Skattar og gjöld. Álagning stöðubrotsgjalds. Málefni fatlaðs fólks. Leiðbeiningarskylda.

(Mál nr. 11159/2021)

Kvartað var yfir innheimtu Bílastæðasjóðs vegna álagningar stöðubrotagjalda sumarið 2020 og henni mótmælt á grundvelli að viðkomandi væri með stæðiskort fyrir hreyfihamlaða.

Í ljósi þess að afrit en ekki frumrit af stæðiskortinu var í bifreiðinni sem stöðubrotsgjaldið var lagt á, var ekki ástæða til að umboðsmaður gerði athugasemd við gjaldheimtu Bílastæðasjóðs. Þá ekki heldur hvað snerti gjaldtöku þegar bifreið var lagt á gangstétt. Með hliðsjón af gögnum málsins ákvað umboðsmaður að árétta tilteknar almennar ábendingar um leiðbeiningarskyldu stjórnvalda við Bílastæðasjóð.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 30. september 2021, sem hljóðar svo:

  

  

Vísað er til kvörtunar yðar, dags. 4. júní sl., yfir innheimtu Bílastæða­sjóðs vegna álagningar stöðubrotagjalda í fyrrasumar.

Samkvæmt því sem fram kemur í kvörtun yðar hafið þér mótmælt um­ræddri álagningu á þeim grundvelli að þér séuð með P-merki, þ.e. stæðiskort fyrir hreyfihamlaða, í bifreið yðar en sjóðurinn hafi ekki fallist á þær röksemdir yðar og því hafi yður verið send innheimtubréf frá Lögheimtunni.

Í tilefni af kvörtun yðar var Bílastæðasjóði ritað bréf, dags. 21. júní sl., sem þér fenguð afrit af, þar sem óskað var eftir upplýsingum um þau gjöld sem hafa verið lögð á yður innan síðasta árs frá því að kvörtunin barst og afriti af gögnum þeirra mála. Svör bárust 2. júlí sl. 

Af gögnum málsins og meðfylgjandi skýringum Bílastæðasjóðs til mín má ráða að þér séuð handhafi P-merkis. Merkið sjálft sé í bifreið yðar með númerinu [X] en afrit af kortinu sé hins vegar í bifreið með númerinu [Y]. Ekki hafi verið litið svo á að afrit af P-merki veitti yður heimild til að leggja í gjaldskyld bílastæði án greiðslu og því hafi verið lagt á yður aukastöðugjald fyrir að leggja í gjaldskyld stæði án greiðslu.

Í tilefni af framangreindu er rétt að taka fram að fjallað er um stæðis­kort fyrir hreyfihamlaða (P-merki) í 87. gr. umferðarlaga nr. 77/2019. Í 3. mgr. 87. gr. laganna er kveðið á um að stæðiskorti skuli vera komið fyrir innan framrúðu þegar ökutæki er lagt í bifreiðastæði þannig að framhlið þess sé vel sýnileg að utan. Í 2. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 1130/2016, um útgáfu og notkun stæðiskorts fyrir hreyfi­hamlaða, sem sett var á grundvelli eldri umferðarlaga nr. 50/1987,  er framangreind regla um að P-merki skuli vera innan framrúðu þannig að framhlið sjáist vel áréttuð. Í viðauka við umrædda reglugerð er kveðið á um hvernig P-merki skuli vera að gerð og stærð. Þar er bæði fjallað um útlit framhliðar kortsins sem og bakhliðar þess. Þar segir að á bakhlið skuli m.a. vera ljósmynd af korthafa, eiginnafn og kennitala.

Af öllu framangreindu má ráða að þegar bifreið er lagt í gjaldskyld stæði skuli frumrit, ekki ljósrit, af kortinu vera sýnilegt. Má draga þá ályktun af ofangreindum lagagrundvelli að framangreind krafa hafi þann tilgang að tryggja að aðeins sá sem fær kortið útgefið, þ.e. handhafi þess, nýti kortið til að leggja bifreið gjaldfrjálst í stæði enda er stæðiskort opinber staðfesting á því að handhafi þess fullnægi þeim almennu læknis­fræðilegu viðmiðum sem þar til bær stjórnvöld hafa talið rétt að leggja til grundvallar við mat á því hvort viðkomandi sé nauðsyn á undanþágum frá reglum umferðarlaga um stöðvun og lagningu ökutækja vegna hreyfi­hömlunar. Handhöfn þess er þannig forsenda þess að þér getið nýtt yður þær ívilnanir eða heimildir sem ráðherra er heimilt að veita hreyfi­hömluðum einstaklingi og felast í reglugerð nr. 1130/2016. Með hliðsjón af framangreindu eru ekki tilefni til af minni hálfu til að gera athugasemd við umrædda gjaldinnheimtu Bílastæðasjóðs.

Hvað varðar athugasemdir yðar um gjaldtöku þegar bifreið yðar með bílnúmerinu [X] var sektuð fyrir að leggja á gangstétt, sem samkvæmt kvörtuninni var hluti af einkalóð, er rétt að árétta það sem fram kom í bréfi Bílastæðasjóðs til yðar, dags. 18. maí sl., um að óheimilt sé að leggja bifreið á gangstétt. Í 3. mgr. 28. gr. umferðarlaga kemur fram að eigi megi stöðva vélknúið ökutæki eða leggja því á stöðu sem ekki eru ætlaðir fyrir umferð, s.s. á gangstéttum. Heimilt er að leggja gjald með vísan til a-liðar 1. mgr. 109. gr. laganna. Af þeim sökum eru ekki tilefni til af minni hálfu til að gera athugasemdir við gjaldtöku Bílastæðasjóðs í umræddu tilviki.

