Kvartað var yfir álagi á skrásetningargjöld við Háskóla Íslands.
Ekki varð ráðið að leitað hefði verið til háskólaráðs sem fer m.a. með úrskurðarvald um álitefni vegna skrásetningargjalda. Var viðkomandi bent á að gera það áður en málið gæti komið til kasta umboðsmanns.
Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 7. september 2021, sem hljóðar svo:
Vísað er til kvörtunar yðar, dags. 3. ágúst sl., sem þér beinið að Háskóla Íslands og lýtur að álagi á skrásetningargjöld sem yður var gert að greiða á þeim grundvelli að greiðsla hefði borist frá yður eftir eindaga sem hafi verið 4. júlí sl. Í kvörtuninni vísið þér til þess að með tölvupóstum, dags. 16. og 24. júní sl., hafi nemendum verið tilkynnt um að ekki yrðu lengur sendir greiðsluseðlar í netbanka nemenda fyrir árlegu skrásetningargjaldi heldur þyrftu nemendur þess í stað að greiða gjaldið í gegnum innra net skólans, Uglu. Teljið þér þann fyrirvara sem nemendum var gefinn of skamman og að unnt hefði verið að koma í veg fyrir óþarfa álagsgreiðslur hefði nemendum verið tilkynnt um þessa breytingu fyrr.
Í tilefni af kvörtun yðar tek ég fram að samkvæmt 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er ekki unnt að kvarta til umboðsmanns, ef skjóta má máli til æðra stjórnvalds, fyrr en æðra stjórnvald hefur fellt úrskurð sinn í málinu. Ákvæði þetta er byggt á því sjónarmiði að stjórnvöld skuli fá tækifæri til að leiðrétta ákvarðanir eða annað í störfum sínum sem ekki er í samræmi við lög áður en leitað er til aðila utan stjórnkerfis þeirra með kvörtun.
Ástæða þess að ég geri yður grein fyrir þessu er sú að samkvæmt 2. mgr. 5. gr. laga nr. 85/2008, um opinbera háskóla, fer háskólaráð Háskóla Íslands með úrskurðarvald í málefnum skólans, þ.m.t. úrskurðarvald í tengslum við álitaefni sem varða skrásetningargjöld. Af kvörtun yðar verður ekki ráðið að þér hafið enn sem komið er leitað til háskólaráðs með athugasemdir yðar.
Með hliðsjón af ofangreindu og með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, lýk ég umfjöllun minni um kvörtun yðar. Ég tek þó fram að fari svo að þér berið athugasemdir yðar undir háskólaráð og teljið þér yður enn rangsleitni beitta, að fenginni niðurstöðu þess, getið þér að sjálfsögðu leitað til mín á nýjan leik með kvörtun þar að lútandi.