Lögreglumál. Kvartanir vegna hávaða og ónæðis frá húsnæði í einkaeign. Almannafriður og allsherjarregla. Eignarráð fasteignareigenda. Allsherjarumboð lögreglu. Samskipti lögreglu og annarra stjórnvalda. Meðalhófsregla.

(Mál nr. 2824/1999 og 2836/1999)

A, B og C kvörtuðu yfir aðgerðarleysi lögreglunnar í Reykjavík í tilefni af kvörtunum og tilkynningum vegna hávaða og ónæðis frá tilteknu húsnæði í einkaeign og óleyfilegri starfsemi bílabónstöðvar í húsinu. Af gögnum málsins mátti ráða að lögreglan í Reykjavík hafði á undanförnum árum haft fjölmargar slíkar tilkynningar, kvartanir og kærur til meðferðar frá íbúum í grennd við umrætt húsnæði. Höfðu íbúarnir einnig leitað til borgaryfirvalda og umhverfisráðuneytisins vegna málsins.

Umboðsmaður tók fram að við upphaf athugunar sinnar á málinu hefði komið í ljós að lögreglan í Reykjavík hefði talið sig að lögum hafa takmarkaðar heimildir til aðgerða í tilvikum á borð við þau sem ofangreindar kvartanir A, B og C lutu að. Með hliðsjón af 5. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, ákvað hann því að beina athugun sinni með almennum hætti að valdheimildum lögreglunnar þegar kvartanir og tilkynningar um hávaða og ónæði frá húsnæði í einkaeign berast lögreglu. Til þess að draga með skýrari hætti fram hvort og þá hvernig efni valdheimilda lögreglu kæmu til skoðunar í einstökum tilvikum taldi umboðsmaður þó rétt að hafa atvik þau sem fram kæmu í kvörtunum A, B og C til hliðsjónar í álitinu. Með tilliti til þessa taldi umboðsmaður að 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997 stæði því ekki í vegi að hann fjallaði með þessum almenna hætti um valdheimildir lögreglu, með hliðsjón af umræddum kvörtunum, án þess að beina A, B og C fyrst til dóms- og kirkjumálaráðuneytisins.

Umboðsmaður tók fram að í málinu reyndi á álitaefni sem beindist að eignarráðum fasteignareiganda og þá að hvaða marki um væri að ræða einkaréttarlegan ágreining sem aðilar yrðu að leysa sín á milli og þá eftir atvikum með þeim úrræðum sem lög bjóða, t.d. með aðkomu dómstóla, eða hvort um væri að ræða slíka röskun á almannahagsmunum og eftir atvikum sérgreindum hagsmunum tiltekinna einstaklinga að lög leiddu til þess að yfirvöldum bæri að grípa inn í, og þá einkum lögreglu, og gera nauðsynlegar ráðstafanir til að stöðva eða stemma stigu við afleiðingum af þeim athöfnum sem kvartað væri yfir og/eða rannsaka hvort framin hefðu verið refsiverð brot.

Rakti umboðsmaður ákvæði 72. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944 um friðhelgi eignarréttar og tók fram að á síðari árum hefði í auknum mæli komið til reglur sem mæla fyrir um takmarkanir á eignarráðum fasteignareiganda og reglur sem áskilja að fyrir þurfi að liggja samþykki opinberra yfirvalda til tiltekinnar hagnýtingar eignar. Taldi umboðsmaður rétt að leggja á það áherslu að þau auknu afskipti opinberra aðila af hagnýtingu fasteigna kynnu einnig að hafa að einhverju marki leitt til þess að það kæmi nú að lögum í hlut lögreglu að grípa í meira mæli inn í athafnir fasteignareiganda en áður var þegar eignarráð hans og afskipti nágranna af þeim réðust aðallega af einkaréttarlegum reglum.

Umboðsmaður rakti ákvæði 2. mgr. 1. gr. lögreglulaga nr. 90/1996 um hlutverk lögreglunnar og 15. gr. um aðgerðir lögreglu í þágu almannafriðar og allsherjarreglu og lögskýringargögn. Lagði umboðsmaður áherslu á að hlutverk lögreglu og lögbundnar heimildir hennar til afskipta af borgurunum næði til fleiri þátta og atvika en beinna rannsókn mála á grundvelli laga nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála. Lögreglan hefði einnig almennt eftirlitshlutverk með því að almannafriður og allsherjarregla í merkingu 15. gr. lögreglulaga væri tryggð og virt á hverjum tíma. Benti hann á að 15. gr. fjallar ekki beinlínis um merkingu og inntak þessara hugtaka en hafa yrði í huga að aðgerðir lögreglu samkvæmt greininni hefðu eðli máls samkvæmt í för með sér íþyngjandi áhrif á þann sem fyrir þeim yrði. Þá væru slíkar ákvarðanir oft og tíðum teknar undir erfiðum kringumstæðum þar sem fram þyrfti að fara vandasamt mat á andstæðum og oft á tíðum ósamrýmanlegum hagsmunum. Þá rakti umboðsmaður ákvæði laga nr. 36/1988, um lögreglusamþykktir og sérstaklega ákvæði lögreglusamþykktar fyrir Reykjavík nr. 625/1987 með síðari breytingum. Taldi hann að í lögum beinlínis væri gert ráð fyrir aðkomu og ráðstöfunum lögreglunnar við þær aðstæður þegar mikill hávaði og ónæði hlýst af starfsemi eða athöfnum í húsi í grennd við íbúðabyggð. Álitaefnið snerist því ekki um hvort heldur hvaða ráðstafanir lögreglunni væri heimilt að grípa til og undir hvaða kringumstæðum. Það væri hlutverk lögreglunnar að lögum að gera ráðstafanir, ef tilefni yrði til, þannig að borgararnir gætu með raunhæfum hætti búið við aðstæður þar sem ekki væri fyrir að fara óeðlilegum hávaða og ónæði frá nágrönnum. Umboðsmaður benti þó á að samlíf borgaranna innan borgarmarka Reykjavíkur og í öðrum bæjarfélögum fæli eðli máls samkvæmt í sér tiltekið áreiti vegna hávaða og ónæðis annarra sem menn yrðu jafnan að sætta sig við. Taldi umboðsmaður að fjöldi tilvika og stig hávaða og ónæðis sem stafaði frá húseign nágranna í og við íbúðabyggð og eðli slíkra tilvika að öðru leyti gæti við ákveðnar aðstæður orðið svo ítrekað og umfangsmikið að það yrði talið fela í sér röskun á almannafriði og allsherjarreglu í merkingu 15. gr. lögreglulaga og ákvæða lögreglusamþykkta settra á grundvelli laga nr. 36/1988, sbr. t.d. 4. og 5. gr. lögreglusamþykktar fyrir Reykjavík. Við slíkar aðstæður væri lögreglunni beinlínis skylt að lögum að gera fullnægjandi og viðeigandi ráðstafanir til þess að bregðast við slíku ástandi.

Umboðsmaður vék þessu næst að samskiptum lögreglu og annarra stjórnvalda í þessu sambandi. Rakti umboðsmaður ákvæði 5. mgr. 15. gr. lögreglulaga og ákvæði laga nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, meðal annars um hlutverk og valdheimildir heilbrigðisnefnda sveitarfélaga. Þá vék hann að ákvæðum reglugerðar nr. 933/1999, um hávaða, sem sett hefði verið á grundvelli laganna. Einnig rakti umboðsmaður ákvæði skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og byggingarreglugerðar nr. 441/1998, meðal annars um valdheimildir byggingarfulltrúa og byggingarnefnda sveitarfélaga.

Að því er varðaði atvik þau sem lágu til grundvallar kvörtunum A, B og C tók umboðsmaður fram að afmarka þyrfti nánar hvort og þá hvernig lögreglan í Reykjavík hefði fullnægt framangreindum lögbundnum skyldum sínum.

Umboðsmaður benti á að það leiddi af lagareglum um hlutverk lögreglunnar sem hann hefði rakið að henni bæri, við athugun mála vegna tíðra tilkynninga og kvartana um hávaða frá tiltekinni starfsemi sem fram færi í húsnæði, skylda til að kanna, meðal annars með formlegum fyrirspurnum til hlutaðeigandi yfirvalda, hvort fyrir lægju tilskilin leyfi til umræddrar starfsemi í húsnæðinu. Ef svo væri ekki gæti verið tilefni til þess að rannsaka sérstaklega hvort um væri að ræða brot á lögum og reglugerðum á viðkomandi sviði sem meðal annars gætu leitt til refsiábyrgðar. Taldi umboðsmaður sjónarmið um meðalhóf við val lögreglunnar á aðgerðum leiða til þess að rétt gæti verið að lögreglan beinlínis upplýsti hlutaðeigandi stjórnvöld þegar henni bærust í miklum mæli tilkynningar og kvartanir vegna hávaða og ónæði eða tiltekna starfsemi í húsnæði. Tók hann fram að bæru þessi vægari úrræði lögreglunnar ekki árangur til að koma á ásættanlegu ástandi gæti það leitt til þess að rétt væri að lögreglan gripi til þeirra úrræða sem henni væru fengin með lögum, sbr. 15. gr. lögreglulaga, t.d. með því að stöðva starfsemi. Benti hann á að áður en til slíkra úrræða yrði gripið þyrfti að koma til rannsóknar þar sem meðal annars væri upplýst hvaða heimildir lægju fyrir til handa eigandanum til að nýta eign sína. Að öðru leyti taldi umboðsmaður að gögn málsins gæfu ekki tilefni til þess að unnt væri að fullyrða að tilefni hefði verið til þess að lögreglan gripi til frekari aðgerða en gert var frá fyrstu kvörtunum og fram að því að byggingarfulltrúi bannaði alla tónlistarstarfsemi í húsnæðinu.

Umboðsmaður taldi hins vegar að af gögnum málsins væri ljóst að viðbrögð lögreglunnar hefðu ekki verið í samræmi við hlutverk og skyldur hennar að lögum með tilliti til lögmæltrar aðkomu byggingarfulltrúans í Reykjavík og aðstæðna í málinu eftir að byggingarfulltrúinn hafði alfarið bannað tónlistarflutning í húsnæðinu og síðar þegar byggingarnefnd aflétti banninu en viðhafði enn tilteknar takmarkanir á tónlistarflutningi í því. Hafi þannig viðbrögð lögreglunnar ekki verið til þess fallin að tryggja og vernda almannafriði í merkingu þeirra lagareglna sem raktar hefðu verið í málinu Var það því niðurstaða umboðsmanns að lögreglan hefði ekki sinnt með fullnægjandi hætti lögboðnu hlutverki sínu við framkvæmd takmarkana byggingarfulltrúa og byggingarnefndar Reykjavíkur en meðal annars kom til greina að mati umboðsmanns að lögreglan girti alfarið fyrir aðgang hljómsveita að húsnæðinu á meðan takmarkanirnar hefðu verið í gildi eða að hún beitti öðrum þeim íþyngjandi úrræðum sem 15. gr. lögreglulaga heimilaði.

Umboðsmaður vék loks að því að við athugun hans á þessu máli hefði hann orðið þess var að skortur væri á almennum verklagsreglum um viðbrögð lögreglumanna þegar ítrekað væri kvartað af hálfu íbúa yfir miklum hávaða eða ónæði frá húsnæði í einkaeign. Sökum þessa taldi umboðsmaður rétt að vekja athygli ríkislögreglustjóra á þeim sjónarmiðum sem rakin væru í álitinu meðal annars í því skyni að hann gæti tekið afstöðu til þess hvort einhverra viðbragða væri þörf.

Beindi umboðsmaður þeim tilmælum til lögreglustjórans í Reykjavík að hann sæi til þess að aðkoma og ráðstafanir lögreglunnar í tilefni af tilkynningum og kvörtunum íbúa í nágrenni við umrætt húsnæði og í öðrum sambærilegum tilvikum yrði framvegis hagað í samræmi við þau sjónarmið sem rakin hefðu verið í álitinu. Þá ákvað hann að vekja athygli dóms- og kirkjumálaráðherra sem æðsta yfirmanns á sviði lögreglumála á efni álitsins.

I.

Hinn 1. september 1999 leitaði A til mín og kvartaði yfir aðgerðaleysi lögreglunnar í Reykjavík í tilefni af kvörtunum hennar og annarra íbúa í nágrenni húsnæðisins að X vegna hávaða, ónæðis frá húsinu, óþrifnaðar við það og í nágrenni þess. Með bréfi, sem barst mér 14. september 1999, leituðu einnig til mín B og C með sama kvörtunarefni.

Við upphaf athugunar minnar á ofangreindum kvörtunum kom í ljós að lögreglan í Reykjavík taldi sig að lögum hafa takmarkaðar heimildir til aðgerða í tilvikum á borð við þau sem ofangreindar kvartanir lutu að. Ég ákvað því að beina athugun minni og umfjöllun í þessu áliti með almennum hætti að valdheimildum lögreglunnar við þær aðstæður þegar kvartanir og tilkynningar berast um hávaða og ónæði frá húsnæði í einkaeign. Hafði ég þá hliðsjón af þeirri heimild sem mér er fengin í 5. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Ég lauk máli þessu með áliti, dags. 23. mars 2001.

II.

Af gögnum málsins má ráða að lögreglan í Reykjavík hefur á undanförnum árum haft til meðferðar málefni sem lúta að húsnæðinu að X. Síðan í ársbyrjun 1997 hafa lögreglu borist fjölmargar tilkynningar um hávaða og ónæði frá íbúum í grennd við húseignina vegna tónlistarflutnings hljómsveita sem höfðu þar æfingaaðstöðu. Þá verður ráðið af gögnum málsins að íbúar í nærliggjandi húsum hafi einnig leitað til borgaryfirvalda og umhverfisráðuneytisins vegna þess ónæðis sem þeir telja sig hafa orðið fyrir frá þeirri starfsemi sem þar hefur farið fram. Auk kvartana vegna æfinga hljómsveita í húsnæðinu kvörtuðu íbúarnir til lögreglu og heilbrigðisyfirvalda Reykjavíkurborgar yfir því að fram færi í húsinu starfsemi bónstöðvar án tilskilinna leyfa.

Samkvæmt dagbók lögreglunnar var fyrst kvartað 23. mars 1997 yfir hávaða frá æfingum hljómsveita í húsnæðinu að X. Það ár var einnig kvartað til heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur vegna hávaða frá umræddum æfingum hljómsveita og gerði heilbrigðiseftirlitið mælingar vegna þessa. Síðla árs 1998 leituðu íbúar í nágrenni X til borgaryfirvalda. Af því tilefni var af hálfu skrifstofu borgarstjóra spurst fyrir hjá lögreglunni um kvartanir íbúa í nágrenni X. Lögreglustjórinn í Reykjavík svaraði þeirri fyrirspurn með bréfi, dags. 28. nóvember 1998. Gaf hann þar yfirlit yfir kvartanir frá upphafi árs 1998. Af sama tilefni var af hálfu borgarstjórnar óskað eftir upplýsingum frá heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur og voru þær látnar í té með minnisblaði, dags. 28. janúar 1999. Með bréfi frá skrifstofu borgarstjóra, dags. 11. febrúar 1999, til byggingarfulltrúans í Reykjavík voru honum kynnt framangreind yfirlit lögreglunnar og minnisblað heilbrigðiseftirlitsins og bent á að þar kæmi fram að húsnæðið að X væri hvorki samþykkt til hljómsveitaræfinga né bílabónunar og að byggingarfulltrúi hefði þegar haft afskipti af málinu. Var óskað eftir upplýsingum um hver þau afskipti væru og hvort einhverjar ákvarðanir lægju fyrir í málinu.

Byggingarfulltrúinn í Reykjavík svaraði skrifstofu borgarstjórnar með bréfi, dags. 16. febrúar 1999. Kom þar fram að eiganda húsnæðisins hefði verið ritað bréf 18. janúar 1999 og settur frestur til að bæta úr annmörkum sem væru á húsnæðinu og skorti á teikningum af því. Eigandinn hefði síðan komið á fund byggingarfulltrúa og óskað eftir lengri fresti og hann verið veittur til 3. mars 1999. Í lok bréfs byggingarfulltrúa segir:

„Þá er og rétt að geta þess að sú starfsemi sem nú fer fram í húsinu er í samræmi við landnotkun og ætti því að uppfylltum skilyrðum að vera hægt að veita fyrir henni leyfi byggingarnefndar.“

Í tilvitnuðu bréfi byggingarfulltrúans til eigandans, dags. 18. janúar 1999, er bent á að heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur hafi spurst fyrir um samþykkta notkun á húsnæðinu vegna kvartana um hávaða frá því. Er því síðan lýst að samkvæmt fyrirliggjandi teikningum og samþykktum hjá byggingarfulltrúa um fyrirkomulag og notkun húsnæðisins sé ljóst að hluti húsnæðisins hafi verið reistur án heimilda frá byggingaryfirvöldum, þ.m.t. sá hluti sem nú hýsi bílabónstöð. Var síðan í bréfinu gerð krafa um að lögð yrði fram umsókn og uppdrættir af húsinu þar sem sótt væri um leyfi fyrir núverandi fyrirkomulagi og starfsemi í húsinu. Frestur til þessa var gefinn til 17. febrúar 1999.

Hinn 15. júní 1999 rituðu A, D og E, íbúar að Y í Reykjavík, bréf til lögreglustjórans í Reykjavík og gerðu kröfu um að starfsemi í húsnæðinu að X yrði stöðvuð vegna hávaða sem stafaði frá æfingum hljómsveita þar. Sama dag rituðu þau einnig bréf til umhverfisráðherra og kvörtuðu yfir „hávaða frá skúrum við [X]“. Þá er að finna í gögnum málsins bréf formanns húsfélags í nágrenni við X, fyrir hönd félagsins, dags. 6. júlí 1999, til umhverfisráðherra. Í því bréfi eru atvik og aðstæður raktar með eftirfarandi hætti:

„F.h. Húsfélagsins […] í Reykjavík, neyðist ég til að skrifa þér nokkrar línur vegna nágranna okkar í [X]. Það hús hefur í nokkur ár hýst starfsemi sem hefur verið mjög truflandi fyrir íbúa hverfisins. Í nokkur ár var þar eiturlyfjabæli og dreifing og var á þeim tíma „gómsætur fjölmiðlamatur“. Lögreglunni tókst loks að losa okkur við þennan ófögnuð, en því miður var Adam ekki lengi í Paradís og ný starfsemi hóf göngu sína. Húsið var æfingarhúsnæði hljómsveita. Þarna æfa fjölmargar hljómsveitir og byrja æfingar oft að morgni og standa langt fram á kvöld með mislöngum hléum. Þessari starfsemi fylgir oft og tíðum mikil umferð. Íbúar hafa oftsinnis beðið húsráðanda í [X] og fleiri, að draga úr hávaða og hefur því einatt verið illa tekið og jafnvel hótanir um að nágrannar gætu haft verra af. Farartæki hafa verið skemmd í kjölfarið. Skv. upplýsingum Lögreglustjóra, sem við tveir íbúar […] heimsóttum þann 24. mars s.l. höfðu borist embætti hans rúmlega 80 kvartanir frá nágrönnum. Síðan hafa margar kvartanir verið gerðar. Skv. upplýsingum […] hjá Lögreglustjóraembættinu í gær 5. júlí hefur lögreglan verið í sambandi við Heilbrigðiseftirlitið og Byggingarfulltrúa Reykjavíkurborgar þar sem Lögreglan hefur ekki heimild til að gera annað en sinna kvörtunum íbúanna hér og áminna hávaðaseggina og oftast fer allt í gang aftur þegar lögreglan er farin.“

Hinn 5. júlí 1999 var D og B tilkynnt að lögreglan hefði haft til meðferðar mál vegna tilkynningar þeirra um hávaða innandyra að X í Reykjavík hinn 27. júní 1999. Fram kom að það væri niðurstaða lögreglunnar að eins og atvikum væri háttað í málinu væri eigi tilefni til að aðhafast frekar í málinu og því væri málið fellt niður með vísan til 76. gr. laga nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála.

