Ríkisborgararéttur. Rafræn stjórnsýsla.

(Mál nr. 11297/2021)

Kvartað var yfir því að Útlendingastofnun hefði neitað að afgreiða umsókn um veitingu ríkisborgararéttar sem send var með tölvupósti.

Ekki varð ráðið að stofnunin hefði endanlega hafnað því að taka umsóknina til meðferðar heldur leiðbeint viðkomandi um þær formkröfur sem gerðar væru. Annars vegar að umsóknir þurfi að berast bréflega og hins vegar að vera undirritaðar. Þar sem málinu var ekki lokið hjá stjórnvaldinu var ekki tilefni fyrir umboðsmann til að aðhafast að svo stöddu.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 23. september 2021, sem hljóðar svo:

  

  

Vísað er til kvörtunar yðar frá 10. september sl. yfir því að Útlendingastofnun hafi neitað að afgreiða umsókn yðar, sem send var með tölvupósti, um veitingu íslensks ríkisborgararéttar með lögum, sbr. 6. gr. laga nr. 100/1952, um íslenskan ríkisborgararétt.

Í 2. mgr. 6. gr. laga um íslenskan ríkisborgarétt segir m.a. að áður en umsókn um ríkisborgarétt sé lögð fyrir Alþingi skuli Útlendingastofnun gefa umsögn um umsóknina. Umsóknir um ríkisborgarétt skv. 6. gr. laganna eru því lagðar fram hjá Útlendingastofnun sem síðan sér um að koma þeim á framfæri við Alþingi.

Af samskiptum yðar við Útlendingastofnun verður ekki ráðið að stofnunin hafi endanlega hafnað því að taka umsóknina til meðferðar eða koma henni á framfæri við Alþingi heldur hafi yður, í samræmi við leiðbeiningarskyldu þá sem hvílir á stofnuninni samkvæmt 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, verið leiðbeint um þær formkröfur sem gerðar eru til slíkra umsókna, annars vegar að þær þurfi að berast bréflega og hins vegar að þær þurfi að vera undirritaðar. Ef þér bætið ekki úr þeim annmarka kann hins vegar að koma til þess að umsókn yðar verði vísað frá. 

Í 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997 er gert ráð fyrir að umboðsmaður hafi ekki afskipti af máli fyrr en stjórnvöld, þ.m.t. æðra stjórnvald, hafa lokið umfjöllun sinni um málið. Umboðsmaður grípur þannig almennt ekki inn í yfirstandandi mál á grundvelli kvörtunar. Í ljósi þess að Útlendingastofnun hefur ekki lokið máli yðar tel ég ekki tilefni til þess að aðhafast frekar vegna þess að svo stöddu. Ég tel þó rétt að upplýsa yður um að samkvæmt 1. mgr. 35. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 ákveður stjórnvald hvort það bjóði upp á þann valkost að nota rafræna miðlun upplýsinga við meðferð máls og ákveður þá jafnframt hvaða kröfum gögn, sem það móttekur með rafrænum hætti, þurfa að fullnægjan, sbr. 3. mgr. ákvæðisins. Í íslenskum stjórnsýslurétti hefur jafnframt verið lagt til grundvallar að stjórnvald geti eðli málsins samkvæmt áskilið skýra persónugreiningu þess sem sækir um tiltekin réttindi eða fyrirgreiðslu, s.s. með nafni og undirskrift.

Með vísan til þess sem að framan greinir læt ég athugun minni á málinu lokið, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.