Almannaskráning. Trú- og lífsskoðunarfélög. Foreldrar. Forsjá.

(Mál nr. 11282/2021)

Kvartað var yfir úrskurði dómsmálaráðuneytisins sem staðfesti ákvörðun Þjóðskrár Íslands um að hafna breytingu á skráningu sonar viðkomandi í trú- og lífsskoðunarfélag. Þá taldi viðkomandi að þegar foreldrar færu saman með forsjá barns en væru ekki sammála um skráningu þess í trú- og lífsskoðunarfélag, væri hlutleysis best gætt með því að barnið væri skráð utan þeirra.

Í úrskurði ráðuneytisins var m.a. tilgreint á forræði hvers skráning barns í trú- eða lífsskoðunarfélag væri og taldi umboðsmaður ekki tilefni til að gera athugasemd við niðurstöðu þess í málinu. Hvað hitt snerti benti umboðsmaður á að starfssvið sitt tæki ekki til starfa Alþingis en  benti á embætti umboðsmanns barna sem hefði það hlutverk að bæta hag barna og standa vörð um hagsmuni, þarfir þeirra og réttindi.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 15. september 2021, sem hljóðar svo:

  

  

Vísað er til erindis yðar, dags. 1. september sl., þar sem þér kvartið yfir úrskurði dómsmálaráðuneytisins, dags. 25. júní sl., í máli [...], þar sem ákvörðun Þjóðskrár Íslands um að hafna breytingu á skráningu sonar yðar í trú- og lífsskoðunarfélag.

Eins og kemur fram í úrskurði ráðuneytisins í máli yðar kemur fram í 3. mgr. 8. gr. laga nr. 108/1999, um skráð trúfélög og lífsskoðunarfélög, að það foreldri sem fer með forsjá barns taki ákvörðun um inngöngu þess í eða úr skráðu trúfélagi eða lífsskoðunarfélagi. Ef foreldrar fara saman með forsjá barns taka þeir ákvörðun sameiginlega. Hafi barn náð 12 ára aldri skal leita álits þess um slíka ákvörðun. Samkvæmt því sem kemur fram í kvörtun yðar og gögnum sem henni fylgdu er sonur yðar fæddur árið 2011 og þér og móðir hans farið sameiginlega með forsjá hans. Að því virtu og eftir að hafa kynnt mér úrskurð ráðuneytisins tel ég ekki tilefni til að gera athugasemd við niðurstöðu þess í málinu.   

Af kvörtun yðar verður jafnframt ráðið að hún lúti að efni framangreinds lagaákvæðis og þér teljið, við þær aðstæður að foreldrar sem saman fara með forsjá barns eru ekki sammála um skráningu barns í trú- og lífskoðunarfélag, sé hlutleysis best gætt með því að barnið sé skráð utan trú- og lífskoðunarfélaga.

Starfssvið umboðsmanns, sbr. a-lið 4. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, tekur ekki til starfa Alþingis. Það er því almennt ekki á verksviði umboðsmanns Alþingis að taka afstöðu til þess hvernig til hefur tekist með löggjöf sem Alþingi hefur sett, þ.m.t. hvort lög séu í andstöðu við stjórnarskrá. Í okkar réttarkerfi er almennt álitið að það sé hlutverk dómstóla að skera úr um slík atriði. Með 11. gr. laga nr. 85/1997 er umboðsmanni Alþingis þó veitt heimild til að tilkynna Alþingi, hlutaðeigandi ráðherra eða sveitarstjórn ef hann verður var við meinbugi á gildandi lögum eða almennum stjórnvaldsfyrirmælum í störfum sínum. Í lögum er hins vegar ekki gert ráð fyrir því að kvörtun verði borin fram við umboðsmann á þessum grundvelli, þótt vitanlega sé öllum frjálst að koma á framfæri við umboðsmann ábendingum um slík atriði, heldur eru slík mál tekin til athugunar að eigin frumkvæði umboðsmanns á grundvelli 5. gr. laga nr. 85/1997.  

Þessu til viðbótar vil ég benda á að embætti umboðsmanns barna hefur það hlutverk að bæta hag barna og standa vörð um hagsmuni, þarfir og réttindi þeirra, m.a. samkvæmt samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins og fleiri alþjóðasamningum, svo sem nánar greinir í lögum nr. 83/1994, um umboðsmann barna, sbr. 1. mgr. 1. gr. laganna. Samkvæmt 2. málsl. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 83/1994 skal umboðsmaður barna setja fram ábendingar og tillögur um úrbætur sem snerta hag barna á öllum sviðum samfélagsins. Þá er öllum heimilt að leita til umboðsmanns barna með erindi sín og tekur hann mál til meðferðar að eigin frumkvæði eða eftir rökstuddum ábendingum og ákveður hann sjálfur hvort ábending gefi tilefni til meðferðar af hans hálfu, sbr. 1. og 2. mgr. 4. gr. laganna.

Í samræmi við framangreint kann yður að vera fært, teljið þér tilefni til, að koma athugasemdum yðar á framfæri við umboðsmann barna. Ég tek þó fram að með þessari ábendingu hef ég enga afstöðu tekið til þess hvaða meðferð og afgreiðslu slíkt erindi ætti að hljóta. 

Samkvæmt framansögðu lýk ég afskiptum mínum af máli yðar með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997 um umboðsmann Alþingis.