Börn. Barnaverndarmál. Umgengni.

(Mál nr. 11197/2021)

Kvartað var yfir úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála sem staðfesti ákvörðun barnaverndarnefndar um umgengni sonar við móður.

Af úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála varð ráðið að niðurstaða hennar hefði einkum byggst á því mati að það þjónaði hagsmunum barnsins best að umgengninni yrði hagað í samræmi við úrskurð barnaverndarnefndarinnar. Þeir matsþættir sem lagðir voru til grundvallar fólu almennt í sér málefnaleg sjónarmið og voru í samræmi við barnaverndarlög. Út frá þessu og öðrum gögnum, þar sem m.a. var vísað til upplýsinga frá skóla og fósturforeldrum, skýrslu  talsmanns barnsins o.fl., taldi umboðsmaður ekki forsendur til að gera athugasemdir við niðurstöðu nefndarinnar.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 24. september 2021, sem hljóðar svo:

  

  

I

Vísað er til kvörtunar yðar fyrir hönd A, dags. 25. júní sl., sem lýtur að úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála frá 10. september 2020 í máli nr. 201/2020. Með úrskurðinum var staðfest ákvörðun barnaverndarnefndar Hafnarfjarðar frá 31. mars 2020 um umgengni B við umbjóðanda yðar, móður hans.

Í kvörtuninni eru gerðar margvíslegar athugasemdir við úrskurð nefndar­innar, m.a að rannsókn málsins hafi verið ófullnægjandi og að ákvörðunin sé reist á ómálefnalegum sjónarmiðum.

Gögn málsins bárust samkvæmt beiðni þar um 5. júlí sl.

  

II

1

Samkvæmt 2. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 eiga foreldrar rétt til umgengni við barn í fóstri nema umgengni sé bersýnilega andstæð hags­munum og þörfum barnsins og ósamrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt er að með ráðstöfun þess í fóstur. Við mat á þessu skal m.a. taka tillit til þess hversu lengi fóstri er ætlað að vara. Þeir sem telja sig nákomna barninu eiga með sama hætti rétt til umgengni við barnið, enda verði talið að það sé til hagsbóta fyrir barnið. Barn 15 ára og eldra getur sjálft gert kröfu um umgengni. Samkvæmt 3. mgr. 74. gr. skal við ráð­stöfun barns í fóstur taka afstöðu til umgengni barns við foreldra og aðra nákomna og skal tekið mið að því hvað þjónar hagsmunum barnsins best. Náist ekki samkomulag um slíka breytingu tekur barnaverndarnefnd ákvörðun með úrskurði.

Í athugasemdum 74. gr. frumvarpsins kemur m.a. eftirfarandi:

„Við ákvörðun um umgengni verður barnaverndarnefnd sem endranær að meta hagsmuni og þarfir barns í hverju máli. Gæta verður þess að umgengni sé í samræmi við markmiðið með fóstri. Þannig verður almennt að gera ráð fyrir ríkari umgengni ef fóstri er ætlað að vara í skamman tíma og áætlað að barn snúi aftur til foreldra sinna. Þegar barni er ráðstafað í fóstur sem ætlað er að vara þar til barn verður lögráða verður almennt að gera ráð fyrir að foreldrar hafi ekki verið færir um að búa barninu viðunandi uppeldisaðstæður og hafi jafnvel verið sviptir forsjá barnsins af ástæðum sem lýst er í 29. gr. frumvarpsins. Markmið fósturs er þá að jafnaði að barn aðlagist og tilheyri fósturfjölskyldu sem taki að sér uppeldi þess. Við slíkar aðstæður er viðurkennt að hagmunir barnsins kunni að krefjast þess að umgengni verði takmörkuð allverulega en árétta ber að meta þarf hagsmuni barnsins í hverju tilviki og sterk rök þurfa að vera fyrir því að hafna umgengni með öllu.“ (Alþt. 2001-2002, A-deild, bls. 1863-1864.) 

