Tafir hjá stjórnvaldi á afgreiðslu máls.

(Mál nr. 11305/2021)

Kvartað var yfir að Kópavogsbær hefði ekki brugðist með fullnægjandi hætti við erindum sem vörðuðu lækkun á gatnagerðargjöldum. 

Með hliðsjón af málavöxtum var ljóst að sveitarfélagið hafði brugðist við erindum og veitt upplýsingar um forsendur tiltekinnar ákvörðunar og lét umboðsmaður málinu því lokið.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 30. september 2021, sem hljóðar svo:

   

  

Vísað er til erindis yðar fyrir hönd A, dags. 12 september sl., þar sem þér kvartið yfir að Kópavogsbær hafi ekki upplýst með fullnægjandi hætti hverjum hafi verið ætlað að njóta þeirrar lækkunar á gatnagerðagjöldum fyrir [...], sem bæjarráð sam­þykkti 8. desember 2011. Nánar tiltekið segir í kvörtuninni að Kópa­vogsbær hafi ekki, þrátt fyrir margítrekaðar tilraunir fengist til að svara því hvort bærinn veitti afsláttinn til hagsbóta fyrir aldraða íbúða­kaupendur eða til hagsbóta fyrir X ehf., sem byggðu húsið og seldu íbúðir þess til félagsmanna í Samtökum aldraðra.

Í kvörtuninni og fylgiskjölum hennar kemur fram að með bréfi til Kópavogsbæjar, dags. 21. janúar 2020, óskuðuð þér upplýsinga um með hvaða hætti tæplega 38 milljón kr. lækkun gatnagerðargjalda fyrir [...] var veitt, sbr. erindi frá Samtökum aldraðra, dags. 28. nóvember 2011. Í bréfinu var spurt hvort lækkun gjaldanna hefði verið í „formi endurgreiðslu og þá hver [hefði fengið] hana eða hvort hún [hefði verið] veitt með því að lækka gjöld og þá hvaða gjöld og á hvern“. Í svari Kópavogsbæjar til yðar, sbr. bréf dags. 31. janúar 2020, er forsaga málsins rakin og þar segir enn fremur:

„Við samþykkt teikninga 2. febrúar 2011 voru lögð á gatnagerðargjöld og tengd gjöld á [X] ehf. kr. 22.287.187.- reikningur dags. 3. febrúar 2012. Jafnframt voru endurreiknuð yfirtökugjöld vegna fjölgunar íbúða úr 18 í 28 íbúðir og leiðrétt álagning og vegna samþykkt[ar] bæjarráðs um nýja gjaldskrá, alls kr. 35.146.762.- skv. reikningi dags. 20. febrúar 2012. Þessi hluti gjaldanna hefði orðið 37.922.360.- + 35.146.762.- = 73069.122.- hefði ekki komið til ný gjaldskrá sbr. erindi Samtaka aldraðra.“  

Með tölvubréfi til bæjarstjóra 10. mars sl. fóruð þér fram á að fá svarað spurningu um hvort það væri réttur skilningur „að lækkun Kópa­vogsbæjar á gatnagerðargjöldum árið 2011 hafi verið til hagsbóta fyrir X ehf. en aldrei átt að skila sér í lægra söluverði til aldraðra kaupenda íbúðanna“. Þá liggur fyrir að þér fenguð fund með bæjarstjóra 12. maí sl. þar sem ákveðið var að lögfræðingur bæjarins myndi svara hinu ítrekaða erindi yðar og að 18. maí hafi lögfræðingurinn sent yður afrit þeirra gagna er lögð voru fyrir bæjarráð árið 2011 vegna erindis Samtaka aldraðra.  Vegna athugasemdar yðar í tölvubréfi 27. maí sl. um að spurningu yðar hefði ekki verið svarað kvað lögfræðingurinn í svarpósti daginn eftir að gögnin töluðu sínu máli, þ.e. sýndu á hvaða forsendum umrædd stjórnvaldsákvörðun var tekin.

Með hliðsjón af framanröktu er ljóst að Kópavogsbær hefur brugðist við erindum yðar og veitt upplýsingar um forsendur þeirrar ákvörðunar að lækka á sínum tíma gatnagerðargjöld vegna [...] frá því sem annars hefði orðið. Enn fremur er ljóst, sbr. framangreinda til­vitnun í bréf til yðar frá 31. janúar 2020, að fjárhæðin sem viðtakanda reikningsins frá 20. febrúar 2012 var gert að greiða var þeim mun lægri sem umræddri lækkun nam. Ég bendi á að ef þér teljið vafa leika á hver var viðtakandi og/eða greiðandi þessa reiknings getið þér freistað þess að leggja fram sérstaka fyrirspurn til Kópavogsbæjar þar að lútandi. Að framangreindu virtu og eftir að hafa yfirfarið gögn málsins tel ég ekki forsendur til þess að gera athugasemdir við upplýsingagjöf Kópavogsbæjar í máli þessu.

Með vísan til alls þess sem að framan greinir og 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, læt ég málinu hér með lokið.