Skattar og gjöld. Útsvar.

(Mál nr. 11236/2021)

Kvartað var yfir úrskurði yfirskattanefndar sem staðfesti að mestu úrskurð ríkisskattstjóra um endurákvörðun opinberra gjalda.

Umboðsmaður vísaði til að í annarri kvörtun frá viðkomandi hefði hann komist að þeirri niðurstöðu að ekki væri tilefni til að gera athugasemdir við þá afstöðu skattyfirvalda að telja bæri að viðkomandi hefði haft skattalega heimilisfesti hér á landi á tilteknu tímabili. Þar af leiðandi yrði ekki fjallað nánar um þann þátt kvörtunarinnar nú. Hvað annað snerti þá hefði úrskurðum skattyfirvalda um heimilisfesti viðkomandi ekki verið hnekkt og því ekki tilefni til að gera athugasemd við það atriði sem laut að álagningu útsvars. Ekki væri heldur ástæða til að gera athugasemd við niðurstöðu skattyfirvalda að fella ekki niður álag sem lagt var á skattstofna.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 23. september 2021, sem hljóðar svo:

   

  

I

Vísað er til kvörtunar yðar frá 27. júlí sl. sem lýtur að úrskurði yfirskattanefndar nr. 113/2021 frá 23. júní sl. í máli nefndarinnar nr. 198/2020. Með úrskurðinum staðfesti nefndin úrskurð ríkisskattstjóra um endurákvörðun opinberra gjalda yðar gjaldárin 2015, 2016 og 2017, að öðru leyti en því að frádráttur vegna starfstengds kostnaðar gjaldárið 2017 var hækkaður.

Í tilefni af kvörtuninni var yfirskattanefnd ritað bréf, dags. 4. ágúst sl., og þess óskað að nefndin afhenti afrit af öllum gögnum málsins. Þau bárust með bréfi, dags. 17. ágúst sl.

  

II

Að því marki sem kvörtunin snýr að skattalegri heimilisfesti yðar og úrskurði ríkisskattstjóra frá 2. október 2019, sem síðar var staðfestur af yfirskattanefnd með úrskurði nefndarinnar nr. 54/2020 frá 1. apríl 2020 í máli nr. 185/2019, vísast til bréfs sem ég ritaði yður, dags. 15. júní sl., vegna kvörtunar yðar þar að lútandi sem hlaut málsnúmerið 11020/2021 í málaskrá skrifstofu minnar. Þar greindi ég yður frá því að ég teldi ekki tilefni til að gera athugasemdir við þá afstöðu skattyfirvalda að telja bæri yður skattalega heimilisfastan hér á landi á umræddu tímabili. Í ljósi þeirrar niðurstöðu minnar verður ekki fjallað nánar hér um athugasemdir í kvörtun yðar að þessu leyti, hvorki er varðar heimilisfesti yðar né afturvirka skráningu á lögheimili yðar.

   

III

1

Samkvæmt c-lið 1. mgr. 1. gr. laga nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga, með síðari breytingum, eru útsvör á meðal tekjustofna sveitarfélaga. Samkvæmt 19. gr. laganna skulu þeir menn, sem skattskyldir eru samkvæmt ákvæðum I. kafla laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, greiða útsvar af tekjum sínum til sveitarfélags eftir því sem nánar er kveðið á um í lögunum. Í I. kafla laga nr. 90/2003 er mælt fyrir um þá aðila sem eru skattskyldir á Íslandi. Samkvæmt 1. tölul. 1. mgr. 1. gr. laganna skulu þeir menn sem heimilisfastir eru hér á landi greiða tekjuskatt af öllum sínum tekjum.

Af nefndum ákvæðum laga nr. 4/1995 og 90/2003 leiðir því að skylda einstaklings til að greiða útsvar helst í hendur við heimilisfesti viðkomandi. Fyrir liggur að ríkisskattstjóri hefur úrskurðað um heimilisfesti yðar hér á landi á umræddu tímabili og að yfirskattanefnd hefur staðfest þann úrskurð. Að þessu gættu, og þar sem téðum úrskurðum skattyfirvalda um heimilisfesti yðar hefur ekki verið hnekkt, tel ég ekki tilefni til að gera athugasemdir við það atriði í kvörtun yðar sem snýr að álagningu útsvars. Fæ ég ekki séð að ákvæði 1. málsl. 2. mgr. 20. gr. laga nr. 4/1995 breyti þar nokkru enda þar aðeins mælt fyrir um til hvaða sveitarfélags útsvar einstaklings fellur.

  

2

Í kvörtun yðar gerið þér athugasemdir við þá niðurstöðu ríkisskattstjóra, og síðar yfirskattanefndar, að ekki bæri að fella niður, sbr. 3. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003, álag sem ríkisskattstjóri lagði á skattstofna yðar vegna þeirra gjaldára sem úrskurður hans laut að, sbr. 1. og 2. mgr. sama ákvæðis.

Ákvæði 3. mgr. 108. gr. hljóðar svo:

„Fella skal niður álag samkvæmt grein þessari ef skattaðili færir rök að því að honum verði eigi kennt um annmarka á framtali eða vanskil þess, að óviðráðanleg atvik hafi hamlað því að hann skilaði framtali á réttum tíma, bætti úr annmörkum á framtali eða leiðrétti einstaka liði þess.“

Í greinargerð frumvarps þess er varð að lögum nr. 40/1978, um tekjuskatt og eignarskatt, þar sem það ákvæði sem nú er að finna í 108. gr. laga nr. 90/2003, var fært í lög segir m.a.:

„Aðalbreytingin frá gildandi lögum og fyrri gerð frumvarpsins er sú að skylduákvæðum er breytt í heimildarákvæði. Er það gert bæði vegna almennrar þróunar í þá átt Í viðurlagakerfinu. t. d, varðandi upptöku eigna, og eins til þess að bæta réttarstöðu skattaðila lítið eitt. Alagi veður beitt án tillits til sakar og hefur skattaðili sönnunarbyrðina fyrir því, að honum verði ekki um kennt. Þykir því óeðlilegt að heimilt geti verið þrátt fyrir. slíka sönnun að beita álagi. Er því fortakslaust tekið fyrir beitingu álags þegar svo stendur á, sbr. 3. mgr.“ (Sjá þskj. 600 á 99. löggjafarþingi 1977-1988.)

Í ljósi þessa, og eftir að hafa kynnt mér úrskurð yfirskattanefndar og ríkisskattstjóra í málinu og fyrirliggjandi gögn þess, þ.m.t. þau gögn og skýringar sem þér, og umboðsmaður yðar, lögðuð fram við meðferð málsins, tel ég ekki ástæðu til að gera athugasemdir við þá afstöðu skattyfirvalda að yður hafi ekki tekist sönnun um að ástæður þeirra annmarka sem voru á skattskilum yðar á umræddu tímabili mætti rekja til atriða sem yður verði ekki um kennt. Að þessu gættu tel ég ekki ástæðu til að gera athugasemdir við úrskurði skattyfirvalda að þessu leyti.

  

IV

Að öðru leyti tel ég þær athugasemdir sem fram koma í kvörtun yðar ekki þess eðlis að tilefni sé til að taka þær til nánari athugunar.

Með hliðsjón af ofangreindu, og með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, lýk ég hér með umfjöllun minni vegna málsins.