Umhverfisráðuneytið svaraði ofangreindu erindi formanns húsfélagsins […] með bréfi, dags. 19. júlí 1999. Kom þar fram að í samræmi við 2. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 hefði erindið verið sent til afgreiðslu hjá heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur. Með bréfi ráðuneytisins, dags. 20. júlí 1999, til A, D og E kom fram að ráðuneytið hefði rætt málið við byggingarfulltrúa Reykjavíkurborgar og heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur. Meðfylgjandi bréfi umhverfisráðuneytisins var „til fróðleiks“ bréf byggingarfulltrúa til eiganda húsnæðisins að X, dags. 9. júlí 1999, sem er meðal annars svohljóðandi:

„Vísað er til bréfs undirritaðs til yðar, dags. 18. janúar 1999, svo og til samtals við yður 2. febrúar s.l., en þar var yður veittur lengri frestur til að skila inn umsókn vegna óleyfisbreytinga á [X] ásamt því að sækja um leyfi fyrir þeim og núverandi starfsemi í húsinu.

Í dag 9. júlí hefur enn engin umsókn borist. Ítrekað hefur verið kvartað til lögreglu að hávaði frá húsinu valdi truflun og raski ró íbúa í nágrenninu.

Með vísan til 56. greinar skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 sbr. einnig gr. 209 í byggingarreglugerð nr. 441/1998 er yður hér með uppálagt að stöðva alla tónlistarstarfsemi í húsinu nú þegar.

Verði ekki farið að þessum fyrirmælum mun verða leitað aðstoðar lögreglu sbr. gr. 209.5 í byggingarreglugerð.

Stöðvun þessi skal standa þar til byggingarleyfi og önnur þau leyfi sem til þarf eru fengin og framkvæmdum vegna þeirra lokið.

Um búsetu yðar í húsinu og rekstur bónstöðvar í óleyfisviðbyggingu mun verða fjallað þegar byggingarleyfisumsókn liggur fyrir, nema tilefni gefist til annars.“.

Þess skal getið að afrit af tilvitnuðu bréfi byggingarfulltrúans til eiganda X var sent lögreglunni í Reykjavík, heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur og borgarráði Reykjavíkur.

Í gögnum málsins kemur fram að 9. júlí 1999 var að frumkvæði lögreglunnar boðað til fundar með fulltrúum íbúa í nágrenni við X og staða mála skýrð fyrir þeim. Einnig héldu fulltrúar lögreglunnar fund með byggingarfulltrúa og fulltrúa frá heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur vegna málsins. Í framhaldi af þeim fundi lagði byggingarfulltrúi áðurgreint bann við hljóðafæraleik í húsnæðinu. Með minnisblaði aðstoðaryfirlögregluþjóns, dags. 13. júlí 1999, til aðalvarðstjóra og annarra lögreglumanna var þetta bann kynnt.

Með bréfi, dags. 30. júlí 1999, ritaði byggingarfulltrúi eiganda húsnæðisins að X á ný og tilkynnti honum að á fundi byggingarnefndar Reykjavíkur 29. s.m. hefði verið „samþykkt að aflétta algeru banni byggingarfulltrúa frá 9. júlí sl., um tónlistaræfingar í [X] þannig að í einn mánuð [yrði] leyft að stunda tónlistaræfingar á virkum dögum milli kl. 8.00 – 20.00“. Fram kom að þetta væri gert með vísan til þess að eigandinn myndi eigi síðar en 4. ágúst 1999 leggja fram byggingarleyfisumsókn vegna þáverandi fyrirkomulags í húsinu þannig að um hana mætti fjalla á fundi byggingarnefndar 12. ágúst 1999. Þá sagði loks í bréfi byggingarfulltrúans að með samþykktinni tæki byggingarnefnd ekki afstöðu til þess hvort sú starfsemi sem væri í húsinu yrði leyfð þegar umfjöllun um málið færi fram.

Hinn 1. september 1999 ritaði byggingarfulltrúi lögreglunni í Reykjavík bréf þar sem vísað var til fundar byggingarnefndar Reykjavíkur 26. ágúst 1999 þar sem samþykkt hefði verið byggingarleyfisumsókn vegna X. Í bréfinu er síðan vísað til bókunar byggingarnefndar vegna málsins um að takmörkun á æfingatíma hljómsveita, sbr. bréf byggingarfulltrúa til eiganda húseignarinnar 30. júlí 1999, yrði ekki aflétt fyrr en lokaúttekt byggingarfulltrúa hefði farið fram en þar skyldi sýnt fram á að hljómsveitaræfingar yllu ekki hávaðamengun umfram leyfileg mörk. Í lok bréfsins er eftirfarandi sérstaklega tekið fram:

„Undirritaður mun tilkynna [lögreglunni í Reykjavík] þegar banni verður aflétt. En fram að þeim tíma er óskað eftir aðstoð lögreglu til þess að framfylgja banninu.“

Lögreglustjórinn í Reykjavík sendi byggingarfulltrúanum í Reykjavík svohljóðandi bréf, dags. 30. september 1999:

„Með vísan til bréfs yðar frá 30. júlí sl. er varðar takmörkun á tónlistarflutningi í húsnæði við [X] þykir lögreglu nauðsynlegt að koma eftirfarandi upplýsingum á framfæri við embætti yðar.

Meðfylgjandi er yfirlit yfir þau tilvik þar sem lögreglu berast tilkynningar-kvartanir um tónlistarflutning frá ofangreindu húsnæði. Er þar bæði um að ræða ábendingar og kvartanir um hljómsveitaræfingar á tíma sem slíkt er óheimilt samkvæmt bréfi yðar og eins ónæðistilkynningar á þeim tíma dags þegar fallist hefur verið á að slíkar æfingar séu stundaðar í húsnæðinu.

Samkvæmt þessum upplýsingum eru það 43 kvartanir sem borist hafa lögreglu vegna þessa máls þar af 33 á þeim tíma þegar bann hefur verið lagt við hljómsveitaræfingum. Það er því ljóst að ekki hefur verið fylgt eftir fyrirmælum byggingarfulltrúa um bann við hljómsveitaræfingum á ákveðnum tímum dags.

Það eru tilmæli frá lögreglu að fari fram endurskoðun á heimild til hljómsveitaræfinga í ofangreindu húsnæði að bann við slíkum æfingum [verði] einnig látið ná til laugardaga eins og sunnudag.“

Byggingarfulltrúinn í Reykjavík kynnti eiganda X með bréfi, dags. 7. október 1999, að honum hefði borist ofangreint bréf lögreglunnar í Reykjavík og að ætlun hans væri að leggja til á næsta fundi byggingarnefndar að bann við tónlistaræfingum í húsnæðinu yrði einnig látið ná til laugardaga. Var eigandanum gefinn kostur á því í samræmi við 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að tjá sig um málið.

Á fundi byggingarnefndar Reykjavíkurborgar 28. október 1999 var fjallað um málefni X. Var meðal annars lagt fram áðurgreint bréf lögreglunnar frá 30. september 1999 og nýjar mælingar heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur. Samþykkti nefndin svohljóðandi tillögu um málið:

„Byggingarnefnd samþykkti að tillögu byggingarfulltrúa með vísan til hljóðmælingar Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur og skoðunar byggingarfulltrúa á húsnæðinu þann 27. október 1999 að aflétta banni við tónlistaræfingum, þó þannig að æfingar fari ekki fram frá 23.00 til kl. 8.00.

Þessi ákvörðun verður til endurskoðunar ef sýnt er fram á að hávaðastig sé annað og meira en fyrrgreind mæling Heilbrigðiseftirlitsins leiddi í ljós.“

Þessi samþykkt var staðfest á fundi borgarstjórnar Reykjavíkur 4. nóvember 1999.

III.

Með bréfum 1. september og 14. september 1999 leituðu A, B og C til mín. Í báðum kvörtunum eru gerðar athugasemdir við „aðgerðarleysi“ lögreglunnar í Reykjavík og málsmeðferð byggingarfulltrúans í Reykjavík í tilefni af fjölmörgum tilkynningum og erindum vegna hávaða, ónæðis, óþrifnaðar, mengunar og umferðar við húseignina að X. Þá voru gerðar athugasemdir við meinta ólöglega starfsemi bónstöðvar sem til staðar væri í húsinu.

Í tilefni af kvörtun A ritaði ég lögreglustjóranum í Reykjavík og byggingarfulltrúa Reykjavíkurborgar bréf, bæði dags. 3. september 1999. Í bréfi mínu til byggingarfulltrúans óskaði ég, sbr. 7. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, eftir upplýsingum um hvort frekari ákvarðanir hefðu verið teknar um hvaða starfsemi væri heimil í húsinu að X eftir þá afgreiðslu byggingarnefndar Reykjavíkur sem gerð var grein fyrir í bréfi byggingarfulltrúans til eiganda hússins, dags. 30. júlí 1999. Jafnframt óskaði ég eftir að fá afhent afrit af þeim gögnum sem væru í vörslu embættisins og lytu að ofangreindu máli.

Í bréfi mínu til lögreglustjórans í Reykjavík rakti ég þau gögn sem höfðu fylgt kvörtun A, þ.e. bréf, dags. 15. júní 1999, sem hún og fleiri hefðu ritað honum vegna málsins þar sem þau gerðu kröfu um aðgerðir af hálfu embættis lögreglustjórans. Þá vísaði ég til bréfs frá lögreglunni í Reykjavík, dags. 5. júlí 1999, til D þar sem fram hefði komið að embættið hefði haft til meðferðar mál vegna tilkynningar og hávaða innandyra að X í Reykjavík 27. júní 1999. Í því bréfi hefði lögreglan í Reykjavík tilkynnt D að eins og atvikum væri háttað í málinu væri ekki tilefni til að aðhafast frekar í því og að málið væri því fellt niður með vísan til 76. gr. laga nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála. Þá vísaði ég til þess að með kvörtun A til mín hefði fylgt ljósrit af áðurnefndum bréfum byggingarfulltrúans í Reykjavík til eiganda hússins að X, dags. 9. júlí og 30. júlí 1999. Benti ég á að í fyrra bréfinu hefði byggingarfulltrúinn tekið fram að eiganda X hefði verið uppálagt að stöðva alla tónlistarstarfsemi í húsinu „nú þegar“ og lagt á það áherslu að ef ekki yrði farið að þessum fyrirmælum myndi verða leitað aðstoðar lögreglu, sbr. grein 209.5 í byggingarreglugerð. Vakti ég athygli á því að afrit af þessu bréfi hefði samkvæmt áritun á það verið sent lögreglunni í Reykjavík. Hins vegar benti ég á að í síðara bréfi byggingarfulltrúans til eiganda umræddrar húseignar að X kæmi fram að byggingarnefnd hefði ákveðið að aflétta „algeru banni“ byggingarfulltrúa frá 9. júlí 1999 um tónlistaræfingar í X þannig að í einn mánuð yrði leyft að stunda tónlistaræfingar þar á virkum dögum „milli kl. 8.00 – 20.00“. Að lokum rakti ég að með kvörtun A hefði einnig fylgt ljósrit af skýrslu lögreglunnar í Reykjavík, dags. 27. júlí 1999, þar sem fram kæmi að mættur væri einstaklingur sem hefði ákveðið að leggja fram kæru vegna ónæðis frá húsinu [að] X.

Í tilefni af kvörtun A óskaði ég þess, sbr. 7. og 9. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, að embætti lögreglunnar í Reykjavík skýrði viðhorf sitt til kvörtunar hennar og léti mér í té gögn málsins. Jafnframt óskaði ég eftir því að embættið léti mér í té yfirlit yfir erindi (kvartanir/kærur) sem því hefði borist vegna hávaða, ónæðis og annars vegna X í Reykjavík frá 1. janúar 1998. Óskaði ég eftir að fram kæmi hvenær erindið hefði borist og hvernig það hefði verið afgreitt. Þá óskaði ég eftir því að embætti lögreglunnar í Reykjavík gerði almennt grein fyrir viðhorfum sínum til þess til hvaða úrræða það gæti gripið í tilefni af erindum sem því bærust af sama toga og kvörtun A lyti að.

Í ljósi þess, eins og fyrr er rakið, að kvörtun B og C, sem barst mér 14. september 1999, laut að sama ágreiningsefni og kvörtun A og þar sem ég ákvað að fjalla almennt um athafnir og úrræði lögreglu við slíkar aðstæður ritaði ég ekki sérstök fyrirspurnarbréf til byggingarfulltrúa Reykjavíkurborgar eða lögreglustjórans í Reykjavík í tilefni hennar en kynnti þeim í síðari bréfum að B og C hefðu einnig leitað til mín.

Hinn 28. september 1999 barst mér bréf byggingarfulltrúa Reykjavíkurborgar, dags. 27. s.m., ásamt tilgreindum gögnum. Í bréfinu var vikið að því að takmörkun á æfingartíma hljómsveita í húsinu að X, sem tilkynnt var eiganda húseignarinnar 30. júlí 1999, yrði ekki aflétt fyrr en lokaúttekt byggingarfulltrúa hefði farið fram en þar skyldi sýnt fram á að hljómsveitaræfingar yllu ekki hávaðamengun umfram leyfileg mörk reglugerðar. Til upplýsingar fylgdi með bréfinu afrit af bréfi ráðgjafarfyrirtækisins Hljóðvistar ehf., dags. 7. september 1999, þar sem lagðar voru fram tillögur til úrbóta á hljóðeinangrun hússins að X. Að lokum var vakin athygli á því að sú starfsemi, sem sótt hefði verið um leyfi fyrir í húsinu, væri samrýmanleg „aðalskipulagi Reykjavíkur 1996-2016 um landnotkun“.

Með bréfi, dags. 19. október 1999, ritaði ég A og tilkynnti henni að ég hefði þann sama dag ritað lögreglunni í Reykjavík bréf sem fylgdi í ljósriti. Í því bréfi ítrekaði ég tilmæli mín frá 3. september 1999 og óskaði eftir að umbeðin svör og gögn bærust mér eigi síðar en 1. nóvember 1999. Þá vakti ég í bréfi mínu til A athygli hennar á því að með bréfinu til hennar fylgdi einnig ljósrit af ofangreindu bréfi byggingarfulltrúans í Reykjavík til mín, dags. 27. september 1999. Gaf ég A kost á því að senda mér þær athugasemdir í tilefni bréfs byggingarfulltrúans sem hún kynni að vilja gera. Benti ég henni hins vegar á þann kost að hún gæti látið það bíða þar til mér hefði einnig borist svarbréf lögreglustjórans.

Hinn 28. október 1999 barst mér bréf lögreglustjórans í Reykjavík, dags. 27. s.m. Með bréfinu fylgdu hins vegar ekki öll þau gögn sem ég hafði óskað eftir í bréfi mínu til hans 3. september 1999. Í bréfi lögreglustjórans sagði meðal annars svo:

„Skilgreining vandans:

1. Æfingar hljómsveita.

2. Drykkjulæti.

3. Starfsemi bónstöðvar.

4. Aðgerðarleysi lögreglu.

Um 1 Með bréfi byggingarfulltrúa frá 9. 7. s.l. var lagt blátt bann við allri tónlistarstarfsemi í húsinu. Síðan var slakað á og óljóst, hvernig þeim málum reiðir af.

Um 2 Áfengisneysla hefur óneitanlega tengst stað þessum.

Um 3 Lögreglan telur, að afskipti af slíkum rekstri sé ekki almennt í hennar verkahring.

Um 4 Óhætt er að fullyrða, að staður þessi hefur nánast verið í gjörgæslu lögreglu um langan tíma. Hinsvegar þarf fleira til, ef koma á í veg fyrir vandann. Er þar einkum vísað til samskipta borgaryfirvalda og eiganda.

Niðurlag

Viðhorf af hálfu embættisins til kvartana af þessu tagi er tvímælalaust að gera allt sem í mannlegu valdi stendur til að stemma stigu við röskun á friðhelgi heimilanna á þessu svæði sem öðrum. Eru miklar vonir tengdar nánu sambandi við stjórn Reykjavíkurborgar í þeim efnum.

Verið er að afla umbeðinna gagna og verða þau send eins fljótt og auðið er.“

Hinn 30. nóvember 1999 ritaði ég byggingarfulltrúa Reykjavíkurborgar og lögreglustjóranum í Reykjavík bréf. Bréf mitt til byggingarfulltrúans var svohljóðandi:

„Ég vísa til bréfs míns til yðar, dags. 3. september sl., vegna hússins að [X] í Reykjavík og svara yðar í bréfi, dags. 27. september sl.

Af sama tilefni óska ég nú eftir upplýsingum yðar, sbr. 7. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, um hvort sú lokaúttekt sem fjallað er um í bókun byggingarnefndar frá 26. ágúst sl. hafi farið fram og ef svo er með hvaða hætti hafi verið sannreynt að umrædd hávaðamengun sé ekki umfram ákvæði reglugerðar. Með sama hætti óska ég eftir upplýsingum um hvaða upplýsingar byggingarfulltrúi hafi látið lögreglunni í Reykjavík í té um heimildir til hljómsveitaæfinga í húsnæðinu eftir 26. ágúst sl.

Í áðurnefndri bókun byggingarnefndar segir í upphafi: „Sótt er um samþykki fyrir núverandi fyrirkomulagi, fyrir endurbótum á hljóðeinangrun og fyrir áður gerðri stækkun hússins á lóðinni [við X].“ Síðar í bókuninni segir: „Samþykkt“. Af þessu tilefni óska ég eftir upplýsingum um hvað byggingarnefnd hafi samþykkt og hvort og þá með hvaða hætti nágrönnum hafi verið kynnt efni umsóknarinnar áður en hún hlaut afgreiðslu hjá byggingarnefnd. Jafnframt óska ég eftir að þér sendið mér gögn málsins.“

Bréf mitt til lögreglustjórans í Reykjavík var hins vegar svohljóðandi:

„Með bréfi, dags. 3. september sl., gerði ég yður grein fyrir efni kvörtunar [A], vegna starfsemi og athafna í og við húsnæðið að [X].

