Lífeyrismál. Jafnræðisreglur.

(Mál nr. 11268/2021)

Kvartað var yfir mismunun sem fælist í að réttindi sjóðsfélaga í Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins væru betri en annarra sjóða.

Ekki varð annað ráðið en kvörtunin lyti almennt að lífeyriskjörum eldri borgara og lífeyrissjóðum landsins. Í reynd væri óskað eftir að umboðsmaður tæki til athugunar að eigin frumkvæði misræmi í kjörum þeirra enda kvörtuninni ekki beint að tilteknum aðila eða aðilum sem falla undir eftirlit umboðsmanns. Var kvörtunin því skráð sem ábending og umfjöllun um hana látið lokið.

    

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 24. september 2021, sem hljóðar svo:

  

Vísað er til erindis yðar, dags. 23. ágúst sl., sem lýtur að lífeyris­réttindum sjóðsfélaga í lífeyrissjóðum og mismunun sem þér teljið felast í því að réttindi sjóðsfélaga Lífeyrissjóða starfsmanna ríkisins séu betri en sjóðsfélaga annarra sjóða. Samkvæmt því sem fram kemur í erindi yðar eigið þér réttindi í Birtu lífeyrissjóði og Söfnunarsjóði líf­eyris­réttinda.

Í tilefni af kvörtun yðar er í upphafi rétt að taka fram, eins og yður mun jafnframt hafa verið leiðbeint um í viðtali á skrifstofu umboðs­manns, að í lögum nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er gengið út frá því að meginviðfangsefni umboðsmanns sé að taka við kvörtunum frá borgurunum og láta þeim í té álit um það hvort stjórnvöld hafi leyst með réttum hætti úr máli þeirra. Samkvæmt 1. og 2. mgr. 3. gr. laganna nær starfssvið umboðsmanns einvörðungu til stjórnsýslu ríkis og sveitar­félaga og til starfsemi þeirra einkaaðila sem hafa að lögum fengið opinbert vald til að taka ákvarðanir um rétt eða skyldu manna í merkingu 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í því sambandi tek ég fram að starfssvið umboðsmanns tekur m.a. ekki til starfa Alþingis, sbr. a-lið 4. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997.

Í 2. mgr. 4. gr. laga nr. 85/1997 er jafnframt tekið fram að hver sá sem telur sig hafa verið beittan rangsleitni af hálfu einhvers aðila sem eftirlit umboðsmanns tekur til geti kvartað af því tilefni til umboðsmanns. Í samræmi við þetta er það almennt skilyrði fyrir því að aðili geti kvartað til umboðsmanns að kvörtunin varði tiltekna ákvörðun, athöfn eða athafnaleysi aðila sem fellur undir eftirlit umboðsmanns er beinist að eða hafi að öðru leyti áhrif á hagsmuni þess sem kvartar umfram aðra. Það er hins vegar ekki hlutverk umboðsmanns að láta fólki í té almennar lögfræðilegar álitsgerðir eða svara almennum spurningum varðandi tiltekin málefni eða réttarsvið.

Ástæða þess að ég nefni framangreint er að af kvörtun yðar verður ekki annað ráðið en að hún lúti almennt að lífeyriskjörum eldri borgara og lífeyrissjóðum landsins og að í reynd séuð þér að óska þess að umboðsmaður taki til athugunar að eigin frumkvæði, sbr. 5. gr. laga nr. 85/1997, misræmi í kjörum þeirra gagnvart sjóðsfélögum enda er henni ekki beint að tilteknum aðila eða aðilum sem falla undir eftirlit umboðsmanns Alþingis. 

Ábendingin sem felst í erindi yðar verður skráð. Í því sambandi tek ég fram að tek ég fram við mat almennum ábendingum sem þessari er meðal annars litið til starfssviðs og áherslna umboðsmanns, hags­muna sem tengjast málefninu sem um ræðir og málastöðu og nýtingar mannafla hjá embættinu. Verklagið er þannig að verði málefnið tekið til athugunar er viðkomandi ekki upplýstur um það sérstaklega heldur er til­kynnt um athugunina á heimasíðu embættisins, www.umbodsmadur.is.

Með vísan til framangreinds lýk ég umfjöllun minni um erindi yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.