Opinberir starfsmenn. Sveitarfélög. Ráðningar í opinber störf. Rannsóknarreglan.

(Mál nr. 10484/2020)

A leitaði til umboðsmanns Alþingis og kvartaði yfir ráðningu bæjarstjórnar Akraneskaupstaðar í starf slökkviliðsstjóra við Slökkvilið Akraness og Hvalfjarðarsveitar, en A var meðal umsækjenda um starfið. Kvörtunin laut einkum að því að hæfasti umsækjandinn hefði ekki verið ráðinn, m.a. vegna þess að rannsókn og samanburði á hæfni umsækjenda í ráðningarferlinu hefði verið ábótavant. Athugun umboðsmanns beindist að þeirri ákvörðun bæjarstjórnar Akraneskaupstaðar að samþykkja þá tillögu sem fólst í niðurstöðu ráðningarhóps um hæfasta umsækjandann. Þá einkum hvort bæjarstjórn hefði tryggt að fullnægjandi upplýsingar lægju fyrir um umsækjendur áður en ákvörðun var tekin um að staðfesta þá tillögu sem fólst í álitsgerð ráðningarhópsins sem lögð var fyrir bæjarstjórn.

Umboðsmaður benti á að af ákvæðum sveitarstjórnarlaga og laga um brunavarnir leiddi að það væri hlutverk viðkomandi sveitarstjórnar að ráða í starf slökkviliðsstjóra. Fyrir lægi að endanleg ákvörðun um að ráða í starfið hefði verið tekin af sveitarstjórn. Hins vegar hefði sveitarstjórnin jafnframt haft það hlutverk sem veitingarvaldshafi að sjá til þess að ákvörðunin byggði á nægjanlega traustum undirbúningi og meðferð málsins hefði verið í samræmi við lög. Í ljósi lögmælts hlutverks sveitarstjórnarinnar yrði slík ákvörðun því ekki tekin nema af henni sjálfri, bæði að formi og efni til. Af þessu leiddi að viðhlítandi upplýsingar yrðu að liggja fyrir sveitarstjórn um þau atriði sem talin væru hafa þýðingu við samanburð umsækjenda þannig að henni væri í reynd unnt að taka efnislega afstöðu að þessu leyti. Sömuleiðis yrði málsmeðferð sveitarstjórnar að bera með sér að svo hafi verið gert í reynd og haggaði aðkoma utanaðkomandi aðila ekki þessari ábyrgð stjórnvaldsins.

Umboðsmaður benti á að bæjarstjórn hefði hvorki haft beina aðkomu að viðtölum sem tekin voru við umsækjendur né annarri vinnu ráðningarhópsins, m.a. ákvörðunum um að þrengja umsækjendahópinn. Í álitsgerð ráðningarhópsins, sem lögð var fyrir bæjarstjórn, hefði ekki verið fjallað um að hvaða marki aðrir af þeim umsækjendum, sem valið að lokum stóð á milli, uppfylltu hæfniskröfur samkvæmt auglýsingu eða hverjir væru kostir þeirra og gallar. Veitti álitsgerðin því í reynd engar upplýsingar um eiginleika annarra umsækjenda en þess sem ráðinn var að öðru leyti en því að það væri samdóma álit innan hópsins að sá umsækjandi stæði framar öðrum. Þrátt fyrir þetta leitaðist bæjarstjórnin ekki við að upplýsa málið frekar að þessu leyti áður en ákvörðun var tekin.

Taldi umboðsmaður að leggja yrði til grundvallar að umrædd ákvörðun bæjarstjórnar um ráðningu í starf slökkviliðsstjóra hefði í reynd grundvallast á álitsgerð ráðningarhópsins einni saman og þá án þess að undirliggjandi gögn eða upplýsingar í öðru formi kæmu til efnislegrar skoðunar af hennar hálfu. Við meðferð málsins hefði því skort á að bæjarstjórnin fullnægði rannsóknarskyldu sinni og stæði, sem handhafi veitingarvalds, undir þeirri ábyrgð sem af þessari skyldu leiddi. Beindi umboðsmaður þeim tilmælum til Akraneskaupsstaðar að leita leiða til að rétta hlut A. Að öðru leyti væri það dómstóla að meta réttaráhrif annmarka á málsmeðferð sveitarfélagsins, kysi A að fara þá leið. Þá var því beint til sveitarfélagsins að taka framvegis mið af þeim sjónarmiðum sem kæmu fram í álitinu

  

Umboðsmaður lauk málinu með áliti 12. október 2021.