Í reglugerð nr. 804/2004, um fóstur, sem sett er með stoð í 78. gr. laga nr. 80/2002, eru framangreind sjónarmið áréttuð, sbr. 25. gr. reglu­gerðarinnar.

Með lögum nr. 80/2002 hefur löggjafinn falið barnaverndarnefnd, og eftir atvikum úrskurðarnefnd velferðarmála við meðferð máls á kæru­stigi, að leggja mat á það hvernig umgengni fósturbarns við foreldra og aðra nákomna skuli háttað. Ákvörðun um umgengni felur því í sér matskennda stjórnvaldsákvörðun en við töku slíkra ákvarðana verður að játa stjórnvöldum visst svigrúm til mats. Þær ákvarðanir verða þó að uppfylla þær kröfur sem leiða af þeim sérlögum sem gilda um viðkomandi málaflokk og almennum reglum stjórnsýsluréttarins, svo sem réttmætis­reglunni, en í samræmi við hana verður ákvörðun að byggjast á mál­efna­legum sjónarmiðum.

Af 1. mgr. 2. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, leiðir að eftirlit umboðsmanns í málum sem þessum beinist fyrst og fremst að því hvort málsmeðferð og ákvörðun stjórnvalds hafi verið í samræmi við lög og vandaða stjórnsýsluhætti. Þegar ákvörðun stjórnvalds byggist m.a. á mati sérfræðinga sem koma að málinu er umboðsmaður Alþingis hins vegar almennt ekki í stakk búinn til að endurskoða slíkt mat efnislega. Það stafar af því að slíkt mat er framkvæmt af sérfræðingum sem hafa aflað sér þeirrar þekkingar og reynslu á sínu sviði sem nauðsynlegt er að hafa. Það er því ekki verkefni mitt að taka afstöðu til þess hvert um­fang umgengni foreldris við barn í fóstri eigi að vera heldur fyrst og fremst að fjalla um hvort málsmeðferð og ákvörðun um umgengni hafi verið lögmæt.

  

2

Ein af þeim meginreglum sem leggja ber til grundvallar barna­verndar­starfi er að beita þeim ráðstöfunum sem ætla má að barni sé fyrir bestu og skulu hagmunir barna ávallt hafðir í fyrirrúmi í starfsemi barna­verndar­yfirvalda, sbr. 1. mgr. 4. gr. Sú grunnregla barnaréttar um að hagmunir barna skuli hafðir í fyrirrúmi, eftir því sem velferð þeirra krefst, nýtur verndar stjórnarskrárinnar, sbr. t.d. dóm Hæstaréttar í frá 10. mars 2020 í máli nr. 58/2019. Réttur til friðhelgi einkalífs fjölskyldu og heimilis skv. 1. mgr. 71. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 9. gr. stjórnskipunarlaga nr. 97/1995, kann því að þurfa að víkja séu að­stæður barns með þeim hætti að velferð þess sé í húfi.

Af orðalagi 74. gr. laga nr. 80/2002 og lögskýringargögnum að baki ákvæðinu leiðir eins og fyrr greinir að ákvörðun um umgengni barns í fóstri við foreldra sína er matskennd, þ.e. viðkomandi stjórnvaldi ber að taka mið þeim atvikum og aðstæðum sem fyrir liggja hverju sinni, og byggist fyrst og fremst á hagsmunum þess barns sem á í hlut, enda eru það þeir hagsmunir sem ráða skulu mestu um niðurstöðu máls, sjá álit umboðsmanns Alþingis frá 7. apríl 2006 í máli nr. 4474/2005, auk þess sem tekið er mið af markmiðum fóstursins. Réttur foreldra til umgengni við barn sitt kann þannig að vera takmarkaður vegna hagsmuna barnsins af því að fá næði til að aðlagast nýrri fjölskyldu. Þegar barni er ráðstafað í fóstur sem ætlað er að vara þar til barn verður lögráða er markmið fóstursins að barn aðlagist og til­heyri fósturfjölskyldu sem taki að sér uppeldi þess. Við slíkar aðstæður er viðurkennt að hagsmunir barnsins kunni að krefjast þess að umgengni verði takmörkuð allverulega. Þá hlýtur undirbúningur ákvörðunar um umgengni að meginstefnu til að miða að því að upplýsa um hagi og líðan barns til að unnt sé að meta hags­muni þess í tengslum við umgengnina.

