Almannatryggingar. Örorkulífeyrir. Endurgreiðslukrafa.

(Mál nr. 11277/2021)

Kvartað var yfir að fátæku fólki sé ekki tryggð fullnægjandi framfærsla.

Til þess að kvörtun verði borin fram við umboðsmann þarf að liggja fyrir ákveðin ákvörðun, athöfn eða athafnaleysi stjórnvalds sem beinist sérstaklega að þeim sem leggur fram kvörtun eða varðar beinlínis hagsmuni hans eða réttindi umfram aðra. Ekki varð séð að svo væri hvað laut almennt að fjárhæð örorkulífeyris eða annarra bóta sem ákveðnar eru með lögum og því ekki skilyrði að lögum til að umboðsmaður fjallaði frekar um það.

Að því marki sem kvörtunin kynni að beinast að skerðingu á greiðslum til viðkomandi benti umboðsmaður á að úrskurðarnefnd velferðarmála kvæði upp úrskurði um ágreining þar að lútandi. Úrskurður nefndarinnar yrði að liggja fyrir áður en umboðsmaður gæti fjallað um málið.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 9. september 2021, sem hljóðar svo:

   

  

Vísað er til kvörtunar yðar, dags. 30. ágúst sl. sem lýtur að því að fátæku fólki sé ekki tryggð fullnægjandi framfærsla. Kvörtuninni fylgdu afrit af greiðsluskjali frá Tryggingastofnun, húsaleigusamningur og ská­skot af „mínum síðum“ Tryggingastofnunar sem virðist bera með sér að greiðslur til yðar hafi verið skertar 1. september sl.

Í tilefni af erindi yðar tek ég fram að hlutverk umboðsmanns Alþingis er að hafa í umboði Alþingis eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitar­félaga á þann hátt sem nánar greinir í lögum og tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins, sbr. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Í lögunum er gengið út frá því að megin­viðfangsefni umboðsmanns sé að taka við kvörtunum frá borgurunum og láta þeim í té álit um það hvort stjórnvöld hafi leyst með réttum hætti úr máli þeirra. Það fellur hins vegar utan starfssviðs umboðsmanns Alþingis að fjalla um störf Alþingis og stofnana þess, sbr. a-lið 4. mgr. 3. gr. laganna.

Í 2. mgr. 4. gr. laga nr. 85/1997 er jafnframt tekið fram að hver sá sem telur sig hafa verið beittan rangsleitni af hálfu einhvers aðila sem eftirlit umboðsmanns tekur til geti kvartað af því tilefni til umboðsmanns. Í samræmi við þetta er það almennt skilyrði fyrir því að umboðs­maður geti tekið kvörtun til meðferðar að hún varði tiltekna ákvörðun, athöfn eða athafnaleysi stjórnvalds sem felur í sér beitingu stjórnsýsluvalds og beinist að eða hefur að öðru leyti áhrif á hagsmuni þess sem kvartar umfram aðra. Þá er mælt fyrir um skilyrði þess að kvörtun verði tekin til meðferðar í 6. gr. laga nr. 85/1997 og kemur þar m.a. fram að ekki sé unnt að kvarta til umboðsmanns fyrr en æðra stjórn­vald hefur fellt úrskurð í máli, sbr. 3. mgr. ákvæðisins.

Að því leyti sem kvörtun yðar beinist almennt að fjárhæð örorku­líf­eyris eða annarra bóta sem ákveðnar eru með lögum get ég ekki tekið hana til frekari umfjöllunar, sbr. framangreinda umfjöllun.

Að því marki sem hún kann að beinast að skerðingu á greiðslum til yðar bendi ég á að í 13. gr. laga nr. 100/2007, um almannatryggingar, kemur m.a. fram að rísi ágreiningur um grundvöll, skilyrði eða fjárhæð bóta eða greiðslna samkvæmt lögunum kveði úrskurðarnefnd velferðarmála upp úrskurð í málinu. Sama gildir um ágreining um endurkröfurétt, of­greiðslur og innheimtu þeirra. Kæra til úrskurðarnefndar velferðarmála skal vera skrifleg og skal hún borin fram innan þriggja mánaða frá því að aðila máls var tilkynnt um ákvörðunina. Hjá Tryggingastofnun og þjónustu­stöðvum hennar skuli liggja frammi eyðublöð í þessu skyni og skulu starfsmenn stofnunarinnar veita nauðsynlega aðstoð við útfyllingu þeirra.

Ef þér kjósið að leita með mál yðar til úrskurðarnefndarinnar og teljið yður beitta rangsleitni að fenginni niðurstöðu hennar getið þér leitað til mín að nýju með kvörtun þar að lútandi, innan árs frá því að sú niðurstaða liggur fyrir, sbr. 2. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997.

Eigi skerðing á bótagreiðslum til yðar 1. september sl. rætur að rekja til endurkröfu vegna ofgreiddra bóta tel ég að lokum rétt að benda yður á að samkvæmt 11. gr. reglugerðar nr. 598/2009, um útreikning, endur­reikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags, er Trygginga­stofnun heimilt að falla frá endurkröfu að fullu eða að hluta ef alveg sérstakar aðstæður eru fyrir hendi. Skal þá einkum litið til fjárhagslegra og félagslegra aðstæðna bótaþega og þess hvort hann var í góðri trú um greiðslurétt sinn. Ef þér teljið tilefni til getið þér freistað þess að óska eftir slíkri undanþágu frá endurkröfu. Með þessari ábendingu hef ég þó enga afstöðu tekið til þess hvaða afgreiðslu slík beiðni ætti að hljóta hjá Tryggingastofnun.

Með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997 læt ég athugun minni á máli þessu lokið.