   

   

I Kvörtun og afmörkun athugunar

Hinn 7. apríl 2020 leitaði A til umboðsmanns Alþingis og kvartaði yfir ákvörðun bæjarstjórnar Akraneskaupstaðar frá 14. janúar 2020 um ráðningu í starf slökkviliðsstjóra Slökkviliðs Akra­ness og Hvalfjarðar­sveitar, en A var meðal umsækjenda um starfið. Kvörtun A lýtur einkum að því að hæfasti umsækjandinn hafi ekki verið ráðinn, m.a. vegna þess að rannsókn og samanburði á hæfni umsækjenda í ráðningarferlinu hafi verið ábótavant. 

Athugun mín hefur beinst að þeirri ákvörðun bæjarstjórnar Akra­nes­kaupstaðar að samþykkja þá tillögu sem fólst í niðurstöðu ráðningar­hóps um hæfasta umsækjandann og þá einkum hvort bæjarstjórn hafi tryggt að fullnægjandi upplýsingar hafi legið fyrir um umsækjendur áður en ákvörðun var tekin um að staðfesta þá tillögu sem fólst í álitsgerð ráðningarhópsins sem lögð var fyrir bæjarstjórn.

  

II Málavextir

Í nóvember 2019 auglýsti Akraneskaupstaður starf slökkviliðsstjóra Akraness og Hvalfjarðarsveitar laust til umsóknar. Menntunar- og hæfnis­kröfur voru sem hér segir: 

  • Umsækjandi skal hafa löggildingu sem slökkviliðsmaður, sbr. 17. gr. laga nr. 75/2000 og starfað að lágmarki í eitt ár í slökkviliði sem löggiltur slökkviliðsmaður eða hafa háskólamenntun með sérmenntun í brunamálum.
  • Umsækjandi þarf að hafa stjórnunarreynslu og þekkingu á rekstri.
  • Reynsla og/eða haldgóð þekking á stjórnun slökkviliðs æskileg.
  • Þekking á yfirferð og eftirliti tækja og búnaðar æskileg.
  • Sjálfstæð og skipulögð vinnubrögð ásamt frumkvæði í starfi.
  • Þjónustulund, jákvæðni og lipurð í mannlegum samskiptum.
  • Leiðtogafærni.
  • Vilji til þess að tileinka sér nýjungar í starfi.
  • Góð almenn tölvukunnátta og færni til að tjá sig í ræðu og riti.

Umsækjendur um starfið voru tíu að A meðtöldum. Tveir sviðsstjórar hjá Akraneskaupstað höfðu umsjón með ráðningunni en X veitti ráðgjöf við ráðningarferlið. Af gögnum málsins verður ráðið að framan­greindir aðilar sem höfðu umsjón með ráðningarferlinu hafi fyrsta kastið lagt mat á umsækjendur sem hafi byggst á innsendum umsóknargögnum, þ.e. ráðgjafi X hafi unnið tölulegt mat út frá innsendum umsóknar­gögnum og lagt fyrir og kynnt fulltrúum Akranes­kaupstaðar í hópnum. Sex umsækjendur voru að svo búnu boðaðir í viðtöl. Þar á meðal voru A og B sem síðar var ráðinn. X annaðist við­tölin ásamt sviðsstjóra stjórnsýslu- og fjármálasviðs  og sviðsstjóra skipulags- og umhverfissviðs hjá Akranes­kaupstað.

Að loknum viðtölum og mati á hæfniþáttum, eftir framkomin svör í viðtölum hjá ráðningarhópnum, var lagt persónuleikapróf fyrir fjóra umsækjendur og umsagna aflað með formlegum hætti. Í boðaðri dagskrá reglulegs bæjarstjórnarfundar 14. janúar 2020 kom fram að erindi um ráðningu slökkviliðsstjóra yrði tekið fyrir og samkvæmt tilheyrandi fundargerð var „[t]illaga um ráðningu slökkviliðsstjóra fyrir slökkvilið Akraness og Hvalfjarðarsveit[ar]“ afgreidd á fundinum. Sviðsstjóri fjármála- og stjórnsýslusviðs var viðstaddur fundinn og ritaði fundar­gerð og ráðgjafi X var til taks í síma meðan á fundinum stóð.