Í bréfi mínu óskaði ég eftir að embætti yðar skýrði viðhorf sitt til kvörtunar [A] og léti mér í té gögn málsins. Jafnframt óskaði ég eftir yfirliti yfir erindi (kvartanir/kærur) sem embætti yðar hefðu borist vegna hávaða, ónæðis og annars vegna [X] í Reykjavík frá 1. janúar 1998. Óskað var eftir að fram kæmi hvenær erindið barst og hvernig það var afgreitt. Þá óskaði ég eftir að embætti yðar gerði almennt grein fyrir viðhorfum sínum til þess hvaða úrræða það getur gripið til í tilefni af erindum sem því berast af sama toga og kvörtun A tekur til.

Eftir að ég hafði í símtali og bréflega 19. október sl. ítrekað óskir mínar barst mér svar yðar, dags. 27. október sl. Í lok svarsins er tekið fram að verið sé að afla umbeðinna gagna og verði þau send eins fljótt og auðið er. Þessi gögn hafa ekki enn borist frá embætti yðar og er því beiðni mín ítrekuð. Ég tel hins vegar rétt að upplýsa yður um að í tilefni af fyrirspurn minni til byggingarfulltrúans í Reykjavík vegna ofangreindrar kvörtunar, bárust mér frá honum 28. september sl. ýmis gögn vegna málsins og þar á meðal eru eftirtalin sem ekki fylgdu bréfi yðar, dags. 27. október sl.: Bréf embættis yðar, dags. 28. nóvember 1998, til borgarstjórans í Reykjavík, en þar kemur fram yfirlit yfir kvartanir frá íbúum í nágrenni við [X] frá upphafi árs 1998 og athafnir lögreglu af því tilefni, bréf byggingarfulltrúans í Reykjavík, dags 1. september 1999, til lögreglunnar í Reykjavík, óundirritað skjal, dags. 7. apríl 1999, til borgarstjórans í Reykjavík: „Fyrirspurn vegna kvartana frá íbúum í nágrenni við [X]”, en í skjalinu er gefið yfirlit vegna málsins samkvæmt dagbók lögreglunnar, í desember 1998 og frá upphafi árs 1999 til dagsins í dag, eins og segir í skjalinu. Þá fylgdu bréfi byggingarfulltrúans 39 útskriftir úr dagbók lögreglu, prentaðar 9. júlí 1999, um tilkynningar vegna [X] á tímabilinu 11. janúar til 8. júlí 1999. Ég óska því sérstaklega, sbr. 7. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, eftir skýringum á því hvers vegna þessi gögn voru ekki látin mér í té með bréfi yðar, dags. 27. október sl.

Auk þess að ítreka beiðni mína um þau gögn sem óskað var eftir í bréfi mínu, dags. 3. september sl., óska ég sérstaklega eftir því að embætti yðar lýsi viðhorfum sínum til þeirra úrræða sem það getur gripið til í tilefni af erindum sem því berast af sama toga og kvörtun [A] tekur til með tilvísunum til laga, reglugerða, starfsfyrirmæla og venja um slík mál, enda erfitt að ráða í til hvaða valdheimilda er vísað þegar svo er tekið til orða í bréfi yðar, dags. 27. október sl., að „að gera allt sem í mannlegu valdi stendur til að stemma stigu við röskun á friðhelgi heimilanna á þessu svæði sem öðrum.“

Ég tel einnig rétt að upplýsa yður um að mér hefur eftir að kvörtun [A] barst mér einnig borist bréf frá [C] og [B] þar sem einnig er kvartað yfir viðbrögðum lögreglu í tilefni af kvörtunum um hávaða og ónæði frá húsnæðinu að [X]. Er þar fyrst um að ræða bréf, dags. 12. september sl., og annað, dags. 19. nóvember sl. Í síðara bréfinu greina þau frá því að þau hafi leitað eftir aðstoð lögreglu vegna mikils hávaða frá [X] 17. nóvember sl. kl. 21.30, en þá fengið þau svör frá stjórnstöð lögreglunnar að lögreglunni væri óheimilt að stöðva hávaða frá húsinu fyrr en eftir kl. 23.00. Samkvæmt áðurtilvitnuðu bréfi byggingarfulltrúans í Reykjavík, dags. 1. september sl., til lögreglunnar er lýst ákvörðun byggingarnefndar á fundi 26. ágúst sl. um að takmörkun á æfingatíma hljómsveita í [X] verði ekki aflétt fyrr en lokaúttekt byggingarfulltrúa hefur farið fram, „en þar skal sýnt fram á að hljómsveitaræfingar valdi ekki hávaðamengun umfram ákvæði reglugerðar.“ Tekið er fram að átt sé við þá takmörkun sem tilkynnt var forráðamanni [X] með bréfi, dags. 30. júlí 1999. Þá segir í lok bréfsins að byggingarfulltrúi muni tilkynna lögreglunni þegar banni verði aflétt, en fram að þeim tíma sé óskað eftir aðstoð lögreglu til þess að framfylgja banninu. Ég óska af þessu tilefni eftir upplýsingum um, hvort lögreglunni hafi eftir að bréf þetta barst til hennar og fram til 17. nóvember sl. borist tilkynning frá byggingarfulltrúanum í Reykjavík um að nefndu banni hafi verið aflétt og þá hvort byggingarfulltrúinn hafi tilkynnt um aðrar takmarkanir. Með sama hætti óska ég eftir skýringum á þeim svörum sem stjórnstöð lögreglunnar veitti 17. nóvember sl.

Ég óska að síðustu eftir að bréfi þessu verði svarað sem allra fyrst af hálfu embættis yðar og minni þá enn á það sem ég hef ítrekað í símtali og bréfi til yðar, dags. 19. október sl., um nauðsyn þess að svör berist mér sem allra fyrst í málum þar sem kvartað er yfir því að lögreglan aðhafist ekki í tilefni af kærum og erindum frá borgurunum.“

Hinn 20. desember 1999 barst mér svarbréf lögreglustjórans í Reykjavík, dags. sama dag. Með því fylgdu þau gögn sem ég óskaði eftir í bréfum mínum 3. september 1999 og 30. nóvember s.á. Þá fylgdi með bréfinu greinargerð aðstoðaryfirlögregluþjóns við embættið, dags. 15. desember 1999. Greinargerðin er svohljóðandi:

„Samantekt.

Embættið hefur á undanförnum árum haft til meðferðar málefni er varða ofangreint húsnæði. Síðan í ársbyrjun 1997 hafa tilkynningar borist lögreglu frá íbúum á svæðinu þess efnis að mikill hávaði og ónæði sé frá húsnæðinu sem rekja megi til þess að þar hafi nokkrar hljómsveitir æfingaaðstöðu. Nýlega kom síðan fram ábending um að í hluta þessa húsnæðis sé rekin starfsemi (bónstöð) án gildra leyfa og tel ég það mál til meðferðar hjá byggingarfulltrúa Reykjavíkurborgar sbr. bréf hans frá 9. júlí og 1. september 1999 en slík starfsemi er háð starfsleyfi frá heilbrigðiseftirliti sem einnig hefur eftirlit með þeirri starfsemi. Lögreglan hefur síðan 1997 reynt að finna lausn á málinu í samstarfi við húseiganda, leigutaka húsnæðisins og íbúa í nærliggjandi húsum. Þetta hefur verið gert í samvinnu við Byggingarfulltrúa og Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkurborgar.

Samkvæmt upplýsingum byggingarfulltrúa er í samþykktu skipulagi þessa borgarhverfis gert ráð fyrir blandaðri byggð sem heimilar aðra starfsemi en íbúabyggð og takmarkar um leið möguleika lögreglu og annarra yfirvalda til inngripa í þessu tilviki. Af þeim sökum hefur lögreglu t.d. ekki talið sér heimilt að stöðva þessa hljómsveitastarfsemi alfarið.

Húseigandi hefur verið að vinna endurbætur á húsnæðinu til að sú starfsemi sem hann hefur kosið að hafa í sínu húsnæði valdi sem minnstu ónæði.

Meðfylgjandi er yfirlit yfir öll þau verkefni (erindi, kvartanir/kærur) lögreglu sem skráð eru vegna málsins frá 1. janúar 1997. Á því tímabili hefur lögreglan sinnt 219 útköllum eða fengið ábendingar sem taldar eru tengjast húsnæðinu. Tekið skal fram að ekki er í öllum þessum tilvikum staðfest að um hávaða sé að ræða þegar lögreglan kemur á staðinn. Nokkur mál eru til frekari rannsóknar.

Þá er yfirlit yfir þær bréfaskriftir sem verið hafa vegna málsins. Ekki er hér yfirlit um fundargerðir frá samráðsfundum lögreglu og borgaryfirvalda þar sem málefni þessa húsnæði hafa nokkrum sinnum komið upp. Við höfum tekið saman nokkrar samantektir fyrir borgina um stöðu mála, yfirlit sem eru sambærileg við það sem hér fylgir.

Þá eru sérstaklega tiltekin mál þar sem kvartanir hafa komið frá [A] […] [Y], Reykjavík, sem sérstaklega er vísað til í bréfi Umboðsmanns Alþingis.

Mögulegar lögregluaðgerðir vegna hávaðaútkalla eru ekki margar og ekki eru fyrirliggjandi í lögum eða reglum leiðbeiningareglur um það hvaða hávaði telst ónæði og hver ekki. Því er byggt á mati lögreglumanna hvert sinn sem getur skapa óvissu um framkvæmd. Í þessu máli hafa aðgerðir lögreglu miðað að því að stöðva hávaða sé hann til staðar þegar lögreglan kemur og eins að vinna að því að fá varanlega lausn í málinu.

Ég get ekki séð að embættið hefði getið unnið að málinu á annan hátt en gert hefur verið og frekar er lýst í þessari greinargerð minni. Íbúar hafa krafist aðgerða lögreglu og borgaryfirvalda í málinu og á sama tíma hefur húseigandi krafist þess að nýta húsnæði sitt á þann hátt sem samrýmist gildandi skipulagi á svæðinu.

Flokkun verkefna og eðli þeirra.

Flest þeirra verkefna sem varða húsnæðið eru tilkynningar um hávaða frá hljómsveitaæfingum. Við afgreiðslu þessara verkefna styðst lögreglan við 4. og 5. gr. lögreglusamþykktar Reykjavíkur nr. 625/1987 með síðari breytingum.

Lögreglumenn sem á vettvang koma meta aðstæður og möguleika á aðgerðum. Í þeim tilvikum þar sem hávaði er mikill að þeirra mati er viðkomandi hljómsveit og/eða hljómsveitum gert að hætta hljóðfæraleik strax. Rætt er við fulltrúa hljómsveitanna, erindi og ákvörðun lögreglu skýrð út fyrir þeim. Þá hefur oft verið rætt við tilkynnanda á vettvangi þótt það sé ekki í öllum tilvikum og sömu sögu má segja um húseiganda sem hefur verið á staðnum í nokkrum tilvikum.

Yfirlit yfir verkefnin.

Fyrsta tilkynning um hávaða er 23. mars 1997 kl. 00:48 þar sem hljómsveit sem var við æfingar var gert að hætta hljóðfæraleik.

Síðan þá eru það, samkvæmt dagbók lögreglu, 219 verkefni sem telja má að séu vegna þessa húsnæðis. Flest vegna tilkynninga um ónæði vegna hávaða (árið 1997 voru það 30 verkefni, 50 árið 1998 og eru orðin 139 þann 15. desember 1999).

Aðgerðir lögreglu - viðhorf lögreglu vegna málsins.

Lögreglan hefur greinilega fundið það í þessu máli hversu haldlítil úrræði hún hefur í raun til aðgerða, annarra en skammtíma aðgerða, þegar tilkynnt er um hávaða. Mögulegar lögregluaðgerðir vegna hávaðaútkalla eru ekki margar og ekki eru fyrirliggjandi í lögum eða reglum leiðbeiningareglur um það hvaða hávaði telst ónæði eða truflun og hver ekki. Þar hefur lögreglan orðið að byggja á mati lögreglumanna hvert sinn. Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur annast formlegar hávaðamælingar og samkvæmt upplýsingum þaðan eru ekki fyrirliggjandi nákvæmar leiðbeiningareglur sem ná til þess ónæðis sem kvartað hefur verið um. Væntanlegar eru þó nýjar reglur frá Umhverfisráðuneytinu á næstunni samkvæmt upplýsingum ráðuneytisins. Rétt er að taka fram að þær reglur voru boðaðar síðasta sumar og bundum við vonir um að þar væri að geyma möguleika á lausn í þessu máli.

Við höfum greinilega fundið fyrir óánægju íbúa í nágrenni með „aðgerðarleysi“ okkar sem byggt er þá á því að lögreglumenn hafa ekki getað staðfest að um hávaða sé að ræða.

Kvartanir - ábendingar frá [A].

Hvað varðar sérstaklega kvartanir frá [A], […], kom sú fyrsta 11. júní l999 kl. 23:03 þegar tilkynnt var um hávaða. Síðan þá hafa 24 aðrar kvartanir fylgt samkvæmt bókunum í dagbók en nokkrar tilkynningar eru án þess að tilgreindur sé tilkynnandi. Í sjö tilvikum má sjá af bókunum lögreglu að greinanlegur hávaði er frá húsnæðinu og gaf lögreglan þá fyrirmæli um að stöðva hljóðfæraleik strax. Að öðru leyti vísast til meðfylgjandi bókana úr dagbók lögreglu. Þær tilkynningar sem [A] hefur lagt fram bæði í dagbók og eins bréflega þann 15. júní hafa ekki hlotið sérstaka meðferð hjá embættinu heldur afgreiddar ásamt öðrum tilkynningum um sama mál. Meðal annars vegna þeirra var sett bann við hljóðfæraleik alfarið og síðan tímabundið meðan einangrun hússins var bætt.

Samstarf við húseiganda.

Haft hefur verið samráð við húseiganda […], vegna málsins. Frumkvæði að því hefur bæði verið frá lögreglu og eins húseiganda. Hann hefur unnið að því að bæta einangrun hússins þannig að sem minnstur hávaði berist frá því. Húseigandi hefur lýst því yfir við lögreglu að hann vilji hafa áfram þá starfsaðstöðu fyrir hljómsveitaæfingar sem þar eru í dag. Húseigandi hefur gagnvart lögreglu ekki sýnt annað en vilja til að finna farsæla lausn sem eðli máls samkvæmt tekur mið af möguleikum hans á nýtingu húsnæðisins í þá veru sem hann telur viðeigandi.

Samstarf við íbúa.

Lögreglumenn sem svara útkallssíma lögreglu hafa oft rætt við íbúa á svæðinu vegna þessa máls. Þar hefur verið skýrt út fyrir viðkomandi hvaða möguleikar lögreglu séu til aðgerða. Lögreglubílar eru sendir á staðinn sé þess talin þörf og aðstæður kannaðar og rætt við tilkynnanda. Í flestum tilvikum er það hin almenna afgreiðsla á þessum málum vegna hávaða. Vegna fyrirspurnar um símsvörun þann 17. nóvember kl. 21:30 er það að segja að þar er greinilega um misskilning lögreglumanns að ræða. Lögreglu ber að meta það hvort hávaði sé það mikill að ástæða sé til að ætla að hann valdi ónæði eða truflun. Þessar sérstöku takmarkanir sem settar eru á hljóðfæraleik veita ekki heimild til ónæðis utan þess tíma sem bannið tekur til.

Vegna þess máls sérstaklega hefur til viðbótar verið rætt við ýmsa íbúa á svæðinu bæði undirritaður, [Z] aðstoðaryfirlögregluþjónn og ýmsir aðrir yfirmenn embættisins.

Að frumkvæði okkar [Z] var síðan boðað til fundar á lögreglustöðinni með fulltrúum íbúa þann 9. júlí þar sem skýrð var út fyrir þeim staða mála á þeim tíma. Meðal þeirra sem viðstaddir voru þann fund sem fulltrúi íbúa var [B], […] sem er getið í bréfi umboðsmanns Alþingis frá 30. nóvember sl. Eftir þann fund var síðan lagt bann við hljóðfæraleik í húsnæðinu.

Samstarf við Reykjavíkurborg.

Haldnir hafa verið fundir með byggingarfulltrúa Reykjavíkurborgar og fulltrúum frá heilbrigðiseftirliti vegna þessa máls. Það samstarf hefur miðað að því að finna varanlega lausn á málinu. Vegna endurtekinna kvartana þar sem sannreynt þótti að um hávaða væri að ræða ákvað byggingarfulltrúi að setja algert bann við hljómsveitaræfingum þann 9. júlí sl. og stóð það bann til 30. júlí þar sem settar voru takmarkanir á þeim tíma er æfingar mættu standa. Þessu banni var síðan aflétt þann 3. nóvember en þó með takmörkunum frá kl 23:00 til 08:00. Vísað var meðal annars til hávaðamælinga heilbrigðiseftirlitsins því til stuðnings. Embættið benti húseiganda á að óska eftir þeim hljóðmælingum.“

Svarbréf byggingarfulltrúans í Reykjavík barst mér með bréfi 27. desember 1999. Þar kemur fram að byggingarfulltrúi hafi ásamt yfirverkfræðingi embættisins farið 27. október 1999 til lokaúttektar „vegna þeirra atriða er lutu að frágangi hljóðeinangrunar [hússins að [X]] sbr. samþykkt byggingarnefndar Reykjavíkur frá 26. ágúst 1999“. Fram kemur í bréfinu að þeir hefðu farið í öll rými sem hljómsveitir hafa verið að æfa í og hafi þeim virst sem hljóðeinangrun og frágangur hafi verið nægjanlegur. Var í því efni vísað til hljóðmælingarskýrslu heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur, dags. 20. október 1999, sem fylgdi með bréfinu til mín. Þá segir svo í bréfi byggingarfulltrúans:

„Með vísan til úttektarinnar og hljóðmælinga HR samþykkti byggingarnefnd að tillögu undirritaðs að aflétta banni við tónlistarflutning þannig að æfingar fari ekki fram á tímabilinu kl. 23.00 – 8.00.

Jafnframt var bókað við afgreiðslu málsins að þessi ákvörðun yrði tekin til endurskoðunar ef sýnt yrði fram á að hávaðastig sé annað og meira en fyrrgreind mæling HR leiddi í ljós.

Lögreglunni í Reykjavík hafa verið send þrjú bréf eftir 26. ágúst s.l., vegna heimilda um hljómsveitaræfingar í húsinu. Fyrst þann 1. september, síðan 7. október og loks 3. nóvember. Þessi bréf fylgja hér með í afriti.

