Lífeyrismál. Samningar. Styrkveiting.

(Mál nr. 11265/2021)

Kvartað var yfir ákvörðun fjármála- og efnahagsráðuneytisins um að tilteknum samtökum bæri sem launagreiðanda að greiða sérstakt iðgjald, tengt lífeyrisauka.

Umboðsmaður taldi ekki efni til athugasemda við að ráðuneytið flokkaði samning viðkomandi ekki sem „þjónustusamning við ríkissjóð“ og þar með þá afstöðu þess að starfsemi umræddra samtaka teldist ekki vera einkanlega fjármögnuð með skatttekjum, lögbundnum þjónustutekjum eða framlögum. Það leiddi aftur til þess að samtökunum bar að greiða iðgjaldið.

    

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 8. september 2021, sem hljóðar svo:

  

  

I

Vísað er til erindis yðar, dags. 20. ágúst sl., þar sem þér kvartið yfir ákvörðun fjármála- og efnahagsráðuneytisins frá 16. sama mánaðar um að X beri sem launagreiðanda að greiða sér­stakt iðgjald, tengt lífeyrisauka, á grundvelli 1. málsl. 8. mgr. ákvæðis til bráðabirgða nr. IX í lögum nr. 1/1997 um Lífeyrissjóð starfs­manna ríkisins. Í kvörtuninni er því haldið fram að ákvörðun ráðu­neytisins byggist á rangri flokkun samtakanna og þar með falli þau ekki undir gildissvið umrædds lagaákvæðis. Vísað er til þess að samtökin séu með þjónustusamning við ríkissjóð sem nemi meira en helmingi tekna þeirra og eigi þar með að vera undanþegin greiðslu hins sérstaka iðgjalds.

  

II

Í 1. málsl. 8. mgr. ákvæðis til bráðabirgða nr. IX í lögum nr. 1/1997 er mælt fyrir um að launagreiðendur sem ekki eru einkanlega fjármagnaðir með skatttekjum, lögbundnum þjónustutekjum eða framlögum skuli greiða ríkissjóði til baka þann hluta af framlagi því sem ríkissjóður greiðir skv. 1. mgr. bráðabirgðaákvæðisins og fer til þess að greiða líf­eyris­auka starfsmanna þessara launagreiðenda. Samkvæmt 2. málsl. ákvæðisins fer þessi endurgreiðsla þannig fram að launagreiðendur, aðrir en ríkis­aðilar í B- og C-hluta ríkisreiknings, greiða sérstakt iðgjald sem standa á undir lífeyrisauka þessara starfsmanna. Með lögum nr. 127/2016, um breytingu á lögum um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, nr. 1/1997, með síðari breytingum (breyting á A-deild sjóðsins), bættust sjö ný ákvæði til bráðabirgða við lögin, þ.m.t. framangreint ákvæði. Í athuga­semdum við frumvarp til breytingalaganna, sem tóku gildi 1. janúar 2017, kemur fram að meginefni frumvarpsins sé byggt samkomulagi á milli Banda­lags háskólamanna, BSRB og Kennarasambands Íslands, annars vegar, og fjár­mála- og efnahagsráðherra f.h. ríkissjóðs og Sambands íslenskra sveitar­félaga hins vegar, um breytingar á skipan lífeyrismála opinberra starfs­manna sem gert var í september 2016. Í samkomulaginu, sem undir­ritað var 19. september 2016 og vísað er til í gögnum sem fylgdu kvörtun yðar, segir m.a., sbr. lið 4a):

„Ríki og sveitarfélög tryggja núverandi sjóðfélögum í A- deildum LSR og Brúar sem starfa hjá stofnunum og félögum í þeirra í eigu (aðilar í B- og C-hluta ríkisreiknings, sbr. 50. gr. laga um opinber fjármál nr. 123/2015 og samsvarandi aðilar í B- hluta sveitarsjóða og byggðasamlög) rétt sem leiðir af greiðslu iðgjalda í lífeyrisaukasjóði og að þeir sæti ekki neinskonar mismunun sem af því kann að hljótast, s.s. vegna kostnaðar. Fyrirtæki og stofnanir í A-, B- og C-hluta ríkisreiknings og samsvarandi aðilar hjá sveitarfélögum greiða 15,5% iðgjald. Lífeyrisaukasjóðurinn greiðir það sem vantar upp á breytilegt iðgjald fyrir hvern sjóðfélaga en um endurkröfu fer skv. fyrirliggjandi drögum að frumvarpi til laga um breytingar á lögum um LSR. Aðrir launagreiðendur greiða breytilegt iðgjald. Breytilegt iðgjald er ákveðið af stjórn sjóðsins árlega og skal það vera eitt og hið sama fyrir alla sjóðfélaga."

Samkvæmt framangreindum lið samkomulagsins eru „aðrir launagreiðendur“ afmarkaðir með vísun til 50. gr. laga nr. 123/2015, þ.e. launagreiðendur sem ekki eru með starfsemi sem er „einkanlega fjármögnuð með skatt­tekjum, lögbundnum þjónustutekjum eða framlögum“. Í athugasemdum við 50. gr. frumvarps til laga nr. 123/2015 kemur fram að orðanotkunin „einkan­lega“ jafngildi „að stærstum hluta“.

Í samræmi við það sem að framan er rakið hefur í svörum og skýringum fjármálaráðuneytisins, sem fylgdu kvörtun yðar, komið fram að við flokkun launagreiðenda m.t.t. túlkunar á áðurnefndu ákvæði 1. málsl. 8. mgr. ákvæðis til bráðabirgða nr. IX í lögum nr. 1/1997 hafi ráðuneytið  miðað við að launagreiðendur, sem eru með þjónustusamning við ríkissjóð sem nemi meira en helmingi tekna þeirra, heyri ekki undir ákvæðið.  

Í kvörtun yðar kemur fram að einu tekjur X séu styrkur frá atvinnu- og nýsköpunarráðuneytinu sem greiddur er á grundvelli sérstaks samnings þar um, dags. 19. febrúar sl. Í samningnum er kveðið á um að styrkinn skuli nýta til verkefna sem nánar eru tilgreind í sex stafliðum. Af efni samningsins í heild verður þó ekki annað ráðið en að hann sé gerður á grundvelli 42. gr. laga nr. 123/2015 sem kveður á um að hverjum ráðherra sé heimilt að veita tilfallandi styrki og framlög til verkefna sem varða þá málaflokka sem þeir bera ábyrgð á. Af því leiðir jafnframt að ég tel ekki efni til athugasemda við að fjármálaráðuneytið flokki samninginn ekki sem „þjónustu­samning við ríkissjóð“ og þar með þá afstöðu þess að starfsemi X teljist ekki vera einkanlega fjár­mögnuð með skatttekjum, lögbundnum þjónustutekjum eða framlögum í skilningi 1. málsl. 8. mgr. ákvæðis til bráðabirgða nr. IX í lögum nr. 1/1997.

  

III

Með vísan til alls þess sem að framan greinir og 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, læt ég málinu hér með lokið.