Dómstólar og réttarfar. Skaðabætur. Rökstuðningur.

(Mál nr. 11211/2021)

Kvartað var yfir málsmeðferð Hæstaréttar annars vegar og hins vegar afstöðu ríkislögmanns um að skilyrði til greiðslu skaðabóta væru ekki fyrir hendi vegna hennar.

Þar sem starfssvið umboðsmanns tekur ekki til starfa dómstóla voru ekki skilyrði til að hann fjallaði um þann þátt kvörtunarinnar. Hvað ríkislögmann snerti fékk umboðsmaður ekki annað séð en hann hefði lýst afstöðu sinni til bótaskyldu með fullnægjandi hætti og ekki væri tilefni til að taka kvörtunina til frekari athugunar. Hvað þörf á frekari rökstuðningi snerti, líkt og viðkomandi taldi nauðsynlegt, benti umboðsmaður á að ítreka það við ríkislögmann. 

    

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 7. september 2021, sem hljóðar svo:

  

  

Vísað er til kvörtunar sem þér komuð á framfæri f.h. umbjóðanda yðar, A, og lýtur m.a. að málsmeðferð Hæstaréttar í máli [...]. Dómur í málinu féll [...] en þar var umbjóðandi yðar sakfelldur fyrir [...].

Samkvæmt b-lið 4. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, tekur starfssvið umboðsmanns ekki til starfa dómstóla. Eru því ekki ekki fyrir hendi skilyrði til þess að ég fjalli um málsmeðferð og niðurstöðu Hæstaréttar í máli umbjóðanda yðar eða hvort umbjóðandi yðar eigi rétt til bóta vegna málsmeðferðar dómstólsins í máli hans.

Auk ofangreinds beinist kvörtunin að þeirri afstöðu ríkislögmanns, sem hann setti fram í bréfi 28. maí sl. í tilefni af beiðni yðar þar um, að skilyrði til greiðslu skaðabóta til umbjóðanda yðar séu ekki fyrir hendi og því beri að hafna bótakröfu hans vegna málsmeðferðar Hæsta­réttar í umræddu dómsmáli.

Í tilefni af kvörtuninni, þ.e. varðandi þetta atriði sérstaklega, var ríkislögmanni ritað bréf, dags. 12. ágúst sl., þar sem þess var óskað að hann upplýsti hvort sú afstaða sem fram kom í ofangreindu bréfi hans til yðar, hefði verið sett fram á grundvelli afstöðu eða leið­beininga þess ráðherra sem fer með fyrirsvar fyrir íslenska ríkið að því er varðaði bótaskyldu í umræddu tilviki.

Í svari ríkislögmanns sem barst 30. ágúst sl. kemur fram að fyrirspurn yðar vegna máls umbjóðanda yðar hafi verið til umfjöllunar á fundi ríkislögmanns og dómsmálaráðuneytisins og komist hafi verið að þeirri sameiginlegu niðurstöðu að ekki væri rétt að ganga frá sátt í máli hans. Eftir því sem fram kemur í kvörtuninni lýtur hún að því að svar ríkislögmanns hafi ekki samrýmst skýrleikareglu stjórnsýslu­réttarins, meginreglunni um skyldubundið mat og reglunni um bann við misbeitingu valds við val á leiðum til úrlausnar máls, auk þess sem afstaða ríkislögmanns sé efnislega röng. Verður síðastgreint ekki skilið á annan hátt en að þér teljið afstöðu ríkislögmanns ekki hafa verið studda fullnægjandi lagarökum. Þá gerið þér athugasemdir við að að erindi yðar til ríkislögmanns 28. maí sl. hafi ekki verið svarað.

Af hálfu umboðsmanns Alþingis hefur áður verið fjallað um hlutverk ríkislögmanns þegar bótakröfum er beint að íslenska ríkinu. Af 2. gr. laga nr. 51/1985, um ríkislögmann, og lögskýringargögnum að baki þeim verður ekki annað ráðið en að ákvörðunarvald um viðurkenningu á bótaskyldu í einstökum tilvikum liggi hjá þeim aðilum sem kröfum er beint að þótt ríkislögmaður kunni að veita ráðgjöf vegna slíkra mála. Sjá nánar bréf setts umboðsmanns til heilbrigðisráðherra, dags. 10. apríl 2014, í máli nr. 7326/2013 sem birt er á vefsíðu umboðsmanns, www.umbodsmadur.is.

Eftir að hafa kynnt mér fyrirliggjandi gögn málsins fæ ég ekki annað séð en að ríkislögmaður hafi, fyrir hönd umbjóðanda síns, lýst afstöðu sinni til bótaskyldu með fullnægjandi hætti, þ.e. að ekki séu að hans mati skilyrði til greiðslu skaðabóta. Svo sem áður greinir tölduð þér þörf á frekari rökstuðningi fyrir þeirri afstöðu, sbr. erindi yðar 28. maí sl. sem var ósvarað þegar kvörtunin barst. Hvað þetta snertir tek ég fram að almennt hefur verið litið svo á að rétt sé að sá sem ber fram kvörtun til umboðsmanns vegna þess að stjórnvald hafi ekki svarað erindi frá honum leiti fyrst sjálfur til stjórnvaldsins með ítrekun á erindinu og gefi því þannig færi á að bregðast við.

Að öllu framangreindu virtu, og að gættum svörum ríkislögmanns við fyrirspurn umboðsmanns, tel ég ekki efni til þess að taka kvörtun yðar til frekari athugunar að því leyti sem hún beinist að ríkislögmanni.

Með hliðsjón af ofangreindu, og með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, lýk ég hér með umfjöllun minni vegna málsins. Ef ríkislögmaður bregst ekki frekar við erindi yðar frá 28. maí sl. þrátt fyrir ítrekun af yðar hálfu getið þér leitað til mín á ný með kvörtun þar að lútandi.