Skattar og gjöld. Póst- og fjarskiptamál. Póstþjónusta.

(Mál nr. 11279/2021)

Kvartað var yfir að við breytingu á lögum um póstþjónustu hefði rekstraraðilum verið heimilað að setja gjaldskrá fyrir erlendar póstsendingar án þess að mælt hefði verið fyrir um hámark gjalds.

Þar sem það er almennt ekki á verksviði umboðsmanns að taka afstöðu til þess hvernig til hefur tekist með löggjöf sem Alþingi hefur sett voru ekki lagaskilyrði til að hann fjallaði um kvörtunina að þessu leyti. Hvað Íslandspóst ohf. snerti fól sú starfsemi félagsins sem erindið laut að ekki í sér beitingu opinbers valds og féll því ekki heldur undir starfssvið umboðsmanns. Benti hann viðkomandi á að það kynni að vera möguleiki að bera ágreininginn undir Byggðastofnun.

    

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 15. september 2021, sem hljóðar svo:

   

  

Vísað er til erindis yðar, dags. 31. ágúst sl., þar sem þér kvartið yfir að við setningu laga nr. 23/2019, um breytingu á lögum um póstþjónustu, nr. 19/2002, hafi rekstraraðilum verið heimilað að setja gjaldskrá fyrir erlendar póstsendingar án þess að mælt hafi verið fyrir um hámark gjalds. Ný heildarlög um póstþjónustu, nr. 98/2019 tóku gildi í byrjun árs 2020 þar sem sömu heimild er að finna.

Starfsvið umboðsmanns, sbr. a-lið 4. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, tekur ekki til starfa Alþingis. Það er því almennt ekki á verksviði umboðsmanns Alþingis að taka afstöðu til þess hvernig til hefur tekist með löggjöf sem Alþingi hefur sett. Með 11. gr. laga nr. 85/1997 er umboðsmanni Alþingis þó veitt heimild til að tilkynna Alþingi, hlutaðeigandi ráðherra eða sveitarstjórn ef hann verður var við meinbugi á gildandi lögum eða almennum stjórnvaldsfyrirmælum í störfum sínum. Í lögum er hins vegar ekki gert ráð fyrir því að kvörtun verði borin fram við umboðsmann á þessum grundvelli, þótt vitanlega sé öllum frjálst að koma á framfæri við umboðsmann ábendingum um slík atriði, heldur eru slík mál tekin til athugunar að eigin frumkvæði umboðsmanns á grundvelli 5. gr. laga nr. 85/1997.

Jafnframt beinist kvörtun yðar að Íslandspósti ohf. Samkvæmt 3. gr. laga nr. 85/1997 tekur starfssvið umboðsmanns Alþingis til stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga auk starfsemi einkaaðila að því leyti að þeim hefur að lögum verið fengið opinbert vald til að taka ákvarðanir um rétt eða skyldu manna í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Önnur starfsemi einkaaðila fellur hins vegar ekki undir starfssvið umboðsmanna Alþingis eins og það er markað í lögum nr. 85/1997.

Íslandspóstur ohf. er opinbert hlutafélag sem m.a. starfar á grundvelli laga nr. 2/1995, um hlutafélög. Félagið starfar því á grundvelli einkaréttar þótt það sé í eigu ríkisins en ber skyldur sem alþjónustuveitandi samkvæmt lögum nr. 98/2019. Sú starfsemi félagsins sem erindi yðar lýtur að felur aftur á móti ekki í sér beitingu opinbers valds í skilningi 3. gr. laga nr. 85/1997 og fellur því ekki undir starfssvið mitt samkvæmt þeim lögum. Ég bendi yður aftur á móti á að yður kann að vera fært að bera ágreining sem erindi yðar lýtur að undir Byggðastofnun. Í 3. mgr. 32. gr. laga nr. 98/2019 segir að telji neytendur póstþjónustu, eða aðrir sem hagsmuna hafa að gæta, að póstrekandi brjóti gegn skyldum sínum samkvæmt lögunum eða gegn skilyrðum sem mælt er fyrir um í almennum heimildum, réttindum eða í rekstrarleyfi eða skilgreindum alþjónustukvöðum getur hlutaðeigandi beint kvörtun til Byggðastofnunar um að hún láti málið til sín taka. Með þessari ábendingu hef ég þó enga afstöðu tekið til þess hvaða meðferð slík kvörtun ætti að hljóta hjá stofnuninni.

Með vísan til framangreinds og 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997 er umfjöllun minni um erindi yðar lokið.