Atvinnuréttindi og atvinnufrelsi. Ökuréttindi.

(Mál nr. 11287/2021)

Kvartað var yfir að fá ökuréttindi ekki endurnýjuð vegna ákvæða í Evróputilskipun.

Engin gögn fylgdu og ekki varð ráðið hvort formlega hefði verið sótt um endurnýjun ökuréttinda og að þeirri umsókn hefði verið synjað og þá af hvaða ástæðum. Leiðbeindi umboðsmaður um næstu skref hefði umsókn verið synjað eða til þess kæmi og hvert kæra mætti þá ákvörðun. Að því marki sem athugasemdirnar kynnu að lúta að kröfum um endurmenntun atvinnubílstjóra vakti umboðsmaður athygli á að samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið hefði í úrskurðarframkvæmd sinni ekki talið að þær kröfur brytu í bága við stjórnarskrárákvæðið. Umboðsmaður hefði lagt til grundvallar að ekki væri tilefni til að gera athugasemdir við þá afstöðu.

    

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 15. september 2021, sem hljóðar svo:

   

  

Vísað er til kvörtunar yðar, dags. 3. september sl., sem lýtur að því að þér fáið ökuréttindi yðar ekki endurnýjuð vegna ákvæða í Evróputilskipun. Kvörtuninni fylgdu engin gögn og af henni verður ekki ráðið hvort þér hafið formlega sótt um að ökuréttindi yðar verði endurnýjuð og að þeirri umsókn hafi verið synjað og þá af hvaða efnislegu ástæðum.

Ástæða þess að ég nefni framangreint er að í 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er kveðið á um að megi skjóta máli til æðra stjórnvalds sé ekki unnt að kvarta til umboðsmanns fyrr en æðra stjórnvald hefur fellt úrskurð sinn í málinu. Ákvæðið er byggt á því sjónarmiði að stjórnvöld skuli fá tækifæri til að leiðrétta ákvarðanir, sem hugsanlega eru rangar, áður en leitað er til aðila utan stjórnkerfis þeirra með kvartanir.

Hafi umsókn yðar um endurnýjun ökuréttinda verið synjað með formlegum hætti af sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu eða verði henni synjað ef þér sækið formlega um endurnýjun ökuréttindanna getið þér kært þá synjun sýslumanns til samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins. Af þeim sökum og með vísan til þess sem er rakið að framan eru ekki uppfyllt skilyrði til að kvörtun yðar verði tekin til meðferðar að svo stöddu. Ég tek fram að kjósið þér að bera synjun sýslumanns undir ráðuneytið getið þér leitað til mín á ný teljið þér yður enn beittan rangsleitni að fenginni afstöðu ráðuneytisins til máls yðar.

Að því marki sem athugasemdir yðar kunna að lúta að því að kröfur um endurmenntun atvinnubílastjóra á fimm ára fresti, sem mælt er fyrir um í 10. mgr. 58. gr. umferðarlaga nr. 77/2019 og reglugerð nr. 830/2011, um ökuskírteini, brjóti í bága við þá vernd sem atvinnuréttindi njóta á grundvelli 1. mgr. 75. gr. stjórnarskrár tel ég þó rétt að vekja athygli yðar á því að mér er kunnugt um að ráðuneytið hefur í úrskurðarframkvæmd sinni ekki talið þær kröfur brjóta í bága við stjórnarskrárákvæðið. Jafnframt tel ég rétt að upplýsa yður um að af hálfu umboðsmanns Alþingis hefur verið lagt til grundvallar að ekki sé tilefni til að gera athugasemdir við þá afstöðu ráðuneytisins með hliðsjón af gildandi lögum og stjórnarskrá. Þar hefur verið litið til eðlis og markmiðs þeirra takmarkana sem um ræðir, sem er að tryggja öryggi í farþega- og vöruflutningum, og þess að í umferðarlögum er mælt fyrir um heimild ráðherra til að kveða nánar á um tilhögun endurmenntunar, sem og að frekari útfærsla á þeirri tilhögun hefur verið ákveðin með námskrá sem er í samræmi við þær þjóðaréttarlegu skuldbindingar sem Ísland hefur gengist undir.

Með vísan til framangreinds lýk ég umfjöllun minni um kvörtun yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.