Aðgangur að gögnum og upplýsingum. Aðgangur að sjúkraskrá.

(Mál nr. 11317/2021)

Kvartað var yfir því að þrátt fyrir ítrekanir hefði einkarekin heilsugæsla ekki svarað erindi varðandi aðgang að sjúkragögnum.

Þar sem umrædd heilsugæsla er einkarekin fellur starfsemi hennar ekki undir starfssvið umboðsmanns og því ekki lagaskilyrði fyrir því að hann gæti tekið erindið til meðferðar. Var viðkomandi bent á að freista mætti þess leita til landlæknis með erindið.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 4. október 2021, sem hljóðar svo:

  

  

Vísað er til kvörtunar yðar, f.h. A, dags. 16. september sl., þar sem þér kvartið yfir því að erindi er varðar aðgang A að sjúkragögnum hennar hjá [heilsugæslunni] X, dags. 12. febrúar sl., hafi ekki ekki verið svarað. Í kvörtuninni kemur jafnframt fram að erindið hafi verið ítrekað.

Samkvæmt 3. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, tekur starfssvið umboðsmanns Alþingis til stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga auk starfsemi einkaaðila að því leyti að þeim hefur að lögum verið fengið opinbert vald til að taka ákvarðanir um rétt eða skyldu manna í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Önnur starfsemi einkaaðila fellur hins vegar ekki undir starfssvið umboðsmanns Alþingis eins og það er markað í lögum nr. 85/1997.

Heilsugæslan X starfar samkvæmt samningi Y ehf. við Sjúkratryggingar Íslands. Heilsugæslan X er þannig í hópi nokkurra stöðva á höfuðborgarsvæðinu sem eru einkareknar. Því fellur starfsemi hennar ekki undir starfssvið mitt samkvæmt lögum nr. 85/1997 og brestur því lagaskilyrði til þess að ég geti tekið erindi yðar til meðferðar. 

Ég bendi yður aftur á móti á að samkvæmt 3. mgr. 14. gr. laga um sjúkraskrár nr. 55/2009 getur sjúklingur eða umboðsmaður hans borið synjun um aðgang að sjúkraskrá undir embætti landlæknis. A, eða þér fyrir hennar hönd, getur því freistað þess að leita til landlæknis með erindi varðandi það að ekki hafi verið orðið við beiðninni.      

Með vísan til framangreinds og 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997 er umfjöllun um erindi yðar lokið.