Menntamál. Brottvísun nemanda úr skóla. Stjórnunarheimildir skólastjóra. Stjórnvaldsákvörðun.

(Mál nr. 2916/2000)

A og B kvörtuðu yfir því að C, syni þeirra, hefði verið vikið úr X grunnskóla, úr tímum bekkjarkennara og öðrum tímum þar til fram kæmi afsökunarbeiðni frá honum vegna atviks sem átt hefði sér stað utan skóla. Menntamálaráðuneytið hafði vísað málinu frá á þeim grundvelli að viðbrögð skólans teldust ekki stjórnsýsluákvörðun í skilningi stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Í bréfi, dags. 21. febrúar 2001, greindi umboðsmaður A og B frá því að við úrlausn málsins af hans hálfu skipti það fyrst og fremst máli hvort atvik málsins hefðu verið með þeim hætti að í athöfnum skólastjóra í málinu hefði falist ákvörðun um að vísa C úr skólanum, ef hann bæðist ekki afsökunar vegna tiltekinna samskipta hans við þáverandi bekkjarkennara hans, eða hvort skólastjóri hefði sem forstöðumaður skólans verið að leiða til lykta ágreining kennara og nemanda með það leiðarljósi að viðhalda eðlilegu skólastarfi.

Umboðsmaður rakti ákvæði 14. gr. grunnskólalaga nr. 66/1995 um stjórnunarheimildir skólastjóra og 41. gr. sömu laga sem hefur að geyma sérstakar reglur um skyldur nemenda og um úrræði skólayfirvalda ef hegðun nemanda reynist áfátt. Þá vék umboðsmaður að áliti umboðsmanns Alþingis í málinu nr. 761/1993 frá 24. febrúar 1994 þar sem fjallað er um brottvikningu nemanda úr skóla og sérstaklega vikið að mismunandi úrræðum skólastjóra og að hvaða marki stjórnsýslulög giltu um slíkar ákvarðanir.

Í bréfi sínu greindi umboðsmaður A og B frá því að hann fengi ekki séð að af hálfu skólastjóra hafi legið fyrir ákvörðun samkvæmt 41. gr. grunnskólalaga um að vísa syni þeirra úr skóla um stundarsakir. Taldi hann stjórnunarheimild skólastjóra samkvæmt 14. gr. grunnskólalaga ná til ráðstafana sem gripið væri til í því skyni að viðhalda eðlilegu skólastarfi og forða því að röskun yrði á kennslu nemanda. Taldi hann aðgerðir skólastjórans í málinu á þessum grundvelli eðlilegar og í samræmi við meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Með vísan til a-liðar 1.mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, taldi umboðsmaður því hvorki tilefni til athugasemda við niðurstöðu menntamálaráðuneytisins í málinu né frekari umjöllunar af hans hálfu.