Lögreglu og sakamál. Tafir. Aðgangur að gögnum og upplýsingum. Skýrleikareglan.

(Mál nr. 10947/2021)

Kvartað var yfir lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, héraðssaksóknara, ríkislögreglustjóra og ríkissaksóknara. Laut kvörtunin að heimildarlausri leit lögreglu í herbergi, töfum á meðferð málsins,  starfsháttum lögreglu og ákæruvalds og synjun á beiðni um afhendingu gagna.

Hvað húsleitina snerti þá var meira en ár liðið frá henni þar til kvörtunin barst og því ekki skilyrði að lögum til að umboðsmaður gæti fjallað um hana. Sama gegndi um tafir á meðferð málsins og starfshætti lögreglu og ákæruvalds. Af skýringum ríkissaksóknara varð svo ekki annað ráðið en skýrsla eða tilkynning, á grundvelli reglugerðar um sérstakar aðferðir og aðgerðir lögreglu við rannsókn sakamála, sem óskað var eftir væri ekki til. Með réttu hefðu stjórnvöld því átt að afgreiða beiðnina með vísan til þess. Kom umboðsmaður tilteknum ábendingum á framfæri við embættið vegna þessa sem og varðandi önnur atriði en að öðru leyti var ekki tilefni til annarra aðgerða af hans hálfu vegna kvörtunarinnar.

 

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 30. september 2021, sem hljóðar svo:

   

  

 

I

Vísað er til kvörtunar yðar til umboðsmanns Alþingis f.h. A, sem barst 12. febrúar sl., sem beinist að lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, héraðssaksóknara, ríkislögreglustjóra og ríkis­sak­sóknara. Kvörtun yðar lýtur í fyrsta lagi að heimildarlausri leit lögreglu í herbergi umbjóðanda yðar, í öðru lagi að töfum á meðferð málsins og starfsháttum lögreglu og ákæruvalds og í þriðja lagi að synjun á beiðni um afhendingu gagna um aðgerð lögreglu gagnvart um­bjóðanda yðar.

Í kjölfar kvörtunar yðar var ríkissaksóknara ritað bréf, dags. 19. mars sl., þar sem óskað var eftir gögnum málsins sem og tilteknum upp­lýsingum og skýringum sem bárust með bréfi, dags. 3. maí sl. Athuga­semdir yðar bárust 10. júní sl.

Hinn 26. apríl sl. var undirritaður kjörinn umboðsmaður Alþingis og tók við embætti 1. maí sl. Hefur hann því farið með mál þetta frá þeim tíma.

  

II

1

Í 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er kveðið á um skilyrði þess að kvörtun verði tekin til meðferðar af hálfu umboðsmanns. Í 2. mgr. 6. gr. segir að kvörtun skuli bera fram innan árs frá því er stjórnsýslugerningur sá er um ræðir var til lykta leiddur. Hluti kvörtunar yðar lýtur að húsleit lögreglu sem framkvæmd var 27. júní 2018. Með hliðsjón af því að kvörtunin barst 12. febrúar sl. fæ ég ekki séð að framangreindu skilyrði sé fullnægt. Þegar af þeirri ástæðu eru ekki skilyrði að lögum til þess að ég geti tekið kvörtun yðar að þessu leyti til frekari athugunar.

Hvað þann hluta kvörtunar yðar varðar er lýtur að töfum á meðferð málsins og starfsháttum lögreglu og ákæruvalds skil ég kvörtun yðar að þessu leyti á þann veg að hún beinist að rannsókn og meðferð málsins allt þar til héraðssaksóknari tók ákvörðun 30. janúar 2020 um að fella þann hluta málsins niður er laut að stórfelldu fíkniefnalagabroti samkvæmt 173. gr. a. hgl., sbr. 145. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð saka­mála.

Með hliðsjón af því að þessi hluti kvörtunar yðar lýtur að atvikum er áttu sér stað 30. janúar 2020 eða fyrr eru sömuleiðis ekki skilyrði að lögum til þess að ég geti tekið hann til frekari meðferðar, sbr. 2. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

  

2

Að lokum vík ég að því kvörtunarefni yðar er lýtur að aðgangi að gögnum um aðgerð lögreglu gagnvart umbjóðanda yðar. Af gögnum málsins má ráða að þér beinduð beiðni um aðgang að skýrslu samkvæmt 21. gr. reglugerðar nr. 516/2011, um sérstakar aðferðir og aðgerðir lögreglu við rannsókn saka­mála, sem og öðrum tengdum gögnum, til annars vegar ríkissaksóknara og hins vegar ríkislögreglustjóra. Báðar beiðnirnar voru byggðar á 37. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála, og 15. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og sendar 6. janúar sl.

Ríkissaksóknari svaraði erindi yðar með bréfi, dags. 25. janúar sl., þar sem m.a. kom fram að hann hefði ekki undir höndum þá skýrslu sem óskað væri eftir eða önnur gögn vegna máls nr. [...].

Áður hafði ríkislögreglustjóri með bréfi, dags. 21. sama mánaðar, synjað um afhendingu umbeðinna gagna, m.a. með vísan til þess að ekki væri um að ræða gögn sakamáls og skylda ríkislögreglustjóra til að skrá aðgerðir og skila skýrslu á grundvelli 21. gr. reglugerðar nr. 516/2011 væri tilkomin vegna eftirlits ríkissaksóknara. Yður var leiðbeint um kæru­heimild til ríkissaksóknara sem þér nýttuð 27. sama mánaðar.