Samþykkt byggingarnefndar þann 26. ágúst tók til núverandi fyrirkomulags í húsinu, endurbættri hljóðeinangrun og áður gerðri stækkun hússins, sem að líkum hefur farið fram skömmu eftir 1952.

Byggingarleyfisumsóknin var ekki kynnt nágrönnum þar sem hún féll að skipulagi svæðisins.“

Hinn 18. janúar 2000 ritaði ég A, B og C svohljóðandi bréf:

Ég vísa til fyrri bréfaskipta vegna kvörtunar yðar sem barst mér 1. september [og 14. september] sl. Mér hafa nú borist svör lögreglustjórans í Reykjavík og byggingarfulltrúans í Reykjavík vegna bréfa sem ég ritaði þeim 30. nóvember sl.

Í bréfi byggingarfulltrúans kemur fram að byggingarnefnd Reykjavíkur hafi á fundi sínum 28. október 1999 samþykkt að aflétta banni við tónlistaræfingum í húsinu að [X] þó þannig að æfingar fari ekki fram frá kl. 23:00 til kl. 08:00. Tekið er fram að þessi ákvörðun verði tekin til endurskoðunar ef sýnt er fram á að hávaðastig sé annað og meira en mæling Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur leiddi í ljós. Þessi samþykkt byggingarnefndar var staðfest á fundi borgarstjórnar 4. nóvember 1999.

Í bréfi byggingarfulltrúa til mín, sem barst mér 27. desember sl., kemur fram í tilefni af fyrirspurn minni að samþykkt byggingarnefndar 26. ágúst 1999 hafi tekið til núverandi fyrirkomulags í húsinu, endurbættrar hljóðeinangrunar og áður gerðrar stækkunar hússins en tekið er fram að hún hafi að líkum farið fram skömmu eftir 1952. Þá er tekið fram í bréfinu að byggingarleyfisumsóknin hafi ekki verið kynnt nágrönnum þar sem hún hafi fallið að skipulagi svæðisins.

Fyrirspurnir mínar til byggingarfulltrúans í Reykjavík í tilefni af kvörtun yðar hafa beinst að því að upplýsa hvaða ákvarðanir hafi verið teknar af hálfu byggingarnefndar vegna framkvæmda og starfsemi í húsinu [við X] og hvernig þær hafa verið kynntar lögreglunni í Reykjavík. Var þetta gert til að ég gæti betur lagt mat á athafnir lögreglunnar í Reykjavík í tilefni af erindum um hávaða o.fl. frá húsinu [við X]. Eins og ég tók fram í viðtali sem þér og [D] áttuð við mig áður en kvörtun yðar var lögð fram er í lögum nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, kveðið á um að ef skjóta megi máli til æðra stjórnvalds sé ekki unnt að kvarta til umboðsmanns fyrr en æðra stjórnvald hefur fellt úrskurð sinn í málinu. Ég ítreka þetta hér þar sem fyrir liggur að byggingarnefnd Reykjavíkur hefur bæði áður og eftir að kvörtun yðar barst mér gert samþykktir um húsnæðið að [X]. Samkvæmt 4. mgr. 39. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 er þeim sem telur rétti sínum hallað með samþykkt byggingarnefndar eða sveitarstjórnar heimilt innan mánaðar frá því honum er kunnugt um afgreiðslu sveitarstjórnar að skjóta málinu til úrskurðarnefndar samkvæmt 8. gr. laganna. Í samræmi við þetta eru ekki uppfyllt lagaskilyrði til þess að ég taki til frekari athugunar þau atriði í kvörtun yðar sem fjalla um samþykktir byggingarnefndar.

Verði þeim skotið til úrskurðarnefndar innan kærufrests og þér unið ekki niðurstöðu nefndarinnar er yður heimilt að leita til mín að nýju vegna þess.

Áður en ég fjalla frekar um þann þátt kvörtunar yðar sem beinist að „aðgerðarleysi lögreglustjórans í Reykjavík í þessu máli“ tel ég rétt að gefa yður kost á að senda mér athugasemdir yðar vegna bréfs lögreglustjóra til mín, dags. 20. desember sl., ásamt greinargerð [Z], aðstoðaryfirlögregluþjóns. Vegna bréfs yðar, dags. 9. nóvember sl., til mín fylgir einnig bréf frá lögreglustjóranum í Reykjavík, dags. 27. október 1999. Í samræmi við framangreint mun frekari athugun mín á kvörtun yðar beinast að athöfnum lögreglunnar í tilefni af erindum sem borin voru fram við hana vegna þessa máls áður en kvörtun yðar til mín var lögð fram.

Ég óska því eftir að þér gerið mér grein fyrir hvort að þér óskið að fylgja kvörtun yðar til mín að þessu leyti eftir og hvort þér teljið að þær skýringar sem hafa komið fram af hálfu lögreglustjórans í Reykjavík vegna þeirra fullnægjandi.“

Svarbréf A barst mér 25. janúar 2000 en bréf B og C 8. maí 2000.

Hinn 21. mars 2001 átti ég fund með varalögreglustjóranum í Reykjavík, aðstoðaryfirlögregluþjóni við embættið og fulltrúa frá embætti ríkislögreglustjórans. Fékk ég þar nánari upplýsingar um atvik málsins auk þess sem ég fékk afhent afrit af gögnum sem lögreglan hafði undir höndum um atvik málsins frá síðustu bréfaskiptum mínum við embættið í lok árs 1999. Tel ég rétt að rekja í stuttu máli efni þeirra gagna.

Í fyrsta lagi er að finna yfirlit yfir „hávaðakvartanir vegna [X]“ á tímabilinu 1. janúar 2000 til og með 5. desember s.á. Eru þar tilgreindar 134 kvartanir á því tímabili vegna hávaða í húsnæðinu. Í öðru lagi er að finna afrit af bréfi umhverfisráðuneytisins, dags. 24. júlí 2000, til D, A og E. Er þar vísað til fundar starfsmanna ráðuneytisins með þeim 4. júní 2000 og annars fundar 19. s.m. með þeim og „fleiri fulltrúum íbúa í [...] og við [...] og fulltrúum Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur og byggingarfulltrúanum í Reykjavík“. Þá er í gögnunum að finna svohljóðandi bréf lögreglunnar í Reykjavík til heilbrigðisnefndar og heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur, dags. 23. október 2000:

„Lögreglunni í Reykjavík hafa undanfarið borist margítrekaðar tilkynningar og kvartanir um hávaða frá íbúum við X vegna húsnæðisins nr. [...] við sömu götu hér í borg. Í viðkomandi húsnæði hafa ýmsar hljómsveitir haft æfingaraðstöðu.

Brugðist er við slíkum ábendingum borgara eftir því sem kostur er hvert sinn, en hjá lögreglu eru nú fyrirliggjandi dagbókarfærslur og skýrslur síðan 1997 svo nemur hundruðum.

Eins og áður er fram komið er það álit lögreglunnar að ágreining þennan beri að leysa samkv. lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998 og reglugerð um hávaða nr. 933/1999. Er í því sambandi sérstaklega vísað til 3. gr. reglugerðarinnar sbr. og 5. 6. 7. og 9. greinar.“

Loks var mér afhent á ofangreindum fundi 21. mars 2001 afrit af bréfi lögreglunnar í Reykjavík til dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, dags. 7. desember 2000. Var það ritað í tilefni af því að B og D sendu ráðuneytinu erindi þar sem þess var „farið á leit að ráðuneytið [tæki] til skoðunar embættisfærslur lögreglustjóra að því er [varðaði] [X]“. Í bréfinu er atvik málsins rakin í stórum dráttum. Þá segir meðal annars svo:

„Það sem einna helst torveldar lausn málsins hjá lögreglu er að umrætt hús að [X] er á svæði sem samkvæmt skipulagi er ætlað undir atvinnustarfsemi. Eigandi þess hefur leigt það til hljómsveitaræfinga, en mun þó sjálfur hafa búið þar um skeið. Ekkert hefur komið fram um að eigandi hyggist breyta afnotum hússins.

Það hefur verið skoðun embættisins að lausn þessa máls sé ekki á færi lögreglunnar heldur beri borgaryfirvöldum að leysa það, annað hvort á vettvangi skipulags- eða byggingarnefndar, eða með atbeina heilbrigðisnefndar. Eru þá sérstaklega höfð í huga lög um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998 og reglugerð um hávaða nr. 933/1999. Í viðauka með reglugerðinni er að finna ákvæði um viðmiðunarmörk fyrir hávaða á hinum ýmsu svæðum, svo og fyrirmæli um eftirlit og þvingunarúrræði heilbrigðisnefnda. Undir þetta sjónarmið lögreglunnar tekur Umhverfisráðuneytið, sbr. hjálagt ljósrit af bréfi þess, dags. 24. júlí s.l. Hefur embættið ítrekað þá afstöðu sína, nú síðast með bréfi til heilbrigðisnefndar Reykjavíkur, dags. 23. október s.l.“

IV.

1.

Áður er rakið að við fyrstu athugun mína á kvörtun A, B og C kom í ljós að lögreglan í Reykjavík taldi að heimildir lögreglu til aðgerða vegna kvartana og tilkynninga um hávaða og ónæði frá starfsemi af því tagi, sem hér um ræðir, væru að lögum mjög takmarkaðar. Með tilliti til þessa ákvað ég að beina athugun minni að þeim lagareglum sem gilda almennt um hlutverk og valdheimildir lögreglu þegar ítrekað er kvartað yfir hávaða og ónæði frá húsnæði í einkaeign. Hef ég í því sambandi tekið mið af heimild minni samkvæmt 5. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Til þess þó að draga með skýrari hætti fram hvort og þá hvernig efni ofangreindra valdheimilda lögreglu koma til skoðunar í einstökum tilvikum hef ég talið rétt að hafa atvik þau sem greinir í ofangreindum kvörtunum A, B og C til hliðsjónar í þeirri umfjöllun sem hér fer á eftir. Með tilliti til þessa tel ég að 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997 standi því ekki í vegi að ég fjalli nú með þessum almenna hætti um valdheimildir lögreglu í umræddum tilvikum, með hliðsjón af kvörtunum A, B og C, án þess að beina þeim fyrst til dóms- og kirkjumálaráðuneytisins.

Áður en ég vík sérstaklega að atvikum þessa máls og aðkomu lögreglunnar í Reykjavík að aðstæðum við X tel ég samkvæmt framangreindu rétt að fjalla almennt um lögbundið hlutverk lögreglu í þeim tilvikum þar sem kvartað er ítrekað af hálfu nágranna yfir hávaða og ónæði frá starfsemi eða athöfnum í ákveðnu húsnæði. Ég legg þó áherslu á að umfjöllun mín að þessu leyti tekur sérstaklega mið af því að sú starfsemi sem var orsök þeirra fjölmörgu kvartana og tilkynninga til lögreglu og borgaryfirvalda sem gögn þessa máls bera með sér tengdist ekki hefðbundinni nýtingu íbúðarhúsnæðis. Það kann því að vera að þau sjónarmið sem reifuð verða hér á eftir eigi ekki að öllu leyti við þegar kvartanir lögreglu vegna ónæðis og hávaða beinast að athöfnum sem fara fram í íbúðarhúsnæði eða þegar um er að ræða deilur sem rísa milli nágranna í slíku húsnæði. Húsnæðið að X var á þeim tíma sem hér er fjallað um samkvæmt gögnum málsins leigt að hluta undir æfingaaðstöðu fyrir hljómsveitir og bónstöð fyrir bifreiðar.

2.

Það álitaefni sem hér er til úrlausnar beinist að eignarráðum fasteignareiganda og þá þeirri aðstöðu að eigendur og notendur annarra fasteigna í nágrenninu telja að hagnýting fasteignareigandans á eign sinni sé umfram það sem lög og almennar reglur heimili og raski með því eðlilegri og lögmætri notkun nágrannaeigna. Hér reynir því á það álitaefni að hvaða marki um sé að ræða einkaréttarlegan ágreining sem aðilar verða að leysa sín í milli og þá eftir atvikum með þeim úrræðum sem lög bjóða, t.d. aðkomu dómstóla, eða hvort um er að ræða slíka röskun á almannahagsmunum og eftir atvikum sérgreindum hagsmunum tiltekinna einstaklinga að lög leiði til þess að yfirvöldum beri að grípi inn í, og þá einkum lögregla, og gera nauðsynlegar ráðstafanir til að stöðva eða stemma stigu við afleiðingum af þeim athöfnum sem kvartað er yfir og/eða rannsaka hvort framin hafa verið refsiverð brot.

Samkvæmt 72. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, sbr. 10. gr. stjórnarskipunarlaga nr. 97/1995, er eignarrétturinn friðhelgur. Þeirri skilgreiningu er nú almennt fylgt að í eignarrétti felist einkaréttur eigandans til að ráða yfir og hagnýta viðkomandi eign innan þeirra marka sem þessum rétti eru sett í lögum og af takmörkuðum réttindum annarra aðila sem stofnað hefur verið yfir eigninni. (Sjá hér nánar t.d. Gauk Jörundsson: Eignaréttur 1978-1980, bls. 4.)

Á síðari árum hafa í auknum mæli komið til reglur sem mæla fyrir um takmarkanir á eignarráðum fasteignareiganda og þá reglur sem áskilja að fyrir þurfi að liggja samþykki opinberra yfirvalda til tiltekinnar hagnýtingar eignar. Má sem dæmi nefna reglur skipulags- og byggingarlöggjafarinnar og aðrar reglur á sviði umhverfismála. Sérstaklega á þetta við þegar ætlunin er að nýta eign til atvinnustarfsemi sem hefur áhrif á umhverfið. Til viðbótar koma síðan ýmsar lögfestar og ólögfestar reglur á sviði grenndarréttar. Auk þess að fara þá leið í löggjöf að áskilja samþykki opinberra yfirvalda til ákveðinnar hagnýtingar eða athafna í og við eign er gjarnan farin sú leið að mæla fyrir um að brot gegn ákvæðum laganna og reglugerðum settum samkvæmt þeim varði refsingu og að mál vegna slíkra brota skuli sæta meðferð opinberra mála.

Ég tel í þessu sambandi rétt að leggja á það áherslu að þau auknu afskipti opinberra aðila af hagnýtingu fasteigna, sem komið hafa til með löggjöf á undanförnum árum, kunna einnig að hafa að einhverju marki leitt til þess að það komi nú að lögum í hlut lögreglu að grípa í meira mæli inn í athafnir fasteignareiganda en áður var þegar eignarráð hans og afskipti nágranna af þeim réðust aðallega af einkaréttarlegum reglum.

3.

Í samræmi við þá meginreglu að lögreglan, sem handhafi opinbers valds, geti ekki raskað frelsi og öðrum lögvörðum réttindum borgaranna, s.s. eignarréttindum, án þess að fyrir liggi skýr lagaheimild er heldur ekki hægt að játa lögreglunni vald til að gera ráðstafanir til verndar tilteknum hagsmunum borgaranna án þess að lagaheimild sé til staðar eða slík afskipti séu talin heimil á grundvelli óskráðra meginreglna, t.d. um neyðarrétt. Ég legg í þessu sambandi áherslu á að ráðstafanir lögreglu til verndar réttindum einstakra borgara eða ákveðins hóps þeirra hafa gjarnan samsvarandi íþyngjandi áhrif á réttindi þess eða þeirra borgara sem slíkum ráðstöfunum er beint að.

Um skipun, hlutverk og valdheimildir lögreglunnar gilda lögreglulög nr. 90/1996. Í almennum athugasemdum greinargerðar með frumvarpi því er varð að lögunum kemur fram að 29. janúar 1992 skipaði dóms- og kirkjumálaráðherra nefnd til þess meðal annars að endurskoða þágildandi löggjöf um lögreglumenn og Rannsóknarlögreglu ríkisins. Skilaði nefndin tillögum sínum í nóvember 1993. Hinn 31. maí 1995 skipaði dóms- og kirkjumálaráðherra aðra nefnd til að yfirfara og endurskoða frumvarp það sem þá lá fyrir. Fram kemur í athugasemdunum að markmið þessarar nefndar hafi meðal annars verið það að lögfesta skýrari reglur „um framkvæmd lögreglustarfa, þar á meðal um þær aðgerðir sem lögreglu [yrði heimilt] að grípa til í þeim tilgangi að halda uppi lögum og reglu í landinu“. (Alþt. 1995-1996, A-deild, bls. 3765-3766.) Gerði nefndin síðan tillögur þær sem urðu uppistaðan í frumvarpi því er varð að lögum nr. 90/1996. Í VI. kafla í almennum athugasemdum frumvarpsins er rakið að við samningu þess hafi löggjöf annars staðar á Norðurlöndum verið höfð til hliðsjónar einkum norsk og finnsk lögreglulög frá árinu 1995. Þá hafi við samningu frumvarpsins verið tekið mið af lögregluyfirlýsingu Evrópuráðsins frá 8. maí 1979. Þá kemur loks fram að þess hafi verið gætt að ákvæði frumvarpsins samræmdust ákvæðum þeirra alþjóðasamninga sem Ísland hefði gerst aðili að. (Alþt. 1995-1996, A-deild, bls. 3774-3775.)

Í 2. mgr. 1. gr. lögreglulaga er mælt fyrir um hlutverk lögreglunnar. Segir þar meðal annars að það sé hlutverk hennar að gæta almannaöryggis og halda uppi lögum og reglu, leitast við að tryggja réttaröryggi borgaranna og vernda eignarrétt, opinbera hagsmuni og hvers konar lögmæta starfsemi. Þá er það hlutverk hennar að stemma stigu við afbrotum og koma í veg fyrir athafnir sem raska öryggi borgaranna og ríkisins. Ennfremur ber lögreglunni að greiða götu borgaranna eftir því sem við á og aðstoða þá þegar hætta steðjar að. Þá er sérstaklega mælt fyrir um það í f- og g-liðum 2. mgr. 1. gr. laganna að lögreglunni sé gert að starfa í samvinnu við önnur stjórnvöld og stofnanir sem hafa með höndum verkefni sem tengjast starfssviði lögreglu og sinna öðrum verkefnum sem henni eru falin í lögum eða leiðir af venju.

Í athugasemdum við 1. gr. frumvarps þess er varð að sama ákvæði í lögreglulögum kemur fram að ákvæðið sé mun ítarlegra en 1. gr. eldri lögreglulaga. Samkvæmt ákvæðinu sé hlutverk lögreglu margþætt, s.s. fyrirmæli a-liðar en þar sé orðuð „sú almenna skylda lögreglu að halda uppi almannaöryggi og allsherjarreglu en í því [felist] einnig gæsla öryggis einstakra borgara“. (Alþt. 1995-1996, A-deild, bls. 3775.)