Af úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála, sem m.a. var skipuð sálfræðingi, verður ráðið að niðurstaða nefndarinnar hafi einkum byggst á því mati nefndarinnar að það þjóni hagsmunum barnsins best við núverandi aðstæður að umgengni þess við umbjóðanda yðar verði á þann hátt sem ákveðið var með úrskurði barnaverndarnefndar Hafnarfjarðar 31. mars 2020. Við það mat var litið til hagsmuna og þarfa barnsins, þess að fóstrinu er ætlað að vara til 18 ára aldurs og að umgengni þurfi að vera samrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt er að með ráðstöfun í varanlegt fóstur. Einnig var litið til líðanar barnsins hjá fóstur­for­eldrum og eftir umgengni við umbjóðanda yðar. Þessir matsþættir fela almennt í sér málefnaleg sjónarmið og eru í samræmi við ákvæði 74. gr. laga nr. 80/2002 og þau sjónarmið sem leiða má af lögskýringargögnum við ákvæðið.

Af framangreindu virtu og með hliðsjón af þeim sjónarmiðum sem rakin hafa verið um eftirlit umboðsmanns í þessum málum hef ég kynnt mér gögn málsins. Þau gögn sem einkum munu hafa legið fyrir í úrskurði nefndarinnar eru úrskurður barnaverndarnefndar Hafnarfjarðar frá 31. mars 2020 og greinargerð nefndarinnar frá 26. júní sama ár. Í framan­greindum gögnum er m.a. vísað til upplýsinga frá skóla og fóstur­for­eldum. Jafnframt lá fyrir skýrsla talsmanns barnsins sem hefur sér­þekkingu á málefnum barna með fötlun, sbr. skýrslu talsmanns frá 19. febrúar 2020. Þá lá fyrir dómur héraðsdóms Reykjaness frá 9. apríl 2019 og dómur Landsréttar frá 11. október sama ár.

Þegar litið er til þessa og annarra gagna málsins tel ég mig ekki hafa forsendur til þess að gera athugasemdir við niðurstöðu nefndar­innar. Þar hef ég einkum í huga að ekki verður annað ráðið en að þau sjónar­mið sem nefndin lagði til grundvallar hafi verið í samræmi við þau sjónarmið sem fram koma í 74. gr. barnaverndarlaga og leiða má af lögskýringargögnum, og að lagt hafi verið sérstakt mat á hvernig þau horfðu við í málinu með tilliti til hagsmuna barnsins. Ég tel mig ekki hafa forsendur til þess að fullyrða að mat nefndarinnar á þeim gögnum og upplýsingum sem lágu fyrir í málinu hafi verið bersýnilega ófor­svaranlegt. Þá er það jafnframt niðurstaða mín að ekki séu efni til að gera athugasemdir við rannsókn málsins. Í því sambandi minni ég á að umboðsmaður getur ekki lagt til grundvallar eigið mat á aðstæðum sem löggjafinn hefur falið stjórnvöldum að meta hverju sinni, heldur að hafa eftirlit með því að stjórnvöld framfylgi lögum og reglum í störfum sínum.

Að öðru leyti tel ég þær athugasemdir sem fram koma í kvörtun yðar ekki þess eðlis að tilefni sé til að taka þær til nánari umfjöllunar.

  

IV

Með vísan til alls framangreinds lýk ég hér með umfjöllun minni um kvörtun umbjóðanda yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.