Ákvörðun ríkislögreglustjóra var í kjölfarið staðfest af hálfu ríkissaksóknara 5. febrúar sl., m.a. með hliðsjón af rökum ríkis­lög­reglu­stjóra. Til viðbótar var tekið fram að tilkynningar og skýrslur sem berast embættinu á grundvelli reglugerðar nr. 516/2011 kunni að vera undanþegnar upplýsingarétti í skilningi upplýsingalaga nr. 140/2012, sbr. 5. tölul. 6. gr. og 2. málsl. 1. mgr. 8. gr. sem og 3. mgr. 1. gr. fyrirmæla ríkissaksóknara nr. 9/2017, um aðgang að gögnum sakamála sem lokið er.

Í skýringum ríkissaksóknara, dags. 3. maí sl., kemur fram að misskilnings gæti í málinu. Ekki hafi farið fram afhending undir eftir­liti í máli umbjóðanda yðar heldur hafi fíkniefni verið fjarlægð úr pakka/póstsendingu og eftirfarar- og upptökubúnaður settur í staðinn að fengnum úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. [...]. Aðgerðin falli ekki undir reglugerð nr. 516/2011.

Af þessu verður ekki annað ráðið en að skýrsla eða tilkynning á grundvelli reglugerðar nr. 516/2011 er varðar mál umbjóðanda yðar sé ekki til. Með réttu hefðu stjórnvöldin því átt að afgreiða beiðni umbjóðanda yðar með vísan til þess. Ég hef því ákveðið að rita ríkissaksóknara bréf það sem hjálagt er í ljósriti þar sem ég kem tilteknum ábendingum á framfæri við embættið að þessu leyti sem og varðandi önnur atriði.

  

III

Eftir að hafa kynnt mér kvörtun yðar að öðru leyti tel ég ekki tilefni til aðgerða af minni hálfu. Umfjöllun minni um mál umbjóðanda er hér með lokið, sbr. a-lið 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

  


   

Bréf umboðsmanns til ríkissaksóknara, dags. 30. september 2021, hljóðar svo:

   

Eins og fram kemur í bréfi mínu, sem fylgir hjálagt í ljósriti, hef ég ákveðið að ljúka umfjöllun minni um kvörtun B lögmanns f.h. A með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Þrátt fyrir það hefur athugun mín á málinu gefið mér tilefni til að koma eftirfarandi ábendingu á fram­færi við ríkissaksóknara og þá með það fyrir augum að hún verði framvegis höfð í huga við meðferð sambærilegra mála.

Fyrir liggur að hinn 6. janúar sl. óskaði lögmaður A eftir aðgangi að skýrslu samkvæmt 21. gr. reglugerðar nr. 516/2011, um sérstakar aðferðir og aðgerðir lögreglu við rannsókn sakamála, sem og öðrum tengdum gögnum, hjá bæði ríkissaksóknara og ríkislögreglustjóra.

Í bréfi ríkissaksóknara til lögmanns A, dags. 25. janúar sl., var gerð stutt grein fyrir því hvernig eftirliti ríkissaksóknara samkvæmt reglugerð nr. 516/2011 væri háttað. Í niðurlagi bréfsins kom fram að ríkissaksóknari hefði „ekki undir höndum þá skýrslu sem óskað [væri] eftir né önnur gögn“ vegna máls hans. Með bréfi ríkissaksóknara, dags. 5. febrúar sl., var ákvörðun lögreglustjóra frá 21. janúar sl. um að synja beiðninni jafnframt staðfest auk þess sem beiðni um afhendingu á tilkynningu ríkislögreglustjóra til ríkissaksóknara samkvæmt 6. gr. reglugerðar nr. 516/2011 var hafnað.

Í skýringum ríkissaksóknara, dags. 3. maí sl., kemur fram að aðgerð lögreglu í máli A hafi ekki fallið undir reglugerð nr. 516/2011. Þá er þeirri afstöðu lýst að í bréfinu frá 25. janúar sl. hafi verið tekið skýrt fram að skýrsla samkvæmt 21. gr. reglugerðar nr. 516/2011 „væri ekki til“.

Í skýrleikareglu stjórnsýsluréttarins felst að stjórnvalds­ákvörðun á að vera efnislega bæði ákveðin og skýr svo aðili geti skilið ákvörðunina, tekið afstöðu til hennar og metið réttarstöðu sína og hagað ráð­stöfunum sínum á upplýstan hátt í samræmi við hana. Til þess að ákvörðun teljist nægilega ákveðin verður stjórnvald að hafa tekið ótvíræða afstöðu til þess lagalega álitaefnis sem um ræðir, séu fyrir hendi fullnægjandi upplýsingar og önnur skilyrði til að taka ákvörðunina, og í kröfunni um að ákvörðun sé nægilega skýr felst m.a. að orðalag verður að vera nákvæmt og samhengi verður að vera milli efnislegra forsendna og þeirra ályktana sem eru dregnar af þeim. 

Ég get ekki fallist á þá afstöðu ríkissaksóknara að í bréfinu frá 25. janúar sl. hafi verið tekið skýrt fram að skýrsla samkvæmt 21. gr. reglugerðar nr. 516/2011 væri ekki til heldur sagði þar að embættið hefði hana „ekki undir höndum“. Þá var ákvörðun ríkislögreglustjóra um að synja um aðgang að gögnum staðfest og í því samhengi vísað til þeirra ákvæða laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála og upplýsingalaga nr. 140/2012, sem ríkissaksóknari virðist telja að geti almennt leitt til þess að skýrslur af þessu tagi verði ekki afhentar, án þess að tekið væri fram að í þessu tilviki væru umbeðin gögn ekki til. Beiðni um afhendingu tilkynninga samkvæmt reglugerð nr. 516/2011 var hafnað „með sömu rökum“.

Með vísan til framangreinds tel ég að ákvörðun ríkissaksóknara frá 5. febrúar sl. hefði mátt vera í betra samræmi við skýrleikareglu stjórnsýsluréttarins.