Tafir hjá stjórnvaldi á afgreiðslu máls. Útlendingar. Frestun réttaráhrifa.

(Mál nr. 11276/2021)

Kvartað var yfir töfum á afgreiðslu kærunefndar útlendingamála á beiðni um frestun réttaráhrifa á meðan endurupptökubeiðni væri til meðferðar hjá nefndinni.

Í svari frá nefndinni kom fram að úrskurður um frestun réttaráhrifa hefði verið kveðinn upp og sendur viðkomandi. Umboðsmaður lét því athugun sinni á málinu lokið en skráði um leið ábendingu sem komið var á framfæri í símtali um almennar tafir á afgreiðslu mála af þessu tagi hjá nefndinni.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 15. september 2021, sem hljóðar svo:

  

  

Vísað er til kvörtunar yðar f.h. A, sem barst 27. ágúst sl., og laut að töfum á afgreiðslu kærunefndar útlendingamála á beiðni um frestun réttaráhrifa á meðan endurupptökubeiðni væri til með­ferðar hjá nefndinni.

Í tilefni af kvörtun yðar var kærunefndinni ritað bréf, dags. 30. ágúst sl., þar sem þess var óskað að upplýst yrði hvað liði meðferð og afgreiðslu málsins. Hinn 31. ágúst sl. barst svar nefndarinnar þess efnis að úrskurður um frestur réttaráhrifa hefði verið kveðinn upp á fundi 20. ágúst sl. og sendur yður með ábyrgðarbréfi 24. ágúst sl. Með símtali sama dag staðfestuð þér að þér hefðuð nú fengið úrskurðinn í hendur en komuð jafnframt á framfæri ábendingu um að almennar tafir væru á afgreiðslu mála af þessu tagi hjá kærunefndinni.

Þar sem kvörtun yðar laut að því að beiðni A hefði ekki verið afgreidd og það hefur nú verið gert læt ég athugun minni á málinu lokið með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Ábending sú sem þér komuð á framfæri í símtali hefur jafnframt verið skráð.