Samgöngumál. Vegamál. Skaðabætur.

(Mál nr. 10970/2021)

Kvartað var yfir afgreiðslu samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins á erindi sem laut að synjun Vegagerðarinnar um bætur vegna svokallaðrar tjörublæðinga.

Eftir nokkrar ítrekanir á beiðni um skýringar og upplýsingar frá ráðuneytinu barst umboðsmanni svar þar sem fram kom að ákveðið hefði verið að taka erindið til skoðunar á grundvelli yfirstjórnar- og eftirlitsheimilda ráðuneytisins. Þar með lét umboðsmaður athugun sinni lokið.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 16. september 2021, sem hljóðar svo:

   

  

Vísað er til kvörtunar yðar 5. mars sl. yfir afgreiðslu samgöngu- og sveitar­stjórnarráðuneytisins á erindi yðar sem laut að synjun Vegagerðarinnar um bætur vegna svokallaðra tjöru­blæðinga.

Í tilefni af kvörtuninni var samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra ritað bréf, dags. 12. apríl sl., þar sem óskað var eftir tilteknum skýringum og upplýsingum. Fyrirspurnin var ítrekuð 2. júní, 26. júlí og 15. september sl.

Mér hefur nú borist hjálagt svarbréf ráðuneytisins þar sem fram kemur að það hafi ákveðið að taka erindi yðar til skoðunar á grundvelli yfirstjórnar- og eftirlitsheimilda sinna.

Með vísan til framangreinds læt ég athugun minni á máli þessu lokið, sbr. a-lið 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Undirritaður var kjörinn umboðsmaður Alþingis 26. apríl sl. og hefur farið með mál þetta frá 1. maí sl.