Ákvæði 15. gr. lögreglulaga fjallar meðal annars um aðgerðir lögreglu í þágu almannafriðar og allsherjarreglu. Þar segir í 1. mgr. að lögreglu sé heimilt að hafa afskipti af borgurunum til að halda uppi almannafriði og allsherjarreglu eða koma í veg fyrir yfirvofandi röskun til að gæta öryggis einstaklinga eða almennings eða til að afstýra afbrotum eða stöðva þau. Í þessu skyni er lögreglu meðal annars heimilt að taka í sínar hendur umferðarstjórn, banna dvöl á ákveðnum svæðum, svo sem með því að girða af eða hindra umferð um þau, taka í sínar vörslur hættulega muni, vísa á brott eða fjarlægja fólk, fyrirskipa stöðvun eða breytingu á aðgerðum eða starfsemi, fara inn á svæði í einkaeign og fyrirskipa brottflutning fólks af þeim, sbr. 2. mgr. 15. gr. Óhlýðnist maður fyrirmælum lögreglu samkvæmt 2. mgr. getur hún gripið til nauðsynlegra ráðstafana á hans kostnað til að koma í veg fyrir að óhlýðni hans valdi tjóni eða stofni almenningi í hættu, sbr. 3. mgr. 15. gr. laganna. Í 5. mgr. 15. gr. segir síðan að lögreglu sé heimilt að hafa afskipti af málefnum sem samkvæmt lögum heyra undir önnur stjórnvöld ef það er talið nauðsynlegt til að stöðva eða koma í veg fyrir alvarlega röskun á almannafriði og allsherjarreglu og ekki næst til viðkomandi stjórnvalds eða aðgerðir af þess hálfu eru útilokaðar, þýðingarlausar eða fyrirsjáanlegt er að þær muni hefjast of seint. Samkvæmt síðari málslið ákvæðisins ber lögreglu í slíkum tilvikum að tilkynna stjórnvaldi um þær aðgerðir sem farið er í á grundvelli fyrri málsliðar 5. mgr. 15. gr. svo fljótt sem auðið er.

Í athugasemdum greinargerðar við 15. gr. frumvarps þess er varð að ofangreindu ákvæði lögreglulaga segir meðal annars svo um fyrirmæli ákvæðisins:

„Greinin er nýmæli. Þar er mælt fyrir um rétt lögreglu til þess að hafa afskipti af borgurunum við nánar tilgreindar aðstæður og með hvaða hætti. Tilgangur ákvæðisins er að treysta lagalegan grundvöll þessa réttar lögreglu. Hliðstætt ákvæði er ekki að finna í gildandi lögreglulögum. Talið hefur verið að heimildir lögreglu í þeim tilfellum sem getið er um í greininni rúmist innan þess sem kallað hefur verið allsherjarumboð (á dönsku generalfuldmagt) lögreglu. Með því er átt við þá óskráðu reglu að lögreglan hafi almenna venjumyndaða heimild innan vissra marka til að grípa til nauðsynlegra ráðstafana til þess að halda uppi lögum og reglu í landinu. Það er mat nefndarinnar sem samið hefur þetta frumvarp að rétt sé að lögfesta þessar heimildir lögreglu. Byggist sú afstaða á svonefndri lögmætisreglu (á dönsku legalitetsprincip), þ.e. þeirri reglu að hið opinbera, lögreglan sem og aðrir, þurfi að hafa heimild í lögum til afskipta af borgurunum gegn vilja þeirra.

Lagagreinin er þannig upp byggð að í 1. mgr. eru tilgreindar aðstæður sem taldar eru réttlæta afskipti lögreglu af þegnunum. Í 2. mgr. eru síðan taldar upp aðgerðir sem lögreglu er heimilt að grípa til við þessar aðstæður. Sú upptalning er ekki tæmandi. Allar þær aðstæður og heimildir, sem nefndar eru í 1. og 2. mgr., hafa fram til þessa verið taldar rúmast innan allsherjarumboðsins. Í reynd er því lagt til að núverandi framkvæmd verði lögfest. Hér er því hvorki ætlunin að þrengja né rýmka þetta umboð lögreglu heldur miðar ákvæðið fyrst og fremst að því að tiltaka aðstæður og aðgerðir sem eru algengastar og taka þar með af allan vafa um lögmæti afskipta lögreglu.

Það er ljóst að erfitt er að setja sundurliðaðar og nákvæmar reglur sem kveða á um öll tilvik sem lögreglan kann að standa andspænis og þær aðgerðir sem hún kann að þurfa að grípa til. Þess vegna er 2. mgr. orðuð á almennan hátt þannig að litið verði á hana sem leiðbeinandi um hin ýmsu úrræði sem lögreglan getur gripið til en ekki sem tæmandi upptalningu á þeim.

[…]

Í 1. mgr. eru taldar upp þær aðstæður sem heimila afskipti lögreglu af borgurunum. Ákvæðið er almennt orðað og ætlað að taka til allra aðstæðna þar sem þörf kann að vera fyrir afskipti lögreglu af borgurunum í því skyni að halda uppi almannafriði og allsherjarreglu, að gæta öryggis einstaklinga eða almennings eða að afstýra eða stöðva afbrot.

Í 2. mgr. eru nefnd dæmi um aðgerðir sem lögreglan getur gripið til. Upptalningin er ekki tæmandi.

[…]

Í 5. mgr. er kveðið á um heimildir lögreglu til afskipta af málefnum sem með réttu heyra undir önnur stjórnvöld þegar nauðsyn ber til.“ (Alþt. 1995-1996, A-deild, bls. 3793-3794.)

Ofangreind ákvæði lögreglulaga og lögskýringargögn bera það glöggt með sér að hlutverk lögreglunnar í íslensku samfélagi, eins og það er markað í lögum nr. 90/1996, er harla umfangsmikið. Ég legg áherslu á að hlutverk lögreglu og lögbundnar heimildir hennar til afskipta af borgurunum ná til fleiri þátta og atvika en til beinna rannsókna mála á grundvelli laga nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála, þegar fyrir liggur grunur um að refsivert brot hafi verið framið þannig að ákæruvaldinu verði fært að taka upplýsta og málefnalega ákvörðun um hvort opinbert mál verði höfðað með útgáfu ákæru af því tilefni, sbr. 1. mgr. 112. gr. laganna. Lögreglan hefur þannig samkvæmt lögum nr. 90/1996 einnig almennt eftirlitshlutverk með því að almannafriður og allsherjarregla í merkingu 15. gr. lögreglulaga sé tryggð og virt á hverjum tíma. Með þessu er þá nánar átt við að í löggjöfinni er lögreglunni falið það mikilvæga hlutverk að gera viðeigandi ráðstafanir til verndar almannafriði og allsherjarreglu enda þótt brot á efnislegum fyrirmælum sem tengjast slíkum reglum kunni í ákveðnum tilvikum að falla utan þess að vera refsiverð í hefðbundinni merkingu.

4.

Um lagalega merkingu og inntak hugtakanna almannafriður og allsherjarregla, sbr. 15. gr. lögreglulaga nr. 90/1996, er ekki beinlínis fjallað í ákvæðinu. Þó er eins og áður er vikið að mælt fyrir um ákveðnar ráðstafanir í 2. mgr. greinarinnar sem lögreglunni er heimilt að grípa til í því skyni að halda uppi almannafriði og allsherjarreglu eða koma í veg fyrir yfirvofandi röskun til að gæta öryggis einstaklinga eða almennings, sbr. 1. mgr. 15. gr. laganna. Er þar meðal annars um að ræða bann við dvöl á ákveðnum svæðum, svo sem með því að girða af eða hindra umferð um það, vísa á brott eða fjarlægja fólk, fyrirskipa stöðvun eða breytingu á aðgerðum eða starfsemi og fara inn á svæði í einkaeign og fyrirskipa brottflutning fólks af þeim.

Hafa verður í huga að aðgerðir lögreglu samkvæmt 15. gr. lögreglulaga hafa eðli máls samkvæmt í för með sér íþyngjandi áhrif á þann sem fyrir þeim verður. Þá eru slíkar ákvarðanir oft og tíðum teknar undir erfiðum kringumstæðum þar sem fram þarf að fara vandasamt mat á andstæðum og ósamrýmanlegum hagsmunum. Til nánari afmörkunar á því úrlausnarefni sem liggur fyrir lögreglu í þeim tilvikum sem mál þetta snýst um verður því að gera nánari grein fyrir þeim lagareglum sem við eiga þegar um vernd og gæslu almannafriðar og allsherjarreglu er að ræða.

Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. laga nr. 36/1988, um lögreglusamþykktir, skal eftir því sem þurfa þykir kveða á um það sem varðar „allsherjarreglu“ í lögreglusamþykkt sveitarfélags, sbr. 1. gr. Er í a- til d-liðum 1. mgr. 3. gr. laganna tekin dæmi um þær aðstæður sem varða allsherjarreglu í merkingu ákvæðisins. Er þar meðal annars, sbr. a-lið, vikið að reglu og velsæmi á og við almannafæri og allt sem lýtur að því að draga úr hættu og óþægindum. Þá er sérstaklega vikið að „skemmtanahaldi“ í b-lið 1. mgr. 3. gr. laga nr. 36/1988. Þess má geta að samkvæmt 6. gr. laganna varða brot gegn lögreglusamþykkt, settri á grundvelli laganna, sektum. Sama á við um brot á reglum sem settar eru samkvæmt lögreglusamþykkt.

Fyrir lögsagnarumdæmi Reykjavíkur gildir lögreglusamþykkt nr. 625/1987 eins og henni hefur verið breytt með samþykktum nr. 606/1994, 666/1994, 306/1996, 180/1999 og 593/1999. Að því er varðar hávaða og ónæði segir meðal annars í 4. gr. að lögreglustjóri geti bannað notkun hátalara, hljómflutningstækja, hljóðfæra eða annars þess háttar á eða við almannafæri ef ástæða er til að ætla að hún valdi ónæði eða truflun. Sérstaklega er tekið fram í 5. gr. lögreglusamþykktarinnar að bannað sé að hafast nokkuð að sem veldur ónæði eða raskar næturró manna. Þá tel ég rétt, með tilliti til þess að atvik þessa máls lúta að æfingum hljómsveita, að benda hér á ákvæði 1. mgr. 30. gr. og tilgang þess enda þótt ljóst sé að það eigi ekki beinlínis við samkvæmt orðanna hljóðan. Í ákvæðinu segir að hver sá sem reki veitinga- eða gististað, kvikmyndahús, leikhús eða annað samkomuhús eða heldur almenna skemmtun eða sýningu skuli sjá um að allt fari þar vel fram og að starfsemin valdi ekki nágrönnum ónæði. Slík starfsemi skal háð sérstöku eftirliti og er lögreglunni heimilt að fara um samkomusali og önnur húsakynni sem gestir eiga aðgang að, sbr. 2. mgr. greinarinnar. Þá tel ég rétt að vekja hér athygli á ákvæði 31. gr. samþykktarinnar. Þar er mælt fyrir um að ef einhver lætur það ógert sem honum er skylt að gera samkvæmt samþykktinni getur lögreglustjóri látið framkvæma það eða gert nauðsynlegar ráðstafanir til að hindra að vanrækslan valdi tjóni. Kostnaður við þetta og kostnaður sem leiðir af þeim ráðstöfunum er lögreglustjórinn gerir til þess að hindra brot gegn því sem bannað er í samþykktinni greiðist af brotamanninum eða, ef hann er ekki fær um það, úr ríkissjóði.

Með hliðsjón af því sem rakið er hér að framan tel ég að draga megi nokkrar ályktanir um lögmælt hlutverk og heimildir lögreglunnar í þeim tilvikum þar sem mikill hávaði og ónæði hlýst af starfsemi eða athöfnum í húsi sem er í grennd við íbúðabyggð. Tel ég í fyrsta lagi að framangreindar lagareglur geri beinlínis ráð fyrir aðkomu og ráðstöfunum lögreglunnar við slíkar aðstæður. Álitaefnið snýst ekki um hvort heldur hvaða ráðstafanir lögreglunni er heimilt að grípa til og undir hvaða kringumstæðum.

Í greinargerð aðstoðaryfirlögregluþjóns hjá lögreglunni í Reykjavík, dags. 15. desember 1999, sem rituð var í tilefni af fyrirspurnarbréfum mínum 3. september og 30. nóvember 1999, er ennfremur fjallað með almennum orðum um „mögulegar lögregluaðgerðir vegna hávaðaútkalla“. Þar segir svo um þetta atriði:

„Mögulegar lögregluaðgerðir vegna hávaðaútkalla eru ekki margar og ekki eru fyrirliggjandi í lögum eða reglum leiðbeiningarreglur um það hvaða hávaði telst ónæði og hver ekki. Því er byggt á mati lögreglumanna hvert sinn sem getur skapað óvissu um framkvæmd. […] Lögreglan hefur greinilega fundið það í þessu máli hversu haldlítil úrræði hún hefur í raun til aðgerðar, annarra en skammtíma aðgerða, þegar tilkynnt er um hávaða. […] Við höfum greinilega fundið fyrir óánægju íbúa í nágrenni með „aðgerðarleysi“ okkar sem byggt er á því að lögreglumenn hafa ekki getað staðfest að um hávaða sé að ræða.“

Það er hlutverk lögreglunnar að lögum að gera ráðstafanir, ef tilefni verður til, þannig að borgararnir geti með raunhæfum hætti búið við aðstæður þar sem ekki er fyrir að fara óeðlilegum hávaða og ónæði frá nágrönnum. Minna verður þó á að samlíf borgaranna innan borgarmarka Reykjavíkur og í öðrum bæjarfélögum felur eðli máls samkvæmt í sér tiltekið áreiti vegna hávaða og ónæðis annarra sem menn verða jafnan að sætta sig við. Það skal ítrekað að lögfesting valdheimilda lögreglu með 15. gr. lögreglulaga fól í sér áréttingu á óskráðri meginreglu íslensks réttar um að lögreglan hefði „almenna venjumyndaða heimild innan vissra marka til að grípa til nauðsynlegra ráðstafana til þess að halda uppi lögum og reglu í landinu“. Hefur þessi heimild verið nefnd „allsherjarumboð“ lögreglu (á dönsku generalfuldmagt). Þá tel ég rétt að árétta að lögreglulögin frá 1996 eru að meginstefnu til byggð á norskri og finnskri fyrirmynd en í umfjöllun norrænna fræðimanna um beitingu þessarar heimildar lögreglu til að halda uppi almannafriði og allsherjarreglu hefur verið lagt til grundvallar að hávaði og ónæði frá húsnæði í einkaeign geti falið í sér röskun á almannafriði sem heimili sérstakar og íþyngjandi ráðstafanir af hálfu lögreglu. (Sjá hér sem dæmi Ib Henricson: Politirett, 2. udgave, Kaupmannahöfn 1999, bls. 38.)

Ég tel samkvæmt framangreindu að fjöldi tilvika og stig hávaða og ónæðis sem stafar frá húseign nágranna í og við íbúðabyggð og eðli slíkra tilvika að öðru leyti geti við ákveðnar aðstæður orðið svo ítrekað og umfangsmikið að það verði talið fela í sér röskun á almannafriði og allsherjarreglu í merkingu 15. gr. lögreglulaga og ákvæða lögreglusamþykkta settra á grundvelli laga nr. 36/1988, sbr. t.d. 4. og 5. gr. lögreglusamþykktar fyrir Reykjavík. Við slíkar aðstæður tel ég að lögreglunni sé beinlínis skylt að gera fullnægjandi og viðeigandi ráðstafanir til þess að bregðast við slíku ástandi.

Ljóst er að úrlausn mála þar sem ítrekað er kvartað yfir hávaða og ónæði nágranna er ærið vandasamt fyrir lögreglu og felur í sér að fram þarf að fara heildstætt mat á atvikum og aðstæðum í hverju tilviki fyrir sig. Sökum þessa minni ég á að í 14. gr. lögreglulaga er sérstaklega áréttuð sú meginregla stjórnsýsluréttar, sbr. 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, að handhafar lögregluvalds megi aldrei ganga lengra í beitingu valds en þörf er á hverju sinni. Ég legg áherslu á að löggjafinn hefur beinlínis gert ráð fyrir því að lögreglan hafi svigrúm til að gera þær ráðstafanir sem hún telur rétt að gera og mælt er fyrir um í 2. mgr. 15. gr. lögreglulaga sem áður er rakin. Samkvæmt þessu er lögreglunni m.a. heimilt, í þeim tilvikum þar sem talið er að fjöldi tilvika og stig hávaða og ónæðis sem stafar frá húsnæði í einkaeign séu þess eðlis að um röskun á almannafriði og allsherjarreglu er að ræða, að fyrirskipa meðal annars brottflutning fólks úr slíku húsnæði ef slík ráðstöfun er nauðsynleg til að stemma stigu við slíku ástandi. Ég minni á, eins og rakið var hér í upphafi, að svigrúm lögreglu til athafna kann að lögum að vera meira í slíkum tilvikum þegar um atvinnuhúsnæði er að ræða og hávaðinn eða ónæðið stafar frá starfsemi sem þar fer fram. Þegar svo háttar tel ég að 1. og 2. mgr. 15. gr. laga nr. 90/1996 veiti lögreglunni heimild til þess að fyrirskipa stöðvun, til lengri eða skemmri tíma, eða breytingu á þeirri starfsemi, banna dvöl manna í slíku húsnæði og jafnvel að girða fyrir aðgang að því. Sérstaklega á þetta við þegar ekki eru tilskilin leyfi fyrir viðkomandi starfsemi eða hún fer fram í húsnæði sem ekki hefur hlotið samþykki viðeigandi yfirvalda til slíkrar notkunar.

Ég minni hér á að samkvæmt 5. mgr. 15. gr. laganna er lögreglu veitt heimild til þess að hafa afskipti af málefnum sem lögum samkvæmt heyra undir önnur stjórnvöld ef það er talið nauðsynlegt til að stöðva eða koma í veg fyrir alvarlega röskun á almannafriði og allsherjarreglu og ekki næst til viðkomandi stjórnvalds eða aðgerðir af þess hálfu eru útilokaðar, þýðingarlausar eða fyrirsjáanlegt er að þær muni hefjast of seint. Ber þá lögreglu að tilkynna stjórnvaldi um aðgerðir hennar svo fljótt sem auðið er. Af þessu ákvæði er ljóst að enda þótt löggjafinn geri ráð fyrir aðkomu annarra stjórnvalda að tilteknum aðstæðum er varða nýtingu húseigna, s.s. byggingarnefndar, byggingarfulltrúa og heilbrigðiseftirlits sveitarfélaga, eins og nánar verður rakið hér í kafla IV.5, geta aðstæður verið með þeim hætti að lögreglu sé rétt að gera þær ráðstafanir sem taldar eru brýnar og nauðsynlegar án þess að atbeini þeirra hafi komið til áður eða ef ráðstafanir sem gerðar hafa verið af hálfu slíkra stjórnvalda virðast þýðingarlausar.

