Lögreglu- og sakamál. Frávísun kæru til lögreglu. Rökstuðningur.

(Mál nr. 11241/2021)

Kvartað var yfir afstöðu ríkissaksóknara til kæru, þar sem ákvörðun lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu um að vísa frá kæru á hendur starfsmönnum barnaverndaryfirvalda, var staðfest. Gerðar voru athugasemdir við efnislega afstöðu ríkissaksóknara sem og rökstuðning hans og lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu.

Ef mat lögreglu og ríkissaksóknara, á að ekki sé tilefni til að hefja rannsókn eða halda henni áfram, er ekki bersýnilega óforsvaranlegt að virtum gögnum máls, matið er ekki ómálefnalegt og gætt hefur verið réttra málsmeðferðarreglna, eru að jafnaði ekki forsendur til að umboðsmaður Alþingis aðhafist frekar í tilefni af slíkum kvörtunum. Með hliðsjón af gögnum málsins taldi umboðsmaður ekki tilefni til að gera athugasemdir við afstöðu ríkissaksóknara. Þá sérstaklega með það í huga að niðurstaða hans var einkum byggð á því að saknæmisskilyrði þeirra refsiákvæða sem gátu átt við væri ekki uppfyllt. Þá varð ekki annað ráðið en embættið hefði lagt efnislegt mat á það hvort gögn málsins hefðu gefið tilefni til frekari rannsóknar. 

Hvað rökstuðninginn snerti tók ríkissaksóknari í afstöðu sinni undir röksemdir lögreglustjórans fyrir hinni kærðu ákvörðun. Í ákvörðun lögreglustjóra var að finna tilvísun til þeirra réttarreglna sem ákvörðunin var byggð á sem og þau meginsjónarmið sem ráðandi voru við mat hans um að vísa kærunni frá og þá einkum að ekki væri talið að saknæmisskilyrði væru uppfyllt. Til þeirra var síðan vísað af ríkissaksóknara. Taldi umboðsmaður því ekki ástæðu til að gera athugasemdir við rökstuðning ríkissaksóknara og þá tilhögun sem viðhöfð var.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 24. september 2021, sem hljóðar svo:

  

  

I

Vísað er til kvörtunar yðar f.h. A, dags. 6. ágúst sl., er lýtur að afstöðu ríkissaksóknara frá 15. júní sl. til kæru samkvæmt 6. mgr. 52. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála. Þar var staðfest ákvörðun lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu um að vísa frá kæru A á hendur starfsmönnum barnaverndar­yfir­valda í Reykjavík með vísan til 4. mgr. 52. gr. laga nr. 88/2008. Í kvörtuninni gerið þér athugasemdir við efnislega afstöðu ríkissak­sóknara sem og rökstuðning hans og lögreglustjórans á höfuðborgar­svæðinu. Vísið þér m.a. til þess að ríkissaksóknari hafi synjað yður um frekari rökstuðning og þess í stað vísað til afstöðu sinnar frá 15. júní sl., þar sem fram kom að tekið væri undir röksemdir lögreglu­stjórans á höfuðborgarsvæðinu. Teljið þér rökstuðning ríkissaksóknara vera ófullnægjandi.

  

II

1

Í rökstuðningi lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, dags. 23. mars sl., kemur fram að ákvörðun um að vísa kæru A frá hafi verið byggð á upplýsingum úr kærunni og gögnum sem fylgdu henni sem og á upplýsingum sem aflað hafi verið úr LÖKE-lögreglukerfinu. Í ljósi allra þeirra gagna hafi það verið mat lögreglustjóra að eigi þættu efni til þess að hefja lögreglurannsókn enda ekkert sem benti til þess að kærðu hefðu brotið gegn nánar tilteknum ákvæðum almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Í rökstuðningnum kemur m.a. eftirfarandi fram:

„Við þetta mat var einkum litið til þess ásetnings sem þarf að vera til staðar vegna meintra brota gegn framangreindum ákvæðum hegningarlaga, sbr. 18. gr. þeirra laga. Þannig þarf að sýna fram á að þeir starfsmenn barnaverndar Reykjavíkur, sem sakargiftir beinast að, hafi vísvitandi gefið barnaverndarnefnd ranga yfirlýsingu, sbr. 146. gr. hgl. Það er mat lögreglustjóra að framlögð gögn renni ekki stoðum undir slíkar sakargiftir. Þvert á móti er ýmislegt sem bendir einmitt til þess að upplýsingagjöf kærðu hafi verið á rökum reist. Vísast í þeim efnum til áðurgreindra upplýsinga úr LÖKE sem og [...]. Sama gildir hvað varðar sakargiftir um meint brot starfsmanna barnaverndar Reykja­víkur gegn 147. gr. hgl. sem og öðrum ákvæðum hgl. sem vísað er til hér og þar í kærunni.