Í álitsgerðinni, sem lögð var fyrir bæjarstjórnarfundinn var vísað til fyrrnefndra auglýstra menntunar- og hæfniskrafna. Talin voru upp nöfn og starfsheiti umsækjendanna tíu og tiltekið að ráðningarferlið hefði falið í sér hæfnismat sem byggðist á innsendum umsóknargögnum, stöðluðum hegðunartengdum viðtölum, persónuleikamati og umsögnum. Því næst segir að sex nafngreindir umsækjendur, sem samkvæmt starfsumsókn þóttu standa öðrum framar með tilliti til auglýstra krafna, hafi verið boðaðir í viðtöl. Þar segir jafnframt að eftir fram komin svör hafi verið „samdóma álit allra aðila sem viðtölin tóku“ að fjórir umsækjendur upp­fylltu best auglýstar kröfur og því hafi verið ákveðið að leggja per­sónuleikapróf fyrir þann hóp og afla umsagna. Ekki er tilgreint hvaða fjóra umsækjendur var um að ræða. Því næst segir:

„Að fengnum niðurstöðum persónuleikamats og eftir yfirferð umsagna var það samdóma álit þeirra aðila sem viðtölin tóku að [B] uppfyllti best þær kröfur sem gerðar væru til starfsins og fram komu í auglýsingu um starfið.“

Í framhaldinu var gerð grein fyrir hvernig B uppfyllti að mati hópsins hverja og eina af áðurnefndum kröfum sem gerðar voru til slökkviliðsstjóra. Álitsgerðinni lauk með því að áréttað var, með vísan til þess sem fram hefði komið, að mat þeirra sem að ráðningarferlinu komu hefði verið „að [B] væri best til þess fallinn af umsækjendum að taka við og móta áfram starf slökkviliðsstjóra hjá slökkviliði Akraness og Hvalfjarðarsveitar“.

Á fyrrnefndum fundi 14. janúar 2020 ákvað bæjarstjórn Akraneskaupstaðar að ráða B í stöðuna með eftirfarandi bókun: „Bæjarstjórn Akraness samþykkir að ráða [B] í starf slökkviliðsstjóra“. Eftirfarandi rökstuðningur ákvörðunar bæjarstjórnar, dags. 22. janúar 2020, sem veittur var að beiðni A var efnislega samhljóða álitsgerð ráðningarhópsins.

  

III Samskipti umboðsmanns Alþingis og Akraneskaupstaðar

Bæjarstjórn Akraness var ritað bréf, dags. 18. júní 2020, með beiðni um upplýsingar og skýringar á þar tilgreindum atriðum og á ný 9. nóvember þess árs þar sem nánari skýringa var óskað. Meðal þess sem óskað var svara við í fyrra bréfinu var hver hefði tekið ákvörðun um hvaða umsækjendur yrðu kallaðir til viðtals og hvaða mat hefði legið þeirri ákvörðun til grundvallar, hvernig samanburði umsækjenda hefði verið háttað að viðtölum loknum, hvaða sjónarmið hefðu ráðið úrslitum um þá afstöðu að B uppfyllti best gerðar kröfur og hvort ráðningar­hópnum hefði verið falið að láta í ljósi álit á því hvaða einn umsækjandi væri hæfastur. Þá var spurt um aðkomu bæjarstjórnar að ráðningarferlinu, sér í lagi hvort einhver bæjar­fulltrúa hefði verið viðstaddur viðtöl, hvaða gögn hefðu verið lögð fram og kynnt bæjarfulltrúum og hvort einhver þeirra hefði óskað eftir að kynna sér frekari gögn en þau sem lögð voru fram á áðurnefndum fundi bæjarstjórnar.

Í svarbréfi til umboðsmanns, dags. 25. ágúst 2020 og undirrituðu af sviðsstjóra stjórnsýslu- og fjármálasviðs fyrir hönd Akranes­kaup­staðar, sagði að ákvörðun um hvaða umsækjendur voru boðaðir til viðtals hafi byggst á „tölulegu mati á innsendum umsóknargögnum sem ráðgjafi ráðningastofu vann, lagði fyrir og kynnti fulltrúum Akraneskaupstaðar sem í framhaldi tóku ákvörðun um fjölda þeirra umsækjenda sem boðaðir yrðu í viðtal“. Þá kom fram að umsækjendur hefðu verið metnir út frá fyrir­­liggjandi umsóknargögnum, starfsviðtölum, persónuleikamati og með öflun umsagna. Til að skera úr um hvaða umsækjendur yrðu boðaðir í viðtal hefði verið lagt tölulegt mat á fjóra fyrstnefndu þættina í kröfum auglýsingar. Enn fremur kom fram að eftir viðtöl, persónuleikamat og samtöl við umsagnaraðila hafi ráðningarhópurinn haldið fund og lokið endanlega við matstöflu þar sem lagt hafi verið mat á alla hæfniþættina sem fram komu í auglýsingu samkvæmt ákveðnum viðmiðum. Í samræmi við þessi skilgreindu viðmið hafi umsækjendum verið gefin núll, eitt, tvö eða þrjú stig fyrir hvern hæfniþátt. Því næst segir:

