Skipulags- og byggingarmál.

(Mál nr. 11280/2021)

Kvartað var yfir stjórnsýslu Garðabæjar. Einkum því að byggingarfulltrúi sveitarfélagsins hefði ekki starfað í samræmi við lög og gerðar margvíslegar athugasemdir við athafnir og athafnaleysi hans. 

Af kvörtuninni varð ráðið að hún laut að hluta til að athöfnum og athafnaleysi starfsmanna Garðabæjar sem féllu utan þess ársfrests sem áskilinn er samkvæmt lögum til að bera fram kvörtun við umboðsmann. Einnig bar hún ekki með sér að ýmsar ákvarðanir sveitarfélagsins, sem hefði verið hægt að kæra til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, hefðu verið kærðar þangað. Hvað þessa þætti snerti voru því ekki uppfyllt skilyrði til að umboðsmaður fjallaði um þá. Aftur á móti vakti hann athygli á að benda mætti Húsnæðis- og mannvirkjastofnun á þær afgreiðslur byggingarfulltrúa sem viðkomandi teldi hafa farið í bága við lög. Enn fremur að leita til dómstóla ef viðkomandi teldi sig hafa orðið fyrir tjóni sökum ólögmætra athafna eða athafnaleysis starfsmanna Garðabæjar.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 30. september 2021, sem hljóðar svo:

  

  

Vísað er til kvörtunar yðar 1. september sl. yfir stjórnsýslu Garða­bæjar. Kvörtunin byggist einkum á því að byggingarfulltrúi sveitar­félagsins hafi ekki starfað í samræmi við lög og eru gerðar marg­vís­legar athugasemdir við athafnir og athafnaleysi hans í tengslum við framkvæmdir á húsinu [...].

Í tilefni af athugasemdum yðar er rétt að láta þess getið að samkvæmt lögum nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er hlutverk umboðs­manns einkum að hafa í umboði Alþingis eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga, sbr. 2. gr. laganna. Af 6. gr. þeirra leiðir að til þess að kvörtun verði tekin til meðferðar verður að bera hana fram innan árs frá því er stjórnsýslugerningur sá, er um ræðir, var til lykta leiddur og megi skjóta máli til æðra stjórnvalds fjallar umboðs­maður að jafnaði ekki um það nema úrskurður æðra stjórnvaldsins liggi fyrir.

Af kvörtun yðar verður ráðið að hún varði að nokkru marki athafnir og athafnaleysi starfsmanna Garðabæjar sem eru utan ársfrestsins. Enn fremur ber kvörtunin ekki með sér að ýmsar ákvarðanir sveitarfélagsins, sem hefði verið hægt að kæra til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála á grundvelli skipulagslaga nr. 123/2010 og laga nr. 160/2010, um mannvirki, hafi verið kærðar til nefndarinnar. Af þessum sökum eru ekki uppfyllt skilyrði til að kvörtun yðar verði tekin til meðferðar að því marki sem hún varðar ákvarðanir sveitar­félagsins sem eru utan téðs ársfrests eða ákvarðanir sem hefði verið unnt að kæra til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála án þess að það hafi verið gert.

Af kvörtuninni verður ráðið að ósætti yðar beinist ekki aðeins að einstökum ákvörðunum sveitarfélagsins, heldur snúi það einnig heild­stætt að stjórnsýslu þess í tengslum við áðurnefndar byggingarframkvæmdir. Í ljósi þess sem áður segir, um skilyrði fyrir því að kvörtun verði tekin til meðferðar, og þess að athugasemdir yðar varða einkum störf byggingarfulltrúa sveitarfélagsins skal þess getið að samkvæmt 18. gr. laga nr. 160/2010 hefur Húsnæðis- og mann­virkja­stofnun hlutverki að gegna við eftirlit byggingarfulltrúa. Þar segir m.a. að stofnunin geti tekið til athugunar að eigin frumkvæði eða sam­kvæmt ábendingu hvort afgreiðsla byggingarfulltrúa hafi farið í bága við lög. Þótt ég telji ekki tilefni til að taka kvörtun yðar til nánari athugunar tel ég rétt að vekja athygli yðar á að þér getið bent Húsnæðis- og mannvirkjastofnun á þær afgreiðslur byggingarfulltrúa sem þér teljið að hafi farið í bága við lög.

Þá skal vakin athygli á því að ef þér teljið yður hafa orðið fyrir tjóni sökum ólögmætra athafna eða athafnaleysis starfsmanna Garðabæjar kunnið þér að eiga rétt á skaðabótum frá sveitarfélaginu á grundvelli almennra reglna eða sérstakrar bótareglu 51. gr. skipulagslaga. Það fellur hins vegar að jafnaði ekki að hlutverki umboðsmanns Alþingis að leysa úr ágreiningi um bótaskyldu. Byggist það m.a. á að slíkur ágreiningur er að jafnaði því marki brenndur að sönnunarfærslu er þörf til að leysa úr honum. Hefur verið talið að eðlilegra sé að dómstólar leysi úr réttarágreiningi um skaðabótaskyldu hins opinbera, sbr. c-lið 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.

Með vísan til þess sem er rakið að framan lýk ég athugun minni á kvörtun yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.