5.

Áður er rakið að mælt er fyrir um það í f-lið 2. gr. lögreglulaga nr. 90/1996 að lögregla skuli starfa í samvinnu við önnur stjórnvöld og stofnanir við framkvæmd starfa sinna samkvæmt fyrirmælum laga eða venju eftir því sem þörf er á. Samkvæmt 5. mgr. 3. gr. laga nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, getur „mengun“ í merkingu laganna einnig tekið til hávaða. Markmið laganna er að búa landsmönnum heilnæm lífsskilyrði og vernda þau gildi sem felast í heilnæmu og ómenguðu umhverfi, sbr. 1. gr. þeirra. Með 5. gr. laganna er ráðherra því falið að stuðla að framkvæmd mengunarvarnaeftirlits með því að setja almenn ákvæði í reglugerðir um ýmis efni meðal annars um hávaða og titring þar sem fram koma viðmiðunarmörk fyrir leyfilegan hávaða og titring með hliðsjón af umhverfi, sbr. 15. lið greinarinnar. Hefur ráðherra samkvæmt þessu sett reglugerð nr. 933/1999, um hávaða.

Samkvæmt 13. gr. laga nr. 7/1998 ber heilbrigðisnefnd hvers sveitarfélags fyrir sig að sjá um að framfylgt sé ákvæðum laganna og reglugerða settum samkvæmt þeim, samþykktum sveitarfélaga og ákvæðum í sérstökum lögum eða reglum sem nefndinni er eða kann að vera falið að annast um framkvæmd á. Til að knýja á um framkvæmd ráðstöfunar samkvæmt ofangreindum réttarreglum eða eigin fyrirmælum samkvæmt ákvæðum VI. kafla laganna geta heilbrigðisnefnd og heilbrigðisfulltrúi beitt þeim aðgerðum sem fram koma í 1. mgr. 26. gr. laga nr. 7/1998. Í 2. mgr. greinarinnar kemur fram að stöðvun starfsemi verði aðeins beitt að um alvarlegri tilvik eða ítrekað brot sé að ræða eða ef aðilar sinni ekki úrbótum innan tiltekins frests. Sérstaklega er áréttað í ákvæðinu að í þeim tilvikum er heilbrigðisnefndum eða fulltrúum þeirra heimilt að leita aðstoðar lögreglu ef með þarf. Þá verður einnig að hafa hér í huga að samkvæmt 1. mgr. 33. gr. laga nr. 7/1998 varða brot gegn ákvæðum laganna, reglum settum samkvæmt þeim og samþykktum sveitarfélaga sektum hvort sem þau eru framin af ásetningi eða gáleysi. Í þessu sambandi, og með tilliti til atvika máls þessa, minni ég á að ráðherra hefur sett reglugerð nr. 933/1999, um hávaða. Í reglugerðinni segir í 1. gr. að markmið hennar sé að draga úr og koma í veg fyrir hávaða. Samkvæmt 1. mgr. 5. gr. er gert ráð fyrir þeirri meginreglu að hávaði megi ekki vera yfir þeim viðmiðunarmörkum sem fram koma í viðauka, en ég mun víkja nánar að þessum viðmiðunarmörkum síðar í þessu áliti. Þá segir í 1. tölul. 6. gr. að forráðamönnum fyrirtækja sé skylt að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að koma í veg fyrir óþægindi af völdum hávaða.

Með skipulags- og byggingarlögum nr. 73/1997 hefur verið markaður rammi utan um fyrirmæli er varða uppbyggingu og nýtingu fasteigna þannig að þær verði í samræmi við skipulagsáætlanir sem eiga meðal annars að hafa að leiðarljósi félagslegar þarfir landsmanna, heilbrigði þeirra og öryggi. Í 1. mgr. 43. gr. laganna er meðal annars mælt fyrir um að óheimilt sé að breyta húsi eða notkun þess nema að fengnu leyfi viðkomandi sveitarfélags. Samkvæmt 1. mgr. 56. gr. laganna getur byggingarfulltrúi tafarlaust stöðvað starfsemi í byggingu ef hún er notuð á annan hátt en sveitarstjórn hefur heimilað. Með 6. mgr. 56. gr. er mælt fyrir um að lögreglu sé skylt að aðstoða byggingarfulltrúa og byggingarnefnd í slíkum tilvikum ef þörf krefur.

Ég tel rétt að benda á að samkvæmt 1. mgr. 37. gr. laga nr. 73/1997 setur ráðherra byggingarreglugerð, sbr. nú reglugerð nr. 441/1998 með síðari breytingum, er nær til alls landsins. Í henni er kveðið nánar á um framkvæmd IV. kafla laga nr. 73/1997 sem fjallar um hvers konar byggingar ofan jarðar og neðan, sbr. 1. mgr. 36. gr. og greinar 2.2. í byggingarreglugerð. Þá tek ég fram að í 2. mgr. 37. gr. laga nr. 73/1997 segir að í byggingarreglugerð skuli meðal annars kveðið á um hávaða.

Samkvæmt 1. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998 er markmið hennar meðal annars að gæta heilbrigðis-, umhverfis og öryggissjónarmiða við byggingu og rekstur mannvirkja og eru ákvæði hennar lágmarksákvæði, sbr. grein 2.5 og 1. gr. reglugerðar nr. 563/2000. Í 7.–9. gr. byggingarreglugerðar er mælt fyrir um hlutverk og störf byggingarnefnda með fulltingi byggingarfulltrúa sem eru framkvæmdarstjórar slíkra nefnda.

Vegna þeirra atvika sem mál þetta snýst um tek ég fram að með 209. gr. byggingareglugerðar er mælt nánar fyrir um skyldur og heimildir byggingarnefnda til að gera ráðstafanir vegna framkvæmda eða starfsemi sem fer í bága við skipulag eða eru án leyfis, sbr. einnig áðurnefnd 56. gr. laga nr. 73/1997. Í grein 209.5 er áréttuð sú regla að ef þörf krefur er lögreglu skylt að aðstoða byggingarfulltrúa og byggingarnefnd við þær aðgerðir sem greinir í ákvæðinu. Þá er rétt að minna á að í 213. gr. reglugerðarinnar segir að brot gegn henni varði sektum eða fangelsi nema þyngri refsing liggi við samkvæmt lögum og fer um meðferð slíkra mála að hætti opinberra mála.

6.

Það er viðurkennt af hálfu lögreglu að ónæði og hávaði hafi oft og tíðum stafað frá starfsemi og athöfnum í húsinu að X allt frá því fyrsta tilkynning þess efnis barst lögreglunni 23. mars 1997. Í greinargerð aðstoðaryfirlögregluþjóns hjá lögreglunni í Reykjavík til mín, dags. 15. desember 1999, eru tekin saman atvik málsins. Með greinargerðinni fylgdi ítarlegt yfirlit lögreglu yfir „öll þau verkefni (erindi,kvartanir/kærur)“ sem skráð voru vegna málsins frá 1. janúar 1997. Fram kemur að á því tímabili hafi lögreglan sinnt 219 útköllum „flest vegna tilkynninga um ónæði vegna hávaða (árið 1997 voru það 30 verkefni, 50 árið 1998 og eru orðin 139 þann 15. desember 1999)“ eða annarra ábendinga sem tengdar voru húsnæðinu að X. Fyrsta tilkynning um hávaða hafi eins og áður segir borist lögreglunni 23. mars 1997. Hafi þar verið um að ræða hljómsveit sem var við æfingar og hafi henni verið gert að hætta hljóðfæraleik. Af yfirliti lögreglu má síðan ráða að langflestar þær tilkynningar sem bárust lögreglunni í Reykjavík vegna umrædds húsnæðis hafi verið vegna mikils hávaða er stafaði frá æfingum hljómsveita. Þegar litið er nánar til yfirlits yfir þær ráðstafanir sem lögreglan gerði af því tilefni, ef talin var þörf á, er nær undantekningarlaust um það að ræða að annaðhvort hafi hljómsveitarmeðlimir „lofað að lækka“ hávaða eða að þeim hafi verið „gert að hætta“.

Eins og mál þetta liggur fyrir verður nú að afmarka nánar hvort og þá hvernig lögreglan í Reykjavík fullnægði lögbundnum skyldum sínum. Sérstaklega verður að kanna hvort og þá hvernig lögreglan aðstoðaði byggingarnefnd Reykjavíkurborgar í tilefni af tilkynningum og kvörtunum nágranna út af hávaða frá húsinu að X. Eins og atvikum þessa máls er háttað er þó rétt að fjalla hér fyrst um aðkomu lögreglunnar að málinu á tímabilinu frá því fyrstu tilkynningar bárust um hávaða og ónæði frá húsnæði að X og fram að því að byggingarfulltrúinn í Reykjavík ákvað 9. júlí 1999 að banna alla tónlistarstarfsemi í húsinu þar til úr yrði bætt. Því næst verður vikið að athöfnum og aðkomu lögreglunnar eftir að nefnd ákvörðun byggingarfulltrúans og síðari ákvarðanir byggingarnefndar lágu fyrir.

7.

Í gögnum málsins kemur fram að í byrjun árs 1997 fóru að berast til lögreglunnar tilkynningar og kvartanir vegna hávaða og ónæðis frá æfingum hljómsveita í húsnæðinu að X. Á sama tíma var einnig kvartað til heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur vegna þess sama. Í minnisblaði starfsmanns heilbrigðiseftirlitsins, dags. 28. janúar 1999, kemur fram að þessar kvartanir leiddu til þess að á vegum heilbrigðiseftirlitsins var tvisvar sinnum farið á staðinn. Þá hafi hljóðmælingar verið gerðar í ágúst 1997. Síðan segir í minnisblaðinu:

„Í bæði skiptin voru hljóð frá æfingu frekar lágt og varði stutta stund í einu og að sögn viðstaddra íbúa var hávaðinn ekki dæmigerður fyrir það sem oft er. Stuttar hljóðmælingar að kvöldlagi þann 12. ágúst meðan spilað var (1-2 mín.) gáfu 45 dB(A) hljóðstig og þann 26. ágúst 54 dB(A) (20 sek.) en frá þessum gildum þarf að draga 3 dB vegna endurkasts frá húshlið. Samkvæmt mengunarvarnarreglugerð nr. 48/1994 með síðari breytingum má hljóðstig í hreinni íbúðarbyggð milli kl. 18 og 23 vera 45 dB(A) frá atvinnustarfsemi og er þá gert ráð fyrir að mælt sé yfir það langt tímabil að um sé að ræða dæmigert jafngildishljóð frá þeirri starfsemi sem veldur hávaðanum. Haft var samband við aðila sem voru við æfingar í húsinu og þeir beðnir að hafa hurðir lokaðar og stilla tæki hóflega. Íbúar í íbúðum þar sem mælingar höfðu farið fram voru beðnir að hafa samband við heilbrigðisfulltrúa hvenær sem væri sólarhrings til að frekari mælingar gætu farið fram þegar hávaði væri verulegur. Eftir nokkrar vikur hafði heilbrigðisfulltrúi samband við íbúa sem tjáði að ástandið hefði skánað og ekki væri ástæða til aðgerða að svo stöddu. Á árinu 1998 bárust nokkrar kvartanir vegna hávaða og stóð til að gera mælingu en ekki varð af því. Starfsemi af þessu tagi er ekki tilgreind sérstaklega sem mengandi í mengunarvarnarreglugerð. Umhverfis- og heilbrigðisnefnd getur þó tekið um það ákvörðun að flokka starfsemina sem mengandi skv. reglugerðinni, sbr. flokkinn „Annar sambærilegur rekstur“ í 8 viðauka reglugerðarinnar. Þar með yrði hún háð starfsleyfi Heilbrigðiseftirlitsins.“

Í minnisblaðinu er einnig fjallað um starfsemi bónstöðvar að X og þar segir:

„Í nóvember 1997 tók til starfa handvirk bónstöð að [X]. Í eftirlitsferð á bónstöðina kom í ljós að um mjög takmarkaða og hreinlega starfsemi (einn starfsmaður) var að ræða og engar kvartanir höfðu borist vegna ónæðis. Er sótt var um starfsleyfi fyrir bónstöðina var hringt til Byggingarfulltrúans í Reykjavík og spurt að því hvort starfsemin samræmdist samþykkt húsnæðisins og kom í ljós að svo var ekki. Umsækjandi var þá beðinn að koma sínum málum í lag gagnvart byggingarfulltrúa og hafa síðan samband við Heilbrigðiseftirlitið svo afgreiða mætti umsókn. Hann hafði ekki samband og lá umsóknin óafgreidd hjá Heilbrigðiseftirlitinu. Fyrsta kvörtun vegna starfseminnar barst fyrir skömmu en aðeins eitt umkvörtunarefnið heyrði undir heilbrigðiseftirlitið, þ.e. lykt. Nýlega kom í ljós að orðið hafa eigandaskipti á rekstri bónstöðvarinnar og mun starfsleyfisumsóknar frá nýjum rekstraraðila verða aflað. Meðferð umsóknar tekur a.m.k. 3-4 mánuði ef engar tafir verða.

Skv. upplýsingum frá byggingarfulltrúa er húsnæðið hvorki samþykkt til hljómsveitaræfinga né bílabónunar. Eðlilegt er að skipulags- og byggingaryfirvöld taki fyrst afstöðu til þess hvort þessi starfsemi á þarna heima áður en farið er út í tímafrekar hljóðmælingar og kröfugerð á hendur rekstraraðila um hljóð- og mengunarvarnir. Byggingarfulltrúi hefur þegar sent eiganda húsnæðisins bréf vegna málsins. Heilbrigðiseftirlitið telur hæpið að leyfa æfingar hljómsveita í húsnæðinu vegna nálægðar þess við íbúðir en verði það engu síður gert er ljóst að ráðast þarf í mjög umfangsmiklar breytingar eigi að tryggja að hávaðinn valdi ekki ónæði.“

Af gögnum málsins er ljóst að á síðari hluta árs 1998 og í ársbyrjun 1999 var af hálfu skrifstofu borgarstjórnar óskað eftir upplýsingum bæði frá lögreglu og heilbrigðiseftirliti um kvartanir vegna hávaða og ónæðis frá X. Í framhaldi af því var byggingarfulltrúanum í Reykjavík kynnt framangreind yfirlit lögreglunnar og minnisblað heilbrigðiseftirlitsins og bent á að þar kæmi fram að húsnæðið að X væri hvorki samþykkt til hljómsveitaræfinga né bílabónunar og að byggingarfulltrúi hefði þegar haft afskipti af málinu. Var óskað eftir upplýsingum um hver þau afskipti hefðu verið og hvort einhverjar ákvarðanir lægju fyrir í málinu. Byggingarfulltrúinn í Reykjavík svaraði skrifstofu borgarstjórnar með bréfi, dags. 16. febrúar 1999. Kom þar fram að eiganda húsnæðisins hefði verið ritað bréf 18. janúar 1999 og settur frestur til að bæta úr annmörkum sem væru á húsnæðinu og skorti á teikningum af húsnæðinu. Eigandinn hefði síðan komið á fund byggingarfulltrúa og óskað eftir lengri fresti og hann verið veittur til 3. mars 1999. Í lok bréfs byggingarfulltrúa segir:

„Þá er og rétt að geta þess að sú starfsemi sem nú fer fram í húsinu er í samræmi við landnotkun og ætti því að uppfylltum skilyrðum að vera hægt að veita fyrir henni leyfi byggingarnefndar.“

Í áðurnefndri greinargerð aðstoðaryfirlögregluþjóns hjá lögreglunni í Reykjavík, sem tekin var saman í tilefni af fyrirspurn minni vegna málsins, kemur fram að lögreglan hafi unnið að málinu í samvinnu við byggingarfulltrúa og heilbrigðiseftirlit Reykjavíkurborgar. Er í greinargerðinni vísað til þess að samkvæmt upplýsingum byggingarfulltrúa sé í samþykktu skipulagi þessa borgarhverfis gert ráð fyrir blandaðri byggð sem heimilar aðra starfsemi en íbúðabyggð og að það takmarki um leið möguleika lögreglu og annarra yfirvalda til inngripa í þessu tilviki. Þá segir að af þeim sökum hafi lögregla t.d. ekki talið sér heimilt að stöðva umrædda hljómsveitarstarfsemi alfarið. Einnig kemur fram að kvartanir nágranna vegna X hafi verið meðal þeirra mála sem um var fjallað á nokkrum fundum fulltrúa lögreglunnar með borgaryfirvöldum. Sökum þessa, og enda þótt ekki verði með skýrum hætti ráðið af gögnum málsins hvenær og í hvaða mæli lögreglunni í Reykjavík var kunnugt um áðurgreind afskipti heilbrigðiseftirlitsins eða byggingarfulltrúans, tel ég að byggja verði á því að yfirstjórn lögreglunnar í Reykjavík hafi verið kunnugt um þau afskipti.

Því hefur áður verið lýst að það er almennt í verkahring heilbrigðis- og byggingaryfirvalda að hafa eftirlit og afskipti af því ef starfsemi eða notkun húsnæðis er ekki í samræmi við tilskilin leyfi á þeim sviðum. Nágrannar sem telja að brotinn sé á þeim réttur í þessu efni geta því snúið sér til þessara yfirvalda og gert þeim grein fyrir umkvörtunarefnum sínum. Hér að framan var einnig komist að þeirri niðurstöðu að þrátt fyrir þessa aðstöðu geta aðstæður verið með þeim hætti að lögreglu sé rétt að gera þær ráðstafanir sem taldar eru brýnar og nauðsynlegar án þess að atbeini umræddra stjórnvalda hafi komið til áður eða ef ráðstafanir sem gerðar hafa verið af hálfu slíkra stjórnvalda virðast þýðingarlausar.

Af yfirliti úr dagbók lögreglunnar sést að á árinu 1997 voru bókaðar 30 tilkynningar vegna hávaða frá X, sú fyrsta í mars en á tímabilinu september og til ársloka eru bókaðar 5 tilkynningar. Rétt er að minna á að í minnisblaði heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur, dags. 28. janúar 1999, kemur fram að þegar haft var samband við íbúa í nágrenninu nokkrum vikum eftir að hljóðmælingar voru gerðar í ágúst 1997 höfðu svör þeirra verið þau að ástandið hefði skánað og ekki væri ástæða til aðgerða að svo stöddu. Á árinu 1998 voru tilkynningar til lögreglunnar alls 50 og 49 á árinu 1999 fram til 9. júlí s.á. Þar af voru 23 í júnímánuði og 5 í júlí, þ.e. til 9. þ.m. Rétt er að taka fram að í sumum þessara tilvika er bókað að ekki hafi verið um hávaða að ræða þegar lögreglan kom á staðinn eða ekki það mikinn að ástæða hafi verið til afskipta. Í öðrum tilvikum er hins vegar bókað að hljómsveitir hafi lofað að lækka eða þær verið látnar hætta.