„Sá umsækjandi sem flest stig fékk var [B] og tillaga þeirra sem umsjón höfðu með ráðningunni var að leggja til við bæjarstjórn að ganga til samninga við hann um stöðu slökkviliðsstjóra.“

Í matstöflunni sem fylgdi umræddu bréfi kom fram að heildarstig B, að teknu tilliti til vægis einstakra hæfniþátta, hefðu verið 24 og heildarstig A 18.

Áréttað var að rökstuðningur hefði fylgt tillögu ráðningarhópsins til bæjarstjórnar og í honum hefði komið fram hvern umsækjenda hópurinn hefði metið hæfastan. Þá var tekið fram að skipan ráðningar­hópsins hefði verið „samkvæmt venju hjá Akraneskaupstað“, þ.e. hann hefði samanstaðið af fagsviðsstjóra og sviðsstjóra stjórnsýslu- og fjármálasviðs sem jafn­framt færi með mannauðsmál hjá Akraneskaupstað. Ákvörðun um kaup á sérfræðiþjónustu hefði verið á forræði fagsviðsstjóra í samráði við sviðs­stjóra stjórnsýslusviðs en við ráðningu í forstöðu­mannastörf væri sú leið gjarnan valin.

Um aðkomu bæjarstjórnar sagði að bæjarfulltrúar hefðu ekki verið viðstaddir viðtöl en þeim hafi verið kynntur listi yfir alla umsækjendur ásamt „samantekt um ráðningarferlið og rökstuðningur fyrir því að undan­gengnu matsferli hvaða umsækjandi uppfyllti best þær kröfur sem fram komu í auglýsingu um starfið“. Þá sagði að öll gögn málsins hefðu verið aðgengileg bæjarfulltrúum á fundinum þar sem ákvörðun var tekin um ráðninguna en ekki hefði komið fram ósk frá þeim um að kynna sér önnur gögn en þau sem tilgreint var að hefðu verið kynnt sérstaklega.   

Í síðara bréfi umboðsmanns var ítrekuð ósk um svar við fyrri spurningu um hvort ráðningarhópnum hefði verið falið að láta í ljósi álit á hvaða einn umsækjandi væri hæfastur og jafnframt óskað upplýsinga um hvort bæjarfulltrúar hefðu að einhverju leyti lagt sjálfstætt mat á umsækjendur. Um fyrra atriðið segir eftirfarandi í svarbréfi, dags. 24. febrúar 2021:

„Við mat á hæfni umsækjenda vann, eins og fyr[r] greinir, ráðningahópur að ferlinu sem samanstóð af stöðluðum viðtölum, persónuleikamati og umsögnum. Hæfniskröfur í auglýsingu lágu til grundvallar mati á hæfni og hæfniviðmið[um] [...] Ráðningahópurinn fyllti sameiginlega út hæfnitöfluna [...] að loknum viðtölum, yfirferð yfir umsóknir og persónuleikamat. Í þeirri vinnu kom fram álit aðila í ráðningahópnum um frammistöðu umsækjenda í viðtölum og að lokum hvaða aðili væri talinn hæfastur til að gegna stöðunni – byggt á niðurstöðum matsins.“

Svar við síðara atriðinu, undir fyrirsögninni „Lögðu bæjarfulltrúar að einhverju le[y]ti sjálfstætt mat á umsækjendur?“ var svofellt:

„Við skýringu á þessum lið ber að hafa í huga að viðkomandi einstaklingar eru í þessari stöðu sem kjörnir fulltrúar almennings og því hlutverki fylgja bæði réttindi og skyldur samkvæmt sveitar­stjórnarlögum, stjórnsýslulögum o.fl. og samkvæmt ákveðnum máls­með­ferðarreglum. Fyrirkomulag við ákvarðanatöku í þessum málum (ráðningarmál) eru eðli máls samkvæmt ekki frábrugðin öðrum.

