Tafir hjá stjórnvaldi á afgreiðslu máls. Aðgangur að gögnum og upplýsingum.

(Mál nr. 11290/2021)

Kvartað var yfir töfum á afgreiðslu Borgarbyggðar á beiðni um upplýsingar og gögn.

Kæra til úrskurðarnefndar um upplýsingamál var á meðal gagna sem fylgdu kvörtuninni og málið, að því best varð séð, til umfjöllunar þar. Ekki var því grundvöllur til að umboðsmaður fjallaði um það að svo stöddu.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 30. september 2021, sem hljóðar svo:

  

  

Vísað er til kvörtunar yðar f.h. A ehf., dags. 5. september sl., yfir töfum á afgreiðslu sveitarfélagsins Borgarbyggðar á beiðni yðar um upplýsingar og gögn í tengslum við ákvörðun byggingarfulltrúa og slökkvi­liðs Borgarbyggðar um að loka húsnæðinu að [...] á grundvelli laga nr. 160/2010 um mannvirki og 75/2000 um brunavarnir. Samkvæmt gögnum málsins er A ehf. á meðal leigjenda húsnæðisins.

Í 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis er kveðið á um að ekki sé unnt að kvarta til umboðsmanns, ef skjóta má máli til æðra stjórnvalds og það hefur ekki fellt úrskurð sinn í málinu. Byggist þetta ákvæði á því sjónarmiði að stjórnvöld skuli fá tækifæri til að leiðrétta ákvarðanir, sem hugsanlega eru rangar, áður en leitað er til aðila utan stjórnkerfis þeirra með kvartanir. Af því leiðir m.a. að almennt verður mál ekki tekið til meðferðar á grundvelli kvörtunar á sama tíma og það er til meðferðar í stjórnsýslunni.

Meðal þeirra gagna er fylgdu kvörtun yðar er kæra til úrskurðar­nefndar um upplýsingamál, dags. 5. júlí sl. Í því bréfi eru beiðnir yðar um aðgang að gögnum frá Borgarbyggð raktar og farið fram á að nefndin taki afstöðu til hvort þær heyri undir valdsvið nefndarinnar. Ég fæ því ekki betur séð en að málið sé til umfjöllunar hjá úrskurðarnefnd um upp­lýsingamál. Í ljósi áðurrakinna sjónarmiða sem búa að baki þeirri reglu að leiðir innan stjórnsýslunnar verði að vera fullnýttar áður en leitað er til umboðsmanns Alþingis með kvörtun tel ég mér því ekki unnt að taka mál yðar til athugunar að svo stöddu. Ég bendi yður hins vegar á að ef þér teljið yður enn rangindum beittan að fenginni úrlausn úrskurðarnefndar um upplýsingamál geti þér leitað til mín að nýju. Ef óhóflegur dráttur verður á afgreiðslu nefndarinnar á kæru yðar getið þér jafnframt leitað til mín með sérstaka kvörtun þar að lútandi.

Með vísan  til þess sem að framan hefur verið rakið lýk ég athugun minni á kvörtun yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðs­mann Alþingis.