Kosningar. Framkvæmd Alþingiskosninga. Starfssvið umboðsmanns Alþingis.

(Mál nr. 11288/2021)

Óskað var eftir áliti á því hvort það bryti í bága við lög eða reglugerðir að taka ljósmynd af maka sínum að setja kjörseðil í kjörkassa í kjördeild við Alþingis- og sveitarstjórnarkosningar.

Ekki er gert ráð fyrir að umboðsmaður veiti almennar álitsgerðir samkvæmt beiðni eða svari almennum lögspurningum. Ásamt þessu og fleiru voru því ekki skilyrði til að umboðsmaður tæki erindið til frekari umfjöllunar. Þá benti hann á að ekki yrði séð að finna mætti sérstaka heimild í lögum til að bera ákvarðanir kjörstjórna undir annan aðila til endurskoðunar eða að í lögum sé mælt fyrir um rétt til að óska eftir heimild til ljósmyndatöku á kjörstað. Enn fremur að lagt hafi verið til grundvallar að það falli utan starfssviðs umboðsmanns að fjalla um starfshætti og ákvarðanir yfirkjörstjórna. Á því verði breyting við gildistöku nýrra kosningalaga 1. janúar nk.

    

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 15. september 2021, sem hljóðar svo:

  

  

Vísað er til erindis yðar, dags. 4. september sl., þar sem þér óskið eftir áliti á því hvort það brjóti í bága við lög eða reglugerðir að taka ljósmynd af maka sínum að setja kjörseðil í kjörkassa í kjördeild við Alþingis- eða sveitarstjórnarkosningar. Tekið er fram að ljósmyndin yrði eingöngu til persónulegra nota.

Af gögnum sem fylgdu kvörtun yðar verður ráðið að við Alþingiskosningar 28. október 2017 hafi yður verið meinað að taka ljósmynd af framangreindu tagi af eiginkonu yðar. Í  framhaldi af því, eða 3. nóvember það ár, hafið þér sent formanni yfirkjörstjórnar Suðvesturkjördæmis erindi vegna atviksins og hinn 18. maí það ár til ritara landskjörstjórnar.

Í tilefni af kvörtun yðar tek ég fram samkvæmt 4. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, getur hver sá sem telur sig hafa verið beittan rangsleitni af aðilum sem heyra undir eftirlit umboðsmanns Alþingis samkvæmt 1. og 2. mgr. 3. gr. laganna kvartað af því tilefni til umboðsmanns. Þannig er ekki gert ráð fyrir að umboðsmaður veiti almennar álitsgerðir samkvæmt beiðni eða svari almennum lögspurningum, s.s um atvik sem ekki hafa átt sér stað, heldur fjallar hann fyrst og fremst um kvartanir yfir því að stjórnvöld eða aðrir sem falla undir starfssvið hans hafi hafi ekki farið að lögum eða fylgt vönduðum stjórnsýsluháttum í störfum sínum í ákveðnum tilvikum. Lögin gera jafnframt ráð fyrir að kvörtun berist innan árs frá því að stjórnsýslugerningur sá er um ræðir var til lykta leiddur, sbr. 2. mgr. 6. gr., og að nýttar hafi verið þær kæruleiðir sem kunna að vera fyrir hendi innan stjórnsýslunnar, sbr. 3. mgr. 6. gr., áður en kvartað er til umboðsmanns.

Af framangreindu er ljóst að ekki eru skilyrði að lögum til að taka erindi yðar til frekari umfjöllunar. Þá verður ekki séð að í lögum nr. 24/2000 sé að finna sérstaka heimild til að bera ákvarðanir kjörstjórna, sem ætlað að er að sjá til þess að á kjörstað fari ekki fram starfsemi sem truflar framkvæmd kosninga, sbr. 3. mgr. 78. gr. laganna, undir annan aðila til endurskoðunar eða að í lögunum sé mælt fyrir um rétt til að óska eftir heimild til ljósmyndatöku á kjörstað. Í því sambandi tel ég jafnframt rétt að benda á að samkvæmt 13. gr. laga nr. 24/2000, um kosningar til Alþingis, eru yfirkjörstjórnir kosnar af Alþingi og starfa því í umboði þess. Af hálfu umboðsmanns Alþingis hefur því verið lagt til grundvallar að eins og gildandi lögum sé háttað falli það utan starfssviðs umboðsmanns sam­kvæmt lögum nr. 85/1997, sbr. a-lið 4. mgr. 3. gr. laganna, að fjalla um starfshætti og ákvarðanir yfir­kjörstjórna. Á því verður breyting við gildistöku nýrra kosningalaga nr. 112/2021 hinn 1. janúar nk., sbr. 140. gr. þeirra laga.

Með vísan til framangreinds lýk ég umfjöllun minni um kvörtun yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.