Samgöngumál. Ökuréttindi. Samskipti stjórnvalda við einstaklinga sem ekki eru mæltir á íslensku.

(Mál nr. 11070/2021)

Kvartað var yfir úrskurði samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins sem staðfesti ákvörðun sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu um að synja viðkomandi um að fá gefið út íslenskt ökuskírteini í stað ökuskírteinis frá Jersey. Var það byggt á að Jersey væri ekki innan Evrópska efnahagssvæðisins og því bæri að þreyta próf til að fá íslenskt ökuskírteini gefið út. Auk annars gerði viðkomandi einnig athugasemdir við að úrskurður ráðuneytisins hafi verið á íslensku sem hann væri ekki mæltur á. 

Þar sem Jersey er eitt af löndum bresku krúnunnar, með fulla sjálfstjórn og telst ekki hluti af Bretlandi, og er ekki aðildarríki Evrópska efnahagssvæðisins fékk umboðsmaður ekki séð að forsendur væru til að gera athugasemdir við niðurstöðu ráðuneytisins. Hvað tungumál úrskurðarins snerti varð ekki séð af gögnum málsins að viðkomandi hefði komið athugasemdum á framfæri við ráðuneytið eða óskað eftir leiðbeiningum um efni hans á máli sem hann skyldi. Rétt væri að freista þess áður en umboðsmaður tæki þann þátt til frekari skoðunar.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 30. september 2021, sem hljóðar svo:

   

  

I

Vísað er til kvörtunar yðar, dags. 3. maí sl., sem beinist að samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu og lýtur að úrskurði þess frá 30. apríl sl. í máli nr. [...]. Með úrskurðinum var staðfest ákvörðun sýslu­mannsins á höfuðborgarsvæðinu um að synja yður um að fá gefið út íslenskt ökuskírteini í stað ökuskírteinis yðar sem gefið var út á Jersey. Var sú ákvörðun á því reist að ekki væru uppfyllt skilyrði 31. gr. reglugerðar nr. 830/2011, um ökuskírteini, þar sem Jersey væri ekki aðili að Evrópska efnahagssvæðinu og því bæri yður að þreyta próf áður en íslenskt ökuskírteini yrði gefið út. Þá var vísað til þess að Jersey teldist ekki hluti af Bretlandi og því ætti umsókn yðar ekki undir ákvæði til bráðabirgða II í reglugerðinni.

Í kvörtuninni vísið þér einkum til þess að ráðuneytið hafi ekki litið til þess að tiltekin ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins gefi út ökuskírteini í stað ökuskírteinis frá Jersey auk þess sem ekki hafi  verið tekið nægjanlegt tillit til þess sérstaka sambands sem sé á milli Bretlands og Jersey. Í því sambandi nefnið þér að unnt sé að fá gefið út breskt ökuskírteini í stað ökuskírteinis sem gefið sé út á Jersey, án þess að þreyta þurfi sérstakt próf. Að lokum gerið þér athuga­semdir við það að úrskurður ráðuneytisins hafi verið á íslensku í ljósi þess að þér séuð ekki mæltur á því tungumáli.

Gögn málsins bárust mér samkvæmt beiðni þar um með bréfi, dags. 27. maí sl.

  

II

1

Um ökuskírteini og útgáfu þeirra gilda umferðarlög nr. 77/2019. Samkvæmt 1. mgr. 58. gr. laganna má enginn stjórna bifreið eða bifhjóli nema hann hafi til þess gilt ökuskírteini sem ríkislögreglustjóri gefur út. Þá getur ríkislögreglustjóri falið sýslumönnum að annast útgáfu ökuskírteinis.

Um erlend ökuskírteini er fjallað í 62. gr. laganna en þar segir í 1. mgr. að ráðherra setji reglur um þau skilyrði sem þeir sem dveljast hér á landi og hafa eigi íslenskt ökuskírteini þurfi að full­nægja til að mega stjórna vélknúnu ökutæki, þ.m.t. hvaða skilyrði handhafi erlends ökuskírteinis þurfi að uppfylla til að fá íslenskt öku­skírteini. Þá segir í 2. mgr. 62. gr. að ráðherra geti ákveðið að öku­skírteini útgefið í öðru ríki sem sé aðili að samningnum um Evrópska efna­hagssvæðið gildi einnig eftir að handhafi þess hafi sest að hér á landi, samkvæmt nánari reglum. Með sama hætti geti ráðherra ákveðið að ökuskírteini útgefið í öðru ríki gildi hér á landi, enda séu íslensk ökuskírteini jafnframt tekin gild í því ríki.

Nánar er fjallað um erlend ökuskírteini í VII. kafla reglugerðar nr. 830/2011, um ökuskírteini, með síðari breytingum. Í 8. mgr. 31. gr. reglugerðarinnar er mælt fyrir um að þegar íslenskt ökuskírteini sé gefið út í stað erlends ökuskírteinis, sem gefið sé út í ríki sem ekki er aðili að Evrópska efnahagssvæðinu, þurfi umsækjandi að þreyta bók­legt próf fyrir B-flokk og jafnframt verklegt próf fyrir hvern öku­réttindaflokk sem umsóknin varði. Þar segir jafnframt að óski ríki eftir heimild til þess að gefa megi út ökuskírteini án prófs skuli Samgöngustofa meta hvort skilyrði séu til þess. Við matið þurfi að liggja fyrir nauðsynleg gögn frá stjórnvaldi viðkomandi ríkis varðandi kröfur til ökunáms og ökuprófs. Miða skal við að kröfur til útgáfu ökuskírteinis í hlutaðeigandi ríki séu ekki vægari en kröfur hér á landi og að umferðaraðstæður í ríkinu réttlæti að öðru leyti slíka ákvörðun. Ef skilyrðin eru uppfyllt skal heiti viðkomandi ríkis og dagsetningin, þá er mat Samgöngustofu lá fyrir, koma fram í töflu í reglu­gerðinni því til staðfestingar. Samkvæmt umræddri töflu hefur einungis Japan fengið slíka heimild.

