Tafir hjá stjórnvaldi á afgreiðslu máls. Börn. Foreldrar. Forsjá. COVID-19. Málshraði.

(Mál nr. 11251/2021 og 11273/2021)

Kvartað var yfir dómsmálaráðuneytinu. Fyrri kvörtun laut að töfum á meðferð þess á stjórnsýslukæru er laut að frávísun sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu á beiðni um að fara með barn erlendis. Í síðari kvörtun var upplýst að ráðuneytið hefði úrskurðað í málinu og fellt ákvörðun sýslumannsins úr gildi en hafnað beiðni um að fara með barnið erlendis.

Umboðsmaður taldi ekki forsendur til að fullyrða að ómálefnaleg sjónarmið hefðu verið lögð til grundvallar  niðurstöðu ráðuneytisins. Ekki yrði annað ráðið en litið hefði verið til hagsmuna barnsins m.t.t. þeirra stöðu sem nú ríkti vegna COVID-19 og þeirrar áhættu sem kynni að felast í ferðlögum milli landa. Hvað snerti málshraðann hjá ráðuneytinu taldi umboðsmaður ekki hægt að fullyrða að óréttlættur eða óhóflegur dráttur hefði orðið á afgreiðslu málsins. Aftur á móti hefði athugunin orðið tilefni til að koma ábendingu á framfæri við ráðuneytið.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 30. september 2021, sem hljóðar svo:

  

  

I

Vísað er til tveggja kvartana yðar til mín, dags. 17. og 25. ágúst sl. sem beinast að dómsmálaráðuneytinu og fengu málsnúmerin 11251/2021 og 11273/2021 í málaskrá skrifstofu minnar. Í ljósi skyldleika þeirra hef ég ákveðið að fjalla um bæði málin í einu bréfi.

Fyrri kvörtun yðar laut að töfum á meðferð ráðuneytisins á stjórnsýslukæru yðar er laut að frávísun sýslumannsins á höfuð­borgar­svæðinu á beiðni yðar um að fara með dóttur yðar til Grænlands á tímabilinu 20. til 23. ágúst sl. Með síðari kvörtun yðar upplýstuð þér um að dómsmálaráðuneytið hefði úrskurðað í málinu og fellt ákvörðun sýslumanns um frávísun málsins úr gildi en hafnað beiðni yðar um að fara með dóttur yðar erlendis og lýtur kvörtunin að þeirri niðurstöðu. Í kvörtuninni gerið þér einkum athugasemdir við það að beiðni yðar hafi verið hafnað þótt Grænland sé ekki skilgreint sem áhættusvæði vegna heimsfaraldurs COVID-19. 

  

II

1

Í 2. mgr. 1. gr. barnalaga nr. 76/2003 er áréttuð sú meginregla barnaréttar að það sem barni er fyrir bestu skal ávallt hafa forgang þegar teknar eru ákvarðanir um málefni þess. Í 3. mgr. 28. gr. a.  laganna er mælt fyrir um að fari foreldrar sameiginlega með forsjá barns sé öðru foreldrinu óheimilt að fara með barnið úr landi án samþykkis hins. Ef foreldra sem fara sameiginlega með forsjá barns greinir á um utanlandsferð barns úrskurðar sýslumaður, að kröfu for­eldris, um rétt til að fara í ferðalag með barn úr landi, sbr. 1. mgr. 51. gr. a. laga nr. 76/2003. Samkvæmt 2. mgr. sömu lagagreinar skal við úrlausn máls skv. 1. mgr. m.a. líta til tilgangs ferðar, tíma­lengdar og áhrifa á umgengni.

Með 51. gr. a. hefur löggjafinn falið sýslumönnun, og eftir atvikum dómsmálaráðherra við meðferð máls á kærustigi, að leggja mat á kröfu forsjárforeldris um rétt þess til að fara í ferðalag með barn úr landi, m.a. með hliðsjón af þeim sjónarmiðum sem rakin eru í ákvæðinu og þá með hagsmuni barnsins að leiðarljósi. Um er að ræða mats­kennda stjórnvaldsákvörðun en við töku slíkra ákvarðana verður að játa stjórnvöldum visst svigrúm til mats. Þær ákvarðanir verða þó að uppfylla þær kröfur sem leiða af þeim sérlögum sem gilda um viðkomandi málaflokk og almennum reglum stjórnsýsluréttarins, svo sem réttmætis­reglunni, en í samræmi við hana verður ákvörðun að byggjast á mál­efna­legum sjónarmiðum.

Í úrskurði ráðuneytisins er tekið fram að sýslumaður hafi ekki haft heimild til að vísa kröfu yðar frá án efnismeðferðar. Hins vegar var það mat ráðuneytisins að þrátt fyrir orðalag hinnar kærðu ákvörðunar hefði sýslumaður í raun tekið málið til efnismeðferðar og því væri unnt að úrskurða um málið og bæta úr annmörkum á málsmeðferð hans við efnislega meðferð hjá ráðuneytinu.

