skólagjalda. Ráðu­neytið hafi í kjölfarið ekki talið tilefni til að gefa umbjóðanda yðar kost á að koma að frekari sjónarmiðum vegna umræddra upplýsinga og gagna frá móður.

Fyrir liggur að sýslumaður óskaði eftir upplýsingum frá móður um lög­heimilisflutning barnsins til Danmerkur við meðferð málsins hjá honum. Hún hafi í kjölfar þess upplýst sýslumann um að hún hafi sent barnið í skóla til Danmerkur sem kosti um 2.000.000 kr. á ári og að hún standi straum af framfærslu þess og kostnaði við skólann. Þá hafi hún sent embættinu reikninga fyrir skólagjöldum. Umbjóðanda yðar var kynnt svar móður og framlögð gögn og veittur frestur til 13. október 2020 til að leggja fram skriflegar athugasemdir sínar sem og hann gerði 8. október 2020.

Eftir að hafa kynnt mér fyrirliggjandi gögn og aðstæður málsins að öðru leyti tel ég að ekki séu efni til að gera athugasemdir við það að ráðuneytið hafi ekki talið tilefni til að gefa umbjóðanda yðar kost á að koma að frekari sjónarmiðum vegna þeirra. Hef ég hér einkum hliðsjón af því að gögnin staðfestu einungis það sem áður hafði komið fram í málinu.

Að því er varðar athugasemdir um að ekki hafi verið fjallað um mánaðarleg útgjöld umbjóðanda yðar og skuldastöðu hans í úrskurði ráðuneytisins bendi ég á að í frumvarpi því er varð að barnalögum nr. 76/2003 er gengið út frá því að litið sé til heildartekna meðlags­greiðanda þegar ákvarðað er hvort honum skuli gert að greiða aukið með­lag. Eignir og skuldir meðlagsgreiðanda hafi á hinn bóginn almennt lítil áhrif við ákvörðun meðlagsfjárhæðar, en slíkt geti þó komið til álita ef eignir eða skuldir eru verulega umfram það sem venjulegt getur talist, eða ef til óhjákvæmilegra skulda hefur verið stofnað, t.d. vegna hús­næðiskaupa vegna þarfa nýrrar fjölskyldu (sjá Alþt. 2002-2003, A-deild, bls. 946-947).

Í úrskurði ráðuneytisins er til þess vísað að það telji skuldastöðu umbjóðanda yðar ekki hafa áhrif á niðurstöðu málsins og að hann hafi fjárhagslega burði til þess að leggja meira til með barninu. Af þessu verður ekki annað ráðið en að ráðuneytið hafi litið til skuldastöðu umbjóðanda yðar við meðferð málsins og metið hana á þann veg að hún hefði ekki áhrif á niðurstöðu þess. Með hliðsjón af gögnum málsins, m.a. skatt­framtölum umbjóðanda yðar, og þeim sjónarmiðum sem rakin eru hér að framan tel ég ekki tilefni til þess að gera athugasemdir við þessa niður­­stöðu ráðuneytisins.

Að lokum, að því er varðar athugasemdir yðar í tengslum við að um­bjóðanda yðar hafi verið gert að greiða aukið meðlag frá 1. febrúar 2020, þrátt fyrir það að lögheimili barnsins hafi ekki verið flutt til Dan­merkur fyrr en nokkru seinna, tel ég rétt að árétta það sem áður hefur komið fram, þ.e. að úrskurður ráðuneytisins byggðist ekki einungis á flutningi barnsins erlendis. Auk þess er tekið fram í frumvarpi því er varð að barnalögum nr. 76/2003 að breyting á fyrirliggjandi með­lags­úrskurði miðist almennt við þann dag sem krafa er sett fram (Alþt. 2002-2003, A-deild, bls. 945). Fyrir liggur að krafa móður var sett fram 10. janúar 2020. Með hliðsjón af þessu tvennu tel ég ekki ástæðu til að gera athugasemdir við það að umbjóðanda yðar hafi verið gert að greiða aukið meðlag frá 1. febrúar 2020.

  

III

Eftir að hafa kynnt mér kvörtun yðar að öðru leyti tel ég ekki tilefni til aðgerða af minni hálfu. Með vísan til þess sem að framan er rakið lýk ég umfjöllun minni um mál yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.