Ef spurningin lýtur að því hvort ferlið sé með einhverjum hætti samræmt þannig að hverjum og einum bæjarfulltrúa sé gert að leggja sjálfstætt mat á umsækjendur t.d. út frá tilteknu formi sem framkallar slíkt mat þá er svarið við því neitandi. Áréttað skal sbr. svarlið nr. 2 hér að framan, að hlutverk ráðningarhópsins var að meta umsóknir og leggja tillögu fyrir bæjarstjórn um hvaða aðili væri hæfastur til að gegna stöðunni byggt á niðurstöðum matsferilsins.

Öll gögn voru aðgengileg fyrir bæjarfulltrúana og málsmeðferð við ákvarðanatökuna alfarið á þeirra forræði í samræmi við hefðbundin fundarsköp og undir leiðsögn forseta sem stýrir fundi.“

Athugasemdir A við fyrra bréf Akraneskaupstaðar bárust 8. október 2020 og við síðara bréfið 9. mars 2021.

  

IV Álit umboðsmanns Alþingis

1 Lagagrundvöllur

Starfsemi sveitarfélaga fer fram á einu stjórnsýslustigi leiði annað ekki af lögum, eins og segir í 1. mgr. 8. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011. Við meðferð mála og ákvarðanatöku kemur sveitarfélagið fram sem eitt stjórnvald þótt það komi í hlut mismunandi starfseininga og starfs­manna þess að fara með mál.

Samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laganna fer sveitarstjórn með stjórn sveitarfélagsins samkvæmt ákvæðum þeirra laga og annarra laga. Í 1. mgr. 9. gr. þeirra kemur fram að sveitarstjórnir skuli gera sérstaka samþykkt um stjórn og stjórnsýslu sveitarfélagsins og um meðferð þeirra málefna sem það annast. Í 1. mgr. 54. gr. laganna er mælt fyrir um að sveitar­stjórn ráði framkvæmdastjóra til þess að annast framkvæmd ákvarðana sveitarstjórnar og verkefni sveitarfélags. Þá segir í 56. gr. laganna að sveitarstjórn ráði starfsmenn í æðstu stjórnunarstöður hjá sveitar­félagi og veiti þeim lausn frá starfi. Um ráðningu annarra starfsmanna annist framkvæmdastjóri enda hafi sveitarstjórn ekki ákveðið annað í samþykkt um stjórn sveitarfélagsins eða með almennum fyrirmælum.

Af framangreindu má ráða að sveitarstjórn er almennt falið ákvörðunarvald um ráðningu starfsmanna sveitarfélaga. Ef um er að ræða ráðningu annarra starfsmanna en framkvæmdastjóra eða starfsmanna í æðstu stjórnunarstöður getur sveitarstjórn hins vegar mælt fyrir um framsal ráðningarvalds með samþykkt eða almennum fyrirmælum. Að öðrum kosti er það framkvæmdastjóra að ráða í önnur störf hjá sveitar­félaginu. Af framan­greindu leiðir að framsali verður almennt ekki komið á nema frá því sé gengið með formbundnum hætti, þ.e. annaðhvort í samþykkt um stjórn sveitar­félags eða með almennum fyrirmælum. Við athugun þessa máls þarf þó að hafa í huga að sérstaklega er mælt fyrir um að sveitarstjórn ráði slökkviliðsstjóra í 1. mgr. 15. gr. laga nr. 75/2000, um brunavarnir.

  

2 Hlutverk bæjarstjórnar Akraneskaupstaðar í ráðningarferlinu

Ráðning í opinbert starf er stjórnvaldsákvörðun og um ráðninguna gilda því málsmeðferðarreglur stjórnsýslulaga, svo og óskráðar meginreglur stjórnsýsluréttarins. Eins og áður er rakið er það lögmælt hlutverk bæjar­stjórnar Akraneskaupstaðar að ráða í starf slökkviliðsstjóra Akraness og Hvalfjarðarsveitar enda hafi vald til fullnaðarafgreiðslu ekki verið falið öðrum. Fyrir liggur að endanleg ákvörðun um að ráða B í starfið var tekin af bæjarstjórn og þar með af þar til bærum aðila. Hins vegar verður að líta til þess að bæjarstjórninni bar ekki aðeins að taka téða ákvörðun að formi til heldur hafði hún einnig það hlutverk, sem veitingarvaldshafi, að sjá til þess að hún byggði á nægjanlega traustum undirbúningi og að meðferð málsins hefði að öðru leyti verið í samræmi við lög þannig að réttindi allra umsækjenda væru virt, sbr. t.d. álit setts umboðsmanns Alþingis frá 25. september 2013 í máli nr. 7100/2012.

