Tafir hjá stjórnvaldi á afgreiðslu máls. Eignir ríkisins. Opinber innkaup og útboð. Ráðstöfun ríkiseigna.

(Mál nr. 11219/2021)

Kvartað var yfir eftirlitsnefnd fasteignasala, atvinnuvega og nýsköpunarráðuneytinu, Ríkiskaupum, Vegagerðinni og Landhelgisgæslunni. Laut kvörtunin m.a. að því að erindum til eftirlitsnefndarinnar og ráðuneytisins hefði ekki verið svarað

Að því marki sem kvörtunin beindist að Ríkiskaupum, Vegagerðinni og Landhelgisgæslunni varð ekki séð að það snerti beinlínis hagsmuni viðkomandi eða réttindi. Því voru ekki forsendur til að umboðsmaður tæki þann þátt til meðferðar en leiðbeindi hann hins vegar um leiðir til að koma athugasemdum á framfæri við viðeigandi stjórnvöld. Hvað snerti tafir á svörum frá stjórnvöldum var ljóst að nefndin hafði upplýst um þann farveg sem erindin voru lögð í og að meðferð þeirra væri lokið. Ráðuneytið hefði einnig lagt erindin í farveg og svara að vænta innan tíðar. Ekki var því ástæða fyrir umboðsmann til að aðhafast frekar.

    

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 15. september 2021, sem hljóðar svo:

   

  

I

Vísað er til kvörtunar yðar f.h. A ehf., dags. 13. júlí sl., sem beinist að eftirlitsnefnd fasteignasala, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, Ríkiskaupum, Vegagerðinni og Landhelgisgæslunni. Kvörtunin snýr m.a. að því að erindum félagsins til eftirlitsnefndar fasteignasala og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins hafi ekki verið svarað. Lutu erindin til eftirlitsnefndar fasteignasala, dags. 21. maí og 6. júlí sl., að því hvernig staðið var að útboði á varðskipi fyrir Landhelgisgæslu Íslands og sölumeðferð á skipinu Herjólfi III. Þá laut erindi félagsins til ráðuneytisins frá 8. júlí sl. að sama efni. Af kvörtuninni verður enn fremur ráðið að í því felist efnislegar athugasemdir við framkvæmd útboðsins vegna kaupa á nýju varðskipi Landhelgisgæslunnar og sölumeðferð Herjólfs III með tilliti til hagsmuna innlendra skipasala.

   

II

Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, getur hver sá sem telur sig hafa verið beittan rangsleitni af hálfu einhvers þess aðila, sem fellur undir starfssvið umboðsmanns Alþingis, kvartað af því tilefni til umboðsmanns. Í þessu ákvæði felst að aðrir geta ekki borið fram kvörtun til umboðsmanns en þeir sem halda því fram að þeir hafi sjálfir orðið fyrir rangsleitni af hálfu stjórnvalda. Kvörtunin verður því að sýna fram á að brot stjórnvalds geti snert beinlínis hagsmuni hans eða réttindi. (Sjá nánar Alþt. 1996-1997, A-deild, bls. 2329-2330.)

Fyrir liggur að A ehf. var ekki meðal þeirra sem gerðu tilboð í kaup á varðskipinu Freyju. Þá verður ekki ráðið af kvörtun yðar að félagið hafi haft hug á því að sjá um sölu á Herjólfi III heldur virðast athugasemdir yðar fyrst og fremst settar fram vegna almennra hagsmuna innlendra skipasala. Af þeim sökum eru ekki uppfyllt skilyrði 2. mgr. 4. gr. laga nr. 85/1997 til þess að kvörtun yðar, að því marki sem hún beinist að Ríkiskaupum, Vegagerðinni og Landhelgisgælunni, verði tekin til meðferðar. Ég bendi yður aftur á móti á að þér getið komið athugasemdum yðar á framfæri við þessi stjórnvöld. Auk þess bendi ég á að Herjólfur III er í eigu Vegagerðarinnar sem lýtur yfirstjórn samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins, sbr. r-lið 2. tölul. 1. mgr. 8. gr. forsetaúrskurðar nr. 119/2018, um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands. Í samræmi við framangreint kann yður að vera fært, teljið þér tilefni til, að koma athugasemdum yður um sölu skipsins á framfæri við ráðuneytið. Ég tek þó fram að með þessu hef ég enga afstöðu tekið til þess hvaða meðferð og afgreiðslu slíkt erindi ætti að hljóta.

   

III

Í símtali yðar við starfsmann umboðsmanns, dags. 9. ágúst sl., greinduð þér frá því að 6. ágúst sl. hefði yður borist svar frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu þar sem beðist hafi verið afsökunar á því að dregist hefði að svara erindi yðar frá 8. júlí sl. vegna sumarleyfa, auk þess sem tekið hafi verið fram  að erindið yrði tekið til meðferðar. Afrit af svari ráðuneytisins barst mér 9. ágúst sl.

Í tilefni af kvörtun yðar var eftirlitsnefnd fasteignasala ritað bréf, dags. 10. ágúst sl., þar sem óskað var eftir upplýsingum um hvort erindi félagsins hefðu borist og þá hvað liði meðferð og afgreiðslu þeirra. Mér hefur nú borist svar nefndarinnar, dags. 13. september sl., sem hér fylgir hjálagt í ljósriti. Þar kemur fram að með tölvupóstum, dags. 21. maí og 8. júlí sl., hafi félaginu verið greint frá því að erindi þess hefðu verið móttekin sem ábendingar til nefndarinnar, sbr. 4. mgr. 21. gr. laga nr. 70/2015, um sölu fasteigna og skipa, og að þau yrðu lögð fyrir nefndina til skoðunar á þeim grundvelli. Ábendingarnar hafi verið teknar fyrir á fundum nefndarinnar þar sem niðurstaðan hafi verið sú að það félli utan heimilda hennar að aðhafast vegna þeirra. Þá er tekið fram að samkvæmt 1. mgr. 7. gr. reglugerðar nr. 931/2016, um eftirlitsnefnd fasteignasala, eigi þeir sem sendi inn ábendingu til nefndarinnar ekki aðild að slíku máli.

Sem fyrr segir lýtur kvörtun yðar að þessu leyti að því að erindum A ehf. hafi ekki verið svarað. Af svörum nefndarinnar er ljóst að félagið var upplýst um þann farveg sem erindi þess voru lögð í og er meðferð hennar á þeim nú lokið. Hvað varðar tafir á afgreiðslu atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins fæ ég ráðið af svari þess að erindi félagsins hafi verið lagt í farveg og að svara sé að vænta innan tíðar.

Í ljósi framangreinds tel ég ekki ástæðu til að aðhafast frekar í tilefni af kvörtun yðar. Gangi fyrirætlanir ráðuneytisins ekki eftir getur félagið leitað til mín á ný að undangenginni skriflegri ítrekun erindisins. 

   

IV

Með vísan til framangreinds lýk ég meðferð minni á máli yðar með vísan til 1. mgr. og a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.