Ég hef þó, með hliðsjón af gögnum málsins, ákveðið að árétta til­teknar almennar ábendingar varðandi leiðbeiningarskyldu stjórnvalda með bréfi til Bílastæðasjóðs. Ég tek þó fram að þær ábendingar eru ekki þess eðlis að þær geti breytt niðurstöðu minni í máli yðar sem lýst er hér að ofan. Bréfið fylgir hjálagt í ljósriti.      

Með hliðsjón af framangreindu lýk ég athugun minni á málinu með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

 


   

Bréf umboðsmanns til Bílastæðasjóðs, dagsett 30. september 2021, hljóðar svo:

    

Það tilkynnist að ég hef ákveðið að ljúka athugun minni á kvörtun A með bréfi því sem fylgir hjálagt í ljósriti, sbr. a-lið 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Þrátt fyrir það hefur athugun mín á þessu máli orðið mér tilefni til að koma eftirfarandi ábendingum á framfæri og þá með það í huga að umrædd atriði verði framvegis höfð í huga við meðferð hliðstæðra mála hjá Bíla­stæða­sjóði.

Af gögnum málsins og skýringum Bílastæðasjóðs til mín má ráða að á bifreið A, [Y], hafi verið lögð 11 aukastöðugjöld vegna þess að hann var eingöngu með afrit af stæðiskorti fyrir hreyfihamlaða innan framrúðu á bifreiðinni en ekki kortið sjálft. A hefur í nokkrum tilvikum andmælt álagningunni en því hefur yfirleitt verið hafnað með vísan til þess að þau sé komin fram utan 28 daga frests sem mælt er fyrir um í gjaldskrá vegna stöðvunarbrota í Reykjavík, sbr. augl. nr. 1036/2020. Þá hefur hann sent Bílastæðasjóði erindi með tölvupósti vegna álagningarinnar. Hinn 25. ágúst 2020 andmælti hann álagningu innan framangreinds frests og óskaði eftir því að kröfur vegna álagningar gjalda á bifreiðina [Y] yrðu felldar niður þar sem hann væri handhafi stæðis­korts fyrir hreyfihamlaða. Hann tók sérstaklega fram að kannski hefði hann misskilið eitthvað.

Af gögnum málsins verður ráðið að starfsmenn Bílastæðasjóðs hafi leitað til sýslumanns til að fá það staðfest hvort A væri handhafi stæðiskorts og fengust þær upplýsingar frá sýslumanni að svo væri og að kortið gilti til 9. maí 2024. Í bréfi sjóðsins til A í kjölfar framangreinds, dags. 2. september 2020, kemur fram að athugun hafi leitt í ljós að hann hefði ekki greitt fyrir gjaldskyld stæði. Síðan segir: „P-korti sem framvísað var er ekki tekið gilt“. Ekki er nánar útskýrt í framan­greindu bréfi hverju það sætti.

Í ljósi framangreinds svars sjóðsins og með hliðsjón af því að samskipti A við sjóðinn og andmæli við álagningu gjaldanna bera það með sér að hann virðist ekki átta sig á því að honum sé óheimilt að taka afrit af stæðiskorti sínu er rétt að geta þess að það er talin óskráð grundvallarregla í stjórnsýslurétti að ákvörðun verði efnislega að vera bæði ákveðin og skýr svo að málsaðili geti skilið hana rétt og metið réttarstöðu sína í kjölfarið. Í ofangreindu bréfi sjóðsins er ekki sérstök umfjöllun um ástæður þess að stæðiskortið var ekki talið veita honum heimild til að leggja í gjaldskylt stæði án greiðslu. Þá bera gögn málsins ekki með sér að Bílastæðasjóður hafi leiðbeint A sérstaklega um að honum beri að hafa frumrit kortsins í bifreið sinni, sbr. 7. gr. stjórn­sýslulaga nr. 37/1993. Í reglunni felst að stjórn­völdum er skylt að veita þeim sem til þeirra leita nauðsynlega aðstoð og leiðbeiningar varðandi málefni sem falla undir starfssvið við­komandi stjórnvalds. Það ræðst af atvikum máls hverju sinni í hvaða tilvikum og þá hversu ítarlega stjórnvaldi er skylt að leiðbeina aðila, annaðhvort í tilefni af fyrirspurn frá honum eða að eigin frumkvæði. Við mat á því skipta m.a. máli möguleikar stjórnvalds til að veita leið­beiningar með tilliti til málafjölda og annarra aðstæðna og þörf aðila fyrir leið­beiningar og hagsmunir hans af því. Ef stjórnvald verður þess áskynja að aðili máls sé í villu eða geri sér ekki grein fyrir mikil­vægum atriðum sem varða hagsmuni hans getur hvílt á því skylda til að vekja athygli aðila á þeim atriðum sjá hér til hliðsjónar álit umboðsmanns Alþingis frá 3. desember 2014 í máli nr. 7775/2013.

Með hliðsjón af framangreindu tel ég rétt að koma þeirri ábendingu á framfæri við Bílastæðasjóð að jafnan sé gætt að ofangreindum sjónar­miðum um skýrleika ákvarðana og leiðbeiningarskyldu stjórnvalda við með­ferð hliðstæðra mála hjá sjóðnum héðan í frá. 

Afrit af bréfi þessu er sent borgarlögmanni f.h. yfirstjórnar Reykjavíkurborgar til upplýsingar.