Í ákvæði til bráðabirgða II í reglugerð nr. 830/2011, sem var í gildi er sýslumaður tók ákvörðun í málinu, kom fram að ákvæði VII. kafla reglugerðarinnar er fjölluðu um ökuskírteini sem gefin væru út í aðildarríkjum Evrópska efnahagssvæðisins giltu einnig um öku­skír­teini sem gefin væru út í Bretlandi. Það ákvæði var fellt úr gildi 15. janúar sl. með breytingarreglugerð nr. 235/2021. Er nú mælt svo fyrir um í ákvæði til bráðabirgða II að þrátt fyrir ákvæði 7.-9 mgr. 31. gr. sé heimilt að gefa út íslenskt ökuskírteini í stað ökuskírteinis sem gefið sé út í Bretlandi, án þess að umsækjandi þreyti próf.

Af 8. mgr. 31. gr. reglugerðar nr. 830/2011 er ljóst að það er  skilyrði þess að íslenskt ökuskírteini sé gefið út í stað erlends öku­skírteinis, án þess að umsækjanda sé gert að þreyta próf, að hið erlenda ríki sé annaðhvort aðildarríki Evrópska efnahagssvæðisins eða þá að Samgöngustofa hafi veitt viðkomandi ríki til þess sérstaka heimild. Einungis er mælt fyrir um undanþágu frá þeim skilyrðum í þeim til­vikum sem hið erlenda ökuskírteini er gefið út í Bretlandi, sbr. ákvæði til bráðabirgða II í reglugerð nr. 830/2011.

Eyjan Jersey er eitt af löndum bresku krúnunnar, með fulla  sjálfsstjórn, og telst ekki hluti af Bretlandi. Þá er eyjan ekki aðildarríki Evrópska efnahagssvæðisins.  Ég fæ því ekki séð að umsókn yðar um að fá útgefið íslenskt ökuskírteini án þess að þurfa að þreyta sérstakt próf hafi uppfyllt skilyrði 31. gr. reglugerðar nr. 830/2011 eða ákvæðis til bráðabirgða II. Í ljósi þess tel ég mig ekki hafa forsendur til að gera athugasemdir við niðurstöðu ráðuneytisins.

  

2

Líkt og að ofan greinir gerið þér athugasemdir við að úrskurður ráðuneytisins hafi verið á íslensku í ljósi þess að þér séuð ekki mæltur á íslenska tungu. Af því tilefni bendi ég yður á að umboðsmaður Alþingis hefur nýlega fjallað um stöðu einstaklinga sem ekki eru mæltir á íslensku í samskiptum þeirra við stjórnvöld í áliti frá 13. júlí 2020 í máli nr. 9938/2018. Þar beindi umboðsmaður m.a. þeim ábendingum og tilmælum til stjórnvalda að gera þyrfti þeim aðilum sem ættu í hlut kleift að skilja úrlausnir stjórnvalda, t.d. með því að láta þýða úr­lausn í heild eða að hluta, láta útdrátt fylgja á tungumáli sem aðilinn skildi samhliða ákvörðun á íslensku og gæta að því að kæru­leið­beiningar væru á tungumáli sem viðkomandi skildi og/eða kynna niðurstöðuna að viðstöddum túlki. Þannig þyrfti birting úrlausna að taka mið af því hverju sinni að aðili gæti skilið niðurstöðuna og í framhaldi gætt hagsmuna sinna.

Þá samþykkti Alþingi þingsályktunartillögu 12. júní sl. þar sem forsætisráðherra var falið að innleiða samræmda framkvæmd stjórnvalda um notkun tungumála í samskiptum þeirra við borgara sem ekki tala eða skilja íslensku þannig að meðferð mála þeirra samrýmist skráðum sem óskráðum reglum stjórnsýsluréttar. Stendur sú vinna nú yfir.  

Af gögnum málsins fæ ég ekki ráðið að þér hafið komið athugasemdum yðar á framfæri við ráðuneytið eða óskað eftir leið­beiningum um efni úrskurðarins á máli sem þér skiljið. Með hliðsjón af þeim sjónarmiðum sem fram koma í áliti nr. 9938/2018 tel ég rétt að þér freistið þess, séu atriði í úrskurðinum sem þér hafið ekki skilið, að óska eftir slíkum leiðbeiningum frá ráðuneytinu sem þannig fær færi á að taka afstöðu til þess, áður en ég tek þennan þátt kvörtunar yðar til frekari skoðunar. Teljið þér yður beittan rangsleitni að fenginni afstöðu ráðuneytisins getið þér leitað til mín á ný með kvörtun þar að lútandi.

  

III

Með vísan til þess sem að framan er rakið lýk ég umfjöllun minni um mál yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.