Sá fjöldi tilkynninga sem um var að ræða samkvæmt framangreindu og það sem skráð er um afgreiðslu lögreglunnar á þeim í dagbók hennar er að mínu áliti til marks um að þarna var uppi ástand sem gaf fullt tilefni til þess að lögreglan hefði í frammi aðgerðir. Eftir stendur þá að afmarka hvort lögreglunni hafi verið rétt að grípa til aðgerða í meira mæli en gert var af hennar hálfu á tímabilinu fram til 9. júlí 1999.

Eins og áður sagði er af hálfu lögreglunnar vísað til þess að sú afstaða byggingarfulltrúa að starfsemin sem fram færi í X hafi verið í samræmi við landnotkun á svæðinu samkvæmt skipulagi hafi takmarkað möguleika hennar og annarra yfirvalda til inngrips. Hafi lögreglan af þeim sökum t.d. ekki talið sér heimilt að stöðva umrædda hljómsveitarstarfsemi alfarið. Nú liggur það hins vegar fyrir að þrátt fyrir að umrædd starfsemi gat samrýmst ákvæðum skipulags um landnotkun lá ekki fyrir á umræddum tíma lögbundið og nauðsynlegt samþykki byggingaryfirvalda vegna þáverandi fyrirkomulags og starfsemi í húsnæðinu. Var það reyndar svo að byggingarleyfi skorti fyrir hluta húsnæðisins sem reist hafði verið í óleyfi fyrr á árum. Ég minni á að það bréf sem byggingarfulltrúi ritaði eiganda hússins 18. janúar 1999 af þessu tilefni var sent í framhaldi af því að heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur hafði „spurst fyrir um samþykkta notkun á ofangreindu húsi vegna kvartana um hávaða frá því“.

Ég tel að það leiði af þeim lagareglum sem mæla fyrir um hlutverk lögreglunnar og raktar hafa verið hér að framan að henni ber, við athugun á málum vegna tíðra tilkynninga og kvartana um hávaða frá tiltekinni starfsemi sem fram fer í húsnæði, skylda til að kanna, meðal annars með formlegum fyrirspurnum til hlutaðeigandi yfirvalda, hvort fyrir liggi tilskilin leyfi til umræddrar starfsemi í húsnæðinu. Leiði sú eftirgrennslan til þess að fram komi upplýsingar um að svo sé ekki getur verið tilefni til þess að rannsaka sérstaklega hvort um sé að ræða brot á lögum og reglugerðum á viðkomandi sviði sem meðal annars geta leitt til refsiábyrgðar. Verður hér að hafa í huga að brot eiganda húsnæðis í þessum tilvikum kunna annars vegar að fela í sér röskun á þeim almannahagsmunum sem fólgnir eru í því að lög landsins og ákvörðunarvald stjórnvalda sé virt og hins vegar röskun á hagsmunum tiltekinna eigenda annarra fasteigna í nágrenninu af því að fyrirkomulag og notkun fasteigna uppfylli þær sömu kröfur og þeim er gert að uppfylla um samþykki stjórnvalda. Ég legg því áherslu á að það getur verið eðlilegur og nauðsynlegur þáttur í málum þar sem lögreglan fær upplýsingar um að ekki liggi fyrir tilskilin leyfi til þeirrar notkunar húsnæðis sem kvartað er yfir að hún rannsaki málið og fylgi því eftir á þeim grundvelli að um ætlað refsivert brot eiganda húsnæðisins sé að ræða.

Ég vek athygli á því að af þeim gögnum sem lögreglan í Reykjavík hefur afhent mér vegna athugunar á máli þessu og skýringum hennar af því tilefni verður ekki ráðið að hinar ítrekuðu tilkynningar og kvartanir sem lögreglunni bárust eftir 23. mars 1997 og fram til júlí 1999 hafi leitt til þess að lögreglan kannaði það með formlegum hætti hjá byggingarfulltrúanum í Reykjavík hvort tilskilin leyfi lægju fyrir vegna notkunar húsnæðisins að X undir æfingar hljómsveita. Ég bendi hins vegar á að þær aðgerðir sem byggingarfulltrúi greip til 9. júlí 1999 voru ákveðnar í framhaldi af fundi lögreglu, heilbrigðiseftirlits og byggingarfulltrúans.

Auk þess að fara þá leið að hafa uppi framangreinda eftirgrennslan og rannsókn, ef tilefni er til, leiða sjónarmið um meðalhóf við val lögreglunnar á aðgerðum til þess að rétt geti verið að lögreglan beinlínis upplýsi hlutaðeigandi stjórnvöld þegar henni berast í miklum mæli, eins og raunin var t.d. í því máli sem hér er fjallað um, tilkynningar og kvartanir um hávaða og ónæði eða tiltekna starfsemi í húsnæði. Ég tek það fram að í þessu máli liggja ekki fyrir gögn um að svo hafi verið gert að frumkvæði lögreglunnar í Reykjavík með formlegum hætti þar til lögreglan hafði frumkvæði að því að boða til fundar um málið með fulltrúum heilbrigðiseftirlits og byggingarfulltrúa 9. júlí 1999. Þá sést í gögnum málsins að lögreglan sendi byggingarfulltrúa afrit af lögregluskýrslu um kæru nágranna vegna ónæðis frá húsinu [við X] sem lögð var fram 27. júlí 1999. Rétt er þó að geta þess að lögreglan hafði í tilefni af fyrirspurnum frá skrifstofu borgarstjórnar Reykjavíkur tekið saman yfirlit yfir tilkynningar vegna X, dags. 28. nóvember 1998 og 7. apríl 1999. Ég tel jafnframt að bréf lögreglunnar til byggingarfulltrúa, dags. 30. september 1999, sé í góðu samræmi við það sjónarmið sem ég hef hér lýst.

Ég tek fram að beri þau vægari úrræði lögreglunnar sem um hefur verið fjallað hér að framan ekki nægjanlegan árangur til að koma á ásættanlegu ástandi að mati lögreglunnar og þar með að farið sé yfir þau mörk sem meðal annars 4. og 5. gr. lögreglusamþykktar Reykjavíkur setja minni ég á að sú aðstaða að ekki liggja fyrir tilskilin leyfi stjórnvalda til að viðhafa þá starfsemi eða athafnir sem kvartað er yfir getur leitt til þess að rétt sé að lögreglan grípi til þeirra úrræða sem henni eru fengin að lögum, sbr. 15. gr. laga nr. 90/1996, t.d. með því að stöðva starfsemi. Áður en til slíkra úrræða verður gripið umfram það að stöðva t.d. æfingu hljómsveitar að næturlagi þarf að koma til rannsókn málsins þar sem meðal annars er upplýst um hvaða heimildir liggi fyrir til handa eigandanum til að nýta eign sína.

Í þessu sambandi tek ég fram að af gögnum málsins verður ráðið að lögreglunni í Reykjavík var send kæra vegna „hávaða innandyra að X í Reykjavík þann 27. júní 1999“. Í bréfi lögreglunnar til kærenda, dags. 5. júlí 1999, var þeim tilkynnt að eins og atvikum væri háttað í málinu væri ekki tilefni til að aðhafast frekar í því og væri það því fellt niður með vísan til 76. gr. laga nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála. Af þessu tilefni tek ég fram að af gögnum málsins verður ekki beinlínis ráðið að fram hafi farið sérstök rannsókn á atvikum og aðstæðum í málinu áður en nefnd ákvörðun lögreglunnar 5. júlí 1999 um niðurfellingu málsins var tilkynnt kærendum.

Á grundvelli þeirra upplýsinga sem fyrir liggja um athafnir lögreglunnar á tímabilinu 23. mars 1997 til 9. júlí 1999 vegna tilkynninga, kvartana og kæra vegna hávaða og ónæðis frá starfsemi og athöfnum í X og með tilliti til þess hversu takmarkaðar upplýsingar liggja fyrir um rannsókn málsins tel ég ekki unnt að fullyrða að tilefni hafi verið til þess að lögreglan gripi á umræddu tímabili til frekari aðgerða en gert var til að stemma stigu við að nágrannar X yrðu fyrir ónæði vegna hávaða og annars sem leiddi af starfsemi í húsinu. Ég minni jafnframt á að það var eðlilegt að lögreglan hafi við val úrræða í þessu máli litið til þess sem hún vissi um afstöðu heilbrigðiseftirlits og byggingarfulltrúa. Það breytti því þó ekki að lögreglan gat bæði upplýst þessa aðila um áframhaldandi kvartanir vegna hávaða og ónæðis og gengið úr skugga um hvort tilskilin leyfi væru til staðar.

8.

Hinn 9. júlí 1999 ritaði byggingarfulltrúi Reykjavíkur eiganda hússins að X bréf og vísaði til þess að eigandinn hefði sótt um frest til að skila inn umsókn vegna breytinga á nýtingu eignarinnar sem ekki hefði verið sótt um leyfi fyrir. Í bréfinu var eigandanum kynnt að „ítrekað hefði verið kvartað til lögreglu um hávaða frá húsinu“ og að það ylli „truflun og [raskaði] ró íbúa í nágrenninu“. Var honum því með vísan til 56. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, sem áður er rakin, og 209. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998 gert að „stöðva alla tónlistarstarfsemi í húsinu [þá og] þegar“ og tekið fram að stöðvunin myndi standa yfir þar til byggingarleyfi og önnur þau leyfi sem til þyrftu væru fengin og framkvæmd vegna þeirra væri lokið. Þá sagði í bréfinu að „[yrði] ekki farið að þessum fyrirmælum [myndi] verða leitað aðstoðar lögreglu“, sbr. grein 209.5 í byggingarreglugerð. Með bréfi byggingarfulltrúans, dags. 30. júlí 1999, til eiganda X var honum hins vegar tilkynnt sú ákvörðun byggingarnefndar að „aflétta algeru banni byggingarfulltrúa frá 9. júlí [1999] um tónlistaræfingar í [X] þannig að í einn mánuð [væri] leyft að stunda tónlistaræfingar á virkum dögum milli kl. 8.00 – 20.00“.

Ég legg sérstaka áherslu á að afrit af ofangreindum bréfum byggingarfulltrúa Reykjavíkur til eiganda húseignarinnar að X voru send samtímis til lögreglunnar í Reykjavík eins og ráða má af áritun á bréfin. Í því efni bendi ég einnig á að í gögnum málsins er að finna „minnisblað vegna [X]“, dags. 13. júlí 1999, sem ritað var af aðstoðaryfirlögregluþjóni við embætti lögreglunnar í Reykjavík til aðalvarðstjóra og annarra lögreglumanna. Er þar kynnt sú ákvörðun byggingarfulltrúa frá 9. júlí 1999 að stöðva alla tónlistarstarfsemi í húsinu. Í lok bréfsins kemur fram að það séu „því fyrirmæli til [lögreglunnar] um að sjá til þess að [í [X] verði ekki] tónlistarflutningur fyrr en annað verður sérstaklega tilkynnt“.

Í yfirlitum úr „dagbók“ lögreglunnar í Reykjavík, sem fylgdi með áðurnefndri greinargerð aðstoðaryfirlögregluþjóns við embættið er barst mér 20. desember 1999, er að finna „stakar bókanir“ vegna einstakra tilkynninga til embættisins vegna hávaða frá X allt frá 23. mars 1997. Á tímabilinu 9. júlí 1999 til og með 29. s.m. bárust lögreglunni 16 mismunandi tilkynningar um „hávaða innandyra“ í húsinu að X. Við hverja „staka bókun“ lögreglunnar er að finna athugasemd við flokkinn „afgreiðsla og aths.:“. Í 10 tilvikum af þeim 16 sem um var að ræða kom lögreglan að hljómsveit sem var að spila tónlist. Ráðstafanir lögreglunnar vegna þessa voru mismunandi. Í bókun, dags. 9. júlí 1997, kemur fram að lögreglan taldi það „í lagi“ að hljómsveitin hefði verið að spila þar sem „hávaði var ekki mikill“. Þá hafi hljómsveitarmeðlimir talið sig hafa „leyfi til kl. 23.00 að æfa“. Í öðrum tilvikum er annað hvort ekki að finna sérstaka athugasemd um ráðstafanir lögreglu enda hávaði „óverulegur“ eða að hljómsveitum hafi verið „gert að hætta“ að spila.

Ég minni á að á tímabilinu 9. júlí 1999 til og með 29. s.m. var í gildi fortakslaust bann byggingarfulltrúa Reykjavíkur við tónlistaræfingum í húsinu, sbr. áðurnefnt bréf hans 9. júlí 1999 til eiganda X. Ég tel rétt að taka fram að af gögnum málsins verður ekki séð að eigandi hússins hafi dregið lögmæti þeirrar ákvörðunar byggingarnefndarinnar í efa. Aðeins í einu tilviki, þ.e. í bókun lögreglu, dags. 23. júlí 1999, var hins vegar vísað til þess að bann var í gildi um tónlistarflutning í húsinu.

Áður er rakið að afrit af bréfi byggingarfulltrúa 9. júlí 1999 til eiganda X var sent lögreglunni í Reykjavík. Í bréfinu var beinlínis vísað til 56. gr. laga nr. 73/1997 og greinar 209.5 í byggingarreglugerð nr. 441/1998 um aðstoð lögreglu til að framfylgja ákvörðunum byggingarnefnda. Ég tel að með því að senda lögreglunni afrit af bréfinu hafi byggingarfulltrúi verið að upplýsa lögregluna um þá ákvörðun byggingarnefndar að leggja fortakslaust bann við tónlistarflutningi í húsinu að X. Við þessar aðstæður var lögreglunni í Reykjavík skylt samkvæmt f-lið 2. gr. og 5. mgr. 15. gr. lögreglulaga nr. 90/1996, 6. mgr. 56. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og greinar 209.5 í byggingarreglugerð að gera nauðsynlegar og viðeigandi ráðstafanir til að tryggja að farið yrði eftir þeirri ákvörðun byggingarnefndar.

Í áðurnefndri greinargerð aðstoðaryfirlögregluþjóns við embætti lögreglunnar í Reykjavík til mín kemur fram að samkvæmt upplýsingum byggingarfulltrúa sé í samþykktu skipulagi þess borgarhverfis sem hér sé um að ræða gert ráð fyrir „blandaðri byggð“ sem heimili því aðra starfsemi en íbúabyggð. Með því hafi möguleikar lögreglu og annarra yfirvalda „til inngripa“ verið takmarkaðir í tilviki X. Af þeim sökum hafi lögreglan sem dæmi ekki talið sér heimilt „að stöðva þessa hljómsveitarstarfsemi alfarið“. Vegna þess tel ég rétt að ítreka enn og aftur að byggingarnefnd Reykjavíkur hafði tekið þá ákvörðun að leggja „algert“ bann við tónlistarflutningi í húsinu. Í kjölfarið kom síðan sýnilega í ljós að eigandi hússins gerði ekki ráðstafanir til að koma í veg fyrir að slík starfsemi færi fram á umræddu banntímabili enda bárust lögreglunni fjöldi tilkynninga um hávaða og ónæði frá húsinu vegna æfinga hljómsveita. Í ljósi þessa tel ég að lögreglunni hafi borið að beita þeim úrræðum sem fram koma í 2. mgr. 15. gr. lögreglulaga og viðeigandi voru að mati hennar í þessu tilviki þannig að fullnægt væri markmiðum ákvörðunar sem tekin var af þar til bæru stjórnvaldi, þ.e. byggingarnefnd Reykjavíkur. Enda þótt rétt kunni að vera að skipulag umrædds svæðis þar sem húsnæðið að X er staðsett sé með þeim hætti að gert sé ráð fyrir blandaðri byggð íbúða- og atvinnuhúsnæðis fæ ég ekki séð að það hafi, eins og atvikum var háttað, takmarkað með einhverju móti úrræði lögreglunnar til að stemma stigu við þeirri röskun á almannafriði sem þarna átti sér stað. Tel ég því að vel hafi komið til greina hjá lögreglu að girða alfarið fyrir aðgang hljómsveita að húsnæðinu á meðan bannið var í gildi eða beita öðrum íþyngjandi úrræðum sem 15. gr. lögreglulaga heimilaði. Að mínu áliti voru viðbrögð lögreglunnar sem ráða má af „stökum bókunum“ úr dagbók hennar á tímabilinu 9. júlí 1999 til og með 29. s.m. hins vegar ekki í samræmi við hlutverk og skyldur lögreglunnar með tilliti til lögbundinnar aðkomu byggingarnefndar og ákvörðunar hennar og aðstæðna í málinu. Voru þær þannig ekki til þess fallnar að tryggja og vernda almannafrið í merkingu þeirra lagareglna sem ég hef áður rakið. Ég minni á að byggingarnefnd hafði metið það svo að hagsmunir íbúa, sem bjuggu í grennd við húseignina að X, væru í hættu vegna þeirrar starfsemi sem fram fór í húsnæðinu að teknu tilliti til þess hvernig einangrun þess í ljósi hávaðamengunar var háttað.

9.

Eins og fram kemur í gögnum málsins, og rakið er nánar í kafla II, var lögreglunni í Reykjavík sent bréf byggingarfulltrúa, dags. 1. september 1999, þar sem vísað var til fundar byggingarnefndar Reykjavíkur 26. ágúst 1999 þar sem samþykkt hafði verið byggingarleyfisumsókn vegna X. Í bréfinu var síðan vísað til bókunar byggingarnefndar vegna málsins um að takmörkun á æfingatíma hljómsveita, sbr. bréf byggingarfulltrúa til eiganda húseignarinnar 30. júlí 1999, yrði ekki aflétt fyrr en lokaúttekt byggingarfulltrúa hafði farið fram en þar bar að sýna fram á að hljómsveitaræfingar yllu ekki hávaðamengun umfram leyfileg mörk. Í lok bréfsins var sérstaklega áréttað að byggingarfulltrúi myndi tilkynna lögreglunni þegar banninu yrði aflétt en fram að þeim tíma væri óskað eftir aðstoð lögreglu til þess að framfylgja banninu.

