Almannatryggingar. Jafnræðisregla. Starfssvið umboðsmanns Alþingis.

(Mál nr. 11313/2021)

Kvartað var yfir aldursskilyrði launamanna sem teljast tryggðir samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar. Tiltekið ákvæði bryti í bága við jafnræðisreglu  stjórnarskrár.

Þar sem starfssvið umboðsmanns tekur ekki til starfa Alþingis er það almennt ekki á hans verksviði að taka afstöðu til þess hvernig til hefur tekist með löggjöf heldur dómstóla. Lét hann því umfjöllun um málið lokið.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 23. september 2021, sem hljóðar svo:

  

  

Vísað er til kvörtunar yðar, dags. 18. september 2021, þar sem þér kvartið yfir aldursskilyrði launamanna sem teljast tryggðir samkvæmt lögum nr. 54/2006, um atvinnuleysistryggingar, sbr. b-lið 1. mgr. 13. gr. laganna. Í kvörtuninni kemur fram að þér teljið ákvæðið brjóta í bága við jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrár.

Starfssvið umboðsmanns, sbr. a-lið 4. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, tekur ekki til starfa Alþingis. Það er því almennt ekki á verksviði umboðsmanns Alþingis að taka afstöðu til þess hvernig til hefur tekist með löggjöf sem Alþingi hefur sett, þ.m.t. hvort lög séu í andstöðu við stjórnarskrá. Í okkar réttarkerfi er almennt álitið að það sé hlutverk dómstóla að skera úr um slík atriði. Með 11. gr. laga nr. 85/1997 er umboðsmanni þó veitt heimild til að tilkynna Alþingi, hlutaðeigandi ráðherra eða sveitarstjórn ef hann verður var við meinbugi á gildandi lögum eða almennum stjórnvaldsfyrirmælum í störfum sínum. Í lögum er hins vegar ekki gert ráð fyrir því að kvörtun verði borin fram við umboðsmann á þessum grundvelli, þótt vitanlega sé öllum frjálst að koma á framfæri við umboðsmann ábendingum um slík atriði, heldur eru slík mál tekin til athugunar að eigin frumkvæði umboðsmanns á grundvelli 5. gr. laga nr. 85/1997. Verði málefni tekið til athugunar er sá sem hefur komið ábendingu um það á framfæri ekki upplýstur um það sérstaklega heldur er til­kynnt um athugunina á vef embættisins, www.umbodsmadur.is.

Samkvæmt framansögðu lýk ég afskiptum mínum af máli yðar með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997 um umboðsmann Alþingis.