Hvað varðar meint brot barnaverndarnefndar Reykjavíkur og starfsmanna barnaverndar Reykjavíkur gegn 130. gr. hgl., sbr. einnig 141. gr. sömu laga, telur lögreglustjóri það sama gilda þar, þar er ekkert í málinu sem rennir stoðum undir þær ásakanir að nefndin, eða starfsmenn barnaverndar, hafi gerst sek um ranglæti við úrlausn máls kæranda eða meðferð þess. Telur lögreglustjóri að það sama eigi við um önnur ákvæði hegningarlaga sem vísað er til í kærunni.“ 

Í afstöðu ríkissaksóknara, dags. 15. júní sl., kemur fram að ríkis­sak­sóknari hafi farið yfir öll gögn málsins. Hann taki undir röksemdir lög­reglustjóra fyrir hinni kærðu ákvörðun og sé sammála þeirri niður­stöðu að ekki séu efni til að hefja lögreglurannsókn. Var ákvörðun lög­reglustjóra því staðfest.

  

2

Samkvæmt 2. mgr. 52. gr. laga nr. 88/2008 skal lögregla hvenær sem þess er þörf hefja rannsókn út af vitneskju eða grun um að refsivert brot hafi verið framið hvort sem henni hefur borist kæra eða ekki. Samkvæmt 4. mgr. 52. gr. sömu laga skal lögregla vísa frá kæru um brot ef ekki þykja efni til að hefja rannsókn út af henni. Sé rannsókn hafin getur lögregla einnig hætt henni ef ekki þykir grundvöllur til að halda henni áfram, svo sem ef í ljós kemur að kæra hefur ekki verið á rökum reist eða brot er smávægilegt og fyrirsjáanlegt er að rannsókn muni hafa í för með sér óeðlilega mikla fyrirhöfn og kostnað.

Það leiðir af framangreindu lagaákvæði að ríkissaksóknari hefur svigrúm við mat á því hvort kæru skuli vísað frá eða rannsókn felld niður. Þegar löggjafinn hefur með skýrum hætti falið stjórnvöldum mat af þessu tagi beinist athugun umboðsmanns Alþingis samkvæmt lögum nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, einkum að því að kanna hvort niður­staða í máli sé reist á málefnalegum sjónarmiðum og mat á gögnum máls sé ekki bersýnilega óforsvaranlegt. Umboðsmaður getur því ekki lagt til grundvallar eigið mat á því hvort efni séu til að hefja eða halda rannsókn sakamáls áfram og þá með það fyrir augum að leggja grundvöll að ákvörðun um saksókn í málinu. Í því sambandi hefur einnig þýðingu að heimildir lögreglu og handhafa ákæruvalds til að taka sakamál til með­ferðar að nýju sæta verulegum takmörkunum vegna hagsmuna sak­bornings. Eru því almennt ekki skilyrði til að umboðsmaður geti beint tilmælum þar að lútandi til stjórnvalda.

Í þessu sambandi hefur umboðsmaður, eins og í öðrum sambærilegum málum, jafnframt litið til þess að almennt er viðurkennt að ríkissaksóknari og aðrir handhafar ákæruvalds hafi ákveðið svigrúm, m.a. að virtu eðli og alvarleika ætlaðs brots og sönnunarstöðu, til að meta hvort fjármunum, mannafla og öðrum takmörkuðum gæðum skuli varið í þágu rannsóknar tiltekins máls. Það er í samræmi við þá reglu í íslensku og norrænu sakamálaréttarfari sem nefnd er „svig­rúms­reglan“. Ef þannig verður talið að að það mat lögreglu og ríkis­sak­sóknara, að ekki sé tilefni til að hefja rannsókn eða halda henni áfram, sé ekki bersýnilega óforsvaranlegt að virtum gögnum málsins, matið sé málefnalegt og gætt hafi verið réttra málsmeðferðarreglna, eru að jafnaði ekki forsendur til að umboðsmaður Alþingis aðhafist frekar í tilefni af slíkum kvörtunum.