Fyrir liggur að bæjarstjórn Akraneskaupstaðar fól tveimur starfs­mönnum sveitar­félagsins og ráðgjafa frá X, svonefndum ráðningar­hópi, að hafa umsjón með ráðningarferlinu, en samkvæmt skýringum sveitar­félagsins til umboðsmanns var þetta „venju samkvæmt“. Í þessu sambandi athugast að sveitarfélag getur falið starfsmönnum sínum undir­búning ákvörðunar sveitarstjórnar í ráðningarmáli og jafnframt hefur því verið slegið föstu í framkvæmd umboðsmanns að í sjálfu sér sé heimilt að leita til utanaðkomandi aðila um sérfræðiaðstoð við undirbúning slíkra mála. Slíkt fyrirkomulag leysir þó sveitarstjórn, sem handhafa veitingarvalds, ekki undan þeirri ábyrgð sem á henni hvílir við meðferð og lyktir málsins, sbr. t.d. álit umboðsmanns Alþingis frá 20. nóvember 2000 í máli nr. 2793/1999, frá 26. maí 2003 í máli nr. 3616/2002, frá 18. júní 2004 í máli nr. 4020/2004 og frá 11. júlí 2005 í máli nr. 4217/2004 sem og fyrrnefnt álit frá 25. september 2013 í máli nr. 7100/2012.

Hafa ber í huga að ýmsar ákvarðanir, sem teknar eru við undirbúning ráðningarmáls, geta ráðið úrslitum um stöðu einstakra umsækjenda. Þetta á m.a. við um ákvarðanir sem miða að því að þrengja hóp umsækjenda enda leiða þær til þess að tilteknir umsækjendur koma ekki til frekara mats eða álita við lokaákvörðun. Í ljósi lögmælts hlutverks stjórnvaldsins við meðferð mála af þessu tagi verða slíkar ákvarðanir því ekki teknar nema af því sjálfu, bæði að formi og efni til. Af þessu leiðir að  við­hlítandi upplýsingar verða að liggja fyrir sveitarstjórn um þau atriði sem talin eru hafa þýðingu við samanburð umsækjenda þannig að henni sé í reynd unnt að taka efnislega afstöðu að þessu leyti. Sömuleiðis verður málsmeðferð sveitarstjórnar að bera með sér að svo hafi verið gert í reynd og haggar aðkoma utanaðkomandi aðila, s.s. mann­auðsráðgjafa, ekki þessari ábyrgð stjórnvaldsins.

   

3 Var lagður fullnægjandi grundvöllur að ákvörðun bæjarstjórnar um ráðningu í starf slökkviliðsstjóra?

Í fyrrgreindri álitsgerð ráðningarhópsins sem lögð var fyrir á fundi bæjar­stjórnar kemur fram að sex af tíu umsækjendum hafi verið boðið viðtal hjá hópnum og af þeim sex hafi fjórir gengist undir persónu­leikapróf og lokamat. Samkvæmt skýringum sveitar­félagsins ákvað ráðningar­hópurinn að þeim sex, sem mannauðsráðgjafinn sem sat í hópnum hafði metið hæsta að stigum eftir yfirferð umsókna, skyldi boðið í viðtal. Þá mun hópurinn hafa tekið ákvörðun um að aðeins fjórir þeirra sex sem komu í viðtöl yrðu teknir til frekara mats. Að því loknu hafi hópurinn komist að þeirri niðurstöðu að B væri best til þess fallinn af umsækjendum að gegna starfinu.

Í málinu liggur fyrir að bæjarstjórn hafði hvorki beina aðkomu að viðtölum sem tekin voru við umsækjendur né annarri vinnu ráðningar­hópsins, þ.m.t. ákvörðunum um þrengingu umsækjendahópsins, fyrst úr tíu í sex, en því næst í fjóra og loks einn. Á fyrrnefndum fundi bæjar­stjórnar 14. janúar 2020 kom þó ekki fram ósk frá bæjarfulltrúum um að kynna sér frekari gögn um ráðningarferlið sem sviðsstjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs hafði tiltæk á fundinum. Þá verður ekki annað ráðið en að rökstuðningur bæjarstjórnar 22. sama mánaðar fyrir ákvörðun sinni hafi verið efnislega tilvísun til áðurlýstrar álitsgerðar og tillögu ráðningarhópsins.