Hinn 30. nóvember 1999 ritaði ég byggingarfulltrúa Reykjavíkurborgar bréf og óskaði meðal annars eftir upplýsingum um hvort lokaúttekt sem fjallað hafði verið um í áðurnefndri bókun byggingarnefndar frá 26. ágúst 1999 hefði farið fram og ef svo væri með hvaða hætti hefði verið sannreynt að umrædd hávaðamengun frá X væri ekki umfram leyfileg mörk. Í kafla II er rakið að svarbréf byggingarfulltrúans barst mér með bréfi 27. desember 1999, dags. 14. s.m. Þar kæmi fram að byggingarfulltrúi hefði ásamt yfirverkfræðingi embættisins farið 27. október 1999 til lokaúttektar „vegna þeirra atriða er lutu að frágangi hljóðeinangrunar [hússins að [X]] sbr. samþykkt byggingarnefndar Reykjavíkur frá 26. ágúst 1999“. Hefðu þeir farið í öll rými sem hljómsveitir hefðu verið að æfa í og hafi þeim virst sem hljóðeinangrun og frágangur væri nægjanlegur. Var í því efni vísað til hljóðmælingar heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur, dags. 20. október 1999, sem fylgdi með bréfinu til mín. Þá segir svo í bréfi byggingarfulltrúans að með vísan til úttektarinnar og hljóðmælinga HR hefði byggingarnefnd samþykkt á fundi sínum 28. október 1999 að tillögu byggingarfulltrúa að „aflétta banni við tónlistarflutning þannig að æfingar fari ekki fram á tímabilinu kl. 23.00 – 8.00.“ Var þessi ákvörðun byggingarnefndar tilkynnt lögreglunni í Reykjavík með bréfi byggingarfulltrúa 3. nóvember 1999.

Með vísan til þessa liggur fyrir að frá og með 30. júlí 1999 til og með 27. október 1999 voru enn til staðar lögmæltar takmarkanir á tónlistarflutningi í húsinu að X samkvæmt ákvörðun byggingarnefndar Reykjavíkur, sbr. bréf til eiganda hússins frá 30. júlí 1999 og bókunar nefndarinnar 26. ágúst s.á. Var því aðeins heimilt að flytja tónlist í húsinu frá kl. 8.00 til kl. 20.00 á virkum dögum. Á öðrum tímum var því enn til staðar fortakslaust bann við tónlistarflutningi sem lögreglu bar að framkvæma með þeim hætti sem ég hef áður rakið að því er varðar tímabilið 9. júlí 1999 til og með 29. júlí 1999.

Þegar skoðuð eru „stakar bókanir“ úr dagbók lögreglu á tímabilinu frá og með 30. júlí 1999 til og með 27. október s.á. kemur í ljós að lögreglu bárust 64 tilkynningar um hávaða og ónæði í húsinu að X á þessu tímabili. Af þeim bárust yfirgnæfandi meirihluti tilkynninganna eða 56 þeirra utan þess tíma sem heimilt var að spila tónlist í húsinu samkvæmt ákvörðun byggingarnefndar Reykjavíkur. Viðbrögð lögreglunnar í þessum tilvikum voru að meginstefnu til þau sömu eins og ég greindi frá hér að framan að því er varðaði tímabilið 9. júlí 1999 til og með 27. s.m. Í bókun lögreglu vegna tilkynningar kl. 1.04, föstudaginn 6. ágúst 1999, kemur sem dæmi fram að „hávaði frá húsinu raskaði næturró íbúa í hverfinu“. Þrátt fyrir þetta kemur aðeins fram um „afgreiðslu og aths.“ lögreglu að rætt hafi verið við „eiganda staðarins sem [hafi ekki] kannast við að hafa verið með neinn hávaða“. Í öðrum tilvikum var enn um það að ræða að lögreglumenn sem komu á staðinn hafi annað hvort ekki heyrt neinn hávaða eða að hljómsveitum sem voru að spila var „gert að hætta“.

Með vísan til þess sem ég hef rakið hér að framan er það niðurstaða mín að lögreglan í Reykjavík hafi ekki sinnt með fullnægjandi hætti lögboðnu hlutverki sínu við framkvæmd takmarkana byggingarnefndar Reykjavíkur frá 9. júlí 1999 og 30. júlí s.á. í tilefni af ítrekuðum tilkynningum vegna hávaða og ónæðis í húsinu að X. Ég minni hér að þau sjónarmið um hlutverk og valdheimildir lögreglunnar hér á landi við gæslu almannafriðar og allsherjarreglu sem rakin eru hér að framan. Þegar bær stjórnvöld hafa í krafti skýrra og glöggra lagaheimilda á borð við 56. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og 26. gr. laga nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, mælt fyrir um tilteknar ráðstafanir í þágu almannahagsmuna er lögreglu skylt að aðstoða við framkvæmd slíkra ráðstafana með þeim úrræðum sem fram koma í 15. gr. lögreglulaga nr. 90/1996. Það gerði lögreglan í Reykjavík ekki í þessu máli.

10.

Ég hef hér að framan rakið að ákvæði 15. gr. lögreglulaga og lögreglusamþykkta gera beinlínis ráð fyrir viðeigandi ráðstöfunum lögreglunnar þegar fjöldi tilvika og stig hávaða og ónæðis við tilteknar aðstæður er með þeim hætti að um geti verið að ræða röskun á almannafriði. Þá minni ég á að skyldur lögreglunnar að þessu leyti kunna að verða virkar enda þótt lögbundin atbeini annarra stjórnvalda hafi ekki átt sér stað eða virðist þýðingarlaus, sbr. fyrirmæli 5. mgr. 15. gr. lögreglulaga.

Af skýringum lögreglunnar í Reykjavík til mín í tilefni af máli þessu virðist á því byggt að þegar lögreglu berast kvartanir og erindi vegna hávaða og ónæðis frá nágrönnum sé lögreglumönnum harla erfitt um vik enda sé ekki mögulegt að þeir geti metið hvort hávaðastig falli utan leyfilegra marka laga og reglugerða. Vegna þessa atriðis í skýringum lögreglunnar tek ég fram að í reglugerð nr. 933/1999, um hávaða, kemur fram sú meginregla í 5. gr. að hávaði skuli vera undir þeim viðmiðunarmörkum sem fram koma í viðauka. Í viðaukanum er að finna töflu nr. 1. þar sem rakin eru „viðmiðunargildi og leiðbeiningargildi fyrir hljóðstig í og við íbúðarhúsnæði, kennslu- og sjúkrastofur“. Þar kemur fram að hæsta leyfilega hljóðstig í blandaðri byggð, þ.e. þar sem staðsettar eru verslanir, þjónusta, smáiðnaður og íbúðarbyggð, sé 55 desibel á virkum dögum kl. 07.00 – 18.00, 50 desibel kl. 18.00 – 23.00 og helgidaga og 40 desibel kl. 23.00 – 07.00 alla daga.

Það er ljóst að nákvæm úrlausn á því hvort hávaðastig í einstökum tilvikum sé hærra í blandaðri byggð á mismunandi dögum og tímum sólarhrings en heimilt er samkvæmt reglugerð nr. 933/1999 er ærið vandasamt nema beitt sé vísindalegum mæliaðferðum framkvæmdum af sérfræðingum, s.s. með eftirlitsmælingum eða úttektarrannsóknum í merkingu 2. gr. reglugerðar nr. 933/1999. Hvað sem því líður tel ég að eins og lögum er háttað, og einnig meðal annars ákvæðum lögreglusamþykkta, geti lögregla ekki látið hjá líða að leggja eftir bestu getu mat á það hvort hávaði og ónæði á ákveðnum stað og tíma gangi lengra en heimilt er og gera viðeigandi ráðstafanir samkvæmt 15. gr. lögreglulaga ef hún telur þær nauðsynlegar. Ég legg áherslu á að við það mat hefur löggjafinn með nefndu ákvæði lögreglulaga og ákvæðum lögreglusamþykkta lagt til grundvallar að hagsmunir almennings tengdum almannafriði og allsherjarreglu leiði til þess að játa verði lögreglu hér nokkurt svigrúm. Verða lögreglumenn, eins og aðrir handhafar opinbers valds sem falið er að taka mjög matskenndar og atviksbundnar ákvarðanir, því að beita dómgreind sinni og meta, meðal annars með tilliti til meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar, sbr. 12. gr. stjórnsýslulaga, hvort aðstæður séu með þeim hætti að rétt sé að beita lögbundnum ráðstöfunum.

Í bréfi A, D og E til mín, dags. 25. janúar 2000, er að því vikið að á síðustu þremur vikum fyrir ritun bréfsins hafi hávaðinn verið „óbærilegur“. Raunar kemur fram í þeim gögnum sem mér voru afhent á ofangreindum fundi mínum 21. mars sl. með fulltrúum lögreglunnar að á tímabilinu frá 1. janúar 2000 til og með 5. desember s.á. bárust lögreglunni 134 kvartanir og tilkynningar vegna hávaða í húsnæðinu að X. Sökum þessa og vegna framangreindra sjónarmiða tek ég fram að enda þótt byggingarnefnd Reykjavíkur hafi samkvæmt gögnum málsins alfarið heimilað æfingar hljómsveita í húsinu að X að undanskildu tímabilinu frá 23.00 til 8.00 hvern dag er ekki þar með sagt að hávaði og ónæði í húsinu á annars leyfilegum tíma geti ekki falið í sér röskun á almannafriði í merkingu 15. gr. lögreglulaga og lögreglusamþykktar. Lögreglunni í Reykjavík er því skylt að meta í hverju tilviki hvort aðstæður séu með þeim hætti að sérstakra ráðstafana sé þörf til að stemma stigu við slíkri röskun. Þá kunna aðstæður enn að vera með þeim hætti, eins og ofangreint yfirlit um kvartanir og tilkynningar til lögreglu á árinu 2000 gefur til kynna, að þær ráðstafanir sem gerðar voru af hálfu eiganda húsnæðisins í tilefni af aðkomu byggingarnefndar hafi ekki fyllilega leyst úr því vandamáli sem tónlistarflutningur í húsinu skapar fyrir nærliggjandi umhverfi. Í því sambandi minni ég á að í bréfi byggingarfulltrúa til mín, dags. 14. desember 1999, er vísað til þess að enda þótt byggingarnefnd hafi ákveðið að heimila æfingar í húsnæðinu frá kl. 23.00 til kl. 8.00 hvern dag í kjölfar úttektar á því hafi verið bókað á fundi nefndarinnar að „þessi ákvörðun yrði tekin til endurskoðunar ef sýnt yrði fram á að hávaðastig [væri] annað og meira en [mælingar heilbrigðiseftirlitsins hefðu leitt] í ljós“.

Það er að mínu áliti hlutverk lögreglunnar, sbr. f-lið 2. gr. og 5. mgr. 15. gr. lögreglulaga, að hafa á hverjum tíma í samvinnu við byggingar- og heilbrigðisnefnd Reykjavíkur eftirlit með því hvort rétt kunni að vera að taka umrædda ákvörðun byggingarnefndarinnar til endurskoðunar í ljósi tiltekinna atvika og aðstæðna við húsnæðið að X, meðal annars með upplýsingagjöf lögreglu til byggingaryfirvalda. Í þessu sambandi tel ég jákvætt og rétt að lögreglan skyldi með bréfi sínu til heilbrigðisnefndar og heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur, dags. 23. október 2000, vekja á ný athygli yfirvalda á aðstæðunum við X, en með tilliti til samþykktar byggingarnefndar hefði einnig verið rétt að beina slíku erindi til byggingarnefndar.

11.

Samkvæmt 4. gr. lögreglulaga nr. 90/1996 er dómsmálaráðherra æðsti yfirmaður lögreglunnar í landinu. Hins vegar er mælt fyrir um að ríkislögreglustjóri fari með málefni lögreglunnar í umboði hans. Í 1. mgr. 5. gr. laganna er almennt hlutverk ríkislögreglustjóra nánar afmarkað. Segir þar meðal annars að það sé hlutverk ríkislögreglustjóra að flytja og kynna lögreglustjórum boð og ákvarðanir æðstu handhafa ríkisvaldsins sem snerta starfsemi lögreglunnar með einum eða öðrum hætti og vinna að og fylgjast með að þeim ákvörðunum verði fylgt í starfsemi lögreglunnar, sbr. a-lið greinarinnar. Þá er það hlutverk hans að gera tillögur til dómsmálaráðherra um almenn fyrirmæli til lögreglustjóra, sbr. c-lið 1. mgr. 5. gr. lögreglulaga.

Við athugun mína á máli þessu hef ég orðið þess var, meðal annars vegna þess viðhorfs sem lýst hefur verið af hálfu fulltrúa lögreglunnar í Reykjavík, að skortur er á almennum verklagsreglum um viðbrögð lögreglumanna þegar ítrekað er kvartað af hálfu íbúa á tilteknu svæði yfir miklum hávaða eða ónæði frá húsnæði í einkaeign. Áður er rakið að úrlausnarefni lögreglunnar getur verið ærið vandasamt í slíkum tilvikum. Sökum þessa tel ég rétt að vekja athygli ríkislögreglustjóra á þeim sjónarmiðum sem ég hef rakið í þessu áliti meðal annars í því skyni að hann getið tekið afstöðu til þess hvort einhverra viðbragða sé þörf með tilliti til ofangreindra fyrirmæla a- og c-liðar 1. mgr. 5. gr. lögreglulaga.

V.

Niðurstaða.

Með vísan til þess sem ég hef rakið hér að framan er það niðurstaða mín að í lögum sé beinlínis gert ráð fyrir því að lögregla skuli bregðast við aðstæðum þar sem ítrekað er kvartað yfir óeðlilegum hávaða og ónæði frá húsnæði í einkaeign. Ég er því ekki sammála þeim sjónarmiðum sem lögreglan í Reykjavík hefur haldið fram í þessu máli að úrræði hennar að lögum til athafna í slíkum tilvikum séu mjög takmörkuð. Ég legg áherslu á að álitaefnið hér snýst ekki um hvort heldur hvaða ráðstafanir lögreglunni er heimilt að gera og undir hvaða kringumstæðum. Hef ég hér að framan leitast við að rekja með almennum hætti hvaða sjónarmið koma til skoðunar við úrlausn á því álitaefni.

Að því er varðar atvik þau sem ég hef haft til hliðsjónar í áliti mínu er það niðurstaða mín að það leiði af þeim lagareglum sem mæla fyrir um hlutverk lögreglunnar og raktar hafa verið hér að framan að henni ber skylda til að kanna, við athugun á málum vegna tíðra tilkynninga og kvartana um hávaða frá tiltekinni starfsemi sem fram fer í húsnæði, meðal annars með formlegum fyrirspurnum til hlutaðeigandi yfirvalda, hvort fyrir liggi tilskilin leyfi til umræddrar starfsemi í húsnæðinu. Leiði sú eftirgrennslan til þess að fram komi upplýsingar um að svo sé ekki getur verið tilefni til þess að af hálfu lögreglunnar sé rannsakað sérstaklega hvort um sé að ræða brot á lögum og reglugerðum á viðkomandi sviði sem meðal annars geta leitt til refsiábyrgðar. Auk þess að fara þá leið að hafa uppi framangreinda eftirgrennslan og rannsókn, ef tilefni er til, leiða sjónarmið um meðalhóf við val lögreglunnar á aðgerðum til þess að rétt geti verið að lögreglan beinlínis upplýsi hlutaðeigandi stjórnvöld þegar henni berast í miklum mæli tilkynningar og kvartanir um hávaða og ónæði eða tiltekna starfsemi í húsnæði.

Það er niðurstaða mín að á grundvelli þeirra upplýsinga sem fyrir liggja um athafnir lögreglunnar á tímabilinu 23. mars 1997 til 9. júlí 1999 vegna tilkynninga, kvartana og kæra vegna hávaða og ónæðis frá starfsemi og athöfnum í X og með tilliti til þess hversu takmarkaðar upplýsingar liggja fyrir um rannsókn málsins, sé ekki unnt að fullyrða að tilefni hafi verið til þess að lögreglan gripi á umræddu tímabili til frekari aðgerða en gert var til að stemma stigu við ónæði vegna hávaða og annars sem leiddi af starfsemi í húsinu. Það er hins vegar niðurstaða mín að lögreglan í Reykjavík hafi ekki sinnt með fullnægjandi hætti lögboðnu hlutverki sínu við framkvæmd takmarkana byggingarnefndar Reykjavíkur frá 9. júlí 1999 og 30. júlí s.á. í tilefni af ítrekuðum tilkynningum vegna hávaða og ónæðis í húsinu að X. Með vísan til þessa beini ég þeim tilmælum til lögreglustjórans í Reykjavík að hann sjái til þess að aðkoma og ráðstafanir lögreglunnar í tilefni af tilkynningum og kvörtunum íbúa í nágrenni við X og í öðrum sambærilegum tilvikum verði framvegis hagað í samræmi við þau sjónarmið sem rakin eru í áliti þessu.

Við athugun mína á máli þessu hef ég orðið þess var, meðal annars vegna þess viðhorfs sem lýst hefur verið af fulltrúum lögreglunnar í Reykjavík, að skortur er á almennum verklagsreglum um viðbrögð lögreglumanna þegar ítrekað er kvartað af hálfu íbúa á tilteknu svæði yfir miklum hávaða eða ónæði frá húsnæði í einkaeign. Áður er rakið að úrlausnarefni lögreglunnar getur verið ærið vandasamt í slíkum tilvikum. Sökum þessa tel ég einnig rétt að vekja athygli ríkislögreglustjóra á þeim sjónarmiðum sem ég hef rakið í þessu áliti meðal annars í því skyni að hann getið tekið afstöðu til þess hvort einhverra viðbragða er þörf með tilliti til ofangreindra fyrirmæla a- og c-liðar 1. mgr. 5. gr. lögreglulaga.

Með tilliti til þess að ég hef í þessu áliti með almennum hætti fjallað um valdheimildir lögreglunnar í þeim tilvikum þegar kvartanir og tilkynningar berast vegna hávaða og ónæðis í og við húsnæði í einkaeign hef ég einnig ákveðið að vekja athygli dóms- og kirkjumálaráðherra, sem æðsta yfirmanns á sviði lögreglumála, sbr. 4. gr. lögreglulaga nr. 90/1996, á þessu áliti.

VI.

Í tilefni af framangreindu áliti mínu bárust mér til kynningar með bréfi dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, dags. 5. febrúar 2002, drög að verklagsreglum ríkislögreglustjóra um viðbrögð lögreglu „þegar mikill hávaði og ónæði hlýst af starfsemi eða athöfn í húsi sem er í einkaeign“. Samkvæmt upplýsingum frá dóms- og kirkjumálaráðuneytinu símleiðis við lokafrágang skýrslu þessarar hafa framangreindar verklagsreglur ekki enn verið gefnar út.

VII.

Með bréfi til dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, dags. 24. mars 2003, óskaði ég eftir upplýsingum um hvort verklagsreglur ríkislögreglustjóra um viðbrögð lögreglu „þegar mikill hávaði og ónæði hlýst af starfsemi eða athöfn í húsi sem er í einkaeign“, hefðu verið gefnar út. Í svari ráðuneytisins, dags. 2. apríl 2003, kemur fram að ríkislögreglustjóri hafi sett slíkar verklagsreglur með umburðarbréfi 26. nóvember 2002 og að þær hafi verið kynntar lögreglustjórum á innra neti lögreglunnar. Þá segir að reglurnar séu að öllu leyti samhljóða þeim drögum sem mér voru kynnt með bréfi ráðuneytisins dags. 5. febrúar 2002.