Í úrskurðinum kemur fram að móðir hafi verið mótfallin hinni fyrirhuguðu ferð og hún hafi við úrlausn eldra máls tjáð sig á þann veg að hún muni hafna öllum ferðabeiðnum með barnið á meðan heims­faraldrinum sé ekki lokið enda ættu að hennar mati allar óþarfa utan­landsferðir að bíða betri og öruggari tíma. Í forsendum úrskurðarins segir svo eftirfarandi:

„Eins og fram kemur í hinni kærðu ákvörðun þá liggur fyrir að jafn­vel þótt staðan í heiminum fari batnandi vegna aukinna bólu­setninga vegna COVID-19 þá er enn óvissa um framvindu faraldursins víða í heiminum m.a. vegna tilkomu nýrra afbrigða af veirunni. Telur ráðuneytið því óvarlegt að fullyrða nokkuð um það hver framvindan verður næstu mánuði þótt margt bendi til þess að ástandið fari batnandi. Þá liggur fyrir að sóttvarnalæknir hefur ítrekað ráðið fólki frá ferðalögum milli landa og hefur sú staða ekki breyst. Sóttvarnayfirvöld hafa varað við því að óbólusett börn ferðist til útlanda og hefur ekki verið gerður greinarmunur á því hvort um sé að ræða ferðalög til landa þar sem lítið sé um smit eða dreifing þess sé víðtæk. Þá hefur ítrekað verið bent á aukna hættu á smiti vegna slíkra ferðalaga og jafnframt að börn geti smitast ekki síður en fullorðnir. Ferðalög fólks milli landa eru sums staðar enn háð takmörkunum og þurfa ferðamenn að lúta reglum um sóttkví og COVID-próf vegna ferðalaga milli landa með tilheyrandi óþægindum. Þá liggur fyrir að það afbrigði veirunnar sem nú geisar er afar smitandi og getur lagst þungt á börn ekki síður en fullorðna.“ 

Eftir að hafa kynnt mér úrskurð ráðuneytisins tel ég mig ekki hafa forsendur til þess að fullyrða að ómálefnaleg sjónarmið hafi verið lögð til grundvallar niðurstöðu þess. Hef ég þar einkum í huga að ekki verður annað ráðið af úrskurðinum en að litið hafi verið til hagsmuna barnsins með tilliti til þeirrar stöðu sem nú ríkir vegna heims­faraldurs COVID-19 og þeirrar áhættu sem kunni að felast í ferðalögum milli landa. Að því virtu tel ég mig ekki hafa forsendur til þess að gera athugasemdir við niðurstöðu ráðuneytisins.

  

2

Líkt og að ofan greinir gerið þér athugasemdir við málshraða ráðu­neytisins og þá í ljósi þess að úrskurður ráðuneytisins var sendur yður með tölvupósti 20. ágúst sl. kl. 16:22, sem jafnframt hafi verið hinn fyrirhugaði brottfarardagur.

Samkvæmt 1. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skulu ákvarðanir í málum teknar svo fljótt sem unnt er. Í ákvæðinu felst m.a. sá áskilnaður að ekki megi vera um óréttlættan og óhóflegan drátt á afgreiðslu máls að ræða. Við mat á því hvort fyrirmælum ákvæðisins hafi verið fylgt ber m.a. að líta til umfangs máls, atvika þess og mikilvægi ákvörðunar fyrir aðila máls.

Samkvæmt úrskurðinum barst ráðuneytinu kæra yðar 20. júlí sl. og var úrskurður í málinu því kveðinn upp um mánuði síðar. Að virtum þeim  tíma sem leið þar til úrskurður ráðuneytisins var kveðinn upp eru aðstæður að mínu mati ekki með þeim hætti að ég geti fullyrt að um óréttlættan eða óhóflegan drátt á afgreiðslu máls yðar hafi verið að ræða. Hins vegar hefur athugun mín á málinu orðið mér tilefni til að rita hjálagt bréf til dómsmálaráðuneytisins þar sem ég kem á framfæri tiltekinni ábendingu vegna athugunar minnar á málinu.

  

III

Með vísan til þess sem að framan hefur verið rakið lýk ég athugun minni á kvörtun yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

  

 


  

Bréf umboðsmanns til dómsmálaráðherra, dags. 30. september 2021, hljóðar svo:

  

Ég hef með hjálögðu bréfi lokið athugun minni á kvörtunum A sem beindust að dómsmálaráðuneytinu og lutu að úrskurði ráðuneytisins frá 20. ágúst sl. í máli nr. [...]. Með úrskurði ráðuneytisins var beiðni A um að fara með dóttur hans til Græn­lands á tímabilinu 20. til 23. ágúst sl. hafnað. Kvörtun A laut m.a. að málshraða ráðuneytisins með vísan til þess að úrskurður í málinu hafi ekki verið kveðinn upp fyrr en 20. ágúst sl., sem hafi verið fyrirhugaður brottfarardagur. Í því sambandi tók hann fram að honum hefði borist afrit af úrskurðinum með tölvupósti sama dag kl. 16.22. Þannig hefðu hinar fyrirhuguðu ferðaáætlanir ekki getað gengið eftir ef fallist hefði verið á beiðni hans.

Líkt og fram kemur í bréfi mínu til A tel ég mig ekki hafa forsendur til að fullyrða að um óréttlættan eða óhóflegan drátt á afgreiðslu málsins hafi verið að ræða. Ég tel þó ástæðu til að árétta mikilvægi þess að í málum sem þessum sé afgreiðslu þeirra hraðað eftir því sem kostur er með tilliti til þeirra hagsmuna sem þar eru undir og þá með það að miði að þeir verði ekki liðnir undir lok þegar mál eru til lykta leidd.

Í samræmi við framangreint kem ég þeirri ábendingu á framfæri að þessi sjónarmið verði höfð í huga við meðferð hliðstæðra mála hjá ráðuneytinu í framtíðinni.