Jafnréttismál. Starfssvið umboðsmanns Alþingis.

(Mál nr. 11252/2021)

Kvartað var yfir stjórnsýslu forsætisráðuneytis í tengslum við umsýslu þess vegna Jafnréttisráðs. Nánar tiltekið að aðilum ráðsins hefði aðeins verið boðið að senda einn fulltrúa á fund og ekki verið haft samráð um dagskrá fundarins.

Almennt er ekki gert ráð fyrir að stjórnvöld, eða einstakir fulltrúar í ráðum eða nefndum innan stjórnsýslunnar, geti leitað beint til umboðsmanns vegna ágreinings innan eða milli stjórnvalda um innri málefni þeirra nema slíkt geti haft þýðingu fyrir réttarstöðu viðkomandi. Að virtu lögbundnu hlutverki ráðsins var talið að slíku væri ekki til að dreifa í þessu tilviki og því ekki lagaskilyrði til að umboðsmaður fjallaði um kvörtunina.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 7. september 2021, sem hljóðar svo:

  

  

Vísað er til erindis yðar, dags. 27. ágúst sl., þar sem þér kvartið yfir stjórnsýslu forsætisráðuneytis í tengslum við umsýslu þess vegna Jafn­réttis­ráðs en samkvæmt gögnum málsins takið þér þátt í starfi ráðsins sem fulltrúi [...]. Nánar tiltekið lýtur kvörtunin að því að aðilum ráðsins hafi aðeins verið boðið að senda einn fulltrúa á fund ráðsins 11. júní sl. og að ekki hafi verið haft samráð við aðilana um dagskrá fundarins.

Samkvæmt 24. gr. laga nr. 150/2020, um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, er Jafnréttisráð sérstakur samráðsvettvangur um jafnrétti kynjanna sem hefur það hlutverk að vera ráðherra jafnréttismála, nú for­sætis­ráherra, til ráðgjafar við faglega stefnumótun í málum sem tengjast jafnrétti kynjanna, sbr. 1. mgr. ákvæðisins. Samkvæmt 3. mgr. 24. gr. annast ráðuneyti sem fer með jafnréttismál umsýslu vegna Jafnréttisráðs, m.a. með því að auglýsa samráðsvettvanginn og gefa aðilum tækifæri á að óska eftir þátttöku. Önnur verkefni sam­ráðs­vett­vangsins ákveður ráðuneytið hverju sinni eftir því sem við á. Nánar er kveðið á um hlutverk, starfshætti og verkefni Jafnréttisráðs í reglugerð nr. 460/2021, um Jafnréttisráð – samráðsvettvang um jafnrétti kynjanna, þ.á m. um þátttöku í ráðinu, sbr. 3. gr. reglugerðarinnar.

Í 2. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, segir að það sé hlutverk umboðsmanns að hafa í umboði Alþingis eftirlit með stjórn­sýslu ríkis og sveitarfélaga á þann hátt sem nánar greinir í lögunum og tryggja rétt „borgaranna“ gagnvart stjórnvöldum landsins. Samkvæmt 4. gr. laganna getur hver sá sem telur stjórnvald hafa beitt sig rangindum borið fram kvörtun við umboðsmann. Í athugasemdum með frumvarpi því sem síðar varð að lögum nr. 85/1997 kemur fram að stjórnvöld geti ekki kvartað við umboðsmann yfir ákvörðunum og athöfnun annarra stjórnvalda eða óskað lögfræðilegs álits umboðsmanns á máli. Þá segir að aðrir geti ekki borið fram kvörtun en þeir sem haldi því fram að þeir hafi sjálfir orðið fyrir rangsleitni af hálfu stjórnvalda. (Alþt. 1996-1997, A-deild, bls. 2329-2330.)

Af framangreindu leiðir að almennt er ekki gert ráð fyrir að stjórnvöld, eða einstakir fulltrúar í ráðum eða nefndum innan stjórn­sýslunnar, geti leitað beint til umboðsmanns þegar um er að ræða ágreining innan eða milli stjórnvalda um innri málefni þeirra nema slíkt geti haft þýðingu fyrir réttarstöðu viðkomandi. Í ljósi þessa og að virtu hlutverki ráðsins samkvæmt fyrrgreindum ákvæðum 24. gr. laga nr. 150/2020 og reglugerðar nr. 460/2021 verður ekki ráðið að þær athafnir sem kvörtunin lýtur að hafi slíka þýðingu gagnvart yður eða þeim félagasamtökum sem tilnefndu yður sem fulltrúa sinn í Jafnréttisráði að þér teljist hafa nægjanlegra hagsmuna að gæta til að geta kvartað til umboðsmanns Alþingis. Af þeim ástæðum eru ekki lagaskilyrði til þess að ég fjalli um framangreinda kvörtun yðar. 

Með vísan til þess sem að framan greinir og 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, læt ég málinu hér með lokið.