Af hálfu Akraneskaupstaðar hefur verið lögð áhersla á að öll gögn ráðningarmálsins hafi verið aðgengileg bæjarfulltrúum á umræddum fundi bæjarstjórnar, svo sem áður greinir. Í því sambandi verður þó að horfa til þess að í álitsgerð ráðningarhópsins, sem Akraneskaupstaður vísaði efnislega til sem rökstuðnings fyrir ákvörðun sinni, kemur ekki skýrlega fram hvaða fjórir umsækjendur gengust undir persónuleikapróf eða aflað var umsagna um þannig að bæjarfulltrúar hafi getað gert sér fyllilega grein fyrir því hverjir voru keppinautar þess umsækjanda sem hópurinn mælti með. Í álitsgerðinni var heldur engin umfjöllun um að það að hvaða marki þeir þrír umsækjendur, sem síðast eftir stóðu, uppfylltu hæfniskröfur samkvæmt auglýsingu eða hverjir væru kostir þeirra og gallar. Veitti álitsgerðin því í reynd engar upplýsingar um eiginleika annarra umsækjenda að öðru leyti en því að það væri samdóma álit ráðningar­hópsins að einn umsækjandi stæði framar öðrum. Þrátt fyrir þetta leitaðist bæjarstjórnin ekki við að upplýsa málið frekar að þessu leyti áður en ákvörðun var tekin.

Eins og atvik málsins liggja fyrir samkvæmt þessu verður að leggja til grundvallar að umrædd ákvörðun bæjarstjórnar um ráðningu í starf slökkviliðsstjóra hafi í reynd grundvallast á álitsgerð ráðningarhópsins einni saman og þá án þess að undirliggjandi gögn eða upplýsingar í öðru formi hafi komið til efnislegrar skoðunar af hennar hálfu. Við meðferð málsins skorti því á að bæjarstjórn Akraneskaupstaðar fullnægði rannsóknarskyldu sinni samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og stæði, sem handhafi veitingarvalds, undir þeirri ábyrgð sem af þessari skyldu leiddi.

     

V Niðurstaða

Það er niðurstaða mín að málsmeðferð Akraneskaupstaðar við ákvörðun um ráðningu slökkviliðsstjóra Akraneskaupstaðar og Hvalfjarðarsveitar á bæjar­stjórnarfundi 14. janúar 2020 hafi ekki verið í samræmi við rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og þá ábyrgð sem hvíldi á bæjarstjórn sem veitingarvaldshafa að þessu leyti.

Þrátt fyrir framangreinda annmarka á meðferð málsins tel ég ólíklegt að þeir leiði til ógildingar á þeirri ráðningu sem hér um ræðir, meðal annars vegna hagsmuna þess umsækjanda sem var ráðinn til starfa. Allt að einu eru það tilmæli mín að Akraneskaupstaður leiti leiða til að rétta hlut A. Að öðru leyti er það dómstóla að meta réttar­áhrif framangreindra annmarka á meðferð sveitarfélagsins á máli hans, kjósi hann að fara þá leið. Að lokum beini ég þeim tilmælum til Akra­neskaup­staðar að taka framvegis mið af þeim sjónarmiðum sem koma fram í álitinu.

Undirritaður var kjörinn umboðsmaður Alþingis 26. apríl 2021 og fór með mál þetta frá 1. maí sama ár.

   

   

VI Viðbrögð stjórnvalda

Akraneskaupstaður greindi frá því að rætt hefði verið við viðkomandi sem gerði sveitarfélaginu tilboð um hvernig ljúka mætti málinu með tiltekinni greiðslu en samkomulag lægi ekki fyrir. Þegar álitið lá fyrir hefði hafist vinna við gerð málsmeðferðarreglna sem ætlað væri að mæta ábendingum umboðsmanns. Ætlunin væri að ljúka þeim á vormánuðum 2022 og leggja fram til afgreiðslu sveitarstjórnar. ­Þangað til yrði málsmeðferð einnig hagað í samræmi við ábendingar umboðsmanns kæmi til sambærilegra ráðninga hjá sveitarfélaginu.