Með hliðsjón af því sem að framan hefur verið rakið tel ég ekki efni til að gera athugasemdir við þá afstöðu Ríkissaksóknara að stað­festa ákvörðun lögreglustjóra um frávísun kærunnar. Ég hef þar sér­stak­lega í huga að niðurstaða ríkissaksóknara er einkum byggð á því að saknæmisskilyrði þeirra refsiákvæða sem gátu átt við séu ekki upp­fyllt. Þá verður ekki annað ráðið af afstöðu ríkissaksóknara en að embættið hafi lagt efnislegt mat á það hvort gögn málsins hafi gefið tilefni til frekari rannsóknar.

  

3

Vegna athugasemda yðar um að rökstuðningi ríkissaksóknara sem og lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu hafi verið áfátt tek ég fram að samkvæmt 8. mgr. 52. gr. laga nr. 88/2008 er lögreglu skylt að rök­styðja í stuttu máli ákvarðanir sínar samkvæmt 4. mgr. ef þess er óskað. Við því var orðið með rökstuðningi lögreglustjórans á höfuð­borgar­svæðinu, dags. 23. mars sl.

Ríkissaksóknari hefur stöðu æðsta handhafa ákæruvalds og m.a. það lögbundna hlutverk samkvæmt 6. mgr. 52. gr. laga nr. 88/2008 að taka afstöðu til ákvarðana lögreglu um frávísun kæra. Um form og efni úrskurða í kærumálum er fjallað í 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Um efni rökstuðnings vísar 4. tölul. ákvæðisins til 22. gr. laganna, en þar segir að í rökstuðningi skuli vísa til þeirra réttarreglna sem ákvörðun stjórnvalds er byggð á. Að því marki, sem ákvörðun byggist á mati, skal í rökstuðningnum greina frá þeim meginsjónarmiðum sem ráðandi voru við matið.

Í athugasemdum við 22. gr. í frumvarpi því er varð að stjórn­sýslu­lögum kemur fram að rökstuðningur stjórnvaldsákvarðana eigi að meginstefnu til að vera stuttur, en þó það greinargóður að búast megi við að aðili geti skilið af lestri hans hvers vegna niðurstaða máls hafi orðið sú sem raun varð á. Það fari því ávallt eftir atvikum hverju sinni hversu ítarlegur rökstuðningur þurfi að vera svo að hann uppfylli framangreint skilyrði. Í flestum tilvikum ætti að nægja tiltölulega stuttur rökstuðningur í málum á fyrsta stjórnsýslustigi. Meiri kröfur verði hins vegar að gera til rökstuðnings fyrir úrskurðum í kærumálum. Þá segir að í úrskurðum í kærumálum sé heimilt að vísa til rökstuðnings lægra setts stjórnvalds í málinu þar sem fallist er á hann, svo framarlega sem sá rökstuðningur uppfylli þau skilyrði sem gera ber til úrskurða í kærumálum. (Alþt. 1992-1993, A-deild, bls. 3303.)

Líkt og rakið hefur verið hér að framan tók ríkissaksóknari í afstöðu sinni undir röksemdir lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu fyrir hinni kærðu ákvörðun. Í ákvörðun lögreglustjóra er að finna tilvísun til þeirra réttarreglna sem ákvörðun hans var byggð sem og þau meginsjónarmið sem ráðandi voru við mat hans um að vísa kæru A frá, og þá einkum að ekki væri talið að saknæmisskilyrði væru uppfyllt. Til þeirra var síðan vísað í í málavaxtakafla ákvörðunar ríkissaksóknara. Tel ég því ekki ástæðu til að gera athugasemdir við rökstuðning ríkissaksóknara og þá tilhögun sem viðhöfð var við tilvísun í rökstuðning lögreglustjóra. 

  

III

Með vísan til alls framangreinds lýk ég athugun minni á kvörtun yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.